2010–2019
Einn dag í viðbót
Apríl 2018


Einn dag í viðbót

Við höfum öll daginn „í dag“ til að lifa og lykillin að því að gera þann dag farsælan er að vera fús til að færa fórnir.

Fyrir nokkrum árum eignuðust vinir mínir yndislegt barn að nafni Brigham. Eftir fæðingu hans var Brigham greindur með sjáldgæfan sjúkdóm sem kallast Hunter heilkenni, sem þýddi því miður að hann myndi eiga stutta ævi. Dag einn, er Brigham og fjölskylda hans voru á musterislóðinni, sagði Brigham eina hendingu og endurtók hana tvisvar: „Einn dag í viðbót.“ Næsta dag lést Brigham.

Ljósmynd
Brigham
Ljósmynd
Fjölskylda Brighams
Ljósmynd
Gröf Brighams

Ég hef heimsótt leiði Brighams nokkrum sinnum og í hvert sinn sem ég geri það íhuga ég orðin „einn dag í viðbót.“ Ég velti því fyrir mér hvað þetta gæti þýtt, hvaða áhrif það myndi hafa á líf mitt að vita að ég ætti einungis einn dag í viðbót eftir ólifaðan. Hvernig myndi ég koma fram við konu mína, börn mín og aðra? Hve þolimóður og kurteis myndi ég vera? Hvernig myndi ég hirða um líkama minn? Hve heitt myndi ég biðja og lesa í ritningunum? Ég held að á einn eða annan máta þá munum við koma að þeirri stund þar sem við upplifum þessa „einn dag í viðbót“ tilfinningu - tilfinningu um að við verðum að nota þann tíma sem eftir er, skynsamlega.

Í Gamla testamentinu lesum við söguna um Hesekía, konung Júdeu. Spámaðurinn Jesaja tilkynnti Hesekía að líf hans væri á enda komið. Þegar hann heyrði orð spámannsins hóf Hesekía að biðja, sárbæna og gráta sárt. Á þeirri stundu bætti Guð 15 árum við líf hans. (Sjá Jes 38:1–5.)

Ef okkur væri sagt að við ættum stuttan tíma eftir til að lifa, þá gæti verið að við myndum einnig grátbiðja um fleiri daga til að lifa, í nafni þess sem við hefðum átt að gera, eða gera öðruvísi.

Sama hvaða tíma Drottinn ákveður í visku sinni að gefa okkur, þá getum við verið viss um eitt, við höfum öll daginn í dag til að lifa, og lykillinn að því að gera daginn okkar farsælan er að vera fús til að færa fórnir.

Drottinn sagði, „Sjá, fram að komu mannssonarins heitir í dag og sannlega er það fórnar- og tíundardagur fólks míns“(K&S 64:23; leturbreyting hér).

Enska orðið sacrifice (fórn) kemur úr latneska orðinu sacer, sem þýðir „sacred“ (heilagt) og facare, sem þýðir „að gera“ – eða með öðrum orðum að gera eitthvað heilagt, eða færa því heiður.

„Fórnin er leiðin til himinsins hæða“ (“Praise to the Man,” Hymns, nr. 27, ísl. þýðing).

Á hvern hátt mun fórnin gera daga okkar þýðingarmikla og blessaða?

Í fyrsta lagi, styrkir persónuleg fórn okkur og gefur því gildi sem við fórnum.

Á föstusunnudegi, fyrir nokkrum árum, stóð eldri systir upp og kom að ræðustólnum til að gefa vitnisburð sinn. Hún bjó í borg sem heitir Iquitos og er í Amasónskóginum í Perú. Hún sagði okkur að frá því að hún hlaut skírn hefði hún alltaf haft það markmið að meðtaka helgiathafnirnar í musterinu í Lima, Perú. Hún borgaði trúfastlega fulla tíund og lagði fyrir af litlum tekjum sínum í mörg ár.

Gleði hennar við að koma til musterisins og að meðtaka hinar heilögu helgiathafnir sem þar buðust, var tjáð með þessum orðum: „Í dag get ég sagt að mér finnst mér ég loksins reiðubúin til að fara í gegnum huluna. Ég er hamingjusamasta konan í heimi og hef safnað peningum lengur en þið getið ímyndað ykkur, til þess að heimsækja musterið og eftir sjö daga á ánni og 18 klukkutíma í rútunni var ég loksins í húsi Drottins. Þegar ég yfirgaf þennan helga stað þá sagði ég mér að eftir allar þær fórnir sem var krafist af mér til þess að komast til musterisins þá mun ég ekki leyfa að neitt verði til þess að ég geri lítið úr einhverjum þeim sáttmálum sem ég hef gert, því það væri sóun. Þetta er mjög alvarleg skuldbinding!“

Ég komst að því frá þessari indælu systur, hve persónuleg fórn er ómetanlegur kraftur sem knýr áfram ákvarðanir okkar og einbeitni. Persónuleg fórn knýr gjörðir okkar, skuldbindingar og sáttmála og gefur heilögum hlutum merkingu.

Í öðru lagi, leiða þær fórnir sem við færum fyrir aðra og sem aðrir færa fyrir okkur, til blessana fyrir alla.

Þegar ég var nemi í tannlæknaskóla þá var fjárhagsstaða samfélags okkar ekki mjög hvetjandi. Verðbólgan lækkaði verðgildi gjaldmiðils okkar gífurlega frá einum degi til þess næsta.

