2010–2019
Kenna á heimilinu – helg og gleðileg ábyrgð
Apríl 2018


Kenna á heimilinu – helg og gleðileg ábyrgð

Ég bið um hjálp himins er ég reyni að vera kristilegur kennari á heimili okkar.

Ég og eiginkona mín, Julie, höfum alið upp sex dýrmæt börn og nýlega flugu þau öll úr hreiðrinu. Hve ég sakna þess að hafa börnin heima. Ég sakna þess að læra af og kenna þeim.

Í dag beini ég máli mínu til allra foreldra og allra sem þrá að verða foreldrar. Mörg ykkar standið nú í barnauppeldi. Hjá öðrum líður brátt að því. Hjá enn öðrum er foreldrahlutverið blessun framtíðar. Ég bið þess að okkur verði ljós sú gleði og helga ábyrgð sem felst í því að kenna barni.1

Við, sem foreldrar, kennum börnum okkar að þekkja himneskan föður og son hans Jesú Krist. Við hjálpum börnum okkar að flytja fyrstu bæn sína. Við leiðum þau og styðjum er þau fara á sáttmálsveginn2 með skírn. Við kennum þeim að halda boðorð Guðs. Við fræðum þau um áætlun hans fyrir börn hans og hjálpum þeim að skynja hljóða rödd heilags anda. Við segjum þeim sögur af fornum spámönnum og hvetjum þau til að fylgja hinum lifandi. Við biðjum fyrir velgengni þeirra og syrgjum með þeim í raunum þeirra. Við berum börnum okkar vitni um blessanir musterisins og reynum að búa þau vel undir að þjóna í trúboði. Við gefum börnum okkar kærleiksríka leiðsögn þegar þau sjálf verða foreldrar. Já – og jafnvel þá – hættum við aldrei að vera foreldrar. Við hættum aldrei að kenna þeim. Við erum aldrei leyst frá þessum eilífu köllunum.

Í dag skulum við hugleiða nokkur dásamleg tækifæri sem við fáum til að kenna börnum okkar á heimilinu.

Kennsla tengd fjölskyldukvöldi

Við skulum byrja á fjölskyldukvöldi, sem var haft í algjöru fyrirrúmi á því trúarmiðaða heimili sem ég ólst upp á. Ég man ekki eftir einhverjum ákveðnum lexíum sem kenndar voru á fjölskyldukvöldum, en ég man að það féll aldrei út vika.3 Ég vissi hvað foreldrum mínum þótti mikilvægt.4

Ég man eftir einum eftirlætis leik mínum á fjölskyldukvöldi. Pabbi bauð einu barna sinna að taka „próf.“ Hann gaf barninu einhver fyrirmæli, líkt og: „Farðu fyrst inn í eldhús og opnaðu og lokaðu ísskápnum. Farðu síðan inn í svefnherbergið mitt og náðu í sokkapar í skúffunni minni. Komdu síðan aftur til mín, hoppaðu upp og niður þrisvar sinnum og segðu: ,Pabbi, ég gat það!‘

Ég hafði unun af því þegar að mér kom. Ég vildi geta allt rétt og ég unni því þegar ég gat sagt: „Pabbi, ég gat það!“ Þessi gjörningur byggði upp sjálfstraustið og auðveldaði eirðarlausum dreng að halda athyglinni þegar mamma og pabbi kenndu trúarreglu.

Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Ef þið efist um gildi fjölskyldukvölds, látið þá reyna á það. Kallið börnin til ykkar, kennið þeim, berið þeim vitni, lesið ritningarnar saman og skemmtið ykkur saman.“5

Það verður alltaf strembið að hafa fjölskyldukvöld.6 Hvað sem öllu líður, þá hvet ég ykkur til að finna leiðir til að sneiða hjá hindrunum og hafa fjölskyldukvöld í fyrirrúmi – og leggja mestu áherslu á að hafa gaman.

Kennsla tengd fjölskyldubæn

Fjölskyldubæn er annað mikilvægt tækifæri til að kenna.

