2010–2019
Upplifa gleði við að miðla fagnaðarerindinu
Aðalráðstefna október 2019


Upplifa gleði við að miðla fagnaðarerindinu

Við eigum ástkæran föður á himnum, sem bíður þess að við snúum okkur til hans svo hann geti blessað líf okkar og líf þeirra sem kringum okkur eru.

Einn uppáhalds barnasálmurinn minn hefst á þessum orðum:

Ég tilheyri Kirkju Jesú Krists þeim heilögu í trú.

Mig þekki ég,

og veit Guðs veg,

sem fylgi ég í traustri trú.

Og á frelsarann Jesú trúi ég.1

Þvílíkt einföld og falleg yfirlýsing þess sannleika sem við trúum!

Við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, vitum hver við erum. Við vitum að „Guð er faðir anda okkar. Við erum börn hans … hann elskar okkur. Við dvöldum … hjá [honum] á himnum áður en við fæddumst á jörðu.“

Við þekkjum áætlun Guðs. Við vorum þar með honum er hann kynnti hana. Tilgangur himnesks föður – „verk hans og dýrð – er sá einn að gera okkur öllum kleift að njóta allra blessana hans. Hann hefur séð okkur fyrir fullkominni áætlun til að ná fram tilgangi sínum. Við skildum og samþykktum þessa … sæluáætlun, endurlausnaráætlun og sáluhjálparáætlun … áður en við komum til jarðar.

„Jesús Kristur er þungamiðjan í áætlun Guðs. Jesús Kristur uppfyllti tilgang föður síns með friðþægingunni og gerði mögulegt fyrir okkur öll að njóta ódauðleika og eilífs lífs Satan, eða djöfullinn, er í andstöðu við áætlun Guðs“ og hefur verið svo frá upphafi.

„Sjálfræði, eða hæfileikinn til að velja, er ein stærsta gjöf Guðs til barna sinna. Við verðum að velja annaðhvort að fylgja Jesú Kristi eða Satan.“2

Þetta er einfaldur sannleikur sem við getum miðlað öðrum.

Mig langar að segja ykkur frá því þegar móðir mín miðlaði einföldum sannleika eins og þessum, með því einfaldlega að spjalla og bera kennsl á tækifæri.

Fyrir mörgum árum var móðir mín á ferð til Argentínu, til að heimsækja bróður minn. Móðir mín kunni í raun aldrei við að fljúga, þannig að hún bað einn af sonum mínum að veita sér blessun huggunar og verndar. Hann fann sig knúinn til að blessa ömmu sína með sérstakri leiðsögn frá heilögum anda, til að styrkja og snerta hjörtu margra sem höfðu löngun til að læra um fagnaðarerindið.

Ljósmynd
Pol-fjölskyldan

Á flugvellinum í Salt Lake City hittu móðir mín og bróðir sjö ára stúlku sem var að koma heim úr skíðaferðalagi með fjölskyldu sinni. Foreldrar hennar tóku eftir því hve lengi hún hafði verið á spjalli við móður mína og bróður og ákváðu að blanda sér í samtalið. Þau kynntu sig og dóttur sína sem Eduardo og Mariu Susönu og Giödu Pol. Það var eðlileg og hlý tenging við þessa fjölskyldu.

Báðar fjölskyldur hlökkuðu til þess að ferðast í sama flugi til Buenos Aires, Argentínu. Er leið á samtal þeirra gerði móðir mín sér grein fyrir að þau hefðu aldrei heyrt talað um hina endurreistu kirkju Jesú Krists.

Ein af fyrstu spurningum Susönu var: „Viltu segja mér frá þessu fallega safni með gylltu styttunni ofan á?“

Móðir mín útskýrði fyrir þeim að þessi fallega bygging væri ekki safn heldur musteri Drottins, þar sem við gerðum sáttmála við Guð, svo að við gætum dag einn snúið aftur til dvalar hjá honum. Susana viðurkenndi fyrir móður minni að fyrir ferð þeirra til Salt Lake borgar hefði hún beðið fyrir einhverju til að styrkja anda hennar.

Í fluginu gaf móðir mín henni einfaldan en sterkan vitnisburð sinn um fagnaðarerindið og hvatti Susönu til að finna trúboðana í heimabæ hennar. Susana spurði móður mína: „Hvernig mun ég finna þá?“

Móðir mín svaraði: „Þeir fara ekkert framhjá þér, þetta eru annað hvort tveir ungir menn í hvítum skyrtum með bindi eða tvær snyrtilega klæddar ungar konur og þau eru alltaf með nafnspjald þar sem á stendur nafn þeirra og einnig ‚Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.‘“

Fjölskyldurnar skiptust á símanúmerum og kvöddust á flugvellinum í Buenos Aires. Susana, sem hefur síðan orðið góður vinur minn, hefur oft sagt mér að henni hafi fundist svo sorglegt að kveðja móður mína á flugvellinum. Hún sagði: „Mamma þín geislaði. Ég get ekki útskýrt það en það var birta í kringum hana sem ég vildi ekki skilja við.“

Um leið og Susana kom í heimabæ sinn fóru hún og Giada dóttir hennar til móður Susönu, sem bjó skammt frá heimili þeirra, til að miðla henni þessari reynslu. Á leið sinni þangað sá Susana tvo unga menn gangandi niður götuna, klædda eins og móðir mín hafði lýst fyrir henni. Hún stoppaði bílinn á miðri götunni, steig út og spurði þessa tvo ungu menn: „Ekki vill svo til að þið séuð frá kirkju Jesú Krists?“

„Jú,“ sögðu þeir.

