2010–2019
Þekkja, elska og vaxa
Aðalráðstefna október 2019


Þekkja, elska og vaxa

Megum við öll skilja hlutverk okkar í þessu mikla þjónustuverki svo að við getum orðið líkari honum.

Árið 2016 kom Laufskálakórinn á Musteristorginu til Hollands og Belgíu. Þar sem ég var þátttakandi í þeim spennandi viðburði, átti ég kost á að njóta frammistöðu þeirra tvisvar.

Ljósmynd
Gongleikari

Meðan á tónleikum þeirra stóð hugsaði ég um það hve gífurlegt verkefni það væri að flytja kór af þessari stærð. Mér varð hugsað til hins stóra gong-ásláttarhljóðfæris sem erfitt væri og líklega kostnaðarsamt að flytja, í samanburði við fiðluna, trompetið eða önnur hljóðfæri sem auðvelt er að bera undir handleggnum. Þegar svo litið er til raunverulegrar þátttöku þessa hljóðfæris, þá er það aðeins slegið nokkrum sinnum, en önnur minni hljóðfæri áttu mun meiri þátt í tónleikunum. Ég hugsaði að án gong-ásláttarhljóðfærisins yrði tónlistarflutningurinn ekki sá sami og því þyrfti að leggja á sig að flytja þetta stóra ásláttarhljóðfæri alla leið yfir hafið.

Ljósmynd
Gongleikari með hljómsveit

Stundum gæti okkur fundist við í sömu stöðu og gong-ásláttarhljóðfærið, bara nægilega góð til að spila lítinn hluta tónverksins. Ég segi ykkur þó að hljóðið ykkar skiptir öllu máli.

Við höfum þörf fyrir öll hljóðfærin. Sum okkar eiga auðvelt með að læra í skóla og önnur búa yfir hæfileikum í listum. Sumir hanna og byggja hluti eða hjúkra, vernda eða kenna öðrum. Það er þörf fyrir alla við að gera heiminn litríkari og innihaldsríkari.

Ég vil tileinka þeim þennan boðskap sem telja sig ekkert hafa fram að færa eða telja sig engu skipta eða engum vera til gagns, sem og þeim sem finnst þeir vera á hátindi ferils síns og loks öllum þar á milli.

Hvar sem þið eruð á lífsins vegi, gætu sumir verið svo byrðum hlaðnir að þeir jafnvel sjá sig sjálfa ekki á þeim vegi. Ég ætla að hvetja ykkur til að stíga út úr myrkrinu í ljósið. Ljós fagnaðarerindisins mun verma og græða og hjálpa ykkur að skilja hver þið í raun eruð og hver lífsins tilgangur ykkar er.

Sum okkar hafa verið villuráfandi á forboðnum vegum og reynt að finna hamingjuna þar.

Okkur er boðið, af kærleiksríkum himneskum föður, að fara veg lærisveinsins og snúa aftur til hans. Hann kennir okkur með fullkominni elsku.1

Hver er leiðin? Leiðin er að hjálpa hvert öðru að skilja hver við erum með því að þjóna hvert öðru.

Mér finnst þjónusta vera iðkun guðlegrar elsku.2 Á þann hátt búum við til umhverfi þar sem bæði gefandinn og þiggjandinn öðlast þrá til að iðrast. Með öðrum orðum, við breytum um stefnu og komumst nær og líkjumst meira frelsara okkar, Jesú Kristi.

Engin þörf er t.d. á því að segja maka okkar eða börnum sífellt hvernig þau geti bætt sig; þau vita það nú þegar. Það er með því að skapa þetta umhverfi elsku að þeim er gert kleift að gera nauðsynlegar breytingar í lífi sínu og verða betra fólk.

Á þennan hátt verður iðrun að daglegu hreinsunarferli, sem gæti falið í sér að biðjast afsökunar á slæmri hegðun. Ég man eftir og upplifi enn aðstæður þar sem ég hef verið of fljótur að dæma eða of seinn til að hlusta. Í lok dagsins hef ég síðan fundið kærleiksríka leiðsögn frá himni í persónulegri bæn minni um að iðrast og verða betri. Hið kærleiksríka umhverfi sem foreldrar mínir, bróðir og systur sköpuðu fyrst og síðar eiginkona mín, börn og vinir, hefur hjálpað mér að verða betri einstaklingur.

Við vitum öll í hverju við getum gert betur. Það er engin þörf á að áminna hvert annað ítrekað, en það er þörf á að elska og þjóna hvert öðru og stuðla þannig að umhverfi sem hvetur til breytinga.