Ég ann því hvernig faðir N. Eldons Tanner forseta kenndi honum með fjölskyldubæn. Tanner forseti sagði:

„Ég man eftir því þegar við krupum kvöld eitt í fjölskyldubæn og faðir minn sagði við Drottin: ,Eldon gerði svolítið í dag sem hann hefði ekki átt að gera; hann sér eftir því og ef þú vilt fyrirgefa honum, þá gerir hann það ekki aftur.‘

Þetta varð til þess að ég lét alfarið af þessu – og var áhrifaríkara en nokkur hirting hefði komið til leiðar.“7

Þegar ég var drengur varð ég stundum ergilegur yfir því sem mér fundust endalausar fjölskyldubænir og spurði sjálfan mig: „Vorum við ekki að biðja fyrir fáeinum mínútum?“ Ég veit nú að við getum aldrei beðið of oft sem fjölskylda.8

Ég hef alltaf hrifist af því hvernig himneskur faðir kynnir Jesú Krist sem sinn elskaða son.9 Ég nýt þess að biðja fyrir börnum mínum með nafni er þau hlusta á þegar ég tjái himneskum föður hve þau eru mér kær. Það virðist engin betri stund til að tjá börnum okkar elsku en þegar við biðjum með þeim eða gefum þeim blessun. Þegar fjölskyldan kemur saman í auðmjúkri bæn, lærast áhrifaríkar og varanlegar lexíur.

Kennsla á vakt

Kennsla foreldra er eins og að vera læknir á vakt. Við þurfum alltaf að vera viðbúin því að kenna börnum okkar, því við vitum aldrei hvenær tækifærið til þess gefst.

Ljósmynd
Jesús kenndi konunni við brunninn

Við erum eins og frelsarinn, sem kenndi „yfirleitt ekki í samkunduhúsum, heldur við hversdagslegar og óformlegar aðstæður – þar sem hann borðaði með lærisveinum sínum, var við vatnsbrunninn eða gekk framhjá fíkjutré.“10

Fyrir mörgum árum sagði móðir mín mér frá því að bestu trúarlegu samræðurnar sem hún hefði átt við eldri bróður minn, Matt, hefðu átt sér stað er hún braut saman þvottinn og svo þegar hún ók honum til tannlæknis. Eitt af mörgu sem ég dáðist að í fari móður minnar, var hve fús hún var að kenna börnum sínum.

Kennslu hennar sem foreldris lauk aldrei. Þegar ég þjónaði sem biskup, sagði móðir mín við mig, sem þá var 78 ára gömul, að ég þyrfti að fara í klippingu. Hún vissi að ég þurfti að sýna fordæmi og lét mig hiklaust vita af því. Ég elska þig, mamma!

Mér finnst ég knúinn sem faðir til að læra og íhuga ritningarnar sjálfur, til að geta brugðist við þegar tækifæri gefst sem ég get gripið til að kenna börnum mín eða barnabörnum.11 „Sum bestu tækifærin sem gefast til að kenna, hefjast oft með spurningu eða áhyggjuefni sem hvílir á fjölskyldumeðlimi.“12 Erum við að leggja við hlustir á slíkum stundum?13

Ég ann þessu boði Péturs postula: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“14

Þegar ég var unglingur, höfðum ég og pabbi gaman af því að skora á hvor annan og láta reyna á hvor okkar hafði sterkara handargrip. Við kreistum hönd hvors annars af öllu afli og reyndum að fá hinn til að geifla sig af sársauka. Það virðist ekki mikil skemmtun í þessu, en það var það þó á þessum tíma. Eftir eina slíka rimmu, horfði pabbi í augu mér og sagði: „Þú er sterkur í höndunum, sonur sæll. Ég vona að þær verði alltaf nægilega sterkar til að snerta aldrei unga konu óviðurkvæmilega.“ Hann hvatti mig síðan til að vera siðferðislega hreinn og hjálpa líka öðrum að gera slíkt hið sama.

Öldungur Douglas L. Callister sagði þetta um föður sinn: „Þegar við vorum einn daginn á leið heim úr vinnu, sagði faðir minn ósjálfrátt: ,Ég borgaði tíundina mína í dag. Ég skrifaði ,takk fyrir‘ á tíundarseðilinn. Ég er svo glaður yfir að Drottinn blessar fjölskyldu mína.‘“

Öldungur Callister lofaði síðan kennarann föður sinn og sagði: „Hann kenndi hlýðni bæði í orði og verki.“15

Ég held að viturlegt sé að við spyrjum okkur stundum: „Hvað mun ég kenna eða hvað er ég að kenna börnum mínum um hlýðni í orði og verki?“

Kennsla tengd ritninganámi fjölskyldunnar

Ritninganám fjölskyldunnar er tilvalinn vettvangur til að kenna á heimilinu.

