2010–2019
Innblásin þjónusta
Apríl 2018


Innblásin þjónusta

Við meðtökum heilagan anda best þegar við erum einbeitt í þjónustu okkar við aðra. Af þeirri ástæðu er það okkar prestdæmisábyrgð að þjóna fyrir frelsarann.

Kæru bræður mínir, ég er þakklátur fyrir þau forréttindi að fá að tala til ykkar á þessari sögulegu aðalráðstefnu. Við höfum stutt Russell M. Nelson forseta sem 17. forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þegar ég hef notið þeirrar blessunar að starfa með honum dag hvern, hef ég fundið staðfestingu andans um að Nelson forseti er kallaður af Guði til að leiða hina sönnu kirkju Drottins.

Ég get líka borið vitni um að Drottinn hefur kallað öldung Gerrit W. Gong og öldung Ulisses Soares til að þjóna í Tólfpostulasveitinni. Ég elska og styð þá. Þeir mun blessa aðra víða um heim, um kynslóðir, með þjónustu sinni.

Þessi ráðstefna er líka söguleg af annarri ástæðu. Nelson forseti hefur tilkynnt um innblásið framrásarskref í skipulagsáætlun Drottins fyrir kirkju hans. Það skref felur í sér nýja samsetningu prestdæmissveita í deildum og stikum, svo við fáum betur uppfyllt prestdæmisábyrgð okkar. Allar þær ábyrgðarskyldur hafa að gera með umhyggju prestdæmisins fyrir börnum föður okkar.

Sú ráðagerð Drottins að hinir heilögu veiti kærleiksríka þjónustu, hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Á tíma Nauvoo þurfti spámaðurinn Joseph Smith að finna leið til að sjá fyrir þörfum hinna mörgu snauðu trúskiptinga sem komu til borgarinnar. Langafar og langömmur mínar voru öll meðal þeirra – Eyring-hjónin, Bennion-hjónin, Romney-hjónin og Smith-hjónin. Spámaðurinn skipulagði þessa þjónustu hinna heilögu eftir landssvæðum. Í Illinois var þessi svæðaskipting borgarinnar nefnd „deildir.“

Þegar hinir heilögu fóru yfir slétturnar, var þjónusta þeirra í þágu hvers annars skipulögð í „hópa.“ Einn langafi minn í föðurætt var að koma af trúboði sínu, frá svæði sem nú heitir Oklahoma, þegar hann hitti einn slíkan hóp á slóðinni. Hann og félagi hans lágu á bakinu aðframkomnir af sjúkdómi í litlum vagni.

Hópleiðtoginn sendi tvær stúlkur til að hjálpa hverjum þeim sem gætu verið í þessum vesaldarlega vagni. Önnur þeirra, ung systir sem hafði tekið trú í Sviss, gætti að öðrum trúboðanum og kenndi í brjósti um hann. Honum var bjargað af þessum hópi heilagra. Hann náði sér nægilega til að geta gengið það sem eftir var leiðarinnar til Saltvatnsdalsins, með sinn unga bjargvætt sér við hlið. Þau urðu ástfanginn og giftu sig. Hann varð langafi minn, Henry Eyring, og hún varð langamma mín, Maria Bommeli Eyring.

Mörgum árum síðar, er fólk talaði um hve erfitt hefði verið að flytja þvert yfir meginlandið, sagði hún: „Ó nei, það var ekki erfitt. Á göngu okkar ræddum við mest megnis um hve dásamlegt það væri að við hefðum bæði fundið hið sanna fagnaðarerindi Jesú Krists. Það var gleðilegasti tími sem ég hef upplifað.“

Frá þessum tíma hefur Drottinn notað margvíslegar aðferðir fyrir hina heilögu til að annast hver annan. Nú hefur hann blessað okkur með öflugri og sameinaðri sveitum í deildum og stikum – sveitum sem eiga í samstarfi við öll félög deildar.

