2010–2019
Ykkar mikla ævintýri
Aðalráðstefna október 2019


Ykkar mikla ævintýri

Frelsarinn býður okkur dag hvern að segja skilið við þægindi og öryggi okkar og ganga til liðs við sig í ferðalagi lærisveinsins.

Um hobbita

Ástkært barnaævintýri sem ritað var fyrir mörgum árum hefst á setningunni: „Í jarðholu nokkurri bjó hobbiti.“1

Sagan af Bilbó Bagga fjallar um venjulegasta og hversdagslegasta hobbita sem er veitt ótrúlegasta tækifæri – hið dásamlega tækifæri að vera með í ævintýri og fyrirheiti um mikið endurgjald.

Vandinn er sá að flestir hobbitar sem hafa sjálfsvirðingu vilja ekkert með ævintýri hafa. Líf þeirra snýst algjörlega um þægindi. Þeir njóta þess að borða sex máltíðir á dag þegar þeir geta fengið þær og eyða dögunum í görðum sínum, skiptast á sögum við gesti, syngja, spila á hljóðfæri og una sér við einfalda gleði lífsins.

Þegar Bilbó er aftur á móti gefinn möguleiki á miklu ævintýri, tekur eitthvað að vaxa djúpt í hjarta hans. Honum er ljóst frá byrjun að ferðin verður krefjandi. Jafnvel hættuleg. Sá möguleiki er jafnvel fyrir hendi að honum auðnist ekki að snúa aftur.

Samt hefur ævintýraboðið náð djúpt í hjarta hans. Svo fer að þessi ómerkilegi hobbiti segir skilið við þægindin og leggur út á vit mikilla ævintýra, sem fara með hann alla leið „út og heim aftur.“2

Ævintýrið ykkar

Kannski er ein ástæða þess að sagan höfðar til svo margra sú, að hún er líka sagan okkar.

Fyrir löngu, löngu síðan, jafnvel áður en við fæddumst, á tíma sem fallin er í gleymsku, var okkur líka boðið að taka þátt í ævintýri. Það var Guð, okkar himneski faðir, sem kynnti okkur það. Ef við færum á vit þessa ævintýris, þyrftum við að segja skilið við þægindi og öryggi þess að njóta návistar hans. Við yrðum þá að fara til jarðar í ferðalag sem fyllt var óþekktum hættum og raunum.

Við vissum að ferðin yrði ekki auðveld.

Við vissum líka að við myndum öðlast dýrmæta fjársjóði, þar með talið efnislíkama, og upplifa ákafar kenndir gleði og sorgar jarðlífsins. Við myndum læra að leita og berjast og basla. Við myndum uppgötva sannleika um Guð og okkur sjálf.

Auðvitað var okkur ljóst að við myndum gera mörg mistök á leið okkar. Við höfðum líka loforð um, að vegna mikillar fórnar Jesú Krists, gætum við hreinsast af afbrotum okkar, fágast og hreinsast í anda og dag einn risið upp og sameinast ástvinum okkar.

Við lærðum hve heitt Guð elskar okkur. Hann gaf okkur líf og vill að við njótum farsældar. Þess vegna fyrirbjó hann okkur frelsara. „Þó mátt þú sjálfur velja,“ sagði faðir okkar á himnum, „því að það er þér gefið.“3

Sumt í hinu jarðneska ævintýri hlýtur að hafa valdið börnum Guðs áhyggjum, jafnvel skelft þau, því mikill fjöldi okkar andlegu bræðra og systra ákvað að standa gegn þessu.4

Með gjöf og krafti okkar siðferðislega sjálfræðis, komumst við að þeirri niðurstöðu að lærdómur okkar hér og eilífir möguleikar, væru áhættunnar virði.5

Við tókum því á móti áskoruninni og treystum á fyrirheit og mátt Guðs.

Ég gerði það.

Þið gerðuð það líka.

Við samþykktum að segja skilið við öryggi okkar fyrsta stigs og halda á vit okkar eigin mikla ævintýris, „út og heim aftur.“

Ævintýraboðið

Hið jarðneska líf hefur þó sinn hátt á að afvegaleiða okkur, ekki satt? Við hneigjumst til að missa sjónar á hinum mikla tilgangi okkar, tökum þægindi og vellíðan fram yfir vöxt og framfarir.

