Kenningar forseta
34. kafli: Máttur fyrirgefningar


34. kafli

Máttur fyrirgefningar

„Kom þú, kæri bróðir, því stríðinu er lokið. Vinir eitt sinn og vinir loks að nýju.“

Úr lífi Josephs Smith

Sumarið 1839 gaf spámaðurinn staðnum þar sem hinir heilögu söfnuðust saman nafnið Nauvoo, en hann var Illinois megin við Mississippi-fljótið. Nafnið átti uppruna í hebresku og merkir „fagur staður, en fól einnig í sér hvíld.“1 Hinir heilögu tóku, undir stjórn spámannsins, að breyta þorpinu Commerce í fallega borg. Þeir hófu verkið á því að byggja bjálkahús í stað hreysa sinna og tjalda, og þessu næst byggðu þeir fjölda grindarhúsa og sterkbyggð múrsteinshús. Þeir plöntuðu ávaxtatrjám, vínviði og runnum til að fegra stórar lóðir sínar. Í hinni fallegu borg, Nauvoo, vonuðu hinir heilögu að þeir hefðu fundið kyrrlátan griðastað, þar sem þeir gætu verið í friði fyrir ofsóknum, líkt og þeim er þeir urðu fyrir í Missouri.

Á meðan á uppbyggingunni stóð varð Joseph Smith fyrir reynslu sem var lýsandi dæmi um hina miklu miskunnsemi hans og vilja til að fyrirgefa öðrum og hjálpa þeim að iðrast þess ranga sem þeir höfðu gert. Daniel Tyler sagði frá þessari reynslu:

„Maður nokkur í Far West [Missouri], sem verið hafði háttsettur í kirkjunni, fékk malaríu og hitasótt. Meðan hann var enn máttfarinn á líkama og sál tókst þeim sem farið höfðu frá kirkjunni að sýkja huga hans og sannfæra hann um að yfirgefa hina heilögu og fylgja sér. Hann vitnaði að einhverju leyti gegn spámanninum. Þegar hann komst til heilsu, flutti hann frá Missouri til Quincy, Illinois, en hinir heilögu settust að í Commerce. Þar tók hann að starfa við skógarhögg, til að afla sér tekna svo að hann gæti flutt með fjölskyldu sína til Nauvoo, og [fært] þeim Guðsmanni gjöf, sem hann hafði farið illa með, í þeirri von að hann mundi fyrirgefa sér og leyfa sér að snúa aftur í hjörðina. … Hann vissi að hvergi annars staðar væri sáluhjálp að finna, og ef honum yrði vísað á bug, hefði hann misst allt, að því honum fannst. Hann hóf ferðina sorgmæddur og dapur í hjarta.

Meðan [maðurinn] var á leiðinni, sagði Drottinn Joesph að hann kæmi innan tíðar. Spámaðurinn leit út um gluggann og sá hann koma eftir götunni. Um leið og hann kom að hliðinu til að opna það, stóð spámaðurinn þegar upp úr stól sínum, hljóp í átt til hans í garðinum, og sagði: ,Ó, bróðir – ég er svo glaður að sjá þig!‘ Hann tók utan um hann og báðir grétu líkt og börn.

Það nægir að segja að fullnægjandi iðrun átti sér stað og að þessi fallni maður hafi snúið að nýju til kirkjunnar inn um hliðið, fengið prestdæmið að nýju, farið nokkrum sinnum í trúboð, gengið til liðs við hina heilögu í Síon og dáið í fullri trú.“2

George Q. Cannon, er þjónaði sem ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, greindi frá fleiri dæmum um þann eiginleika Josephs Smith að fyrirgefa: „Af staðföstum stuðningi við sannleikann og óhagganlegri hollustu við boðorð Guðs var Joseph ávallt miskunnsamur við hina veikburða og syndugu. Sumarið 1835 starfaði hann í ráðum og sat á fundum í Kirtland og nágrenni, og var kosinn til að taka þátt í því er réttað var yfir nokkrum meðlimum vegna framkomu þeirra við forsætisráð kirkjunnar. Hvort heldur sem það kom í hans hlut að flytja mál hinna ákærðu eða bera á þá sakir, kom hann fram af svo mikilli ljúfmennsku og réttvísi, jafnvel þótt hann hafi sjálfur verið brotaþoli, að hann ávann sér elsku allra.“3

Kenningar Josephs Smith

Okkur ber að sýna miskunn og fyrirgefa bræðrum okkar og systrum.