Borgaralegar deildir, hópar og styrktar sveitir hafa öll þarfnast tvenns til að vera árangursrík í þeirri viðleitni Drottins að hans heilögu annist hver annan að hans hætti. Árangur næst þegar hinir heilögu finna elsku Krists til hver annars, framar eigin hagsmunum. Ritningarnar segja hana vera „kærleika, … hina hreinu ást Krists“ (Moró 7:47). Árangur næst líka þegar heilagur andi leiðir þann sem þjónar til að vita það sem Drottinn veit að er best fyrir þann sem hann reynir að hjálpa.

Á nýliðnum vikum hafa meðlimir kirkjunnar ótal sinnum komið fram, í návist minni, eins og þeir vissu á einhvern hátt hvað Drottinn hygðist gera, líkt og hefur verið tilkynnt um hér í dag. Ég ætla aðeins að koma með tvö dæmi. Fyrra dæmið er um 14 ára gamlan kennara í Aronsprestdæminu, sem flytur einfalda ræðu á sakramentissamkomu og veit hverju prestdæmishafar geta áorkað í þjónustu sinni við Drottin. Síðara dæmið er um Melkísedeksprestdæmishafa sem hlaut innblástur um að þjóna fjölskyldu af kærleika Krists.

Ég ætla fyrst að vitna í orð piltsins er hann flutti ræðuna á sakramentissamkomu deildar sinnar. Ég var þar viðstaddur. Reynið að gera ykkur í hugarlund hvernig þið voruð 14 ára gamlir og hlustið á hann tjá sig um efni sem piltar á þessum aldri eru yfirleitt ekki svo kunnugir:

„Ég hef virkilega notið þess að vera meðlimur kennarasveitarinnar í deildinni okkar, frá því að ég varð 14 ára. Kennari hefur áfram allar ábyrgðarskyldur djákna, auk ýmissa nýrra

Þar sem sumir okkar eru kennarar og aðrir munu verða það einhvern daginn, og allir í kirkjunni njóta blessana prestdæmisins, er okkur öllum mikilvægt að þekkja betur skyldur kennara.

Í fyrsta lagi segir Kenning og sáttmálar 20:53: ,Skylda kennarans er að vaka stöðugt yfir söfnuðinum, vera með honum og styrkja hann.‘

Í öðru lagi segir Kenning og sáttmálar 20:54–55:

„Sjá um að hvorki tíðkist misgjörðir í kirkjunni, harka í garð hver annars, lygi, rógburður, né illt umtal–

Og sjá um að söfnuðurinn komi oft saman og einnig sjá um að allir meðlimir gegni skyldum sínum.‘“

Ungi maðurinn hélt áfram:

„Drottinn er að segja okkur að það sé ekki aðeins ábyrgð okkar að annast kirkjuna, heldur líka að annast fólkið í kirkjunni að hætti Krists, því þetta er kirkjan hans. Ef við erum að reyna að halda boðorðin, vera góð við hvert annað, vera heiðarleg, vera góðir vinir og njóta þess að vera saman, getum við haft andann með okkur og vitað hvað himneskur faðir vill að við gerum. Ef við gerum það ekki, getum við ekki uppfyllt kallanir okkar.“

Hann hélt áfram og sagði:

„Þegar kennari einsetur sér að sýna gott fordæmi með því að heilsa meðlimum í kirkju, undirbúa sakramentið, hjálpa til á heimilinu og vera friðflytjandi, er hann að velja að heiðra prestdæmið sitt og uppfylla köllun sína.

Að vera góður kennari, er ekki aðeins að vera áreiðanlegur þegar við erum í kirkju eða á kirkjuviðburðum. Páll postuli kenndi: ,Ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika‘ (1 Tím 4:12).“

Ungi maðurinn sagði síðan:

„Hvar sem við erum eða hvað sem við gerum, getum við allsstaðar og öllum stundum verið góð fyrirmynd um réttlæti.

