2010–2019
Ávöxtur
Aðalráðstefna október 2019


Ávöxtur

Beinið augliti og hjarta að frelsaranum, Jesú Kristi og hinni eilífu gleði sem hann einn getur veitt.

Ég veit hvað þið eruð að hugsa! Bara einn ræðumaður í viðbót og við munum heyra frá Nelson forseta. Í þeirri von að halda athygli ykkar í nokkrar mínútur, meðan við bíðum eftir okkar ástkæra spámanni, hef ég valið afar áhugavert umræðuefni, sem er ávöxtur.

Ljósmynd
Ávöxtur

Með lit, áferð og sætleika berja, banana, vatnsmelóna og mangó, eða framandi ávaxtar, eins og kivano eða granateplis, hefur ávöxtur löngum verið dýrindis góðgæti.

Er frelsarinn þjónaði á jörðu, líkti hann góðum ávexti við það sem hefur eilíft gildi. Hann sagði: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“1 „Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“2 Hann hvetur okkur til að safna „ávexti til eilífs lífs.“3

Í skýrum draumi, sem okkur er vel kunnugur í Mormónsbók, sér spámaðurinn Lehí sig sjálfan í „dimmri og drungalegri [eyðimörk].“ Í honum er óhreint vatnsfljót, niðdimm þoka, einkennilegur vegur og forboðnir stígar, sem og járnstöng4 sem var meðfram þröngum og kröppum vegi sem lá að fallegu tré með „[ávexti sem færir] hamingju.“ Lehí sagði um drauminn: „Ég … neytti af ávexti þess. …Hann var … sætari en allt annað, sem ég hafði nokkru sinni … bragðað. … [Og] sál mín varð gagntekin ákaflega miklum fögnuði.“ Þessi ávöxtur var „eftirsóknarverðari en allir aðrir ávextir.“5

Ljósmynd
Tré lífsins með sínum girnilega ávexti

Merking trésins og ávaxtarins

Hvað táknar þetta tré með sínum dýrmæta ávexti? Það táknar „elsku Guðs“6 og gerir hina dásamlegu endurlausnaráætlun himnesks föður ljósa. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“7

Þessi dýrmæti ávöxtur táknar undursamlegar blessanir hinnar óviðjafnanlegu friðþægingar frelsarans. Við munum ekki aðeins lifa aftur eftir jarðlíf okkar, heldur getum við, fyrir trú á Jesú Krist, iðrun og með því að við höldum boðorðin, hlotið fyrirgefningu synda okkar og dag einn staðið hrein frammi fyrir föður okkar og syni hans.

Að meðtaka af ávexti trésins, táknar líka að við tökum á móti helgiathöfnum og sáttmálum hins endurreista fagnaðarerindis – látum skírast, tökum á móti gjöf heilags anda og förum í hús Drottins til að hljóta kraft frá upphæðum. Fyrir náð Jesú Krists og með því að heiðra sáttmála okkar, gefst okkur hið ómælanlega loforð um að lifa með réttlátri fjölskyldu okkar alla eilífð.8

Það er því engin furða að engillinn hafi sagt ávöxtinn „[færa] sálinni mesta gleði.“9 Hann gerir það sannlega!

Áskorun þess að vera sannur

Líkt og við höfum öll lært, þá er ekki auðvelt að vera sönn og trúföst Drottni, Jesú Kristi, jafnvel eftir að hafa neytt af dýrmætum ávexti hins endurreista fagnaðarerindisins. Eins og hefur verið síendurtekið á þessari ráðstefnu þá munum við áfram takast á við truflanir, blekkingar, ringulreið, uppnám, tælingar og freistingar, sem fjarlægja okkur frelsaranum og gleðinni og fegurð þess sem við höfum upplifað.

Sökum þessa mótlætis, þá felst líka aðvörun í draumi Lehís! Hinu megin fljótsins er rúmmikil bygging með fólki á öllum aldri, sem af háðung og hæðni bendir fingrum á réttláta fylgjendur Jesú Krists.