Russell M. Nelson forseti sagði: „Foreldrum ber ekki einungis að tileinka sér orð Drottins sjálfir, heldur ber þeim guðleg skylda til að kenna það börnum sínum.“16

Í barnauppeldi okkar reyndum við Julie að vera skapandi og samkvæm sjálfum okkur. Eitt árið ákváðum við að lesa Mormónsbók saman á spænsku sem fjölskylda. Var það ástæða þess að Drottinn kallaði öll börn okkar til að þjóna í spænskumælandi trúboði?? Es posible.

Það snerti mig innilega þegar bróðir Aston sagði mér að hann og faðir hans hefðu lesið alla Mormónsbók saman á efri árum hans í grunnskóla. Bróðir Aston elskar ritningarnar. Þær eru ritaðar í huga hans og hjarta. Faðir hans gróðursetti það sáðkorn á unglingsárum bróður Ashtons og það sáðkorn17 hefur vaxið og orðið að rótföstu tré sannleikans. Bróðir Ashton hefur gert það sama við eldri börn sín.18 Átta ára gamall sonur hans spurði hann nýverið: „Pabbi, hvenær fær ég að lesa Mormónsbók með þér?“

Kennsla með fordæmi

Að síðustu nefni ég fordæmi okkar, sem er áhrifaríkasta kennsla foreldra. Við erum hvött til að vera „fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.“19

Á ferðalagi nýverið fórum við Julie í kirkju og sáum þetta vers í verki. Ungur maður, sem var brátt á leið í trúboð, talaði á sakramentissamkomu.

Hann sagði: „Þið haldið öll að pabbi minn hafi verið svo góður maður í kirkju, en …“ og hann gerði hlé hér og ég velti fyrir mér kvíðinn hvað hann myndi segja næst. Hann hélt áfram og sagði: „Hann er betri maður heima.“

Ljósmynd
Stewart-fjölskyldan

Eftir á þakkaði ég þessum unga manni fyrir það hvetjandi lof sem hann hafði veitti föður sínum. Ég komst þá að því að faðir hans var biskup deildarinnar. Þótt biskupinn væri að þjóna deild sinni af trúmennsku, fannst syninum besta starf hans vera á heimilinu.20

Öldungur D. Todd Christofferson sagði: „Við höfum margar leiðir til að kenna … hinni upprísandi kynslóð og við ættum að leggja okkur alla fram við að nýta okkur þær allar. Framar öllu verðum við að halda áfram að hvetja og aðstoða foreldra við að verða betri og virkari kennarar … einkum með fordæmi.“21

Þannig kennir frelsarinn.22

Á síðasta ári, í sumarfríi með tvo yngstu börnin okkar, lagði Julie til að við tækjum þátt í staðgengilsskírnum í bæði St. George musterinu og San Diego musterinu. Ég möglaði – í eigin barm – og hugsaði: „Við förum í musterið heima og nú erum við í fríi. Af hverju ekki að gera eitthvað sem er sumarfríslegra? Eftir skírnirnar vildi Julie taka myndir fyrir utan musterið. Ég möglaði hljóðlega – aftur. Þið vitið hvað gerðist næst: Við tókum myndir.

Ljósmynd
Durrant-fjölskyldan við San Diego-musterið, Kaliforníu
Ljósmynd
Durrant-fjölskyldan við St. George musterið, Utah

Julie vill að börnin okkar eigi minningar um hvernig við hjálpuðum áum okkar og það vil ég líka. Við þurftum ekki formlega lexíu um mikilvægi mustera. Við erum lifandi lexía um það – þökk sé móður sem elskar musterið og vill að börn hennar geri það líka.

Þegar foreldrum þykir vænt um hvort annað og sýna réttlætisfordæmi, verða börnin eilíflega blessuð.

Lokaorð

Megi allir þeir sem reyna sitt besta við að kenna á heimilinu, finna frið og gleði í þeirri viðleitni sinni. Ef ykkur finnst þið hafa svigrúm til að bæta ykkur eða þörf á betri undirbúningi, bregðist þá af auðmýkt við innblæstri andans og einsetjið ykkur að breyta samkvæmt honum.23

Öldungur L. Tom Perry sagði: „Heilbrigt samfélag, hamingja fólksins þar, velmegun þess og friður, á allt rætur í því að kenna börnum á heimilinu.“24

Já, hreiðrið mitt heima er tómt, en ég er enn á vakt og vill óðfús finna fleiri dýrmæt tækifæri til að kenna mínum uppkomnu börnum og vonandi líka einhvern tíma þeirra börnum.

