2010–2019
Hógvær og af hjarta lítillátur
Apríl 2018


Hógvær og af hjarta lítillátur

Hógværð er eiginleiki sem einkenndi frelsarann og samanstendur af réttlátri svörunarhæfni, fúsri undirgefni og mikilli sjálfsstjórn.

Ég fagna þeim helga viðburði að styðja kirkjuleiðtoga okkar og ég býð öldung Gong og öldung Soares hjartanlega velkomna í Tólfpostulasveitina. Þjónusta þessarar trúföstu manna, mun blessa einstaklinga og fjölskyldur víða um heim og ég hlakka til að þjóna með og læra af þeim.

Ég bið þess að heilagur andi kenni okkur og uppfræði um mikilvægan eiginleika sem tengist guðlegu eðli frelsarans1 sem sérhvert okkar ætti að reyna að tileinka sér.

Ég ætla að koma með nokkur dæmi til að varpa ljósi á þennan kristilega eiginleika, áður en ég tilgreini hann sérstaklega síðar í boðskap mínum. Hlustið vandlega á hvert dæmanna og ígrundið með mér hugsanleg svör við spurningunum sem ég mun varpa fram.

Dæmi #1. Ungi ríki maðurinn og Amúlek

Í Nýja testamentinu er okkur sagt frá ungum manni sem spurði Jesú: „Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“2 Frelsarinn benti honum fyrst á að halda boðorðin. Meistarinn veitti honum þessu næst frekari leiðsögn sem var sérstaklega sniðin að hans persónulegu þörfum og aðstæðum.

„Jesús sagði við hann: Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.

Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.“3

Gerum samanburð á viðbrögðum unga ríka mannsins og Amúleks, eins og upplifun hans er lýst í Mormónsbók. Amúlek var duglegur og efnaður maður sem átti fjölda ættmenna og vina.4 Hann lýsti sjálfum sér sem manni er hafði verið kallaður mörgum sinnum, en vildi ekki heyra, vissi um þetta, samt vildi hann ekki vita það.5 Amúlek var í raun góður maður sem var upptekinn af veraldlegum málum, að miklu leyti eins og ungi ríki maðurinn sem sagt er frá í Nýja testamentinu.

Þótt Amúlek hefði áður hert hjarta sitt, þá hlýddi hann orðum engils, bauð spámanninum Alma á heimili sitt og gaf honum að borða. Hann vaknaði til andlegrar vitundar meðan á heimsókn Alma stóð og var kallaður til að prédika fagnaðarerindið. Amúlek yfirgaf þá „allt gull sitt og silfur og önnur verðmæti sín … vegna orðs Guðs, og fyrrum vinir hans, ásamt föður hans og ættmennum, [afneituðu] honum.“6

Til hvers má rekja hin ólíku viðbrögð unga ríka mannsins og Amúleks?

Dæmi #2. Pahóran

Á háskalegum styrjaldartíma sem sagt er frá í Mormónsbók, áttu sér stað bréfaskriftir á milli Morónís, höfuðsmanns hersveita Nefíta, og Pahórans, yfirdómara og landstjóra landsins. Moróní skrifaði Pahóran „til sakfellingar,“7 því hersveitir hans höfðu þolað þjáningar sökum ófullnægjandi stuðnings og Moróní sakaði hann og meðstjórnendur hans um hugsunarleysi, dugleysi, vanrækslu og jafnvel sviksemi.8

Pahóran hefði auðveldlega getað tekið þessum röngu ásökunum Morónís illa, en hann gerði það ekki. Hann brást við af samkennd og sagði frá uppreisn gegn landsstjórninni, sem Moróní hafði enga vitneskju um. Pahóran sagði síðan:

Sjá, ég segi þér, Moróní, að ég gleðst ekki yfir hinum miklu þrengingum ykkar, heldur hryggja þær sál mína. …

… Í bréfi þínu átaldir þú mig, en það skiptir ekki máli. Ég er ekki reiður, heldur fagna ég yfir mikilleik hjarta þíns.“9

Til hvers má rekja hið yfirvegaða svar Pahórans við ásökunum Morónís?

