2010–2019
Staðföst loforðum og sáttmálum okkar
Aðalráðstefna október 2019


Staðföst loforðum og sáttmálum okkar

Ég býð ykkur að íhuga loforðin og sáttmálana sem þið gerið við Drottin, og aðra, af mikilli ráðvendni, meðvituð um að þið eruð bundin orðum ykkar.

Kæru bræður og systur, er dregur að lokum þessarar ráðstefnuhluta, megi hvert okkar, varðveita í hjarta sér vitnisburðinn sem gefinn var í dag um sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists. Við erum blessuð að njóta þessa helga tíma saman, til að styrkja loforð okkar við Drottin Jesú Krist um að við erum þjónar hans og að hann er frelsari okkar.

Mikilvægi þess að gera og halda loforð og sáttmála vegur þungt í huga mínum. Hversu mikilvægt er að standa við orð sín? vera traustsins verður? gera það sem við segjumst ætla að gera? reyna að heiðra sína helgu sáttmála? vera ráðvandur? Með því að vera sönn þeim loforðum sem við gefum Drottni og öðrum, förum við sáttmálsveginn til föður okkar á himnum að nýju og upplifum elsku hans í lífi okkar.

Frelsari okkar, Jesús Kristur, er okkar mikla fordæmi hvað varðar að gera og halda loforð og sáttmála. Hann kom til jarðar með loforð um að gera vilja föðurins. Hann kenndi reglur fagnaðarerindisins í orði og verki. Hann friðþægði fyrir syndir okkar, svo við mættum lifa að nýju. Hann hefur heiðrað öll sín loforð.

Verður það sama sagt um hvert okkar? Hver er hætta þess að svindla örlítið, hrasa örlítið eða standa ekki fyllilega við skuldbindingar okkar? Hvað ef við snúum baki við sáttmálum okkar? Munu aðrir „koma til Krists“ í ljósi okkar fordæmis? Eruð þið bundin orðum ykkar? Að efna loforð er ekki ávani, heldur eiginleiki þess að vera lærisveinn Jesú Krists.

Drottinn, sem ætíð hefur breyskleika okkar í jarðlífinu í huga, lofar: „Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður.“1 Ég hef fundið návist hans þegar ég hafði þörf fyrir fullvissu, huggun, eða aukinn andlegan styrk og skilning og fundið til mikillar auðmýktar og þakklætis fyrir hið guðlega samfélag hans.

Drottinn sagði: „Sérhver sál, sem hverfur frá syndum sínum og kemur til mín og ákallar nafn mitt og hlýðir rödd minni og heldur boðorð mín, mun sjá ásjónu mína og vita að ég er.“2 Þetta er ef til vill endanlegt loforð hans.

Mér lærðist mikilvægi þess að standa við orð mín í æsku. Eitt dæmi um það er þegar ég stóð teinréttur að hermanna sið og þuldi skátaeiðinn. Þótt sambandi okkar ljúki nú við Boy Scouts of America (skátasamtök Bandaríkjanna), mun það alltaf verða mér og kirkjunni mikilvæg arfleifð. Við skátasamtökin, fjölda karla og kvenna sem hafa þjónað ötullega sem skátaleiðtogar, við mæðurnar – sem fá mikið hrós – og við piltana sem hafa tekið þátt í skátastarfinu, segjum við: „Þakka ykkur fyrir.“

Á þessum ráðstefnuhluta kynntu okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, og öldungur Quentin L. Cook, breytingar sem leggja enn frekari áherslu á ungmenni og það að samræma félög okkar, opinberuðum sannleika. Síðastliðinn sunnudag útskýrðu Nelson forseti og M. Russell Ballard forseti að auki hina nýju áætlun fyrir börn og ungmenni í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fyrir allri kirkjunni. Þetta er heimslægt verkefni sem hefur Drottin okkar og frelsara, Jesú Krist, að þungamiðju. Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin eru sameinuð um þessa nýju stefnu og sjálfur ber ég vitni um að Drottinn hefur leiðbeint okkur í þessu við hvert fótmál. Ég hlakka til þess að börn og ungmenni kirkjunnar fái að upplifa þessa samræmdu áherslu á starf þeirra bæði heima og í kirkju – varðandi trúarfræðslu, þjónustu og athafnir, og eigin framþróun.

