2010–2019
Snerting frelsarans
Aðalráðstefna október 2019


Snerting frelsarans

Þegar við komum til hans, mun Guð koma okkur til bjargar, hvort heldur til að lækna okkur eða veita okkur styrk við hvers kyns aðstæður.

Fyrir rúmum 2000 árum kom frelsarinn niður af fjalli, eftir að hafa kennt sæluboðin og aðrar grundvallarreglur fagnaðarerindisins. Á göngu hans, kom til hans líkþrár maður. Maðurinn sýndi lotningu og virðingu er hann kraup frammi fyrir Kristi og bað um líkn frá bágindum sínum. Bón hans var einföld: „Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“

Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“1

Af þessu lærum við að frelsarinn vill ávallt blessa okkur. Sumar blessanir koma samstundis, aðrar taka lengri tíma og enn aðrar geta komið eftir þetta líf, en blessanir munu koma á sínum tíma.

Eins og líkþrái maðurinn, getum við fundið styrk og huggun í þessu lífi með því að meðtaka vilja hans og vita að hann vill blessa okkur. Við getum hlotið styrk til að fást við sérhverja áskorun, standast freistingar og skilja og takast á við erfiðar aðstæður okkar. Á einu erfiðasta augnabliki ævi sinnar var styrkur frelsarans til að standast vissulega aukinn, er hann sagði við föður sinn: „Verði þinn vilji.“2

Líkþrái maðurinn bar ekki fram bón sína á hrokafullan eða tilætlusaman hátt. Orð hans bera merki um auðmjúkt viðmót mikilla væntinga, en einnig einlæga ósk um að vilji frelsarans ráði. Þetta er dæmi um viðmótið sem við ættum að hafa til að nálgast Krist. Við getum komið til Krists í fullvissu um að hann þrái nú og muni alltaf þrá það besta fyrir okkur í jarðnesku lífi, sem og eilífu lífi. Hann hefur eilífðarsýn, sem við höfum ekki. Við verðum að koma til Krists í einlægri þrá um að okkar vilji innbyrðist í vilja föðurins, eins og hans var.3 Slíkt mun búa okkur undir eilíft líf.

Það er erfitt að ímynda sér hina líkamlegu og tilfinningalegu þjáningu líkþráa mannsins sem kom til frelsarans. Líkþrá leggst á taugar og húð og veldur afmyndun og fötlun. Auk þess leiðir líkþráin til félagslegrar útskúfunar. Sá sem varð líkþrár, varð að yfirgefa ástvini og búa utan við samfélagið. Líkþráir einstaklingar voru álitnir óhreinir, bæði líkamlega og andlega. Af þeirri ástæðu krafðist Móselögmálið að líkþráir klæddust tötrum og hrópuðu „óhreinn“ er þeir gengu hjá.4 Líkþráir menn voru veikir og fyrirlitnir og þeirra beið að búa í yfirgefnum hreysum eða grafhýsum.5 Það er ekki erfitt að ímynda sér að líkþrái maðurinn sem kom til frelsarans hafi verið niðurbrotinn.

Stundum getum við einnig – á einn eða annan hátt – verið niðurbrotin, hvort sem það er vegna eigin verka eða verka annarra, sökum kringumstæðna sem við höfum litla sem enga stjórn á. Á slíkum augnablikum getum við lagt vilja okkar í hendur hans.

Fyrir nokkrum árum barst Zulmu – eiginkonu minni og mínum betri helmingi – slæm tíðindi, aðeins tveimur vikum fyrir brúðkaup eins barna okkar. Hún var með æxli í vangakirtlinum, sem óx hratt. Andlit hennar tók að bólgna út og átti hún strax að fara í viðkvæman uppskurð. Margar hugsanir flugu í gegnum huga hennar, sem voru henni mjög íþyngjandi. Var æxlið illkynja? Hvernig mundi líkaminn jafna sig? Mundi andlit hennar lamast? Hversu mikill yrði sársaukinn? Mundi andlit hennar hljóta varanleg ör? Mundi æxlið koma aftur eftir að hafa verið tekið? Gæti hún farið í brúðkaup sonar okkar? Hún var niðurbrotin er hún lá á skurðarborðinu.

Á þessu mikilvæga augnabliki hvíslaði andinn að henni að hún yrði að sætta sig við vilja föðurins. Hún einsetti sér síðan að setja traust sitt á Guð. Henni fannst sterklega að hver sem niðurstaðan yrði, þá væri best að fara að vilja hans. Hún sofnaði brátt við svæfinguna.

Síðar skrifaði hún á ljóðrænan hátt í dagbókina sína: „Á skurðarborðinu laut ég höfði frammi fyrir þér, fól mig vilja þínum og féll í svefn. Ég vissi að ég gæti treyst þér, vitandi að ekkert illt gæti komið frá þér.“

Hún hlaut styrk og huggun við að beygja sig undir vilja föðurins. Þennan dag blessaði Guð hana mikið.

