2010–2019
Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf
Apríl 2018


Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf

Á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.

Hve dásamleg forréttindi það eru að fagna páskum með ykkur á þessum sunnudegi á aðalráðstefnu! Ekkert á betur við en að fagna mikilvægasta atburði sem gerst hefur á þessari jörðu, með því að tilbiðja þá mikilvægustu veru sem á jörðu hefur gengið. Í þessari kirkju, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, tilbiðjum við hann, sem gerði sína óendanlegu friðþægingu að veruleika í Getsemanegarðinum. Hann var fús til að þjást fyrir syndir og veikleika sérhvers okkar, sem olli slíkum sársauka að „blóð draup úr hverri svitaholu.“1 Hann var krossfestur á Golgatahæð2 og reis upp á þriðja degi, sem fyrsta upprisna veran af börnum okkar himneska föður. Ég elska hann og ber vitni um að hann lifir! Það er hann sem leiðir kirkju sína.

Án hinnar altæku friðþægingar frelsara okkar, væri engin von til þess að nokkurt okkar kæmist aftur til himnesks föður. Án upprisu hans, væri dauðinn endalokin. Friðþæging frelsarans gerði eilíft líf og ódauðleika að veruleika fyrir okkur öll.

Það er sökum óviðjafnanlegs hlutverks hans og friðarins sem hann veitir fylgjendum sínum, að ég og eiginkona mín, Wendy, fundum huggun 2. janúar 2018, er við vorum vakinn upp af símhringingu og sagt að Thomas S. Monson forseti hefði farið í gegnum huluna.

Ljósmynd
RussellM. Nelson forseti og Thomas S. Monson forseti

Hve við söknum Monsons forseta! Við heiðrum líf hans og arfleifð. Hann var andlegur risi og hafði varanleg áhrif á alla sem þekktu hann og kirkjuna sem hann elskaði.

Sunnudaginn 14. janúar, í efri sal musterisins í Salt Lake, var Æðsta forsætisráðið endurskipulagt að einfaldri og helgri forskrift, sem Drottinn kom á fót. Á hátíðarfundi gærdagsins staðfestu kirkjumeðlimir um heim allan með handauppréttingu, undangengna framkvæmd postulanna. Ég er afar þakklátur fyrir stuðning ykkar.

Ég er líka þakklátur fyrir að byggja á reynslu fyrirrennara minna. Ég hef notið þeirra forréttinda að þjóna í Tólfpostulasveitinni í 34 ár og þekkja persónulega 10 af 16 fyrrverandi forsetum kirkjunnar. Ég hef lært margt af hverjum þeirra.

Ég á fyrirrennurum mínum líka margt að þakka. Allir langafar og langömmur mínar, átta að tölu, skírðust í kirkjuna í Evrópu. Sérhver þessara trúföstu sálna fórnaði öllu til að komast til Síon. Ekki urðu þó allir áar eftirkomandi kynslóða svo trúfastir. Af þessu leiddi að ég ólst ekki upp á trúarmiðuðu heimili.

Ljósmynd
Foreldrar Nelsons forseta
Ljósmynd
Fjölskylda Nelsons á yngri árum

Ég dáði foreldra mína. Þau voru mér afar dýrmæt og af þeim lærði ég mikilvægar lexíur. Ég fæ þeim ekki nógsamlega þakkað fyrir hið gleðiríka heimili sem þau bjuggu mér og systkinum mínum. Mér fannst samt eitthvað vanta þegar ég var drengur. Dag einn stökk ég upp í sporvagn og fór í bókabúð SDH, til að verða mér úti um bók um kirkjuna. Ég hafði unun af því að læra um fagnaðarerindið.

Þegar ég vaknaði til vitundar um Vísdómsorðið, vildi ég að foreldrar mínir lifðu eftir því lögmáli. Ég fór því dag einn niður í kjallara, er ég var afar ungur að árum, og henti öllum vínflöskunum í gólfið, svo þær brotnuðu! Ég gerði ráð fyrir refsingu frá föður mínum, en hann sagði aldrei neitt.