Ungmennaþema þessa komandi árs, 2020, er hið sígilda loforð Nefís um að „fara og gjöra.“ Hann ritaði: „Og svo bar við, að ég, Nefí, sagði við föður minn: Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið, því að ég veit, að Drottinn gefur mannanna börnum engin fyrirmæli án þess að greiða þeim veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið þeim.“3 Við, í kirkjunni, erum bundin þessu loforði, þótt það hafi verið gefið fyrir löngu síðan.

Að „fara og gera,“ merkir að rísa ofar leiðum heimsins, taka á móti og bregðast við persónulegri opinberun, lifa réttlátlega í von og trú á framtíðina, gera og halda sáttmála um að fylgja Jesú Kristi og auka þannig elsku okkar til hans, frelsara heimsins.

Sáttmáli er tvíhliða loforð á milli okkar og Drottins. Við, sem meðlimir kirkjunnar, gerum sáttmála við skírn um að taka á okkur nafn Jesú Krists, að lifa eins og hann lifði. Við gerum sáttmála, líkt og þeir gerðu sem skírðir voru við Mormónsvötn, um að verða fólk hans, „að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar, … að syrgja með syrgjendum, … hugga þá sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar.“4 Þjónusta okkar við hvert annað í kirkjunni endurspeglar skuldbindingu okkar um að heiðra einmitt þessi loforð.

Þegar við meðtökum sakramentið, endurnýjum við þann sáttmála að taka á okkur nafn hans og lofum ennfremur að gera betur. Daglegar hugsanir okkar og verk, bæði stór og smá, endurspegla skuldbindingu okkar við hann. Hið helga loforð hans og endurgjald er: „Ef þér hafið mig ávallt í huga, skal andi minn ætíð vera með yður.“5

Spurning mín í dag er hvort við höldum loforð og sáttmála okkar eða er sú skuldbinding gerð hálfshugar af léttúð og verður því auðveldlega vanrækt? Þegar við segjum við einhvern: „Ég mun biðja fyrir þér,“ gerum við það þá? Þegar við skuldbindum okkur: „Ég mun vera þar til hjálpar,“ verðum við það þá? Þegar við skuldbindum okkur til greiðslu skuldar, gerum við það þá? Þegar við réttum upp hönd til stuðnings meðlimi í nýrri köllun, sem þýðir að veita stuðning, gerum við það þá?

Kvöld eitt á æskuárum mínum, sat móðir mín með mér á rúmbríkinni og talaði innilega um mikilvægi þess að lifa eftir Vísdómsorðinu. „Af reynslu annarra,“ sagði hún, „hef ég í mörg ár vitað að það dregur úr andríki og næmni að lifa ekki eftir Vísdómsorðinu.“ Hún horfði beint í augu mér og þessi orð hennar festu rætur í hjarta mér: „Lofaðu mér í dag, Ronnie (hún kallaði mig Ronnie), að þú munir alltaf lifa eftir Vísdómsorðinu.“ Ég lofaði henni því hátíðlega og hef haldið það loforð öll þessi ár.

Sú skuldbinding kom sér vel í æsku minni og á seinni árum, þegar ég var í viðskiptasamböndum þar sem vímuefni streymdu frjálst. Ég tók mikilvæga ákvörðun löngu áður um að fylgja lögmálum Guðs og ég þurfti aldrei að endurskoða hana. Drottinn sagði: „Ég, Drottinn, er bundinn þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð.“6 Hvað er hann að segja við þá sem halda Vísdómsorðið? Að við munum hafa loforð um góða heilsu, styrk, visku, þekkingu og engla okkur til verndar.7

Fyrir nokkrum árum vorum ég og systir Rasband í Salt Lake musterinu til að innsigla eina dætra okkar. Þegar við stóðum fyrir utan musterið með yngri dóttur okkar, sem enn var of ung til að taka þátt í athöfninni, ræddum við um mikilvægi þess að vera innsigluð í hinu helga musteri Guðs. Eins og móðir mín hafði kennt mér mörgum árum áður, sögðum við við dóttur okkar: „Við viljum að þú sért örugglega innsigluð í musterinu og að þú lofir, þegar þú finnur hinn eilífa félaga þinn, að þú einsetjir þér að eiga við hann mót í musterinu til að innsiglast.“ Hún lofaði okkur því.