Samt er eitthvað óumdeilanlegt, djúpt í hjörtum okkar, sem hungrar eftir æðri og göfugri tilgangi. Þetta hungur er ein ástæða þess að fólk dregst að fagnaðarerindi og kirkju Jesú Krists. Hið endurreista fagnaðarerindi er að vissu leyti endurnýjun á ævintýraboðinu sem við samþykktum fyrir löngu. Frelsarinn býður okkur dag hvern að segja skilið við þægindi og öryggi okkar og ganga til liðs við sig í ferðalagi lærisveinsins.

Beygjurnar eru margar á þessum vegi. Þar eru hæðir, dalir og hjáleiðir. Þar geta jafnvel verið myndhverfar köngulær, tröll og jafnvel einn dreki eða tveir. En ef þið haldið áfram á veginum og treystið Guði, munið þið að lokum finna leiðina að ykkar dýrðlegu örlögum og aftur til ykkar himnesku heimkynna.

Hvernig byrjið þið þá?

Það er nokkuð einfalt.

Snúið hjarta ykkar að Guði

Í fyrsta lagi þurfið þið að snúa hjarta ykkar að Guði. Reynið dag hvern að leita hans. Lærið að elska hann. Látið loks þá elsku innblása ykkur til að læra, skilja og fylgja kenningum hans og læra að halda boðorð Guðs. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er okkur gefið á svo skýran og einfaldan hátt að barn fær skilið. Samt hefur fagnaðarerindi Jesú Krists svörin við flóknustu spurningum lífsins og hefur svo mikla dýpt og margbreytileika að jafnvel þótt við lærðum og ígrunduðum það alla ævi, fengjum við varla skilið smæsta hluta þess.

Ef þið hikið við í þessu ævintýri, vegna þess að þið efist um getu ykkar, hafið þá í huga að lærisveininn þarf ekki að gera hlutina fullkomlega, heldur af réttum ásetningi. Það er val ykkar sem sýnir hver þið í raun eruð, miklu fremur en hæfni ykkar.6

Jafnvel þegar ykkur mistekst, getið þið valið að gefast ekki upp, heldur uppgötva hugrekki ykkar, sækja fram og rísa upp. Þetta er mikilvægasta prófraun ferðalagsins.

Guð veit að þið eruð ekki fullkomin, að ykkur mun stundum mistakast. Guð elskar ykkur engu minna í baráttu ykkar en sigrum.

Líkt og elskandi foreldri, vill hann aðeins að við reynum af sanni. Að vera lærisveinn, er eins og að læra að spila á píanó. Kannski getið þið aðeins í fyrstu spilað óþekkjanlega útgáfu af „Gamla Nóa.“ Ef þið hins vegar haldið áfram að æfa ykkur, munu einföldu lögin dag einn víkja fyrir dásamlegum sónötum, rapsódíum og konsertum.

Ekki er víst að sá dagur komi í þessu lífi, en hann mun koma. Guð býður aðeins að við reynum af bestu samvisku.

Liðsinnið öðrum af elsku

Það er eitthvað áhugavert, næstum þversagnakennt, við þessa braut sem þið hafið valið, að framþróun ykkar í ævintýri fagnaðarerindisins, sé einungis möguleg með því að liðsinna öðrum.

Að liðsinna öðrum, er vegur lærisveinsins. Trú, von, elska, samkennd og þjónusta fága okkur sem lærisveina.

Persónuleiki ykkar mun hreinsaður og fágaður og andi ykkar útvíkkaður, fyrir tilstilli tilrauna ykkar til að hjálpa fátækum og þurfandi, að liðsinna þeim sem búa við neyð og sjálfstraust ykkar mun aukast.

Slík elska má þó ekki vera bundin skilyrðum endurgjalds. Slíka þjónusta veitum við ekki með væntingu um upphefð, aðdáun eða greiðvikni.

Sannir lærisveinar Jesú Krists elska Guð og börn hans, án þess að vænta nokkurs í staðin. Við elskum þá sem valda okkur vonbrigðum, sem kunna ekki við okkur. Jafnvel þá sem hæðast að okkur, misnota okkur og reyna að særa okkur.

Þegar þið fyllið hjörtu ykkar hinni hreinu ást Krists, er ekkert rúm fyrir óvild, dómhörku og háðung. Þið haldið boðorð Guðs vegna þess að þið elskið hann. Í þessu ferli verðið þið smám saman líkari Kristi í hugsun og verkum.7 Hvaða ævintýri gæti verið meira þessu?

Miðlið sögu ykkar

Hið þriðja sem við reynum að ná tökum á í þessu ferðalagi er að taka á okkur nafn Jesú Krists og fyrirverða okkur ekki fyrir að vera meðlimir kirkju Jesú Krists.