Dæmi #3. Russell M. Nelson forseti og Henry B. Eyring forseti

Á aðalráðstefnu fyrir sex mánuðum, sagði Russell M. Nelson forseti frá viðbrögðum sínum við því boði Thomas S. Monson forseta, að við lærðum, ígrunduðum og tileinkuðum okkur þann sannleika sem Mormónsbók geymir. Hann sagði: „Ég hef reynt að fara eftir leiðsögn hans. Ég hef meðal annars gert lista yfir hvað Mormónsbók er, hvað hún staðfestir, hvað hún hrekur, hvað hún uppfyllir, hvað hún skýrir og hvað hún opinberar. Að skoða Mormónsbók á þennan hátt, hefur veitt mér innsýn og innblástur! Ég mæli með því við ykkur.“10

Henry B. Eyring forseti lagði að sama skapi mikla áherslu á mikilvægi þessa boðs Monsons forseta fyrir sig. Hann sagði:

„Ég hef lesið Mormónsbók dag hvern í yfir 50 ár. Ég hefði því eins vel getað hugsað með mér að þessi orð Monsons forseta væru ætluð einhverjum öðrum en mér. Ég fann þó, líkt og mörg ykkar, að orð og loforð spámannsins væru mér hvatning til að gera enn betur. …

Hin gleðilega niðurstaða fyrir mig og fyrir mörg ykkar, er að loforð spámannsins var raunverulegt.“11

Til hvers má rekja hin tafarlausu og einlægu viðbrögð þessara tveggja leiðtoga kirkju Drottins við boði Monsons forseta?

Ég er ekki að segja að rekja megi þessi andlegu sterku viðbrögð Amúleks, Pahórans, Nelsons forseta og Eyrings forseta til eins ákveðins kristilegs eiginleika. Vissulega koma margir samofnir eiginleikar hér við sögu, sem tengjast mörgum andlegum upplifunum þessara fjögurra trúföstu þjóna. Frelsarinn og spámenn hans hafa þó varpað skæru ljósi á mikilvægan eiginleika sem við þurfum öll að skilja betur og tileinka okkur af kostgæfni.

Hógværð

Gætið vinsamlega að þeim eiginleika sem Drottinn notar til að lýsa sjálfum sér í eftirfarandi ritningarversi: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“12

Lærdómsríkt er að frelsarinn velur að leggja áherslu á eiginleikann hógværð af öllum öðrum dyggðum sem hann hefði hugsanlega getað valið að benda á.

Álíka dæmi kemur fram í opinberun sem spámaðurinn Joseph Smith hlaut árið 1829: Drottinn sagði: „Lær af mér og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér.“13

Hógværð er eiginleiki sem einkennir frelsarann og samanstendur af réttlátri svörunarhæfni, fúsri undirgefni og mikilli sjálfsstjórn. Þessi eiginleiki gerir okkur kleift að skilja betur viðbrögð hvers þessara manna fyrir sig, Amúleks, Pahórans, Nelsons forseta og Eyrings forseta.

Nelson forseti og Eyring forseti brugðust til dæmis skjótt og trúfastlega við hvatningu Monsons forseta um að lesa og læra Mormónsbók. Þótt báðir þessir menn hefðu þjónað í mikilvægum og áberandi kirkjuembættum og ígrundað ritningarnar vel og vandlega í áratugi, báru viðbrögð þeirra ekki vitni um efablendni eða stærilæti.

Amúlek beygði sig fúsleg undir vilja Guðs, tók á móti boði um að prédika fagnaðarerindið og sagði skilið við sitt þægilega líf og veraldleg sambönd. Pahóran var blessaður með yfirsýn og mikilli sjálfstjórn til að svara Moróní gremjulaust og yfirvegað um þá áskorun sem fólst í uppreisninni gegn landsstjórninni.

Hinn kristilegi eiginleika hógværð er oft misskilinn í okkar nútíma heimi. Hógværð er styrkleiki, ekki veikleiki; athafnasemi, ekki aðgerðaleysi; hugdirfska, ekki hugleysi; ögun, ekki óhóf; látleysi, ekki sjálfsupphefð; og velvilji, ekki hvatvísi. Þeim sem er hógvær verður ekki auðveldlega ögrað, sá er hvorki stærilátur, né ofríkisfullur og viðurkennir fúslega velgengni annarra.

Í auðmýkt felst yfirleitt traust á Guði og stöðug þörf á leiðsögn hans og stuðningi, en það sem er einkennandi fyrir eiginleikann hógværð er sérstök andleg námfýsi til að læra bæði af heilögum anda og þeim sem virðast óhæfari, óreyndari eða ólærðari, sem hugsanlega eru ekki í mikilvægum stöðum eða virðast að öðru leyti ekki hafa mikið til síns manns. Minnist þess hvernig Naaman, yfirmaður hersveita konungs Sýrlands, sigraðist á eigin drambi og tók af hógværð á móti leiðsögn þjóna sinna um að hlíta orðum Elía spámanns um að lauga sig í ánni Jórdan sjö sinnum.14 Hógværð er verndarregla gegn blindu drambs, sem oft á rætur í frægð og frama, valdi, velsæld og skjalli.

