2010–2019
Taka upp kross okkar
Aðalráðstefna október 2019


Taka upp kross okkar

Það að taka upp kross ykkar og fylgja frelsaranum þýðir að halda áfram í trú á vegi Drottins og tileinka sér ekki hætti heimsins.

Kæru bræður og systur, við höfum meðtekið yndislegan boðskap frá leiðtogum okkar þessa síðustu tvo daga. Ég ber ykkur vitni um, að ef við vinnum að því að virkja þessar innblásnu kenningar í lífi okkar, þá mun Drottinn, með náð sinni, aðstoða okkur við að bera kross okkar og létta byrðar okkar.1

Þegar frelsarinn var í nágrenni Sesaríu Filippí, opinberaði hann lærisveinum sínum það sem hann átti eftir að þola af höndum öldunganna, æðstu prestanna og fræðimannanna í Jerúsalem. Hann kenndi þeim sérstaklega varðandi dauða sinn og dýrðlega upprisu.2 Á þeim tímapunkti skildu lærisveinar hans ekki fyllilega guðlegt ætlunarverk hans á jörðu. Þegar Pétur heyrði það sem frelsarinn sagði, fór hann einn afsíðis með honum, áminnti hann og sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“3

Frelsarinn hjálpaði lærisveinum sínum að skilja að hið helgaða verk hans fæli í sér undirgefni og þjáningu og sagði afdráttarlaust:

„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.

Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“4

Með þessari yfirlýsingu lagði frelsarinn áherslu á að þeir sem fúslega fylgdu honum þyrftu að afneita sjálfum sér og stjórna þrám sínum, löngunum og ástríðum, fórna öllu, jafnvel lífinu sjálfu, ef þörf krefði, og lúta algjörlega vilja föðurins – á sama hátt og hann sjálfur gerði.5 Þetta er í raun gjaldið sem greiða þarf fyrir sáluhjálp. Jesús notaði tákn krossins myndrænt og af ásetningi, til að hjálpa lærisveinum sínum að skilja raunverulega merkingu fórnar og hollustu við málstað Drottins. Ímynd krossins var vel þekkt á meðal lærisveina hans og íbúa rómverska heimsveldisins, vegna þess að Rómverjar neyddu fórnarlömb krossfestingar til að bera eigin kross eða krossbjálka á þann stað sem aftakan átti að fara fram á.6

Það var einungis eftir upprisu hans að hugur lærisveinanna opnaðist fyrir skilningi á öllu sem hafði verið ritað um hann7 og hvers yrði ætlast til af þeim frá og með þeirri stundu.8

Að sama skapi, bræður og systur, þurfum við öll að ljúka upp hjarta og huga, til að skilja betur mikilvægi þess að bera kross sinn og fylgja honum. Við lærum, í gegnum ritningarnar, að þeir sem vilja bera kross sinn, elska Jesú Krist á þann hátt að þeir neita sér um allt óguðlegt og allar girndir heimsins og halda boðorð hans.9

Ákvörðun okkar um að láta af öllu því sem er í mótsögn við vilja Guðs og að fórna öllu sem við erum beðin að gefa og fylgja kenningum hans, mun hjálpa okkur að vera áfram á vegi fagnaðarerindis Jesú Krists – jafnvel á erfiðleikatímum, í veikleika sálar okkar eða frammi fyrir þrýstingi og speki heimsins sem er andstæð kenningum hans.

Ég fullvissa ykkur, sem til að mynda hafið enn ekki fundið eilífan maka og gætuð verið einmana eða vonlítil, eða eruð fráskilin og finnst þið yfirgefin og gleymd, um að boð frelsarans um að þið takið upp kross ykkar og fylgið honum, felur í sér að þið sækið fram í trú á vegi Drottins, viðhaldið reisn ykkar og tileinkið ykkur ekki hætti heimsins, sem að lokum svipta okkur von um elsku og miskunn Guðs.