Við felum ekki trú okkar.

Við gröfum hana ekki.

Þess í stað tölum við frjálslega og eðlilega um ferðalag okkar við aðra. Það gera vinir – þeir tala um það sem er þeim mikilvægt. Það sem er þeim dýrmætt og mikilvægt.

Það gerið þið einmitt. Þið segið frá sögu ykkar og upplifunum sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Stundum hlær fólk að sögum ykkar. Stundum spretta tár fram í augum þess. Stundum hjálpa þær fólki að halda áfram af þolinmæði, þrautseigju og hugrekki, aðra klukkustund, annan dag og komast örlítið nær Guði.

Miðlið upplifunum ykkar í eigin persónu, á samfélagsmiðlum, meðal hópa, hvar sem er.

Eitt það síðasta sem Jesús sagði við lærisveina sína, var að fara út um allan heim og segja sögu hins upprisna Krists.8 Við tökum líka glöð við þessu mikla boði í dag.

Hve dýrðlegan boðskap við höfum til að miðla, að sökum Jesú Krists geti sérhver karl, kona og barn snúið örugglega aftur til sinna himnesku heimkynna, til dvalar í dýrð og réttlæti!

Það eru jafnvel fleiri góð tíðindi sem vert er að miðla.

Guð hefur vitjað manns á okkar tíma! Við erum með lifandi spámann.

Ég minni ykkur á að Guð þarf ekki á því að halda að þið „seljið“ hið endurreista fagnaðarerindi eða kirkju Jesú Krists.

Hann væntir þess einfaldlega að þið felið það ekki undir mælikeri.

Ef fólk ákveður að kirkjan sé ekki fyrir það, þá er það þess ákvörðun.

Það merkir ekki að þið hafið brugðist. Þið haldið áfram að sýna því góðvild. Það merkir heldur ekki að þið bjóðið því ekki aftur.

Munurinn á afslöppuðum félagslegum samskiptum og samúðarfullum og hugrökkum lærisveinsdómi er – boð!

Við elskum og virðum öll börn Guðs, óháð stöðu þeirra í lífinu, óháð kynþætti þeirra eða trúarbrögðum, óháð ákvörðunum þeirra í lífinu.

Okkar hlutverk er að segja: „Komið og sjáið! Kynnist því af eigin raun hvað það er gefandi og göfgandi að vera á vegi lærisveinsins.“

Við bjóðum fólki að „koma og hjálpa, er við reynum að gera heiminn að betri stað.“

Við segjum líka: „Komið og dveljið áfram! Við erum bræður ykkar og systur. Við erum ekki fullkomin. Við treystum Guði og reynum að halda boðorð hans.

Gangið til liðs við okkur og þið munið gera okkur betri. Í því ferli munið þið líka verða betri. Höldum saman á vit þessa ævintýris.“

Hvenær ættum við að byrja?

Þegar vinur okkar, Bilbó Baggi, fann ævintýrið kalla hið innra, þá ákvað hann að fá sér góða næturhvíld, njóta góðs morgunverðar og hefjast handa strax í morgunsárið.

Þegar Bilbó reis úr rekkju tók hann eftir að húsið var í óreiðu og lét næstum truflast frá sinni göfugu fyrirætlun.

Þá kom hins vegar besti vinur hans, Gandalfur, og spurði: „Hvenær ætlar þú eiginlega að koma?“9 Bilbo þurfti sjálfur að ákveða hvað hann ætti að gera, til að ná vinum sínum.

Hinn afar venjulegi og hversdagslegi hobbiti fann sig síðan sjálfan skjótast út um útidyrnar á vit ævintýranna, í svo miklum flýti að hann gleymdi hattinum, göngustafnum og vasaklútnum. Hann lauk jafnvel ekki við síðari morgunverðinn.

Í þessu mætti kannski líka finna lexíu.

Ef þú og ég höfum fundið fyrir hvatningu til að taka þátt í því mikla ævintýri að lifa eftir og miðla því sem okkar kærleiksríki himneski faðir hefur fyrir löngu fyrirbúið okkur, þá fullvissa ég ykkur um að í dag er dagurinn til að fylgja syni Guðs og frelsara okkar á vegi hans til þjónustu og lærdóms.

Við gætum eytt allri ævinni í að bíða eftir því augnabliki þegar allt raðast rétt upp. Nú er hins vegar rétti tíminn til að einsetja sér algjörlega að leita Guðs, þjóna öðrum og miðla öðrum af reynslu okkar.