Ég bið um hjálp himins er ég reyni að vera kristilegur kennari á heimili okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Kenning og sáttmálar 68:25; 93:40.

    Öldungur L. Tom Perry kenndi: „Áhrif óvinarins eru afar víðtæk og hann gerir aðför að samfélaginu og fjölskyldunni og reynir að grafa undan og eyðileggja grunnstoðirnar. Foreldrar verða að gera sér ljóst að kennsla á heimilinu er afar mikilvæg og helg ábyrgð“ (“Mothers Teaching Children in the Home,” Liahona, maí 2010, 30).

    Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa kennt: „Eiginmaður og eiginkona bera þá helgu ábyrgð að elska og annast hvort annað og börn sín. ,Synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun‘ (Sálm 127:3). Foreldrar bera þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti, að sjá fyrir líkamlegum og andlegum þörfum þeirra, að kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru, að virða boðorð Guðs og vera löghlýðnir þegnar, hvar sem þau búa. Eiginmenn og eiginkonur – mæður og feður – verða ábyrg frammi fyrir Guði, ef þau bregðast þessum skyldum“ (“The Family: A Proclamation to the World,” Liahona, maí 2017, 145).

  2. Sjá Russell M. Nelson, “As We Go Forward Together,” Liahona, apríl 2018, 7.

  3. Öldungur David A. Bednar sagði: „Ef þið gætuð í dag spurt syni ykkar að því hvað þeir muna um fjölskyldubæn, ritninganám og fjölskyldukvöld, þá held ég að ég viti hverju þeir myndu svara. Þeir myndu líklega ekki minnast á einhverja bæn eða ákveðið atvik ritninganáms eða einkar innihaldsríka lexíu á fjölskyldukvöldi, sem afmarkandi stund fyrir andlegan þroska sinn. Það sem þeir myndu muna eftir væri að sem fjölskylda vorum við sjálfum okkur samkvæm“ (“More Diligent and Concerned at Home,” Liahona, nóv. 2009, 19).

  4. Sjá “Home Can Be a Heaven on Earth,” Hymns, nr. 298.

  5. Teachings of Presidents of the Church: Gordon B. Hinckley (2016), 171.

  6. Sjá 2 Ne 2:11.

  7. N. Eldon Tanner, “Never Be Ashamed of the Gospel of Christ,” Ensign, feb. 1980, 4.

  8. Sjá 3 Ne 18:21.

  9. Sjá Matt 3:16–17; 3 Ne 11:6–8; Kenning og sáttmálar 18:34–36; Joseph Smith—Saga 1:17.

  10. “Take Advantage of Spontaneous Teaching Moments,” Teaching in the Savior’s Way (2016), 16. Í Teaching in the Savior’s Way er fjöldi ábendinga og gagna til að kenna á heimilinu.

  11. Sjá Kenning og sáttmálar 11:21; 84:85.

  12. Teaching in the Savior’s Way, 16.

  13. Sjá “Listen,” Preach My Gospel: A Guide to Missionary Service (2004), 185–86.

  14. 1 Pét 3:15.

  15. Douglas L. Callister, “Most Influential Teacher—Emeritus Seventy Pays Tribute to Father,” 29. ágúst 2016, news.lds.org.

  16. Russell M. Nelson, “Set in Order Thy House,” Liahona, jan. 2002, 81.

  17. Sjá Alma 32:28–43.

  18. Systir Melinda Ashton hleypur í skarðið þegar eiginmaður hennar, bróðir Ashton, er ekki í bænum.

  19. 1 Tím 4:12; sjá einnig Alma 17:11.

  20. Jeffrey L. Stewart biskup þjónar í Southgate Second Ward í St. George, Utah. Sonur hans, Samuel, þjónar nú í Medellín trúboðinu í Kolombíu.

  21. D. Todd Christofferson, “Strengthening the Faith and Long-Term Conversion of the Rising Generation,” á leiðtogafundi aðalráðstefnu, sept. 2017.

  22. Sjá 3 Ne 27:21, 27.

  23. Sjá Kenning og sáttmálar 43:8-9.

  24. L. Tom Perry, “Mothers Teaching Children in the Home,” 30.