„Eitt það ánægjulegasta sem getur átt sér stað á jörðu, þegar einhver hefur drýgt synd gegn annarri manneskju, er að fyrirgefa þá synd, og biðja svo til föðurins á himnum, að hinni himnesku og fullkomnu fyrirmynd frelsarans, að hann fyrirgefi einnig [hinum synduga].“4

„Sýnið ávallt miskunn, og verið fusir til að fyrirgefa bróður ykkar um leið og hann sýnir iðrun og biðst fyrirgefningar. Við ættum að fyrirgefa bróður okkar, og jafnvel óvini okkar, því himneskur faðir mundi sýna okkur jafn mikla miskunn.“5

,Verið þolinmóðir hver við annan, því Drottinn er þolinmóður við ykkur. Biðjið fyrir óvinum ykkar í kirkjunni og fordæmið ekki fjandmenn ykkar. Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn [sjá Róm 12:19]. Við alla vígða meðlimi, og við alla aðra, segjum við: Sýnið miskunn og ykkur verður sýnd miskunn. Leitist við að reyna að frelsa sálir, en ekki tortíma þeim, því að þið vitið sannlega að ,þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.‘ [Sjá Lúk 15:7.]“6

Eliza R. Snow skráði eftirfarandi orð spámannsins: „[Hinir heilögu] ættu, þrátt fyrir ranglætið meðal okkar, að vopnast miskunn. Hann sagðist hafa verið verkfæri við að draga ranglætið fram í ljósið – það hafi verið dapurleg og hræðileg hugsun, að svo margir skuli hafa sett sjálfa sig undir fordæmingu djöfulsins, sem leiðir þá til eilífrar glötunar. Hann sagði af mikilli einlægni, að þeir væru samferðamann okkar, að við hefðum eitt sinn elskað þá, og spurði hvort okkur bæri þá ekki að hvetja þá til betri breytni. [Enn] höfum við ekki fyrirgefið þeim sjötíu sinnum sjö sinnum, líkt og frelsarinn mælti fyrir um [sjá Matt 18:21–22]. Ef til vill höfum við ekki fyrirgefið þeim í eitt skipti. Þetta er dagur sáluhjálpar fyrir þá sem þurfa að iðrast og bæta sig.“7

„Hvað yrði um okkur ef Jesús Kristur og hinir helgu englar mundu hafna okkur af smávægilegum sökum? Við verðum að sýna hvert öðru miskunn, og líta fram hjá hinu léttvæga.“8

Willard Richards, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Joseph sagði að allt væri með ágætum milli hans og himinsins, að hann bæri ekki illvilja til neins. Og Joseph baðst fyrir, líkt og Jesús – ,fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum‘ [sjá Matt 6:12, 14], því ég fyrirgef öllum mönnum fúslega. Ef við viljum tryggja að aðrir elski okkur, verðum við að elska aðra, jafnvel óvini okkar jafnt sem vini.“9

Fyrirgefning endurvekur einingu.