Fólkið í byggingunni hlær og hæðist að þeim sem halda boðorðin, í þeim ásetningi að gera lítið úr trú þeirra á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Sökum efasemda og fyrirlitningar sem af miklu afli er beint að hinum trúuðu, munu sumir taka að blygðast sín fyrir fagnaðarerindið sem þeir eitt sinn tóku á móti. Þeir láta tælast af falsri freistingu heimsins, hverfa frá trénu og ávextinum og, með orðum Drottins,: „[Lenda] á forboðnum vegum og [glatast].“10

Í heimi okkar í dag, vinna byggingasérfræðingar andstæðingsins yfirvinnu við að bæta hratt við hina stóru og rúmmiklu byggingu. Viðbyggingin er nú komin yfir fljótið í þeim ásetningi að komast inn á heimili okkar og hæðandi spottarar blása dag og nótt í alnetsgjallhorn sín.11

Nelson forseti útskýrði: „Óvinurinn er að margfalda afl sitt við að sundra vitnisburðum og hefta verk Drottins.“12 Minnumst orða Lehís: „Við gáfum þeim engan gaum.“13

Þótt við þurfum ekki að óttast, þá ber okkur að vera vökul. Stundum getur hið smávægilega kollvarpað andlegu jafnvægi okkar. Leyfið ekki að spurningar ykkar, smán annarra, vantrúaðir vinir eða óheppileg mistök og vonbrigði ræni ykkur þeim ljúfu, hreinu og sálarseðjandi blessunum sem koma af hinum dýrmæta ávexti trésins. Beinið augliti og hjarta að frelsaranum, Jesú Kristi og hinni eilífu gleði sem hann einn getur veitt.

Trú Jasons Hall

Í júní fórum ég og eiginkona mín, Kathy, í jarðarför Jasons Hall. Hann var 48 ára þegar hann lést og þjónaði sem öldungasveitarforseti.

Hér eru orð Jasons um atburð sem breytti lífi hans:

„[þegar ég var 15 ára], varð ég fyrir slysi við köfun. … Ég [hálsbrotnaði] og lamaðist neðan við bringu. Ég lamaðist algjörlega í fótum og missti að hluta mátt í handleggjum. Ég gat hvorki gengið, staðið … eða borðað hjálparlaust. Ég gat vart andað eða talað.“14

,Kæri faðir [á himnum],‘ bað ég, ,ef ég aðeins gæti notað hendurnar, gæti ég spjarað mig. Ég sárbæni þig, faðir. …

… Hafðu fætur mína, faðir, en ég [bið þess] að ég fái notað hendurnar.‘“15

Jason gat aldrei aftur notað hendur sínar. Fáið þið heyrt raddirnar frá hinni rúmmiklu byggingu? „Jason Hall, Guð heyrir ekki bænir þínar! Hvernig gæti Guð látið þig vera svona, væri hann kærleiksríkur Guð? Afhverju að trú á Krist? Jason Hall heyrði raddir þeirra, en gaf þeim engan gaum. Þess í stað nærði hann sig á ávexti trésins. Trú hans á Jesú Krist varð óhagganleg. Hann útskrifaðist úr háskóla og giftist Kolette Coleman í musterinu og sagði hana vera ást lífs síns.16 Eftir 16 ára hjónaband, gerðist annað kraftaverk, hinn dýrmæti sonur þeirra, Coleman, fæddist.

Ljósmynd
Jason og Kolette Hall
Ljósmynd
Hall-fjölskyldan

Hvernig efldu þau trú sína? Kolette útskýrði: „Við treystum áætlun Guðs. Það vakti okkur von. Við vissum að Jason yrði [einhvern tíma] aftur heill. … Við vissum að Guð sá okkur fyrir frelsara, sem, með friðþægingarfórn sinni, gerir okkur mögulegt að sækja fram, er við viljum gefast upp.“17

Ljósmynd
Coleman Hall

Hinn tíu ára gamli Coleman talaði við útför Jasons og sagði pabba sinn hafa kennt sér „að himneskur faðir [hefði] áætlun fyrir okkur, jarðlífið yrði meiriháttar og við gætum lifað saman sem fjölskyldur. … Við … yrðum hins vegar að takast á við erfiða hluti og okkur yrði á.“

Coleman sagði ennfremur: „Himneskur faðir sendi son sinn, Jesú, til jarðar. Hlutverk hans var að vera fullkominn. Að lækna fólk. Að elska fólk. Síðan að þjást fyrir allan okkar sársauka, sorgir og syndir. Hann dæi síðan í okkar þágu.“ Coleman sagði ennfremur: „Af því að Jesús gerði það, þá veit hann hvernig mér líður einmitt nú.