Hógværð – kristilegur eiginleiki og andleg gjöf

Hógværð er eiginleiki sem ávinnst fyrir þrá, réttláta iðkun siðferðilegs sjálfræðis og kostgæfni við að keppa að því að hljóta fyrirgefningu synda okkar.15 Hún er líka andleg gjöf sem við getum tileinkað okkur með réttri aðferð.16 Við ættum þó að hafa í huga að þessi gjöf er gefin í þeim tilgangi að blessa börn Guðs og þjóna þeim.17

Þegar við komum til frelsarans og fylgjum honum, getum við í auknum mæli og hægt og sígandi orðið líkari honum. Við verðum efld af þeim anda sem eykur okkur sjálfsstjórn og yfirbragð rósemi og yfirvegunar. Við verðum því hógvær af því að vera lærisveinar meistarans, en ekki bara af einhverju sem við gerum.

„Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.“18 „Maðurinn Móse var [þó] einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“19 Speki hans og valdsvið hefðu getað vakið honum drambsemi. Drambið lét aftur á móti undan síga fyrir hinni andlegu gjöf hógværðar, svo Móse efldist og varð verkfæri til að uppfylla tilgang Guðs.

Meistarinn sem fyrirmynd hógværðar

Flest tilkomumestu og mikilvægustu dæmi hógværðar má sjá í lífi sjálfs frelsarans.

Hinn mikli lausnari, sem „sté neðar öllu“20 og þjáðist, úthellti blóði og dó, til a „hreinsa oss af öllu ranglæti,“21 laugaði blíðlega fætur lærisveina sinna.22 Slík hógværð er einkennandi fyrir persónuleika Drottins sem þjóns og leiðtoga.

Jesús sýndi fullkomið dæmi um réttlát viðbrögð og fúsleika til undirgefni, er hann þoldi hinar miklu þjáningar í Getsemane.

„Þegar hann kom á staðinn, sagði hann við [lærisveina sína]: Biðjið, að þér fallið ekki í freistni.

„Og hann … féll á kné [og] baðst fyrir og sagði:

Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“23

Hógværð frelsarans í þessari eilíflega mikilvægu og kvalafullu upplifun, sýnir sérhverju okkar mikilvægi þess að setja visku Guðs ofar eigin visku.

Hin stöðuga og fúslega undirgefni Drottins og hin mikla sjálfstjórn hans, er okkur öllum bæði lærdómsrík og andlega hugvekjandi. Þegar vopnaðir varðliðar musterisins og rómverskir hermenn komu að Getsemane til að taka Jesú höndum, dró Pétur fram sverð sitt og hjó hægra eyrað af þjóni æðsta prestsins.24 Frelsarinn snerti þá eyra þjónsins og læknaði hann.25 Gætið að því að hann lagði á sig að blessa sinn væntanlega fangara og notaði sama himneska máttinn í þeim tilgangi og hefði getað komið í veg fyrri að hann yrði tekinn höndum og krossfestur.

Hugleiðið líka hvernig meistarinn var sakfelldur frammi fyrir Pílatusi og dæmdur til krossfestingar.26 Jesús hafði sagt í þessu svikaferli: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“27 Hinn „[eilífi dómari] bæði lifenda og látinna28 var engu að síður dæmdur frammi fyrir tímabundnum pólitískum embættismönnum. „En [Jesús] svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.“29 Hógværð frelsarans sýndi sig glögglega í yfirveguðum viðbrögðum hans, mikilli sjálfsstjórn og tregðu til að nota hinn sinn óendanlega mátt í eigin þágu.

Fyrirheit og vitnisburður

Mormón segir hógværð vera þann grunn sem allar aðrar andlegar gjafir byggja á.

„Eigi maðurinn því trú, hlýtur hann að eiga von, því að án trúar er enga von að hafa.

Og sjá, ég segi yður enn fremur, að hann getur ekki átt trú og von án þess að hann sé hógvær og af hjarta lítillátur.

Án þess er trú hans og von til einskis, því að enginn er Guði velþóknanlegur, nema hinn hógværi og af hjarta lítilláti. Og ef maðurinn er hógvær og af hjarta lítillátur og játar með krafti heilags anda, að Jesús sé Kristur, hlýtur hann að eiga kærleika. Því að skorti hann kærleika, er hann ekkert. Þess vegna verður hann að eiga kærleika.“30

Frelsarinn sagði: „Blessaðir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“31 Hógværð er nauðsynlegur eiginleiki guðlegs eðlis, sem þróa má og tileinka sér með friðþægingu frelsarans.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er okkar upprisni og lifandi lausnari. Ég heiti því að hann mun leiða, vernda og styrkja okkur, ef við göngum í hógværð anda hans. Ég lýsi yfir mínu örugga vitni um þennan sannleika og þessi loforð, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, amen.