„Það hryggir mig að vináttan sé ekki dýpri. Þjáist einn meðlimur, þjást allir með honum, með samúð hljótum við mátt frá Guði. Kristur sagðist hafa komið til að kalla syndara til iðrunar, svo þeir megi frelsast. Hinir sjálfsréttlátu Gyðingar fordæmdu Krist, því hann bauð syndurum í návist sína. Hann tók þá til sín, svo að þeir iðruðust synda sinna. … Ef [syndarar] iðrast, er ábyrgð okkar sú, að taka þá að okkur, að helga þá með góðvild og hreinsa af öllu óréttlæti, með áhrifum okkar og umhyggju. … Ekkert er jafn gefandi og að leiða fólk frá synd, varðveita það og vaka yfir því af gætni.“10

Spámaðurinn Joseph Smith skrifaði til nokkurra leiðtoga kirkjunnar: „Bræður, ég segi ykkur, að það er á mínu valdi að gefa, fyrirgefa, umbera og vera þolinmóður og langlyndur, varðandi misbresti, veikleika og ranglæti bræðra minna og alls mannkyns. Og traust mitt á ykkur og kærleikur minn til ykkar fer hvorki minnkandi né dvínandi. Látið ekki veikleika okkar og glópsku misbjóða ykkur, ef þið verðið beðnir um að sýna okkur örlítið umburðarlyndi og fáið, líkt og við, einhverjar ávítur. … Þegar við hittumst augliti til auglitis, vænti ég þess, án nokkurs efa, að allt sem okkur fer á milli verði augljóslega skilið, og fullkomin ást ríki, og að hinir helgu sáttmálar, sem binda okkur saman, verði ofarlega í hugum okkar.“11

Spámaðurinn Joseph Smith sagði eftirfarandi á fundi með hinum Tólf og ráðgjöfum sínum í Æðsta forsoetisráðinu: „Stundum hef ég mælt af hörku í hita augnabliksins, og hafi ég sært tilfinningar ykkar á einhvern hátt, bið ég ykkur, bræður, að fyrirgefa mér, því ég elska ykkur, og mun af öllu hjarta styðja ykkur í öllu réttlæti, frammi fyrir Drottni og öllum mönnum. Verið vissir um að ég er fus til að binda enda á allar þrengingar, storminn, þrumurnar og eldingarnar, á sjó sem á landi, í óbyggðum eða meðal falskra bræðra eða meðal múgsins, eða hvert sem Guð kann að senda okkur af sinni guðlegu forsjá. Ég er þess fullviss, að hvorki hæð né dýpt, tignir né vald, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, né nokkuð annað skapað, geti gert mig viðskila við ykkur [sjá Róm 8:38–39].

Og ég geri nú sáttmála við ykkur frammi fyrir Guði, um að ég muni hvorki hlýða á, né taka trúanlegt neitt niðrandi umtal um ykkur, né fordæma ykkur vegna einhvers vitnisburðar sem gefinn er undir himnunum, nema hinn óskeikula vitnisburð, fyrr en ég hef séð ykkur augliti til auglitis, og hlotið örugga vitneskju, og ég hef óbifanlega trú á orðum ykkar, því ég trúi að þið séuð menn sannleikans. Og ég bið þess sama af ykkar hendi, að þið treystið orðum mínum á sama hátt, er ég segi ykkur eitthvað, því ég mun ekki segja ykkur að ég viti eitthvað sem ég veit ekki.“12

Haustið 1835 var William, bróðir spámannsins, ósammála ákvörðun hans, varð bálvondur og tók að koma fram við spámanninn af lítilsvirðingu og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama. Framkoma hans særði spámanninn, og hann skrifaði eftirfarandi til Williams: ,Von mín er sú, bróðir William, að þú verðir auðmjúkur. Ég fyrirgef þér af fúsum vilja og þú þekkir óhagganlegt og óbreytanlegt eðli mitt. Ég veit á hvern ég reiði mig, ég stend á klettinum, flóðið getur ekki og mun ekki ná til mín. Þú veist að kenningin sem ég kenni er sönn, þú veist að Guð hefur blessað mig. … Þú veist að mér ber skylda til að áminna þig, þegar þú breytir rangt. Það er mér ávallt heimilt og það er þér einnig. Ég nýti mér það nú til að ávíta þig, sökum fæðingarréttar míns, og ég veiti þér þau forréttindi, því mér ber skylda til að vera auðmjúkur og taka ávítum og tilsögn frá bróður eða vini. …