Sömu reglur eiga einnig við um ykkur sem upplifið samkynhneigð og eruð vonsvikin og hjálparvana. Af þeirri ástæðu finnst sumum ykkar kannski að fagnaðarerindi Jesú Krists sé ekki lengur fyrir ykkur. Ef það er málið, langar mig að fullvissa ykkur um að það er alltaf von í Guði föðurnum og hamingjuáætlun hans, í Jesú Kristi og friðþægingarfórn hans og í því að fylgja kærleiksríkum boðorðum þeirra. Í fullkominni visku hans, krafti, réttlæti og náð getur Drottinn innsiglað okkur sér, svo við megum verða leidd í návist hans og hljóta ævarandi sáluhjálp, ef við erum staðföst og óhagganleg í því að hlýða boðorðunum10 og erum ávallt rík af góðum verkum.11

Fyrir þau ykkar sem hafið drýgt alvarlegar syndir, þá þýðir það að meðtaka þetta boð, meðal annars, að vera auðmjúkur frammi fyrir Guði, að ræða við viðeigandi kirkjuleiðtoga og að iðrast og láta af syndum ykkar. Þetta ferli mun einnig blessa alla sem berjast við íþyngjandi ánetjanir, þar á meðal af völdum ópíóða, eiturlyfja, áfengis og kláms. Það að taka þessi skref færir ykkur nær frelsaranum, sem getur endanlega losað ykkur við sekt, sorg og andlega og líkamlega þrælkun. Að auki gætuð þið líka viljað leita stuðnings fjölskyldu ykkar, vina og hæfra heilbrigðisstarfsmanna og ráðgjafa.

Ekki gefast upp eftir áframhaldandi fall og álítið ykkur ekki sjálf ófær um að láta af syndum og sigrast á fíknum. Þið megið ekki hætta að reyna og halda bara áfram í veikleika og synd! Reynið alltaf að gera ykkar besta og sýnið með verkum ykkar þá þrá að hreinsa kerið að innan, eins og frelsarinn kenndi.12 Stundum koma lausnir við vissum áskorunum eftir margra mánaða vinnu. Loforðið í Mormónsbók um að „vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört,“13 á við í þessum tilfellum. Munið að náðargjöf frelsarans „einskorðast ekki endilega við að ,afloknu‘ öllu sem við fáum gert. Við gætum hlotið náð hans áður, á meðan og eftir þann tíma sem við höfum lagt okkar af mörkum.“14

Ég ber vitni um að er við höldum áfram að vinna að því að sigrast á áskorunum okkar, mun Guð blessa okkur með gjöfum trúar til að læknast og að gjöra kraftaverk.15 Hann mun gera það fyrir okkur sem okkur er eigi kleift að gera fyrir okkur sjálf.

Auk þess felst sú merking í því að taka upp kross sinn, hvað þá varðar sem eru bitrir, reiðir, móðgaðir eða sorgum hlaðnir, sökum einhvers sem þeim finnst þeir ekki verðskulda, að þeir hætti að ala á slíkum tilfinningum og snúi sér til Drottins, svo að hann fái leyst þá frá þessu hugarástandi og hjálpað þeim að finna frið. Því miður gætum við uppgötvað að við lifum án áhrifa anda Drottins í lífi okkar ef við höldum í þessar neikvæðu tilfinningar Við getum ekki iðrast fyrir aðra, en við getum fyrirgefið þeim – með því að neita að vera gíslar þeirra sem hafa skaðað okkur.16

Ritningarnar kenna að það sé leið út úr þessum aðstæðum – með því að bjóða frelsaranum að hjálpa okkur að skipta steinhjörtum okkar út fyrir ný hjörtu.17 Svo þetta megi verða, þá þurfum við að koma fram fyrir Drottin með veikleika okkar, auðmýkja okkur frammi fyrir honum,18 og biðja um hjálp hans og fyrirgefningu,19 sérstaklega á helgum stundum þegar við meðtökum sakramentið hvern sunnudag. Megum við velja að leita liðsinnis hans og taka hið mikilvæga og erfiða skref að fyrirgefa þeim sem hafa sært okkur, svo að sár okkar fái gróið. Ég lofa ykkur að með því að gera svo, munu nætur ykkar fylltar líknandi friðsæld af því að vera sáttur við Drottin.