„Þremur dögum eftir að Jesús dó, lifnaði hann … aftur við með fullkominn líkama. Þetta er mér mikilvægt, því ég veit að … líkami [pabba] míns verður fullkominn og að við verðum saman sem fjölskylda.“

Ljósmynd
Hall-fjölskyldan

Coleman sagði að lokum: „Öll kvöld, frá því að ég var smábarn, sagði pabbi við mig: ,Pabbi elskar þig, himneskur faðir elskar þig og þú ert góður drengur.‘“18

Gleðin kemur fyrir atbeina Krists

Russell M. Nelson forseti útskýrir afhverju Hall-fjölskyldan býr að gleði og von. Hann sagði:

„Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með aðstæður okkar í lífinu, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.

Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. Hann er uppspretta allrar gleði. …

Ef við horfum til heimsins, … munum við aldrei finna gleði. … [Gleði] er gjöfin sem hlýst af því að reyna af einlægni að lifa réttlátlega, eins og Jesús Kristur kenndi.“19

Loforð er þið snúið aftur

Ef þið hafið verið án ávaxtar trésins í nokkurn tíma, vitið þá að armar frelsarans eru ykkur ætíð útréttir. Hann býður okkur ástúðlega að: „Iðrast og koma til [sín].“20 Ávöxtur hans er ríkulegur og alltaf á réttri árstíð. Ekki er mögulegt að kaupa hann með peningum og engum er neitað sem einlæglega þráir hann.21

Ef þið þráið að snúa aftur til trésins og neyta aftur af ávextinum, byrjið þá á því að biðja til himnesks föður. Trúið á Jesú Krist og kraft friðþægingarfórnar hans. Ég lofa, að ef þið beinið „öllum hugsunum“22 til frelsarans, mun ávöxtur trésins verða ykkar, ljúffengur að bragða, unun sál ykkar, „stærst allra gjafa Guðs.“23

Ljósmynd
Öldungur Andersen með portúgölskum heilögum við vígslu musterisins í Lissabon

Fyrir þremur vikum í dag, varð ég vitni að hinni ríkulegu gleði ávaxtar frelsarans, er ég og Kathy vorum við vígslu Lissabon-musterisins, í Portúgal. Sannleikur hins endurreista fagnaðarerindis varð Portúgal mögulegur árið 1975, þegar trúfrelsi varð þar í landi. Margir göfugir heilagir, sem fyrst neyttu af ávextinum þegar engir söfnuðir voru, engar kapellur og ekkert musteri var nær en í 1.600 kílómetra fjarlægð, fögnuðu með okkur yfir því að hinn dýrmæti ávöxtur trésins væri nú í húsi Drottins í Lissabon, Portúgal. Hve ég heiðra og vegsama þessa síðari daga heilögu, sem hafa helgað hjarta sitt frelsaranum.

Frelsarinn sagði: „Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.“24

Nelson forseti talaði nú í morgun til meðlima kirkjunnar um allan heim og sagði: „Kæru bræður og systur, þið eruð lifandi fyrirmyndir um þann ávöxt sem verður til af því að fylgja kenningum Jesú Krists.“ Hann sagði síðan: „Ég þakka ykkur! Ég elska ykkur!“25

Við elskum þig, Nelson forseti.

Ég er sjónarvottur að þeim opinberunarkrafti sem hvílir yfir okkar ástkæra forseta. Hann er spámaður Guðs. Russell M. Nelson forseti býður okkur, og allri fjölskyldu Guðs, líkt og Lehí gerði til forna, að koma og neyta af ávexti trésins. Megum við hafa auðmýkt og styrk til að fylgja þeirri leiðsögn hans.