Megi Guð hafa miskunn með húsi föður míns, megi Guð afmá óvináttuna milli mín og þín. Megi allar blessanir verða endurreistar og hið liðna gleymt að eilífu. Megi auðmjúk iðrun okkar færa okkur nær þér, ó Guð, og mætti þínum og vernd og hásæti um eilífð, svo við fáum notið samfélags við föður okkar og móður, Alvin, Hyrum, Sophroniu, Samuel, Catherine, Carlos, Lucy, hina heilögu og alla sem njóta blessunar friðar, en þessi er bæn bróður þíns.“13

Hinn 1. janúar 1836 sagði spámaðurinn eftirfarandi um tilraunir sínar til að ráða fram úr erfiðleikum fjölskyldu sinnar: „Þrátt fyrir það þakklæti sem fyllir hjarta mitt, er ég lít til baka yfir liðið ár, og hugleiði allar þær blessanir sem úthellt hefur verið yfir höfuð okkar, skynja ég sársauka í hjarta mínu, sökum þeirra erfiðleika sem eru í fjölskyldu föður míns. … Ég er staðráðinn í því að ekkert muni skorta á hjá mér, á þessum degi, við að bæta allt og útkljá allan vanda fjölskyldu minnar, svo að næstu árum, hvort sem þau verða fá eða mörg, verði varið í réttlæti frammi fyrir Guði. …

William og Hyrum, bræður mínir, og John Smith frændi komu á heimili mitt og við fórum inn í herbergi, ásamt föður mínum og öldungi Martin Harris. Smith, faðir minn, hóf fundinn með bæn, og tók þessu næst til máls, afar sorgmæddur í yfirbragði, já, af allri þeirri meðaumkun sem faðir getur búið yfir, og hann var afar særður sökum þeirra erfiðleika sem fjölskyldan stóð frammi fyrir. Og þegar hann talaði til okkar, hvíldi andi Guðs svo kröftuglega yfir okkur, að hjörtu okkar milduðust. William bróðir gerði auðmjúkur játningu og baðst fyrirgefningar fyrir að hafa komið illa fram við mig. Og ég bað hann að fyrirgefa mér fyrir það sem ég hafði gert á hans hlut.

Og andi játningar og fyrirgefningar var með okkur öllum og við gerðum sáttmála við hvor annan, í návist Guðs og hinna helgu engla, og bræðranna, að kappkosta héðan í frá að byggja hvor annan upp í réttlæti, og hlusta ekki á illar umsagnir hvor um annan, og ræða hvor við annan, líkt og bræðrum ber að gera, um ágreining okkar, í anda ljúfmennsku, og sættast, og stuðla þannig að hamingju okkar og fjölskyldunnar, eða í stuttu máli, hamingju og velferð allra. Við buðum síðan eiginkonu minni, móður og ritara mínum að koma inn fyrir, og endurtókum fyrir þau sáttmálann sem við höfðum gert. Og þar sem þakklætið fyllti hjörtu okkar, tóku tárin að renna niður vangana. Mér var síðan falið að ljúka fundinum með bæn, sem ég og gerði, og þetta var sannlega gleðiefni og ástæða til að fagna.“14

Við getum leitt hina iðrandi í „frelsi hinna kæru barna Guðs“ með því að sýna þeim langlyndi, þolinmæði og miskunnsemi.

Síðla árið 1838 var William W. Phelps, sem verið hafði einn af traustari meðlimum kirkjunnar, meðal þeirra sem vitnuðu ranglega gegn spámanninum og fleiri leiðtogum kirkjunnar, er leiddi til fangavistunar þeirra í Missouri. Í júní 1840 skrifaði bróðir Phelps til Josephs Smith, og sárbændi hann um fyrirgefningu. Spámaðurinn Joseph svaraði: „Ég verð að segja, er ég reyni að rita þessar fáeinu línur til að svara bréfi þínu frá 29. [síðastliðins mánaðar], að tilfinningar mínar eru blendnar, en samtímist gleðst ég yfir þeim forréttindum sem mér veitast hér.