Ég og faðir minn heimiliskennum Brown-fjölskyldunni.1 Í hver sinn sem við förum til þeirra, á ég góðar stundir og kynnist þeim betur. Eitt af því sem ég kann virkilega að meta við Brown-fjölskylduna, er að þau eru alltaf fús til að hlusta í heimsóknum okkar og segja góðar sögur.

Þegar við þekkjum fólkið vel í deildinni, vegna heimiliskennslunnar, er auðveldar að uppfylla næsta skylduverk kennara, sem er að heilsa meðlimum í kirkju. Að hjálpa fólki að finna sig velkomið og meðtekið í kirkju, stuðlar að því að öllum meðlimum deildarinnar finnist þeir elskaðir og reiðubúnir að meðtaka sakramentið.

Eftir að kennarar hafa heilsað þeim sem koma í kirkju, aðstoða þeir hvern sunnudag við undirbúning sakramentis. Ég nýt þess innilega að undirbúa sakramentið og útdeila því í þessari deild, því allir eru svo lotningafullir. Ég finn alltaf fyrir andanum við undirbúning og útdeilingu sakramentis. Það er mér mikil blessun að geta gert það hvern sunnudag.

Sum þjónusta, eins og að útdeila sakramentinu, er fólki sýnileg og það þakkar okkur fyrir hana, en önnur þjónusta, eins og að undirbúa sakramentið, er yfirleitt innt af hendi án eftirtektar. Það er ekki mikilvægt að fólk sjái okkur þjóna; það sem er mikilvægt, er að Drottinn veit þegar við þjónum honum.

Sem kennarar ættum við ætíð að reyna að efla kirkjuna, vini okkar og fjölskyldu, með því að framfylgja prestdæmisábyrgð okkar. Það er ekki alltaf auðvelt, en Drottinn gefur okkur engin boðorð ,án þess að greiða [okkur] veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið [okkur]‘ (1 Ne 3:7).“

Ég hreifst af þroska og visku þess pilts, er hann flutti ræðu sína. Hann sagði að lokum: „Ég veit að við verðum betri, ef við veljum að fylgja [Jesú Kristi].“

Önnur frásögn af prestdæmisþjónustu var sögð fyrir mánuði á sakramentissamkomu deildar. Ég var þar líka viðstaddur. Í þessu tilviki var um að ræða reyndan Melkísedeksprestdæmishafa sem ekki var ljóst að með orðum sínum var hann að lýsa nákvæmlega því sem Drottinn þráir að gerist með eflingu prestdæmissveita. Hér er kjarni frásagnar hans:

Honum og heimiliskennslufélaga hans var falið að þjóna nokkrum fjölskyldum. Næstum allar vildu ekki fá heimsóknir. Þegar heimiliskennararnir fóru til heimila þeirra, var ekki komið til dyra. Þegar þeir hringdu var ekki svaraði í símann. Þegar þeir sendu textaboð var þeim ekki svarað. Þessi reyndi félagi einsetti sér loks að þjóna með bréfaskriftum. Hann byrjaði jafnvel á því að nota skærgul umslög í þeirri von að ná fram viðbrögðum.

Ein fjölskyldnanna var lítt virk einstæð systir, aðflutt frá Evrópu, með tvö ung börn sín.

Eftir margar tilraunir til að hafa samband við hana, bárust honum textaboð. Hún sagði honum fálega að hún hefði of mikið að gera til að hitta heimiliskennara. Hún var í tveimur störfum og var líka í hernum. Aðalstarfið hennar var lögreglustarfið og hún stefndi að því að verða leynilögreglumaður og fara síðan í heimaland sitt og starfa þar.

Heimiliskennara hennar tókst aldrei að ná henni heima. Hann sendi henni textaboð reglulega. Í hverjum mánuði sendi hann henni handskrifað bréf, ásamt hátíðarkorti til hvers barns.

Hann fékk engin viðbrögð. Hún vissi þó hverjir voru heimiliskennarar hennar, hvernig mátti hafa samband við þá og að þeir myndu halda áfram þessari prestdæmisþjónustu.