Ljósmynd
Dóttir öldungs Rasband og eiginmaður hennar

Frá því að þetta gerðist, hefur hún sagt að orð okkar og loforð hennar hafi verndað hana og minnt á „það sem mikilvægast var.“ Síðar gerði hún helga sáttmála, er hún var innsigluð eiginmanni sínum í musterinu.

Nelson forseti kenndi: „Við styrkjumst … í krafti frelsarans í lífi okkar þegar við gerum helga sáttmála og höldum þá sáttmála af nákvæmni. Sáttmálar okkar binda okkur við hann og veita okkur guðlegan kraft.“8

Þegar við höldum loforð okkar við hvert annað, erum við líklegri til að halda loforð okkar við Guð. Munið orð Drottins: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“9

Hugleiðið með mér dæmi um loforð í ritningunum. Ammon og synir Mósía í Mormónsbók bundu sig því að „boða … Guðs orð.“10 Þegar Ammon var tekinn höndum af her Lamaníta, var hann færður fyrir Lamoní, konung Lamaníta. Hann lofaði konunginum: „Ég vil vera þjónn þinn.“11 Þegar ræningjar komu til að stela sauðum konungs, hjó Ammon af þeim handleggina. Konungur varð svo bergnuminn að hann hlustaði á boðskap Ammons um fagnaðarerindið og tók trú.

Rut, í Gamla testamentinu, lofaði tengdamóður sinni: „Hvert sem þú fer, þangað fer ég.“12 Hún stóð við orð sín. Miskunnsami Samverjinn, í dæmisögu Nýja testamentisins, gaf eiganda gistiheimilisins þetta loforð, ef hann annaðist um hinn særða ferðamann: „Það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.“13 Sóram, í Mormónsbók, lofaði að fara út í óbyggðirnar með Nefí og bræðrum hans. Nefí ritaði: „Er Sóram hafði svarið okkur eið, óttuðumst við hann ei lengur.“14

Hvað með hin fornu loforð sem sagt er frá í ritningunum er „feðrunum voru gefin,“ um að „hjörtu barnanna munu snúa til feðra sinna“?15 Í fortilverunni, þegar við völdum að fylgja áætlun Guðs, lofuðum við að hjálpa við samansöfnun Ísraels báðum megin hulunnar. „Við gengum í samstarf við Drottin,“ útskýrði öldungur John A. Widtsoe fyrir mörgum árum. „Framkvæmd áætlunarinnar varð þannig ekki aðeins verk föðurins og frelsarans, heldur líka okkar verk.16

„Samansöfnunin er mikilvægasta starfið á jörðu í dag,“ sagði Nelson forseti á ferð sinni um heiminn. „Þegar við tölum um samansöfnunina, erum við einfaldlega að staðhæfa þennan sannleika: Öll börn okkar himneska föður, báðum megin hulunnar, verðskulda að hlýða á boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists.“17

Sem postuli Drottins Jesú Krists, lýk ég með boði og loforði. Fyrst er það boðið: Ég býð ykkur að íhuga loforðin og sáttmálana sem þið gerið við Drottin og við aðra, af mikilli ráðvendni, meðvituð um að þið eruð bundin orðum ykkar. Síðan lofa ég, ef þið gerið þetta, að Drottinn mun staðfesta orð ykkar og helga verk ykkar, er þið reynið af ótrauðri kostgæfni að bæta líf ykkar og fjölskyldu ykkar og byggja upp Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann mun vera með ykkur, kæru bræður og systur og af fullvissu getið þið litið fram til þess að „tekið [verði] á móti [ykkur] á himni, og [þið fáið] dvalið með Guði í óendanlegri sælu …, því að Drottinn Guð hefur talað það.“18

Um þetta vitna ég og lofa, í nafni Jesú Krists, amen.