2010–2019
Vera með þeim og styrkja þau
Apríl 2018


Vera með þeim og styrkja þau

Bæn okkar í dag er sú að sérhver karl og kona einsetji sér eftir þessa aðalráðstefnu að veita hvert öðru kærleiksríkari umhyggju.

Svo ég umorði það sem Ralph Waldo Emerson sagði: Minnisstæðustu stundir lífsins eru þegar við upplifum streymi opinberana.1 Nelson forseti, ég veit ekki hve mikið „streymi“ við fáum höndlað þessa helgi. Sum okkar eru hjartaveik. Sú hugsun læðist þó að mér að þú getir lagað það líka. Hvílíkur spámaður!

Í anda hinna dásamlegu yfirlýsinga og vitnisburðar Nelsons forseta, bæði í gær og í dag, bæti ég mínum vitnisburði við, um að þessar breytingar eru enn eitt dæmið um þær opinberanir sem þessi kirkja hefur notið allt frá upphafi. Þær bera líka vitni um að Drottinn er að hraða verki sínu á þessum tímum.2

Allir þeir sem hafa áhuga á að kynna sér betur þessi málefni, skulu vinsamlega gæta að því að þegar þessari samkomu lýkur, mun ferli fara í gang þar sem sent verður út bréf frá Æðsta forsætisráðinu til allra meðlima kirkjunnar, sem við höfum netföng hjá, ekki þó endilega í þessari röð. Sjö síðna skjal með spurningum og svörum verður viðfest sem viðhengi, ætlað öllum leiðtogum prestdæmis og aðildarfélaga. Loks má geta þess að þessi gögn verða þegar í stað sett upp á ministering.LDS.org. „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna.“3

Ég sný mér nú að því dásamlega verkefni sem Russell M. Nelson forseti hefur falið mér og systur Jean B. Bingham. Bræður og systur, eftir því sem starf sveita og aðildarfélaga þróast innan stofnunarinnar – mun það leiða til persónulegs þroska okkar sjálfra – og hvert okkar rís ofar vélrænum og tilfinningalausum vinnubrögðum, upp að þeim kærleiksríka lærisveinsdómi sem frelsarinn lýsti er dró að lokum jarðneskrar þjónustu hans. Þegar hann bjóst til þess að yfirgefa sína græskulausu og nokkuð ráðviltu fáu fylgjendur, þuldi hann ekki yfir þeim einhverjar stjórnsýsluskyldur eða fékk þeim handfylli skýrslna til að fylla út í þríriti. Nei, með einu mikilvægu boðorði sagði hann þeim hvert ábyrgðarverk þeirra var: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. … Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“4

Í þeirri viðleitni að gera þetta boðorð fagnaðarerindisins virkara meðal okkar, munu hinar nýkynntu breytingar á þjónustu prestdæmis og Líknarfélags hafa að geyma m.a. eftirfarandi þætti, sem Líknarfélagið hefur þegar tileinkað sér með góðum árangri.5

  • Við munum ekki lengur nota tungumál heimilis- og heimsóknarkennslu.Það er að nokkru vegna þess að þjónusta okkar mun að miklu leyti eiga sér stað utan heimilis og að nokkru vegna þess að þjónustusamband verður ekki skilgreint með undirbúningi lexíu og kennslu, þótt vissulega megi kenna lexíu, ef þörf þykir. Megin tilgangur þjónustunnar verður, eins og sagt var um fólkið á tíma Alma, að „[vaka] yfir fólki … og [næra] það á öllu, sem réttlætið snertir.“6