Af auðmýkt ber ég vitni um að Jesús Kristur er sonur Guðs. Elska hans, máttur hans og náð hans glæðir allt varanlegu gildi. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matteus 7:16.

  2. Matteus 7:17.

  3. Jóhannes 4:36.

  4. Snemma í janúar 2007, spurði ég öldung David A. Bednar, er hann var að undirbúa sig að flytja ræðu við trúarsamkomu hjá Brigham Young háskólann sem meðlimur hinna Sjötiu, sem flytja átti 4. mars, 2007, hvað hann væri að undirbúa að fjalla um í ræðu sem hann átti að flytja þann 4. febrúar 2007. Það kom mér á óvart þegar hann sagði ræðu sína vera um að halda fast í járnstöngina. Þetta var nákvæmlega sami titill sem ég hafði valið fyrir mína ræðu. Eftir að bera saman ræður okkar, sáum við að nálgun okkar var ólík. Ræða hans, sem hét „Uppspretta lifandi vatns,“ lagði áherslu á járnstöngina, eða orð Guðs og fól í sér nám í ritningunum. Í ræðu sinni spurði hann: „Lesum við daglega, lærum og leitum í ritningunum á þann máta að það geri okkur kleift að halda fast í járnstöngina?“ (speeches.byu.edu).

    Svo viku eftir spjall mitt við öldung Bednar, flutti Boyd K. Packer forseti, ræðu við trúarsamkomu í BYU sem bar titilinn „Lehi´s Dream and You.“ Packer forseti lagði áherslu á járnstöngina sem persónulega opinberun og innblástur sem kemur til okkar í gegnum heilagan anda. Hann sagði: „Ef þið haldið í járnstöngina getið þið skynjað leið ykkar áfram með gjöf heilags anda. … Grípið í járnstöngina og ekki sleppa. Í gegnum kraft heilags anda getið þið skynjað ykkur áleiðis í gegnum lífið“ (16. jan, 2007, speeches.byu.edu).

    Umræðuefni mitt, „Haldið ykkur fast að orðum spámannanna, í mars 2007, hafði að gera með að járnstöngin væri fulltrúi orða hinna lifandi spámanna. (4. mars, 2007, speeches.byu.edu).

    Tengingin á milli þessara þriggja ræða var engin tilviljun. Hönd Drottins var að verki er þrjár ræður, undirbúnar fyrir sama markhóp, báru kennsl á þrjá mismunandi fleti járnstangarinnar, eða orð Guðs: (1) ritningarnar, eða orð spámanna til forna; (2) orð lifandi spámanna; og (3) kraft heilags anda. Þetta var mikilvæg lærdómsreynsla fyrir mig.

  5. Sjá 1. Nefí 8:4–12.

  6. 1. Nefí 11:25.

  7. Jóh 3:16.

  8. Sjá einnig David A. Bednar, „Lehi´s Dream: Holding Fast to the Rod,“ Liahona, október 2011, 32-37

  9. 1. Nefí 11:23.

  10. 1. Nefí 8:28.

  11. Sjá Boyd K. Packer, “Lehi’s Dream and You” (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 16. jan. 2007), speeches.byu.edu.

  12. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,” aðalráðstefna, apríl 2019.

  13. 1. Nefí 8:33.

  14. Stephen Jason Hall, “The Gift of Home,” New Era, des. 1994, 12.

  15. Stephen Jason Hall, “Helping Hands,” New Era, okt. 1995, 46, 47.

  16. Einkabréf til öldungs Andersen frá Kolette Hall.

  17. Einkabréf til öldungs Andersen frá Kolette Hall.

  18. Minningarorð við útför eftir Coleman Hall, miðlað öldungi Andersen af Kolette Hall.

  19. Russell M. Nelson, “Gleði og andleg þrautsegja,” aðalráðstefna, okt. 2016.

  20. 3. Nefí 21:6.

  21. Sjá 2. Nefí 26:25, 33.

  22. Kenning og sáttmálar 6:36.

  23. 1. Nefí 15:36.

  24. Jóhannes 15:5.

  25. Russell M. Nelson, „Annað æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, október 2019.