Eftir því sem ég þroskaðist og hlaut skilning á hinni stórbrotnu áætlun himnesks föður, sagði ég oft við sjálfan mig: „Ég vil ekki fleiri jólagjafir! Ég vil bara innsiglast foreldrum mínum.“ Sá langþráði atburður gerðist ekki fyrr en foreldrar mínir voru yfir áttrætt og þá gerðist hann vissulega. Ég fæ ekki nógsamlega tjáð gleðina sem ég upplifði þann dag3 og dag hvern upplifi ég gleði innsiglunar þeirra og innsiglun mína til þeirra.

Ljósmynd
Russell og Dantzel Nelson

Árið 1945, er ég var í læknanámi, giftist ég Dantzel White í musterinu í Salt Lake. Við vorum blessuð með níu dásamlegum dætrum og einum dýrmætum syni. Í dag er mín stöðugt stækkandi fjölskylda mesta gleði lífs míns.

Ljósmynd
Forseti og systir Nelson og dætur þeirra
Ljósmynd
Nelson forseti og sonur hans

Árið 2003, eftir nærri 60 ára hjónaband, var mín ástkæra Dantzel óvænt kölluð heim. Um tíð var sorg mín næstum yfirþyrmandi. Boðskapur páskanna og loforðið um upprisu veittu mér þó hughreystingu.

Ljósmynd
Wendy og Russell Nelson

Drottinn leiddi síðan Wendy Watson til mín. Við innsigluðumst í Salt Lake musterinu 6. apríl 2006. Hve heitt ég elska hana! Hún er einstök kona – mér til mikillar blessunar, fjölskyldunni og allri kirkjunni.

Allar þessar blessanir hafa hlotist af því að leita og hlusta eftir innblæstri heilags anda. Lorenzo Snow forseti sagði: „Megin forréttindi allra Síðari daga heilagra … er sá réttur að hljóta dag hvern staðfestingu andans í lífi okkar.“4

Eitt af því sem andinn hefur ítrekað vakið upp í huga mínum, frá því að ég hlaut hina nýju köllun sem forseti kirkjunnar, er hve fús Drottinn er að opinbera vilja sinn. Þau forréttindi að taka á móti opinberun eru ein æðsta gjöf Guðs til barna sinna.

Drottinn mun liðsinna okkur í allri okkar réttlátu breytni, með staðfestingu heilags anda. Ég man eftir því að hafa staðið yfir sjúklingi í skurðstofu – óviss um hvernig ég ætti að framkvæma aðgerð sem hafði aldrei verið gerð áður – og séð fyrir mér í huganum aðferðina sem heilagur andi ætlaði mér að beita.5

Til að gera bónorð mitt áhrifaríkara til Wendy, sagði ég við hana: „Ég þekki opinberun og veit hvernig á að hljóta hana.“ Henni til hróss – og sem mér hefur lærst að er dæmigert fyrir hana – þá hafði hún þegar sóst eftir og hlotið eigin opinberun um okkur, sem efldi henni þrótt til að taka bónorði mínu.

Ég bað daglega um opinberun, sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar og færði þakkir í hvert sinn sem hann talaði í hjarta mitt og huga.

Hugsið ykkur hve undursamlegt það er! Hver sem kirkjuköllun okkar er, getum við beðið til himnesks föður og hlotið leiðsögn og handleiðslu, aðvaranir um hættur og truflanir og fengið áorkað því sem við einfaldlega gætum ekki einsömul. Ef við munum sannlega taka á móti heilögum anda og læra að greina og skilja innblástur hans, munum við hljóta leiðsögn í stóru sem smáu.

Þegar ég stóð nýverið frammi fyrir því óárennilega verkefni að velja tvo ráðgjafa, velti ég fyrir mér hvernig ég gæti mögulega valið tvo af tólf mönnum sem ég elska og virði.

