2010–2019
Öldungasveitin
Apríl 2018


Öldungasveitin

Að hafa eina sveit Melkísedeksprestdæmisins í deild, sameinar prestdæmishafa í því að vinna að öllum þáttum sáluhjálparstarfsins.

Nokkru eftir að kirkjan var stofnuð á þessari síðustu ráðstöfun, sagði Drottinn í opinberun: „Með trúarbæn yðar skuluð þér taka á móti lögmáli mínu, svo að þér megið vita hvernig stjórna skal kirkju minni og hafa allt í reglu frammi fyrir mér.“1 Eftir þessu fyrirkomulagi hefur verið farið í kirkjunni – og þetta loforð hefur Drottinn staðið við – allt frá þessum tíma. Allt frá tímum spámannsins Josephs Smith hefur fyrirkomulag skipulags og þjónustu prestdæmsins verið opinberað reglulega, en þá voru embættum og sveitum prestdæmisins komið á fót á okkar tíma. Þýðingarmiklar breytingar voru opinberaðar og innleiddar í forsetatíð Brighams Young, Johns Taylor og Spencers W. Kimball og annarra, þá á Tólfpostulasveitinni, hinum Sjötíu, háprestum og á fleiri embættum og sveitum, bæði Melkísedeksprestdæmis og Aronsprestdæmis.2 Í sögulegri yfirlýsingu hér áður, tilkynnti Russell M. Nelson forseti um fleiri mikilvægar breytingar.

Ég ætla að endurtaka sumt af því sem hann sagði: „Í kvöld tilkynnum við þýðingarmiklar breytingar á sveitum Melkísedeksprestdæmisins, til að framfylgja enn betur verki Drottins. Á sviði deildar munu háprestar og öldungar nú sameinaðir í eina öldungasveit … [og] samsetning sveitar [hápresta stiku] mun byggð á núverandi prestdæmisköllunum.“

Nelson forseti bætti við:

„Þessar breytingar hafa verið til meðferðar í marga mánuði. Við höfum fundið brýna þörf á því að bæta umönnunaraðferðir meðlima okkar. … Við þurfum að efla prestdæmissveitir okkar til að geta bæta þar úr og leggja aukna áherslu á þá kærleiksþjónustu og stuðning sem Drottinn óskar að veita sínum heilögu.

Þessar breytingar eru innblásnar af Drottni. Þegar við innleiðum þær, munum við jafnvel verða enn dugmeiri en áður hefur verið.“3

Ég og öldungur Ronald A. Rasband munum, að beiðni Æðsta forsætisráðsins, veita frekari upplýsingar sem við teljum að muni svara spurningum sem þið kunnið að hafa.

Sveitir öldunga og hápresta

Í fyrsta lagi til að ítreka: Hvaða breytingar eru gerðar á háprestaflokkum og öldungasveitum? Meðlimir öldungasveita og háprestaflokka í deildum munu nú sameinaðir í eina sveit Melkísedeksprestdæmis, með einu forsætisráði. Sú sveit, sem nú er öflugri að fjölda og einingu, mun nefnd „öldungasveit.“ Háprestaflokkur verður aflagður. Í öldungasveit verða allir öldungar og tilvonandi öldungar í deildinni, sem og háprestar sem ekki þegar þjóna í biskupsráði, í stikuforsætisráði, í háráði eða sem fastapatríarkar. Háprestasveit í stiku mun skipuð þeim háprestum sem eru þjónandi í stikuforsætisráði, biskupsráði, háráði og sem fastapatríarkar.

Forsætisráð öldungasveitar

Hvernig verður forsætisráð öldungasveitar skipuð? Stikuforsætisráð mun leysa af núverandi leiðtoga háprestaflokks og forsætisráð öldungasveitar og kalla nýjan forseta öldungasveitar og ráðgjafa í hverri deild. Hið nýja forsætisráð öldungasveitar getur verið skipað öldungum og háprestum á mismunandi aldri og með ólíka reynslu, sem þjóna saman í einu sveitarforsætisráði. Hvort heldur er öldungur eða háprestur getur þjónað sem sveitarforseti eða sem ráðgjafi í forsætisráðinu. Hér er ekki um að ræða „yfirtöku“ hápresta á öldungasveitum. Við væntum þess að öldungar og háprestar starfi saman í sérhverri samsetningu forsætisráðs öldungasveitar og sveitarþjónustu. Þessar breytingar á sveitum ætti að innleiða eins fljótt og auðið er eftir aðstæðum.