Dag einn bárust honum loks áríðandi textaboð frá henni. Hún þurfti sárlega á hjálp að halda. Þótt hún þekkti ekki biskupinn, þekkti hún heimiliskennara sína.

Hún þurfti að fara burtu úr fylkinu í mánaðarlanga herþjálfun. Hún gat ekki tekið börnin með sér. Móðir hennar, sem átti að annast börnin, hafði rétt áður flogið til Evrópu til að vera með eiginmanni sínum, sökum heilsufarslegs bráðatilviks.

Þessi lítt virka einstæða systir átti næga peninga til að kaupa flugmiða fyrir yngra barnið til Evrópu, en ekki fyrir hinn 12 ára gamla son sinn, Eric.2 Hún spurði heimiliskennara sinn að því hvort hann gæti fundið góða SDH fjölskyldu til að annast Eric á heimili sínu næstu 30 daga!

Heimiliskennarinn sendi boð til baka um að hann myndi gera sitt besta. Hann hafði síðan samband við prestdæmisleiðtoga sína. Biskupinn, sem var ráðandi háprestur, veitti honum leyfi til að ræða við meðlimi deildarráðs, þar með talið Líknarfélagsforsetann.

Líknarfélagsforsetinn fann fljótlega fjórar góðar SDH fjöskyldur, sem áttu börn á aldri Erics, sem tækju hann að sér viku í senn. Á þessum mánuði önnuðust þessar fjölskyldur Eric, sáu honum fyrir rúmplássi í sínum þröngu húsakynnum, höfðu hann með í fyrirfram ráðgerðu sumarfríi, í kirkju, á fjölskyldukvöldum o.s.frv.

Fjölskyldurnar sem áttu drengi á aldri Eric tóku hann með sér á djáknasveitarfundi og kirkjuviðburði. Á þessum 30 dögum var Eric í kirkju á hverjum sunnudegi í fyrsta sinn á ævinni.

Eftir að móðir Erics kom heim úr þjálfuninni, hélt hann áfram að koma í kirkju, yfirleitt með einni af þessum fjórum SDH fjölskyldum eða öðrum sem höfðu vingast við hann, þar með talið heimsóknarkennurum móður hans. Í tímans rás var hann vígður til djákna og tók að útdeila sakramentinu reglubundið.

Við skulum nú ræða um mögulega framtíð Erics. Það mun ekki koma okkur á óvart ef hann verður leiðtogi í kirkjunni í heimalandi móður sinnar, þegar fjölskyldan fer þangað aftur – allt vegna heilagra sem unnu saman í einingu, undir leiðsögn biskups, að því að þjóna af kærleika hjartans og með krafti heilags anda.

Við vitum að kærleikur er okkur nauðsynlegur til að verða hólpinn í Guðs ríki. Moróní ritaði: „Eigið þér ekki kærleik, getið þér á engan hátt orðið hólpnir í Guðs ríki“ (Moró 10:21; sjá einnig Eter 12:34).

Við vitum líka að kærleikur er gjöf sem okkur veitist að afloknu öllu sem við getum gjört. „Biðjið þess vegna til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists“ (Moró 7:48).

Mér virðist við meðtaka heilagan anda best þegar við erum einbeitt í þjónustu okkar við aðra. Af þeirri ástæðu er það okkar prestdæmisábyrgð að þjóna fyrir frelsarann. Þegar við helgum okkur þjónustu við aðra, hugsum við minna um okkur sjálfa og heilagur andi á greiðari aðgang að okkur, til að liðsinna okkur í okkar ævilangri viðleitni að keppa að því að hljóta gjöf kærleika.

Ég ber vitni um að Drottinn hefur þegar tekið stórt framrásarskref í þeim tilgangi að gera okkur jafnvel enn innblásnari og kærleiksríkari í prestdæmisþjónustu okkar. Ég er þakklátur fyrir kærleika hans, sem hann veitir okkur svo ríkulega. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Nafni hefur verið breytt.

  2. Nafni hefur verið breytt.