Þú skilur ef til vill að einhverju leyti líðan mína, svo og öldungs Rigdons og Hyrums bróður, er við lásum bréf þitt – vissulega milduðust hjörtu okkar og fylltust samúð er við áttuðum okkur á ásetningi þínum o. s. frv. Ég fullvissa þig um að ég finn mig knúinn til að taka á máli þínu að hætti Jehóva, (hvers þjónn ég er), og að reglu sannleika og réttlætis, sem opinberuð hefur verið, og ég mun taka mér til fyrirmyndar það langlyndi, þá þolinmæði og miskunn, sem einkennt hefur samskipti himnesks föður við hina auðmjúku og iðrandi, og varðveita þá reglu, og verða þannig frelsari samferðamanna minna.

Satt er að við höfum orðið að þola mikið sökum gjörða þinna – því fyrir dauðlega menn var hinn beiski bikar þegar barmafullur og ekki á hann bætandi með því athæfi þínu að snúast gegn okkur, þar sem við höfðum oft ráðið ráðum okkar innilega saman, og notið margra góðra stunda af hendi Drottins – ,því að það er eigi óvinur sem hæðir mig það gæti ég þolað.’ [Sjá Sálm 55:12–14]. ,Þann dag, er þú stóðst andspænis honum, þann dag, er aðkomnir menn fluttu burt fjárafla hans hertekinn og útlendingar brutust inn um borgarhlið hans og urpu hlutkesti um [Far West], varst þú sem einn af þeim. Horf eigi með ánægju á dag bróður þíns, á ógæfudag hans, og gleð þig eigi yfir Júda sonum á eyðingardegi þeirra og lát þér eigi stóryrði um munn fara á neyðardegi þeirra.‘ [Sjá Óbadía 1:11–12.]

Af bikarnum hefur þó verið sopið, vilji föðurins hefur ráðið og við erum enn á lífi, sem við þökkum Drottni. Og þar sem okkur hefur verið bjargað úr höndum ranglátra manna, fyrir miskunn Guðs, segjum við að forréttindi þín séu þau að verða bjargað frá valdi óvinarins, að koma inn í frelsi hinna kæru barna Guðs og hljóta stöðu þína að nýju meðal hinna heilögu hins æðsta, og af kostgæfni, auðmýkt og fölskvalausri ást fela þig í hendur Guðs okkar, og Guðs þíns, og kirkju Jesú Krists.

Ég trúi að játning þín sé einlæg og iðrun þín sönn, og því mun ég að nýju rétta þér hönd vináttu og gleðjast yfir hinum týnda sem snýr aftur.

Bréf þitt var lesið fyrir hina heilögu síðasta sunnudag og komust þeir að samhljóma niðurstöðu um að veita skyldi W. Phelps stöðu hans að nýju.

,Kom þú, kæri bróðir, því stríðinu er lokið,

Vinir eitt sinn og vinir loks að nýju.‘ “15

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Þessi kafli geymir nokkrar frásagnir af Joseph Smith, er hann fyrirgaf öðrum. Lesið þær frásagnir á bls. 389–91, 394–95 og 395–97. Hvernig geta þessar frásagnir hjálpað þeim sem reyna að fyrirgefa öðrum?

  • Hvaða blessanir hljótum við þegar við fyrirgefum þeim sem særa okkur? Hvers vegna eigum við stundum erfitt með að fyrirgefa öðrum? Hvað getum við gert til að þróa anda fyrirgefningar?

  • Á síðu 392 eru stuttar og viturlegar setningar um að fyrirgefa öðrum. Dæmi: ,Verið þolinmóðir hver við annan, því Drottinn er þolinmóður við ykkur.“ „Sýnið miskunn og ykkur verði sýnd miskunn.“ „Leitist við að reyna að frelsa sálir, en ekki tortíma þeim.“ „Við verðum að sýna hvert öðru miskunn, og líta fram hjá hinu léttvæga.“ Hvaða segir hver þessara yfirlýsinga ykkur?

