2010–2019
Verið full trúar, ekki trúlítil
Aðalráðstefna október 2019


Verið full trúar, ekki trúlítil

Við þurfum markvisst að aftengjast heiminum sérhvern dag og gefa okkur tíma til að tengjast himninum.

Ekki alls fyrirlöngu vaknaði ég og bjó mig undir að læra ritningarnar. Ég greip snjallsímann og settist í stól við hlið rúms míns og hugðist opna smáforritið Gospel Library. Ég aflæsti símanum og var í þann veginn að hefja námið þegar ég sá hálfan tug tilkynninga um textaboð og tölvupóst sem bárust um nóttina. Ég hugsaði: „Ég ætla rétt sem snöggvast að athuga skilaboðin og fara síðan að læra ritningarnar.“ Tveimur tímum síðar var ég þó enn að lesa skilaboð, tölvupóst, fréttalýsingar og póst á samfélagsmiðlum. Þegar ég gerði mér grein fyrir hvað tímanum leið, þaut ég upp í æsingi til að búa mig undir daginn. Þennan morgun missti ég af ritningalestri og hlaut þar af leiðandi ekki þá andlegu næringu sem ég hafði vonast eftir.

Andleg næring

Ég þykist vita að þið kannist við þetta. Nútíma tækni er á margan hátt blessun. Hún getur tengt okkur við vini og fjölskyldu, veitt upplýsingar og fréttir um atburði líðandi stundar um allan heim. Hins vegar getur hún einnig beint athygli okkar frá mikilvægasta sambandinu: Sambandinu við himininn.

Ég vitna í orð spámannsins Russel M. Nelson forseta: „Við lifum í heimi sem er flókinn og stöðugt þrætugjarnari. Hin stöðuga viðvera samfélagsmiðla og fréttir allan sólarhringinn, láta vægðarlaust dynja á okkur allskyns skilaboðum. Ef okkur á einhvern veginn að takast að sjá í gegnum ógrynni radda og hugmyndafræði manna sem gera aðför að sannleikanum, verðum við að læra að meðtaka opinberun.“

Nelson forseti hélt áfram að vara okkur við að „á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“1

Fyrir mörgum árum sagði Boyd K. Packer forseti frá dádýrahjörð sem var föst utan við náttúrulegu heimahagana sökum snjófalla og beið hungurdauða. Nokkrar velviljaðar manneskjur settu heilu bílhlössin af heyi á svæðið í þeirri viðleitni að bjarga dádýrunum – þetta var ekki það sem dádýr venjulega átu, en vonir stóðu til þess að þetta yrði til þess að dádýrin kæmust af um veturinn. Því miður fundust flest dádýrin dauð síðar meir. Þau höfðu étið heyið, en ekki nærst af því og drápust með magafylli.2

Mörg þeirra skilaboða sem á okkur dynja á upplýsingaöld eru andlegt jafngildi þess að gefa dádýrum hey – við getum gætt okkur á þeim allan daginn, en þau munu ekki næra okkur.

Hvar finnum við sanna andlega næringu? Sjaldnast á samfélagsmiðlum. Við finnum hana er við „[sækjum] fram“ á sáttmálsveginum, [höldum] stöðugt fast í járnstöngina“ og neytum af ávexti lífsins trés.3 Þetta þýðir að við þurfum markvisst að aftengjast heiminum og gefa okkur tíma til að tengjast himninum.

Í draumi sínum sá Lehí fólk sem neytti af ávextinum, en hvarf aftur frá honum, vegna áhrifa hinnar miklu og rúmgóðu byggingar, hroka heimsins.4 Mögulegt er að ungt fólk alist upp á heimili Síðari daga heilagra, mæti á allar sínar samkomur og í námsbekki kirkjunnar, taki jafnvel þátt í helgiathöfnum musterisins og haldi síðan út á „[forboðna vegi og glatist].“5 Af hverju gerist þetta? Í mörgum tilfellum vegna þess að það hafði ekki fyllilega snúist til trúar, jafnvel þótt það hafi gengið andlega braut. Það var fóðrað, en ekki nært.

Ljósmynd
Félagsstarf æskufólks

Andstætt þessu hef ég hitt mikið af æskufólki Síðari daga heilagra sem er sterkt, greint og trúfast. Þið vitið að þið eruð synir og dætur Guðs og að hann ætlar ykkur verk að vinna. Þið elskið Guð af öllu „hjarta, mætti, huga og styrk.“6 Þið haldið sáttmála ykkar og þjónið öðrum, fyrst á heimilinu. Þið iðkið trú, iðrist og bætið ykkur daglega og þetta færir ykkur varanlega gleði. Þið búið ykkur undir blessanir musterisins og aðra möguleika sem á vegi ykkar verða eins og sannir fylgjendur frelsarans. Þið hjálpið til við að búa heiminn undir Síðari komuna, bjóðið öllum að koma til Krists og hljóta blessanir friðþægingar hans. Þið eruð samtengd himni.

Ljósmynd
Musterisferð æskufólks

Jú, þið glímið við áskoranir. Það gerir hinsvegar sérhver kynslóð. Þetta er okkar tími og við verðum að vera full trúar, ekki trúlítil. Ég ber vitni um að Drottinn veit um áskoranir ykkar og með leiðsögn Nelsons forseta býr hann ykkur undir að takast á við þær. Ég trúi því að hið nýlega boð spámannsins um heimilismiðaða kirkju, stutt af því sem við gerum í byggingum okkar,7 sé ætlað að hjálpa okkur að standast – jafnvel njóta farsældar – á þessum tíma andlegrar vannæringar.