Prestdæmisembætti í öldungasveit

Hafa þessar breytingar áhrif á fyrirkomulag prestdæmisembætta sem sveitarmeðlimir hafa? Nei, þessar breytingar hafa engin áhrif á þau embætti prestdæmisins sem sveitarmeðlimir hafa áður verið vígðir til. Menn geta, eins og ykkur er kunnugt, verið vígðir hinum ýmsu embættum prestdæmisins á æviskeiði sínu og þeir missa engin fyrri embætti þegar þeir vígjast öðru. Þótt prestdæmishafar geti í sumum tilvikum þjónaði í fleiri embættum en einu á sama tíma, líkt og þegar háprestur þjónar bæði sem patríarki eða biskup, þá er hann ekki virkur í öllum prestdæmisembættum sínum á sama tíma. Biskupar og hinir Sjötíu þjóna til dæmis ekki með virkum hætti í þessum embættum þegar þeir eru leystir af eða láta af þjónustu og halda titli sínum. Þegar menn eru meðlimir öldungasveitar, þjóna þeir sem slíkir og halda öllum öðrum prestdæmisembættum eða embættum sínum.

Fyrir mögum árum sagði Boyd K. Packer forseti: „Prestdæmið er meira en sérhvert embætti þess. … Prestdæmið er ekki skiptanlegt. Öldungur hefur jafn mikið prestdæmi og postuli. (Sjá K&S 20:38.) Þegar mönnum [veitist prestdæmið], þá veitist þeim allt prestdæmið. Það eru þó embætti innan prestdæmisins – úthlutun valdsumboðs og ábyrgðar. … Stundum er sagt að eitt embætti sé ,æðra‘ eða ,lægra‘ en annað. Melkísedeksprestdæmið felur frekar í sér mismunandi þjónustusvið, en ,æðri‘ eða ,lægri‘ embætti.“4 Ég vona einlæglega að við tölum ekki lengur um að vera „hækkaður í tign“ í annað embætti Melkísedeksprestdæmisins.

Öldungar verða áfram vígðir til háprests þegar þeir eru kallaðir í stikuforsætisráð, háráð eða biskupsráð – eða við önnur tækifæri eins og stikuforseti ákveður fyrir bæn, ígrundun og innblástur. Þegar þjónustutíð lýkur í stikuforsætisráði, háráði eða biskupsráði, þá sameinast háprestar öldungasveit deildar sinnar.

Leiðsögn fyrir forseta öldungasveitar

Hver hefur yfirumsjá með starfi forseta öldungasveitar? Stikuforseti er í forsæti Melkísekeksprestdæmisins í stikunni. Forseti öldungasveitar er því beint ábyrgur gagnvart stikuforseta, sem sér honum fyrir þjálfun og leiðsögn frá stikuforsætisráði og með háráði. Biskup, sem ráðandi háprestur í deildinni, á líka reglubundið samfund með forseta öldungasveitar. Biskup ráðgast við hann og veitir viðeigandi leiðsögn um hvernig best sé að þjóna og blessa deildarmeðlimi og starfar í samhljóm við öll deildarfélög.5

Tilgangur þessara breytinga

Hver er tilgangurinn með breytingunum á sveitum Melkísedeksprestdæmisins? Að hafa eina sveit Melkísedeksprestdæmisins í deild, sameinar prestdæmishafa í því að vinna að öllum þáttum sáluhjálparstarfsins, þ.m.t. musterisverki og ættarsögustarfi, sem áður var samræmt af háprestaflokki. Þær leyfa sveitarmeðlimum á öllum aldri og af ólíkum bakgrunni að styrkjast af visku og reynslu hvers annars og þeim sem eru á ólíku þroskastigi. Þær veita líka reyndum prestdæmishöfum frekari tækifæri til að kenna öðrum, þ.m.t. mögulegum öldungum, nýjum meðlimum, ungum einhleypum og þeim sem koma aftur í kirkju. Ég fæ ekki nógsamlega lýst því hve eftirvæntingarfullur ég er, er ég ígrunda mikilvægi hins stigvaxandi hlutverks sem öldungasveitir munu skipa á komandi tíð. Viskan, reynslan, hæfnin og styrkurinn sem finna má í þessum sveitum boðar nýjan dag og nýjan staðal prestdæmisþjónustu hvarvetna í kirkjunni.

Á aðalráðstefnu fyrir tuttugu árum sagði ég sögu sem fyrst var sögð af öldungi Vaughn J. Featherstone, af hinum Sjötíu, sem ég held að eigi vel við hér.

Árið 1918 var bróðir George Goates bóndi í Lehi, Utah, sem ræktaði sykurrófur. Vetur skall snemma á þetta árið og stór hluti sykurrófanna fraus í jörðu. George og ungum syni hans, Francis, fannst uppskeran ganga hægt og erfiðlega. Á sama tíma geysaði inflúensufaraldur. Hinn hræðilegi sjúkdómur tók líf Charles, sonar Georgs, og þriggja lítilla barna hans – tveggja stúlkna og drengs. Á aðeins sex dögum fór hinn harmþrungni George Coates þrjár ferðir til Ogden, Utah, til að ná í líkin til greftrunar heima. Þegar þessir ömurlegu atburðir voru á enda, fóru George og Francis upp í vagninn og héldu aftur út á sykurrófuakurinn.