  • Lesið orð spámannsins í neðstu málsgreininni á síðu 392 um áhrif góðvildar og ljúfmennsku. Hvers vegna teljið þið að þessi leiðsögn sé sönn? Hafið þið upplifað þessar reglur í lífi ykkar?

  • Lesið málsgreinina neðst á síðu 393. Hvaða vanda getum við forðast, ef við fylgjum þessari leiðsögn? Hvers vegna getur reynst erfitt að fylgja þessari leiðsögn? Hvernig getum við sigrast á þeirri freistingu að taka neikvæðan orðróm um aðra trúanlegan?

  • Þegar spámaðurinn fyrirgaf öðrum greindi hann frá þeirri þrá sinni að fara að fyrirmynd himnesks föður (bls. 396) og lifa „að hinni himnesku og fullkomnu fyrirmynd frelsarans“ (bls. 391). Hvaða eiginleika þroskum við, er við kappkostum að fylgja fordæmi himnesks föður og Jesú Krists?

Ritningargreinar tengdarefninu: Sálm 86:5; Matt 18:21–35; 1 Ne 7:16–21; Mósía 26:29–31; K&S 64:9–11

Heimildir

  1. History of the Church, 4:268; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, 15. jan. 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. jan. 1841, bls. 273–74.

  2. Daniel Tyler, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 15. ágúst 1892, bls. 491; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  3. George Q. Cannon, The Life of Joseph Smith, the Prophet (1888), bls. 190–91.

  4. History of the Church, 6:245; úr “A Friendly Hint to Missouri,“ grein rituð undir leiðsögn Josephs Smith, 8. mars 1844, Nauvoo, Illinois, birtist í Times and Seasons, 15. mars 1844, bls. 473.

  5. History of the Church, 3:383; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júlí 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  6. History of the Church, 2:230, neðanmálsgrein; úr “To the Saints Scattered Abroad,“ Messenger and Advocate, júní 1835, bls. 138.

  7. History of the Church, 5:19–20; orðið „Enn“ var upprunalega í sviga; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  8. History of the Church, 5:23; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júní 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  9. History of the Church, 5:498; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  10. History of the Church, 5:23; from a discourse given by Joseph Smith on June 9, 1842, in Nauvoo, Illinois; reported by Eliza R. Snow.

  11. Bréf frá Joseph Smith til Edwards Partridge og fleiri, 30. mars 1834, Kirtland, Ohio; í Oliver Cowdery Letterbook, bls. 34–35, Huntington bókasafnið, San Marino, Kaliforníu; afrit í Skjalasafni kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah

  12. History of the Church, 2:374; greinaskilum bætt við; úr fundargerð ráðsfundar Æðsta forsætisráðsins og hinna Tólf, haldinn 16. jan. 1836, í Kirtland, Ohio; skráð af Warren Parrish.

  13. History of the Church, 2:343; úr bréfi frá Joseph Smith til Williams Smith, 18. des. 1835, Kirtland, Ohio.

  14. History of the Church, 2:352–54; greinaskilum bætt við; úr dagbókarfærslu Josephs Smith, 1. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  15. History of the Church, 4:162–64; annar textasvigi í þriðju málsgrein upprunlegur; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; skáletri eytt; úr bréfi frá Joseph Smith til Williams W. Phelps, 22. júlí 1840, Nauvoo, Illinois.

Ljósmynd
Christ teaching

Frelsarinn sýnir samúð konu sem tekin hafði verið fyrir að drýgja hór (sjá Jóh 8:1–11). Joseph Smith sagði: „Kristur sagðist hafa komið til að kalla syndara til iðrunar, svo þeir megi frelsast.“

Ljósmynd
W. W. Phelps speaking with Joseph

Myndin á að sýna William W. Phelps, ásamt Joseph Smith, eftir að hann sneri til samfélags við hina heilogu að nýju. Hann orti um spámanninn, sem hafði svo fúslega fyrirgefið honum: „Lof syngið honum“(Sálmar, nr. 11).