Heimilismiðað

Hvað felst í því að vera heimilismiðuð kirkja? Heimili geta litið mismunandi út víða um heim. Þið gætuð tilheyrt fjölskyldu sem hefur verið í kirkjunni í margar kynslóðir. Þið gætuð líka verið eini meðlimur kirkjunnar í fjölskyldunni. Þið eruð kannski gift eða einhleyp, með eða án barna á heimilinu.

Sama hverjar aðstæðurnar eru, þá getið þið gert heimilið að miðstöð lærdóms og iðkunar á fagnaðarerindinu. Það merkir einfaldlega að axla persónulega ábyrgð á eigin trúarumbreytingu og andlegum vexti. Það merkir að fylgja leiðsögn Nelsons forseta um að „breyta heimilum [ykkar] í griðarstað trúar.“8

Andstæðingurinn mun reyna að sannfæra ykkur um að andleg næring sé ekki nauðsynleg eða, sem er enn lymskulegra, að henni megi fresta. Hann er herra glepjunnar og höfundur frestunar. Hann mun reyna að beina athygli ykkar að öðrum hlutum sem virðast áríðandi, en eru í raun ekki svo mikilvægir. Hann vill að þið „[mæðist] í mörgu,“ svo að þið vanrækið hið „[eina sem] er nauðsynlegt.“9

Hve þakklátur ég er fyrir „[góða] foreldra,“10 sem ólu upp fjölskyldu á heimili stöðugrar andlegrar næringar, kærleiksríkra samskipta og heilbrigðra tómstunda. Kennslan sem þau veittu á æskuárum mínum, hefur haldið mér á góðum vegi. Foreldrar, verið svo væn að byggja upp sterk samskipti við börn ykkar. Þau þarfnast meira af tíma ykkar, ekki minna.

Kirkjustyrkt

Þegar þið gerið svo, mun kirkjan styðja ykkur. Upplifun okkar af kirkjunni getur eflt þá andlegu næringu sem veitt er heima. Á þessu ári höfum við fram að þessu séð slíkan stuðning kirkjunnar í sunnudagsskólanum og Barnafélaginu. Við munum líka sjá meira af því á samfundum Aronsprestdæmisins og Stúlknafélagsins. Kennsluefni sunnudaga fyrir þessa fundi, sem hefjast mun í janúarbyrjun, verður breytt lítillega, Það mun enn taka fyrir viðkomandi trúarefni, en tengjast Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þetta er lítil breyting, en hún getur haft mikil áhrif á andlega næringu ungmenna.

Hvernig veitir kirkjan enn frekari stuðning? Í kirkjunni meðtökum við sakramentið, sem hjálpar okkur að endurnýja skuldbindingu okkar við frelsarann í hverri viku. Í kirkju hittum við annað trúað fólk sem hefur skuldbundið sig á sama hátt. Hið kæra samband sem við þróum við aðra lærisveina Jesú Krists getur reynst öflugur stuðningur fyrir hið heimilismiðaða lærisveinshlutverk.

Þegar ég var 14 ára flutti fjölskylda mín í nýtt hverfi. Ykkur finnst þetta ef til vill ekki mikill harmleikur, en var mér mikið áfall á þeim tíma. Það þýddi að vera innan um fólk sem ég þekkti ekki. Það þýddi að allir hinir piltarnir í deildinni minni sóttu annan skóla en ég. Með hugsunarhætti 14 ára drengs hugsaði ég: „Hvernig gátu foreldrar mínir gert mér þetta?“ Ég fannst líf mitt eyðilagt.

Hins vegar, með þátttöku í Piltafélaginu náði ég að mynda samband við aðra meðlimi sveitar minnar og urðu þeir vinir mínir. Auk þess hófu meðlimir í biskupsráðinu og leiðbeinendur í Aronsprestdæminu að sýna mér sérstakan áhuga. Þeir mættu á íþróttakappleiki hjá mér. Þeir skrifuðu mér hvetjandi bréfmiða, sem ég hef geymt fram á þennan dag. Þeir héldu samskiptum við mig eftir að ég byrjaði í háskóla og þegar ég fór í trúboð. Einn þeirra var meira að segja á flugvellinum er ég kom heim. Ég mun ætíð vera þakklátur fyrir þessa góðu bræður, sem og ástúð þeirra og miklar væntingar. Þeir beindu mér til himins og lífið varð bjart og fyllt hamingju og gleði.

Hvernig erum við, leiðtogar og foreldrar, að hjálpa unglingunum að vita að þeir séu ekki einir síns liðs þegar þeir ganga sáttmálsveginn? Auk þess að mynda persónuleg tengsl, bjóðum við þeim á fundi, stóra sem smáa, allt frá FSY ráðstefnum og ungmennabúðum, til hinna vikulegu samfunda í sveitum og bekkjum. Vanmetið aldrei styrk þess að standa saman með öðrum sem einnig eru að reyna að vera sterkir. Biskupar og aðrir leiðtogar, gjörið svo vel að einblína á að næra börnin og unga fólkið í deildinni ykkar. Þau þarfnast meira af tíma ykkar, ekki minna.

Hvort sem þið eruð leiðtogi, nágranni, sveitarmeðlimur eða bara venjulegur heilagur, ef þið eigið möguleika á að snerta líf unglings, hjálpið þá honum eða henni að tengjast himnum. Áhrif ykkar gætu einmitt verið sú „kirkjustyrking“ sem ung manneskja þarfnast.

Bræður og systur, ég ber vitni um að Jesús Kristur er höfuð þessarar kirkju. Hann veitir leiðtogum okkar innblástur og leiðir okkur að þeirri andlegu næringu sem við þörfnumst til að fá staðist og notið farsældar á hinum síðari dögum. Þessi andlega næring mun hjálpa okkur að vera full trúar, en ekki trúlítil. Í nafni Jesú Krists, amen.