Í þessu sama umhverfi erum við að læra hver við raunverulega erum og hvert hlutverk okkar verður í þessum síðasta kapítula heimssögunnar fyrir síðari komu frelsarans.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hlutverki ykkar sjálfra, þá vil ég bjóða að þið finnið ykkur stað þar sem þið getið verið í einrúmi og beðið himneskan föður um að gera hlutverk ykkar ljóst. Svarið mun líklega koma smám saman og þá með skýrari hætti þegar við erum orðin fótvissari á vegi sáttmála og þjónustu.

Við upplifum að nokkru sömu erfiðleika og Joseph Smith, er hann var „í miðri orrahríð orða og deilna.“ Þegar við lesum frásögn hans, sjáum við að hann sagði oft við sig sjálfan: „Hvað á ég að gera? Hver af öllum þessum flokkum hefur rétt fyrir sér, eða skjátlast þeim öllum? Hafi einhver þeirra rétt fyrir sér, hver er það þá og hvernig get ég vitað það?“3

Með þá vitneskju sem hann fann í bréfi Jakobs, sem sagði að „ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast,“4 einsetti Joseph sér „um síðir að ,biðja Guð.‘“5

Við lesum ennfremur að „Þetta var í fyrsta sinn á ævi [hans], sem [hann] hafði gert slíka tilraun, því að þrátt fyrir allan kvíða [hans] hafði [hann] enn ekki gert tilraun til að biðjast fyrir upphátt.“6

Þannig getur það líka verið með okkur, er við ávörpum skapara okkar í fyrsta sinn, eins og aldrei áður.

Vegna tilraunar Josephs, þá birtust himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur og ávörpuðu hann með nafni og fyrir vikið höfum við mun skýrari skilning á því hver við erum og að við skiptum í raun máli.

Við lesum ennfremur að á viðkvæmum táningsárum Josephs hafi hann verið „ofsóttur af þeim, sem hefðu átt að vera vinir [hans] og koma vingjarnlega fram við [hann].“7 Við gætum því líka vænst einhverrar andstöðu, því við lifum lífi lærisveinsins.

Ef ykkur finnist þið ekki vera fær um að eiga aðild að hljómsveitinni og vegur iðrunar virðist torveldur, vitið þá að ef við höldum okkur við efnið, þá mun byrðinni létt af herðum okkar og það verður aftur ljós. Himneskur faðir mun aldrei skilja okkur ein eftir þegar við leitum til hans. Við getum fallið og staðið á fætur og hann mun dusta óhreinindin af hnjám okkar.

Sum okkar eru sár, en Drottinn hefur nægilega stóran plástur til að setja yfir öll okkar sár.

Það er þessi elska, þessi fullkomna elska, sem við stundum köllum kærleika eða „hina hreinu ást Krists,“8 sem nauðsynleg er á heimilum okkar, þar sem foreldrar þjóna börnum sínum og börn þjóna foreldrum sínum. Hjörtu munu breytast fyrir tilstilli þeirrar elsku og þrár vakna til að gera vilja hans.

Það er þessi elska sem er nauðsynleg í samskiptum okkar við hvert annað sem börn himnesks föður og meðlimir kirkju hans, er gerir okkur kleift að hafa öll hljóðfærin í hljómsveit okkar, svo við getum leikið dýrðlega með englakórum himins, er frelsarinn kemur aftur.

Það er þessi elska, þetta ljós sem þarf að skína og lýsa upp umhverfi okkar þegar við tökumst á við okkar daglega líf. Fólk mun veita ljósinu athygli og laðast að því. Það er þess konar trúboðsstarf sem mun laða aðra að til að „koma og sjá, koma og hjálpa, og koma og dvelja áfram.9 Þegar þið hafið meðtekið vitnisburð ykkar um þetta stórkostlega verk og hlutverk okkar í því, fögnum þá saman með ástkærum spámanni okkar, Joseph Smith, sem sagði: „Því að ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég hvorki gat neitað því né þorði að gera það.“10

Ég ber ykkur vitni um að ég veit hver ég er og ég veit hver þið eruð. Við erum öll börn himnesks föður, sem elskar okkur. Hann sendi okkur ekki hingað svo okkur mistækist, heldur til dýrðlegrar endurkomu til hans. Að við getum öll skilið þátt okkar í þessu mikla þjónustuverki, svo að við verðum líkari honum þegar frelsarinn kemur aftur, er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.