Þar sem mér er ljóst að fullnægjandi innblástur byggist á góðum upplýsingum, átti ég persónulegt viðtal við hvern postulanna.6 Ég lokaði mig síðan einn af í herbergi í musterinu og leitaði vilja Drottins. Ég ber vitni um að Drottinn bauð mér að velja Dallin H. Oaks forseta og Henry B. Eyring forseta til að þjóna sem ráðgjafar mínir í Æðsta forsætisráðinu.

Á sama hátt ber ég líka vitni um að Drottinn veitti innblástur um að kalla skildi öldung Gerrit W. Gong og öldung Ulisses Soares til að vígjast sem postula sína. Ég býð þá velkomna í þetta einstaka bræðralag þjónustu.

Þegar við eigum samfund sem Ráð Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar, verður fundarherbergi okkar staður opinberunar. Andinn er áþreifanlega fyrir hendi. Þegar við glímum við erfið málefni, á sér stað dásamlegt ferli, þar sem hver postuli tjáir frjálslega hugsanir sínar og skoðanir. Þótt okkur kunni upphaflega að greina á, er kærleikurinn stöðugur sem við berum til hvers annars. Einingin á milli okkar auðveldar okkur að greina vilja Drottins fyrir kirkju hans.

Á fundum okkar er það aldrei meirihlutinn sem hefur síðasta orðið! Við hlustum af kostgæfni hver á annan og ræðum saman þar til við erum sameinaðir. Þegar við síðan höfum náð algjörum samhug, eru hin samstillandi áhrif heilags anda ákaflega unaðsleg! Við upplifum það sem spámaðurinn Joseph Smith vissi er hann kenndi: „Fyrir sameiningarkennd hljótum við kraft með Guði.“7 Enginn meðlimur Æðsta forsætisráðsins eða Tólfpostulasveitarinnar, myndi nokkurn tíma taka ákvörðun fyrir kirkju Drottins byggða á eigin bestu dómgreind!

Bræður og systur, hvernig getum við orðið þeir karlar og konur – þeir kristilegu þjónar – sem Drottinn vill að við verðum. Hvernig getum við fundið svör við spurningum sem okkur finnast flóknar? Ef við getum lært eitthvað af hinni óviðjafnanlegu upplifun Josephs Smith í Lundinum helga, er það að himnarnir eru opnir og Guð talar til barna sinna.

Spámaðurinn Joseph Smith setti fordæmi fyrir okkur við úrlausn áhyggjuefna okkar. Knúinn af loforði Jakobs, um að við getum spurt Guð, ef okkur skortir visku, fór drengurinn Joseph beint til himnesks föður með bænarefni sitt.8 Hann leitaði persónulegrar opinberunar og leit hans lauk upp þessari síðustu ráðstöfun.

Hverju mun leit ykkar ljúka upp fyrir ykkur, á líkan hátt hvað ykkur varðar? Hver er sú viska sem ykkur skortir? Hvaða mál er það sem ykkur finnst þið knúin til að leita þekkingar á? Fylgið fordæmi spámannsins Josephs. Finnið kyrrlátan stað, sem þið getir farið reglulega á. Auðmýkið ykkur fyrir Guði. Úthellið hjarta ykkar frammi fyrir himneskum föður. Snúið ykkur til hans eftir handleiðslu og huggun.

Biðjið í nafni Jesú Krists varðandi áhyggjuefni ykkar, ótta, veikleika – já, innstu hjartans þrá. Leggið síðan við hlustir. Skrifið hjá ykkur það sem upp í hugann kemur. Skráið tilfinningar ykkar og fylgið innblæstri ykkar eftir í verki. Ef þið endurtakið þetta ferli dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, munið þið „vaxa inn í reglu opinberunar.“9

Vill Guð í raun tala til ykkar? Já! „Eins vel gæti maðurinn rétt fram veikan arm sinn til að stöðva markað rennsli Missouri-fljótsins eða snúa straumi þess í gagnstæða átt, eins og að koma í veg fyrir að almættið úthelli þekkingu frá himni yfir höfuð síðari daga heilagra.“10

Þið þurfið ekki að velkjast í vafa um hið sanna.11 Þið þurfið ekki að velta fyrir ykkur hverjum má örugglega treysta. Fyrir tilstilli persónulegrar opinberunar, getið þið sjálf hlotið staðfestingu á því að Mormónsbók sé orð Guðs, að Joseph Smith sé spámaður og að þetta sé kirkja Drottins. Burt séð frá því hvað aðrir gætu eða gætu ekki sagt, þá getur engin afmáð vitnisburð um sannleika sem staðfestur er í hjarta og huga.