Ég man árið sem ég átti að skrá mig í skurðstofuþjálfunina, ég þurfti að hafa öll nauðsynlegu skurðáhöldin áður en ég skráði mig í önnina. Foreldrar mínir lögðu fyrir nauðsynlegt fjármagn. Svo var það eitt kvöldið að nokkuð hræðilegt gerðist. Við fórum til að kaupa áhöldin og komumst að því að sú upphæð sem við höfðum til að kaupa öll áhöldin dugði nú einungis til að kaupa skurðtöng og ekkert annað. Við komum heim með tómar hendur og sorgmæddan huga yfir því að tapa heilli önn úr háskólanáminu mínu. Skyndilega sagði móðir mín hins vegar: „Taylor, komdu með mér, förum aðeins út.“

Við fórum niður í bæ þar sem voru margar verslanir sem keyptu og seldu skartgripi. Þegar við komum að einni búðinni þá tók móðir mín lítinn bláan flauelspoka úr veski sínu, sem í var fallegt gullarmband sem grafið var í: „Til elskulegrar dóttur minnar frá föður þínum.“ Það var armband sem afi minn hafði gefið henni á einum af afmælisdögum hennar. Þarna, frammi fyrir mér, seldi hún það.

Þegar hún fékk peninginn sagði hún við mig: „Ef það er eitt sem ég er viss um, þá er það að þú ert að fara að verða tannlæknir. Farðu og keyptu alla þessa hluti sem þú þarfnast.“ Getið þið ímyndað ykkur hverskonar nemandi ég varð frá þeirri stundu? Ég þráði að verða sá besti og klára nám mitt sem fyrst því ég vissi hversu mikla fórn hún var að færa.

Ég komst að því að þær fórnir sem ástvinir okkar færa fyrir okkur endurnæra okkur eins og kalt vatn í miðri eyðimörk. Slíkar fórnir færa manni von og hvatningu.

Í þriðja lagi, er hver sú fórn sem við getum fært, lítil í samanburði við fórn sonar Guðs.

Hvert er verðgildi einhvers eins og gullarmbands í samanburði við fórn sonar Guðs. Hvernig getum við virt þá óendanlegu fórn? Á hverjum degi getum við minnst þess að við höfum einn dag í viðbót til að lifa og verið trúföst. Amulek kenndi: „Já, ég vildi, að þið stigjuð fram og hertuð eigi hjörtu ykkar lengur. Því að sjá, nú er tíminn og dagur hjálpræðis ykkar. Og ef þið þess vegna iðrist og herðið ekki hjörtu ykkar, þá mun hin mikla endurlausnaráætlun samstundis ná til ykkar“ (Alma 34:31). Með öðrum orðum, ef við munum færa Drottni fórn sundurkramins hjarta og sáriðrandi anda þá munu blessanir hinnar miklu hamingjuáætlunar verða augljósar í lífi okkar.

Þökk sé fórn Jesú Krists að endurlausnaráætlunin er möguleg. Eins og hann lýsti því sjálfur þá varð fórnin „þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaði ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar“ (K&S19:18).

Það er svo vegna þessarar fórnar að við getum skynjað að þungi mistaka okkar og synda lyftist, eftir að við fylgjum ferli einlægrar iðrunar. Í raun þá skiptir hrein samviska, hamingja og von um stað við sekt, skömm, sorg, sársauka og persónulegt niðurrif.

Á sama tíma og við heiðrum og erum þakklát fyrir fórn hans, þá getum við meðtekið hina heitu þrá um að verða betri börn himnesks föður, að halda okkur frá synd og að halda boðorðin betur en nokkru sinni áður.

Þá munum við, eins og Enos eftir að hann fékk fyrirgefningu synda sinna, finna þrána sjálf til að fórna sjálf og leita eftir velferð bræðra okkar og systra (sjáEnos 1:9). Við munum einnig verða fúsari á hverjum „degi í viðbót“ að fylgja því boði sem Howard W. Hunter bauð okkur er hann sagði: „Leysið ágreining. Leitið horfins vinar. Skiptið vantrausti út fyrir traust. … Svarið mildilega. Hvetjið æskufólk Sýnið tryggð ykkar í orði og verki. Haldið loforð. Ekki vera langrækin. Fyrirgefið óvini. Biðjið afsökunar. Reynið að skilja. Skoðið væntingar ykkar til annarra. Hugsið fyrst um einhvern annan. Vera vinsamleg. Verið ljúf. Hlægið aðeins meira. Sýnið þakklæti ykkar. Bjóðið ókunnuga velkomna. Gleðjið hjarta barns. Tjáið elsku ykkar og tjáið hana svo aftur“ (Teachings of Presidents of the Church: Howard W. Hunter [2015], 32; úr “What We Think Christmas Is,” McCall’s, des. 1959, 82–83).

Megum við fylla daga okkar með þeim hvata og styrkleika sem persónuleg fórn og fórnin sem við færum eða meðtökum, veitir okkur. Megum við svo, á sérstakan máta, njóta þess friðar og fögnuðar sem við getum einungis hlotið frá fórn hins eingetna; já að friðurinn sem talað er um þegar við lesum að Adam hafi fallið svo að menn gætu orðið og menn eru - þið eruð - svo að þið megið gleði njóta (sjá 2 Ne 2:25). Þessi gleði er hin raunverulega gleði, sem einungis er hægt að öðlast í gegnum friðþægingu frelsarans Jesú Krists.

Það er bæn mín að við fylgjum honum, að við trúum honum, að við elskum hann og að við sjáum þá elsku sýna sig með fórn hans í hvert sinn sem við fáum tækifæri til að lifa einn dag í viðbót Í nafni Jesú Krists, amen.