  • Við munum halda áfram að heimsækja fólk eins og mögulegt er, en aðstæður á heimasvæðum, svo sem mikill fólksfjöldi, miklar fjarlægðir, persónulegt öryggi og aðrir fyrirbyggjandi þættir, geta aftrað því að öll heimili séu heimsótt í hverjum mánuði. Æðsta forsætisráðið leiðbeindi fyrir mörgum árum: Gerið ykkar besta.7 Auk hinna raunverulegu heimsókna, og hvenær sem þið skipuleggið þær, má í þeirra stað hringja, skrifa orðsendingar, senda textaboð, tölvupósta, spjalla saman í myndútsendingu, tala saman á kirkjufundum, starfa saman að þjónustuverkefnum, fara saman á félagslegar athafnir og ótal margt annað í heimi samfélagsmiðla. Ég bendi þó eindregið á að þetta nýja víða fyrirkomulag, felur ekki í sér það hryggilega viðhorf sem ég las nýlega á bílstuðaralímmiða. Þar sagði: „Ef ég flauta, hefur þér verið heimiliskennt.“Gætið vinsamlega að því, bræður (systurnar myndu aldrei gera sig sekar um slíkt – ég beini máli mínu til bræðranna í kirkjunni), að með þessum breytingum, viljum við aukna umhyggju, en ekki minni.

  • Mér finnst ég skynja fát meðal ykkar yfir því hvað tekið verður gilt á skýrslunni, vegna þessa nýja trúarmiðaða þjónustufyrirkomulags. Verið alveg slakir, því það er engin skýrsla – allavega ekki skýrslan á síðasta degi mánaðar: „Ég náði að reka inn nefið á síðustu mínútu, síðasta dags mánaðar.“ Við reynum líka að bæta okkur í þessu. Eina skýrslan sem verður gerð eru þau viðtöl sem leiðtogar höfðu við þjónustufélaga deildar sinnar þann ársfjórðunginn. Svo einfalt sem þetta nú hljómar, vinir mínir, þá eru þessi viðtöl algjörlega nauðsynleg. Án upplýsinganna sem þar koma fram, mun viðkomandi biskupi engan veginn mögulegt að vita af andlegu og stundlegu ástandi fólksins síns. Gætið að þessu: Þjónustubræður eru fulltrúar biskupsráðs og forsætisráðs öldungasveitar, en koma ekki í þeirra stað. Lyklar biskups og öldungasveitarforseta ná langtum lengra en þessi þjónustuáætlun.

  • Þar sem þessi skýrsla er ólík öllum öðrum sem þið hafið áður sent, undirstrika ég að við í höfðustöðvum kirkjunnar þurfum ekki að vita hvernig eða hvar eða hvenær þið höfðuð samband við fólkið ykkar. Það skiptir okkur hins vega máli að þið gerið það og blessið það á alla mögulega vegu.

Bræður og systur, við, sem er öll kirkjan, höfum himneskt tækifæri til að sýna „[hreina og flekklausa] guðrækni fyrir Guði“8 – „að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar“ og „hugga þá, sem huggunar þarfnast,“9 að þjónusta ekkjur og munaðarlausa, gifta og ógifta, styrka og óstyrka, þjakaða og óþjakaða, hamingjusama og hnuggna – eða með öðrum orðum, okkur öll, sérhvert okkar, því við höfum öll þörf fyrir ljúfa vináttuhönd og yfirlýst orð óhagganlegrar trúar. Ný skilgreining, meiri sveigjanleiki og færri skýrslur koma þó hreint engu til leiðar í þjónustu okkar, ef við tökum þessu ekki sem boði um að annast hvert annað á ákveðnari og helgari hátt, líkt og Nelson forseti var að segja. Þegar við ljúkum upp okkar andlegu augum og lifum betur eftir kærleikslögmálinu, mun það vera virðingarvottur þeim kynslóðum sem þannig hafa árum saman þjónað. Ég ætla að segja sögu um slíka trú, í von um að margir munu hlíta því boði Drottins að „vera með … og styrkja“10 bræður okkar og systur.

Á sunnudegi, 14. janúar síðastliðinn, klukkan rúmlega fimm síðdegis, voru ungir vinir mínir, Brett og Kristin Hamblin að spjalla saman á heimili sínu í Tempe, Arisóna, eftir að Brett hafði þjónað í biskupsráðinu þann daginn og Kristin verið önnum kafin við að annast börnin þeirra fimm.