Þegar spámaðurinn Joseph Smith var í Liberty fangelsinu árið 1839, skrifaði hann bréf til meðlima kirkjunnar sem í voru spádómar sem eiga svo vel við í þessum tilfellum Hann skrifaði: „Öll hásæti, herradómar, tignir og völd skulu opinberuð verða og veitast öllum þeim, sem hugdjarfir hafa staðið stöðugir í fagnaðarerindi Jesú Krists.“20 Þar af leiðandi, kæru bræður og systur, hver sem tekur á sig nafn frelsarans og treystir á loforð hans og stendur stöðugur allt til enda, mun hólpinn verða21 og fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.22

Við stöndum öll frammi fyrir mótlæti í lífi okkar sem gerir okkur sorgmædd, hjálparvana, vonlaus og stundum einnig veikgeðja. Sumar þessara tilfinninga gætu fengið okkur til að efast um Drottin: „Hver vegna er ég að upplifa þetta?“ eða „Hvers vegna uppfyllast ekki væntingar mínar? Ég er samt að gera allt sem í mínu valdi stendur til að bera kross minn og fylgja frelsaranum!“

Kæru vinir, við verðum að mun að það að bera kross okkar felur í sér að vera auðmjúkur og að treysta Guði og óendanlegri visku hans. Við verðum að viðurkenna að hann er meðvitaður um hvert okkar og þarfir okkar. Það er einnig nauðsynlegt að samþykkja þá staðreynd að tímasetning Drottins er önnur en okkar. Stundum leitum við blessana og setjum Drottni tímamörk til að veita þær. Við getum ekki sett skilyrði fyrir tryggð okkar við hann með því að þröngva upp á hann eindaga við svörum við óskum okkar. Þegar við gerum það líkjumst við hinum vantrúuðu Nefítum til forna, sem hæddu bræður sína og systur, með því að segja að tíminn fyrir uppfyllingu orða Lamanítans Samúels væri liðinn, og sköpuðu þannig óvissu á meðal hinna trúuðu.23 Við verðum að treysta Drottni nægilega til að halda ró okkar og vita að hann er Guð og að hann viti alla hluti og að hann sé meðvitaður um okkur öll.24

Ljósmynd
Öldungur Soares þjónar systur Calamassi

Ég fékk nýlega tækifæri til að þjóna systur sem er ekkja og heitir Franca Calamassi og þjáist af ALS - blandaðri hreyfitaugahrörnun. Systir Calamassi var fyrsti meðlimur fjölskyldu sinnar að ganga í hina endurreistu kirkju Jesú Krists. Þó að eiginmaður hennar hafi aldrei skírst þá samþykkti hann að hitta trúboðana og mætti oft á kirkjusamkomur. Þrátt fyrir þessar aðstæður var systir Calamassi trúföst og ól upp börn sín fjögur í fagnaðarerindi Jesú Krists. Ári eftir að eiginmaður hennar lést, fór systir Calamassi með börn sín í musterið og þau tóku þátt í helgum athöfnum og voru innsigluð sem fjölskylda. Loforðin sem tengjast þessum athöfnum færðu henni mikla von, gleði og hamingju sem hjálpaði henni að halda áfram með líf sitt.

Ljósmynd
Calamassi-fjölskyldan við musterið

Þegar fyrstu einkenni sjúkdómsins fóru að gera vart við sig gaf biskupinn henni blessun. Á þeim tíma sagði hún biskupnum að hún væri tilbúin að meðtaka vilja Drottins og sýndi þannig trú til að læknast, sem og trú til að þola veikindin fram á síðasta dag.

Á meðan á heimsókn minni stóð og ég hélt í hönd systur Calamassi og horfði í augu hennar, sá ég engilsljóma skína af ásjónu hennar – sem endurspeglaði traust hennar á áætlun Guðs og fullkoma von hennar á elsku föðurins og áætlun hans fyrir hana. 25 Ég fann ákveðni hennar í að þrauka í trú allt til enda með því að taka upp kross sinn, þrátt fyrir þær áskoranir sem hún stóð frammi fyrir. Líf þessarar systur er vitnisburður um Krist, yfirlýsing um trú hennar og hollustu við hann.

Kæru bræður og systur, ég ber ykkur vitni um að það að taka upp kross okkar og fylgja frelsaranum krefst þess að við fylgjum fordæmi hans og vinnum að því að verða eins og hann,26 með því að takast á við aðstæður lífsins með þolimæði og afneita og fyrirlíta tilhneigingar hins náttúrlega manns og bíða Drottins. Sálmaskáldið ritaði:

„Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“27

„Hann er fyrirmynd okkar og styrkur.“28

Ég ber ykkur vitni um að það mun veita sálum okkar hvíld að fylgja í fótspor meistarans og treysta honum, sem er hin endanlegi læknir lífs okkar og gera byrðar okkar auðveldar og léttar.29 Um þetta vitna ég, í heilögu nafni Jesú Krists, amen.