Hverjar svo sem aðstæður okkar kunna að vera, getum við iðkað þá trú að koma til Krists og fundið Guð sem við getum treyst. Líkt og eitt barna minna, Gabríel, ritaði:

Samkvæmt spámanninum er andlit Guðs bjartara en sólin

og hár hans hvítara en snjórinn

og rödd hans öskrar eins og vatnsdynur

og maðurinn er ekkert í samanburði við hann. …

Ég er eyðilagður er ég sé að jafnvel ég er ekkert.

Eingöngu þá fálma ég leið mína til guðs sem ég get treyst.

Aðeins þá uppgötva ég Guð sem ég get treyst.6

Guð, sem við getum treyst, vekur okkur von við hverjar aðstæður. Við getum treyst honum vegna þess að hann elskar okkur og vill það besta fyrir okkur í sérhverjum kringumstæðum.

Líkþrái maðurinn steig fram vegna krafts vonarinnar. Heimurinn færði honum engar lausnir, ekki einu sinni huggun. Þannig hlaut einföld snerting frelsarans að hafa verið allri sálinni sem blíðuhót. Við getum aðeins ímyndað okkur þá þakklætistilfinningu sem líkþrái maðurinn hlaut að hafa skynjað við snertingu frelsarans, sérstaklega er hann heyrði orðin: „Ég vil, verð þú hreinn.“

Sagan segir: „Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni.“7

Einnig við getum skynjað snertingu hinnar kærleiksíku, læknandi handar frelsarans. Hvílík gleði, von og þakklætistilfinning veitist sálunni við að vita að hann vill hjálpa okkur að verða hrein! Þegar við komum til hans, mun Guð koma okkur til bjargar, hvort heldur til að lækna okkur eða veita okkur styrk við hvers kyns aðstæður.

Hvað sem því líður, að meðtaka vilja hans – ekki okkar eigin – mun hjálpa okkur að skilja kringumstæðurnar. Ekkert illt getur komið frá Guði, Hann veit hvað er okkur fyrir bestu. Ef til vill mun hann ekki fjarlægja byrðar okkar samstundis. Stundum getur hann létt byrðinni, eins og hann gerði fyrir Alma og fólk hans.8 Vegna sáttmála okkar, mun byrðinni að lokum létt,9 hvort heldur í þessu lífi eða í hinni helgu upprisu.

Einlæg þrá um að hans vilji verði, ásamt skilningi á hinu guðlega eðli lausnarans, mun hjálpa okkur að þróa þá trú sem líkþrái maðurinn sýndi til að hreinsast. Jesús Kristur er Guð kærleikans, Guð vonarinnar, Guð lækningar, Guð sem vill blessa okkur og hjálpa okkur að vera hrein. Þetta er það sem hann vildi áður en hann kom til jarðar, er hann bauð sig fram til að frelsa okkur þegar við föllum í synd. Þetta er það sem hann vildi í Gestemanegarðinum, er hann stóð frammi fyrir óskiljanlegum sársauka þess að reiða fram gjald syndar. Þetta er það sem hann vill núna, er hann biður til föðurins fyrir okkur.10 Þess vegna hljómar rödd hans enn: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“11

Hann getur læknað og upplyft okkur, vegna þess að hann hefur máttinn til þess. Hann tók á sig allan sársauka líkamans og andans, svo að brjóst hans mætti fyllast miskunn, þannig að hann gæti veitt okkur lið í hverju sem er og læknað og lyft okkur.12 Jesaja, eins og Abínadí vitnaði í hann, orðaði það á fagurlegan og hjartnæman hátt:

„En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli. …

Hann var særður vegna vorra brota og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar erum vér heilbrigðir.“13

Eftirfarandi ljóð kennir sömu reglu:

„Ó, smiður frá Nasaret,

þetta hjarta sem er óbætanlega brostið,

þetta líf sem er við dauðans dyr,

ó, getur þú bætt það, smiður?

Með ljúfum og fúsum höndum

vefur hann sitt eigið líf

inn í brostið líf okkar, þar til við stöndum

sem ný sköpun – „allt er nýtt.“

„Hina splundruðu mynd hjarta míns,

þrá, metnað, von og trú,

mótaðir þú fullkomlega,

ó, smiðurinn frá Nasaret!“14

Ef ykkur finnst þið ekki vera hrein á einhvern hátt, ef þið eruð niðurbrotin, vitið þá að þið getið orðið hrein, getið orðið heil, vegna þess að hann elskar ykkur. Treystið því að ekkert illt geti komið frá honum.

Sökum þess að hann „sté … neðar öllu,“15 gerir hann mögulegt að allt sem er í ólagi í lífi okkar verði heilt, og þannig getum við sæst við Guð. Með honum er allt fært í samt lag, bæði það sem er á jörðu og það sem er á himni, „með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.“16

Við skulum koma til Krists með því að gera allt sem til þarf. Þegar við gerum svo, megi þá viðhorf okkar vera eins og þess sem segir: „Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Ef við gerum svo, getum við meðtekið snertingu meistarans, ásamt hinum ljúfa hljómi raddar hans: „Ég vil, verð þú hreinn.“

Frelsarinn er Guð sem við getum treyst. Hann er Kristur, hinn smurði, sá Messías sem ég vitna um, í hans heilaga nafni, já, Jesú Krists, amen.