Skiljið eftir hattinn ykkar, göngustafinn, vasaklútinn og óreiðuna á heimilinu.10

Þau ykkar sem þegar eru á veginum, verið hugrakkir, iðkið samkennd, verið fullir sjálfstrausts, og haldið áfram!

Þau ykkar sem hafa farið af veginum, komið aftur, gangið aftur til liðs við okkur, veitið okkur liðstyrk.

Þau ykkar sem hafið ekki byrjað, afhverju að fresta þessu? Ef þið viljið upplifa undur þessa andlega ferðalags, takist þá á við hið mikla ævintýri ykkar! Talið við trúboðana. Talið við Síðari daga heilaga vini ykkar. Talið við þá um þetta dásemdarverk og undur.11

Það er ekki seinna vænna að byrja!

Komið, gangið til liðs við okkur!

Ef þið skynjið að líf ykkar gæti búið yfir meiri merkingu, hærri tilgangi, sterkari fjölskylduböndum og nánara sambandi við Guð, komið þá og gangið til liðs við okkur.

Ef þið leitið að samfélagi fólks sem keppir að því að verða besta útgáfa sjálfs sín, liðsinna þeim sem búa við neyð og gera þennan heim að betri stað, gangið þá til liðs við okkur!

Komið og sjáið um hvað þetta dásamlega, undursamlega og ævintýralega ferðalag snýst.

Á leiðinni munið þið uppgötva ykkur sjálf.

Þið munið uppgötva tilgang.

Þið munið uppgötva Guð.

Þið munið uppgötva ævintýralegasta og dýrðlegasta ferðalag lífs ykkar.

Um það ber ég vitni, í nafni frelsara okkar og lausnara, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. J. R. R. Tolkien, Hobbitinn eða út og heim aftur (2001), 3.

  2. Texti við The Hobbit.

  3. HDP Móse 3:17.

  4. Sjá Job -38:4–7 (Allir guðssynir fögnuðu); Jesaja 14:12-13 („ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn“); Opinberunarbókin 12:7–11 (þá hófst stríð á himni).

  5. „Spámaðurinn Joseph Smith lýsti sjálfræði sem ,því frjálsa sjálfstæði hugans sem himinninn hefur svo náðsamlega veitt mannkyni sem eina af sínum bestu gjöfum‘ [Teachings of the Prophet Joseph Smith, samant. af Joseph Fielding Smith (1977), 49]. Þessi ,[frjálsi vilji], eða sjálfstæði vilji, er sá kraftur sem gerir einstaklingum kleift að ,hafa þannig sjálfræði‘ (K&S 58:28). Það felur bæði í sér að við getum notað eigin vilja til að velja á milli góðs og ills eða mismunandi stigs góðs eða ills og gerir okkur kleift að upplifa afleiðingar þess vals. Himneskur faðir elskar okkur svo heitt að hann vill að við náum mesta vaxtartakmarki okkar – að verða eins og hann er. Framþróun einstaklings er ekki möguleg nema hann búi yfir áskapaðri hæfni til að velja það sem hann þráir. Sjálfræðið er svo mikið grundvallaratriði í áætlun hans fyrir börnum sínum að ,jafnvel Guð gat ekki gjört menn í sinni mynd, án þess að gera þá frjálsa‘ [David O. McKay, “Whither Shall We Go? Or Life’s Supreme Decision,” Deseret News, 8. júní 1935, 1]” (Byron R. Merrill, “Agency and Freedom in the Divine Plan,” í Window of Faith: Latter-day Saint Perspectives on World History, ritst. af Roy A. Prete [2005], 162).

  6. Í sögu sinni Harry Potter og leyniklefinn, lætur höfundurinn, J. K. Rowling, Dumbledore, skólameistara Hogwarts, segja eitthvað álíka við Harry Potter ungan. Þetta eru einnig góðar ráðleggingar fyrir okkur hin. Ég hef notað þær áður í boðskap mínum og finnst þess virði að endurtaka þær.

  7. „Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er“ (1. Jóhannesarbréfið 3:2; skáletrað hér).

    Þótt slík ummyndun geti verið ofar skilningi okkar, þá „vitnar [sjálfur andinn] með vorum anda, að vér erum Guðs börn.

    En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.

    Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast“ (Rómverjabréfið 8:16–18; skáletrað hér).

  8. Sjá Matteus 28:16–20.

  9. Tolkien, Hobbitinn, 33.

  10. Sjá Lúkas 9:59–62.

  11. Sjá LeGrand Richards, Dásemdarverk og undur, uppfærð útgáfa (1966).