Kristin, sem virtist hafa náð sér á strik eftir brjóstakrabbamein árinu áður, féll nú skyndilega niður hreyfingarlaus. Eftir að hringt hafði verið í hjálparlínuna, komu bráðaliðar og reyndu hvað þeir gátu að vekja hana til lífs. Í ákafri bænarangist hringdi Brett snöggvast tvö önnur símtöl. Annað í móður sína, til að biðja hana um hjálp við börnin, hitt í Edwin Potter heimiliskennara sinn. Síðara símtalið hljómaði nákvæmlega svona:

Edwin, sem sá nafn Bretts birtast í símanum, sagði: „Hæ Brett, hvað er títt?“

Brett hrópaði næstum: „Ég þarf á þér að halda – núna!“

Á færri mínútum en Brett fékk skynjað, var prestdæmisfélaginn við hlið hans, að aðstoða bróður Hamblin við börnin og síðan að aka honum á sjúkrahúsið, á eftir sjúkrabílnum sem flutti eiginkonu hans. Þar, innan 40 mínútna eftir að hún hafði misst meðvitund, lýstu læknarnir Kristinu látna.

Brett féll í grát og Edwin tók utan um hann og grét með honum – vel og lengi. Edwin fór síðan frá Brett, gaf honum svigrúm til að syrgja með öðrum í fjölskyldunni sem komið höfðu saman og ók til heimilis biskupsins, til að segja honum tíðindin. Hinn dásamlegi biskup fór rakleiðis á sjúkrahúsið á meðan Edwin ók til heimilis Hamblin-fjölskyldunnar. Þar höfðu hann og eiginkona hans, Charlotte, sem líka kom rakleiðis, ofan af fyrir hinum 3 til 12 ára móðurlausu börnum. Þau gáfu þeim kvöldmat, höfðu óundirbúna tónlistarstund og hjálpuðu þeim í háttinn

Brett sagði síðar við mig: „Merkilegasti hluti sögunnar er ekki sá að Edwin koma þegar ég hringdi. Það er alltaf til fólk sem fúst er að hjálpa í neyðartilvikum. Nei, merkilegast er að mér skildi einmitt verða hugsað til hans. Það voru fleiri sem hægt var að hringja í. Kristin átti bróður og systur sem voru innan við fimm kílómetra í burtu. Við höfum dásamlegan biskup, þann besta. Sambandið á milli mín og Edwins var hins vegar slíkt að mér fannst ég strax þurfa að hringja í hann eftir hjálp. Kirkjan sér okkur fyrir föstu skipulagi til að lifa betur eftir öðru boðorðinu – að elska, þjóna og styrkja sambandið við bræður okkar og systur, sem eykur nálægð okkar við Guð.“11

Edwin sagði um þessa reynslu: „Öldungur Holland, kaldhæðnin í þessu öllu er sú að Brett hefur verið heimiliskennari fjölskyldu okkar lengur en ég hef verið hans. Í tímans rás hefur hann heimsótt okkur meira sem vinur en af skyldu. Hann hefur verið afar góð fyrirmynd, ímynd hins virka og góða prestdæmishafa.Eiginkona mín, drengirnir okkar – við sjáum hann ekki sem þann sem rak skylda til að færa okkur boðskap í lok mánaðar. Við sáum hann sem vin, er átti heima neðar í götunni, handan við hornið, sem hefði gert hvaðeina til að blessa okkur. Ég gleðst yfir að hafa getað endurgoldið honum einungis lítinn hluta þess sem hann á skilið frá mér.“12

Bræður og systur, ég hylli með ykkur sérhvern kennara, í deild, heimilis- og heimsóknarkennara, sem hefur elskað og þjónað svo trúfastlega í gegnum sögu okkar. Við biðjum þess í dag, að sérhver karl og kona – og eldri piltar og stúlkur – einsetji sér eftir þessa aðalráðstefnu að veita hvert öðru kærleiksríka umhyggju, sem einungis á rætur í hinni hreinu ást Krists. Burt séð frá því hvað við teljum vera annmarka okkar og ófullkomleika – og öll höfum við eitthvað að glíma við – þá skulum við samt starfa saman með Drottni á vínakrinum13 og rétta Guði, föður okkar allra, hjálparhönd í því mikla verki hans að svara bænum, veita huggun, þerra tár og styrkja vanmáttug hné.14 Ef við gerum það, verðum við líkari sönnum lærisveinum Krists, sem okkur er ætlað að vera. Megum við, á þessum páskasunnudegi, elska hvert annað, sem hann hefur elskað okkur,15 sem er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.