Ég hvet ykkur eindregið til að tileinka ykkur aukna andlega hæfni til að meðtaka persónulega opinberun, því Drottinn hefur lofað: „Ef þú munt spyrja, munt þú hljóta opinberun á opinberun ofan, þekking á þekking ofan, svo að þú megir þekkja leyndardómana og hið friðsæla – það, sem færir gleði, það, sem færir eilíft líf.“12

Ó, það er svo ótal margt annað sem himneskur faðir vill að þið vitið. Líkt og öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Þeir sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra, þá er það skýrt að faðirinn og sonurinn eru að leiða fram leyndardóma alheims!“13

Ekkert er áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók14 og reglubundins tíma sem helgaður er musteris- og ættarsögustarfi.

Vissulega mun ykkur stundum finnast sem himininn sé lokaður. Ég lofa ykkur þó því, að ef þið haldið áfram að vera hlýðin, færið þakkir fyrir hverja veitta blessun Drottins og virðið þolinmóð tímasetningar Drottins, mun ykkur veitast sú þekking og vitneskja sem þið leitið að. Sérhver blessun sem Drottinn ætlar ykkur – jafnvel kraftaverk – mun hljótast í kjölfarið. Þetta er það sem persónuleg opinberun mun gera fyrir ykkur.

Ég er bjartsýnn varðandi framtíðina. Hún geymir okkur öllum ótal tækifæri til að þroskast, gefa af okkur og boða fagnaðarerindið um allan heim. Ég er þó ekki ugglaus yfir komandi tíð. Við lifum í heimi sem er flókinn og stöðugt þrætugjarnari. Hin stöðuga viðvera samfélagsmiðla og fréttir allan sólarhringinn, láta vægðarlaust dynja á okkur allskyns skilaboðum. Ef okkur á einhvern veginn að takast að sjá í gegnum ógrynni radda og hugmyndafræði manna sem gera aðför að sannleikanum, verðum við að læra að meðtaka opinberun.

Frelsari okkar og lausnari, Jesús Kristur, mun framkvæma einhver sinna máttugustu verka, frá þessum tíma fram að endurkomu sinni. Við munum sjá undursamlegar vísbendingar um að Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, ríkja yfir þessari kirkju í hátign og dýrð. Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.

Kæru bræður og systur, ég hvet ykkur eindregið til að efla andlegt atgervi ykkar til að hljóta opinberun. Látið þennan páskasunnudag marka upphaf í lífi ykkar. Ákveðið að takast á við hið andlega verk sem þarf til að fá notið gjafar heilags anda og heyrt betur og oftar rödd andans.

Ég hvet ykkur með Moróní á þessum páska- og hvíldardegi að „koma til Krists og höndla hverja góða gjöf“15 og byrja á gjöf heilags anda, sem er gjöf sem getur og mun breyta lífi ykkar.

Við erum fylgjendur Jesú Krists. Mikilvægasti sannleikurinn sem heilagur andi mun nokkurn tíma staðfesta fyrir ykkur, er að Jesús er Kristur, sonur hins lifandi Guðs. Hann lifir! Hann er málsvari okkar hjá föðurnum, fyrirmynd okkar og frelsari. Á þessum páskasunnudegi fögnum við friðþægingu hans, bókstaflegri upprisu og guðleika.

Þetta er hans kirkja, endurreist fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith. Ég ber þessu vitni, með kærleikskveðju til ykkar allra, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.