„[Á ferði sinni] mættu þeir ótal vögnum hlöðnum sykurrófum á leið til verksmiðjunnar sem nágrannar þeirra óku. Þegar þeir óku framhjá, veifaði hver ökumaðurinn á eftir öðrum og sagði: ,Sæll, George frændi,‘ ,mjög sorglegt, George,‘ ,mikill missir, George,‘ ,þú ert vinamargur, George.‘

Í síðasta vagninum var … freknótti Jasper Rolfe. Hann veifaði uppörvandi til þeirra og hrópaði: ,Þetta er sá síðasti, George frændi.‘

[Bróðir Goates] sneri sér að Francis og sagði: ,Ég vildi að allt þetta væri okkar uppskera.‘

Þegar þeir komu að býlishliðinu, stökk Francis niður úr stóra rauða sykurrófuvagninum og opnaði hliðið um leið og [faðir hans] ók inn á akurinn. [George] leit upp, slakaði á taumnum … og horfði yfir akurinn. … Enga sykurrófu var að sjá á akrinum. Þá tók að renna upp fyrir honum hvað Jasper Rolfe hafði meint er hann hrópaði: ,Þetta er sá síðasti, George frændi!‘

[George] fór niður úr vagninum, tók upp handfylli af frjósamri, brúnni moldinni sem hann hafði svo miklar mætur á, síðan … sykurrófublöð og horfði andartak á þessi tákn erfiðis síns, líkt og hann tryði ekki eigin augum.

[Hann] settist síðan á hrúgu af sykurrófublöðum – þessi maður sem hafði flutt fjóra ástvini sína heim til greftrunar á einungis sex dögum; smíðað kistur, tekið grafir og jafnvel aðstoðað við líkklæðin – þessi makalausi maður, sem aldrei sló feilslag, kveinkaði sér aldrei eða hikaði í gegnum þessa þjakandi þolraun – sat uppi á hrúgu af sykurrófublöðum og grét eins og lítið barn.

Hann stóð síðan upp, strauk tárin úr augum sér, … leit upp til himins og sagði: ,Þakka þér, faðir, fyrir öldungana í deildinni okkar‘“6

Já, þökk sé Guði fyrir menn prestdæmisins og þá þjónustu sem þeir inna af hendi í þágu einstaklinga og fjölskyldna og til eflingar Síonar.

Æðsta forsætisráðið, Tólfpostulasveitin og forsætisráð hinna Sjötíu hafa íhugað þessar breytingar í þó nokkurn tíma. Við sækjum einróma fram eftir ótal bænir, vandlega ígrundun ritningalegrar framsetningar um prestdæmissveitir og staðfestingu á að um vilja Drottins sé að ræða, í því sem í raun er enn eitt skrefið í því að leiða fram endurreisnina. Leiðsögn Drottins er staðfest og ég fagna henni, um leið og ég ber vitni um hann, prestdæmi hans og vígslur ykkar í því prestdæmi, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 41:3.

  2. Sjá t.d. William G. Hartley, “The Priesthood Reorganization of 1877: Brigham Young’s Last Achievement,” í My Fellow Servants: Essays on the History of the Priesthood (2010), 227–64; “To the Seventies,” í samant. James R. Clark, Messages of the First Presidency of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints (1965), 352–54; Hartley, “The Seventies in the 1880s: Revelations and Reorganizing,” í My Fellow Servants, 265–300; Edward L. Kimball, Lengthen Your Stride: The Presidency of Spencer W. Kimball (2005), 254–58; Susan Easton Black, “Early Quorums of the Seventies,” í David J. Whittaker og Arnold K. Garr, útg., A Firm Foundation: Church Organization and Administration (2011), 139–60; Richard O. Cowan, “The Seventies’ Role in the Worldwide Church Administration,” í A Firm Foundation, 573–93.

  3. Russell M. Nelson, “Introductory Remarks,” Liahona, maí 2018, 54.

  4. Boyd K. Packer, “What Every Elder Should Know—and Every Sister as Well: A Primer on Principles of Priesthood Government,”  Tambuli, nóv. 1994, 17, 19.

  5. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 7.3.1.

  6. D. Todd Christofferson, “The Priesthood Quorum,” Liahona, jan. 1999, 47; sjá einnig Vaughn J. Featherstone, “Now Abideth Faith, Hope, and Charity,” Ensign, júlí 1973, 36–37.