2010–2019
Spámenn tala með krafti heilags anda
Apríl 2018


Spámenn tala með krafti heilags anda

Það að hafa spámann er tákn um kærleika Guðs til barna sinna. Þeir opinbera loforðin og hið sanna eðli Guðs og Jesú Krists.

Kæru bræður og systur, hvar sem þið kunnið að vera, mig langar að tjá einlægt og djúpt þakklæti mitt fyrir að veita mér stuðning ykkar í gær. Þótt mér finnist ég ófullnægjandi og ekki orðfimur, líkt og Móse, þá finn ég hughreystingu í orðum Drottins til hans:

„Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það?

Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla“ (2 Mós 4:11–12; sjá einnig vers 10).

Ég finn einnig huggun í ást og stuðningi ástkærrar konu minnar. Hún hefur verið fordæmi góðmennsku, kærleika og algerrar tryggðar við Drottin, fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég elska hana af öllu mínu hjarta og er þakklátur fyrir þau jákvæðu áhrif sem hún hefur haft á okkur.

Bræður og systur, ég vil bera ykkur vitni um að Russell M. Nelson forseti er spámaður Guðs á jörðu. Ég hef aldrei séð nokkurn vingjarnlegri eða kærleiksríkari en hann. Þó að mér finnist ég þess ekki umkominn að taka við þessari heilögu köllun þá fannst mér ég vera umfaðmaður af elsku frelsarans, með orðum hans og ljúfu augnarráði er hann veitti mér þessa ábyrgð. Þakka þér, Nelson forseti. Ég styð þig og ann þér.

Er það ekki blessun að hafa spámenn, sjáendur og opinberara á jörðinni á þessum dögum sem við lifum á, sem leitast við að vita vilja Drottins og fylgja honum. Það er huggandi að vita að við erum ekki ein í heiminum, þrátt fyrir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Það að hafa spámann er tákn um kærleika Guðs til barna sinna. Þeir opinbera fólkinu loforðin og hið sanna eðli Guðs og Jesú Krists. Ég hef lært þetta í gegnum persónulega reynslu mína.

Fyrir átján árum síðan fengum við kona mín símtal frá James E. Faust, forseta, sem var þá annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. Hann kallaði okkur til að þjóna sem trúboðsforseti og félagi hans, í Portúgal. Hann sagði okkur að við hefðum einungis sex vikur áður en við hæfum trúboðið. Þó að okkur fyndist við óundirbúin og óhæf, þá tókum við kölluninni. Mesta áhyggjuefni okkar á þeim tíma, var að verða okkur úti um vegabréfsáritunina sem var nauðsynleg til að þjóna í því landi, því að okkur skildist, af fyrri reynslu, að þetta ferli tæki sex til átta mánuði.

Faust forseti spurði okkur þá hvort að við hefðum trú á að Drottinn myndi framkvæma kraftaverk og að við gætum leyst þetta vandamál með vegabréfsáritunina hraðar. Svar okkar var hiklaust „já“ og við hófum undirbúninginn samstundis. Við undirbjuggum þá pappíra sem þurfti fyrir áritunina, tókum börnin okkar þrjú og fórum til ræðismannsskrifstofunnar eins fljótt og við gátum. Mjög vingjarnleg kona tók á móti okkur þar. Þegar hún skoðaði pappírana okkar og kynnti sér hvað það væri sem við værum að fara að gera í Portúgal, snéri hún sér að okkur og spurði: „Ætlið þið virkilega að aðstoða fólkið í landinu mínu?“ Við svöruðum ákveðið „já“ og útskýrðum að við yrðum fulltrúar Jesú Krists og myndum vitna um hann og guðlegt verk hans í heiminum. Við komum svo aftur tilbaka eftir fjórar vikur, náðum í áritanirnar okkar og lentum á trúboðsakrinum innan þessarra sex vikna, eins og spámaður Drottins hafði beðið okkur að gera.

Bræður og systur, af hjartans einlægni ber ég vitni um að spámennirnir tala fyrir kraft heilags anda. Þeir vitna um Krist og guðdómlegt hlutverk hans hér á jörðu. Þeir koma fram fyrir hönd, huga og hjarta Drottins og eru kallaðir til að vera fulltrúar hans og kenna okkur hvað við þurfum að gera til að snúa aftur til að lifa í návist Guðs og sonar hans, Jesú Krists. Við erum blessuð er við iðkum trú okkar og fylgjum kenningum þeirra. Með því að fylgja þeim þá verður líf okkar hamingjusamara og minna flókið, vandamál okkar og erfiðleikar verða auðveldari að takast á við og við sköpum andlega brynju í kringum okkur sem mun vernda okkur frá árásum óvinarins á okkar tímum.

Á þessum páskadegi ber ég hátíðlegt vitni um að Jesú Kristur er upprisinn, hann lifir og að hann leiðir kirkju sína hér á jörðu í gegnum spámenn sína, sjáendur og opinberara. Ég ber vitni um að hann er frelsari og lausnari heimsins og að í gegnum hann getum við frelsast og verið upphafin í návist Guðs okkar. Ég elska hann og dái. Ég vil fylgja honum og gera vilja hans og verða líkari honum. Ég segi þetta auðmjúklega í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.