„Trúboðar?“ spurði hún.

Þeir svöruðu báðir: „Jú það erum við!“

Hún sagði þá við þá: „Komið inn í bílinn minn. þið eruð að koma heim með mér til að kenna mér.“

Ljósmynd
Pol-fjölskyldan

Tveimur mánuðum seinna skírðist Maria Susana. Dóttir hennar, Giada, skírðist einnig þegar hún varð 9 ára. Við erum enn að vinna með Eduardo, sem við elskum, sama hvað.

Síðan þá hefur Susana orðið einn stórkostlegasti trúboði sem ég hef nokkru sinni hitt. Hún er eins og synir Mósía, færir margar sálir til Krists.

Í einum af samræðum okkar spurði ég hana: „Hvert er leyndarmálið þitt? Hvernig deilir þú fagnaðarerindinu með öðrum?“

Hún svaraði: „Það er mjög einfalt. Á hverjum degi, áður en ég yfirgef húsið, bið ég himneskan föður að leiða mig til einhvers sem þarf á fagnaðarerindinu að halda í lífi sínu. Stundum tek ég Mormónsbók með mér til að deila með þeim eða dreifipjald frá trúboðunum – og þegar ég hef samtal við einhvern, spyr ég einfaldlega hvort þau hafi heyrt um kirkjuna.“

Susana sagði einnig: „Öðrum stundum brosi ég bara þegar ég bíð eftir lestinni. Dag einn leit maður á mig og sagði: ‚Að hverju brosir þú?‘ Hann sló mig eiginlega út af laginu.

„Ég svaraði: ‚Ég brosi því ég er hamingjusöm!‘

Hann sagði þá: ‚Yfir hverju ertu svona hamingjusöm?‘

Ég svaraði: ‚Ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og það veitir mér hamingju. Hefurðu heyrt um hana?‘“

Þegar hann svaraði því neitandi, gaf ég honum dreifispjald og bauð honum að koma í kirkju næstkomandi sunnudag. Þann sunnudag tók ég á móti honum við dyrnar.“

Dallin H. Oaks forseti kenndi:

„Það er þrennt sem allir meðlimir geta gert til að miðla fagnaðarerindinu. …

Ífyrsta lagi, ættum við öll að biðja um þrá til að leggja okkar af mörkum við þetta mikilvæga verk sáluhjálpar. …

Í öðru lagi, þá getum við … haldið boðorðin. … Trúfastir meðlimir munu ætíð hafa anda hans með sér, sér til handleiðslu, er þeir leitast við að taka þátt í hinu mikla verki að miðla hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Í þriðja lagi, getum við … beðið um innblástur varðandi það sem við sjálf getum gert til að miðla öðrum fagnaðarerindinu … [og] biðjast fyrir, staðráðin í því að fara eftir þeim innblæstri sem [við hljótum].“3

Bræður og systur, börn og ungmenni, getum við verið eins og vinkona mín, Susana og deilt fagnaðarerindinu með öðrum? Getum við boðið vini sem er ekki af okkar trú, að koma til kirkju með okkur á sunnudegi? Getum við kannski gefið ættingja eða vini eintak af Mormónsbók? Getum við hjálpað öðrum að finna forfeður sína á FamilySearch eða miðlað öðrum því sem við höfum lært í vikunni er við höfum lesið Kom, fylg mér? Getum við verið líkari frelsara okkar Jesú Kristi og miðlað öðrum því sem færir okkur gleði í okkar líf? Svarið við öllum þessum spurningum er já! Við getum gert þetta!

Í ritningunum lesum við að „meðlimir kirkju Jesú Krists séu sendir af stað til að ,vinna í víngarði hans til hjálpræðis sálum manna‘ (Kenning og sáttmálar 138:56). Þetta sáluhjálparstarf felur í sér meðlimatrúboð, varðveislu trúskiptinga, virkjun lítt virkra meðlima, musteris- og ættarsögustarf og kennslu fagnaðarerindisins.“4

Kæru vinir, Drottinn þarfnast þess að við söfnum saman Ísrael. Í Kenningu og sáttmálum segir hann: „Ekki skuluð þér heldur fyrirfram hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja, heldur varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar, og einmitt á þeirri stundu munu yður gefin þau þeirra, sem mæld verða hverjum manni.“5

Að auki hefur hann lofað okkur:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“6

Barnafélagssálminum, sem ég hóf ræðu mína á, lýkur á þessum djúpstæðu orðum:

Og á frelsarann Jesú trúi ég,

og tigna nafnið hans.

Ég gera vil rétt,

og geng við hans ljós.

Með Guðs orð til sérhvers manns.7

Ég ber vitni um að þessi orð eru sönn og að við eigum ástkæran föður á himnum, sem bíður þess að við snúum okkur til hans svo hann geti blessað líf okkar og líf þeirra sem kringum okkur eru. Megum við hafa þrá til að leiða bræður okkar og systur til Krists, er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Kirkja Jesú Krists,“ Barnasöngbókin, 48.

  2. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu, endursk. útg. (2018), 48.

  3. Dallin H. Oaks, „Miðla hinu eindurreista fagnaðarerindi,“ aðalráðstefna, október 2016.

  4. Handbook 2: Administering the Church, 5.0, ChurchofJesusChrist.org; sjá einnig L. Whitney Clayton, “The Work of Salvation: Then and Now,” Liahona, sept. 2014, 23.

  5. Kenning og sáttmálar 84:85.

  6. Kenning og sáttmálar 18:15–16.

  7. „Kirkja Jesú Krists,“ 48.