Kenningar forseta
Viðauki: Heimildir í bókinni


Viðauki:

Heimildir í bókinni

Fjöldi heimilda er notaður til að taka saman kenningar spámannsins Josephs Smith, þar á meðal ritverkið History of the Church. Eftirfarandi efni er ætlað að auka skilning á þeim heimildum.

Heimildagögn kenninga spámannsins

Kenningar spámannsins Josephs Smith í þessari bók eru teknar úr eftirtöldum heimildum:

Prédikanir. Í þessu riti er fjöldi tilvitnana í fyrirlestra sem spámaðurinn Joseph Smith hefur haldið. Sá háttur sem hafður var á við skráningu þessara prédikana er afar frábrugðinn skráningu prédikana síðari forseta kirkjunnar. Þeir kirkjuforsetar sem komu á eftir Joseph Smith notuðu skrifara til að hraðrita ræður sína fyrir kirkjumeðimi. Þegar rafræn upptökutæki komu til sögunnar, svo sem segulband og kvikmyndavélar, voru þau notuð við skráningu á dýrmætum orðum kirkjuleiðtoga.

Á æviskeiði Josephs Smith var hraðritun þó ekki orðin almenn. Prédikanir hans voru því skráðar ónákæmlega með handskrift, yfirleitt af riturum, kirkjuleiðtogum eða öðrum kirkjumeðlimum. Næstum allar ræður Josephs Smith voru fluttar óundirbúið, án skrifaðs texta, svo að glósurnar sem þeir skráðu sem á hlýddu eru eina skráning þessara fyrirlestra. Þótt til sé ítarlegri skráning á sumum ræðum hans, eru flestar þeirra samantekt þess boðskapar sem spámaðurinn flutti. Því miður hafa margar ræður sem Joseph Smith hélt ekki verið skráðar. Af þeim 250 ræðum sem vitað er að hann flutti, voru aðeins 50 þeirra skráðar af skrifurum eða öðrum sem í skarðið hlupu.

Greinar. Sumar kenningar spámannsins í þessu riti eru teknar úr greinum sem Joseph Smith ætlaði til birtingar í tímaritum kirkjunnar, þar á meðal í Evening and Morning Star, Latter Day Saints’ Messenger and Advocate, Elders’ Journal, og Times and Seasons.1 Joseph Smith ritaði eða las fyrir sumt það sem birta átti. Hann fékk einnig oft skrifara, þá einhvern í Æðsta forsætisráðinu eða annan trúverðugan einstakling, til að skrifa grein um eitthvert efni sem hann vildi koma á framfæri. Spámaðurinn samþykkti svo textann, eftir að hafa farið yfir hann og gengið úr skugga um að hann væri í samræmi við hugsun hans, og birti hann síðan undir sínu nafni. Í þessu riti er til að mynda tilvitnanir í nokkrar ritstjórnargreinar sem birtar voru í Times and Seasons árið 1842. Á átta mánaða tímabili þess árs, frá febrúar til október, starfaði Joseph Smith sem ritstjóri þess tímarits og birti oft greinar merktar „Ed.“ Þótt aðrir hafi hjálpað til við að skrifa þessar greinar, samþykkti spámaðurinn þær og birti þær undir sínu nafni.

Bréf. Í þessu riti er vitnað i mörg bréf sem skrifuð voru af Joseph Smith eða eftir upplestri hans. Í þessu riti er einnig vitnað í bréf sem Joseph Smith hefur samþykkt og undirritað, en voru að hluta eða alveg skrifuð af öðrum undir hans leiðsögn.

Dagbækur. Dagbækur spámannsins eru auðugar af kenningum hans. Þótt dagbækur hans séu yfirgripsmiklar, þá skrifaði hann þær í raun sjaldan sjálfur. Þess í stað fól hann skrifara að halda dagbækur fyrir sig, undir sinni leiðsögn, og bauð honum að beina athyglinni að hinni ábyrgðarmiklu köllun hans. Rétt fyrir píslarvættisdauða sinn sagði hann: „Ég hef skrá yfir allar mínar gjörðir og framkvæmdir síðustu þrjú árin, því ég hef haft nokkra góða, trúfasta og duglega ritara í fullu starfi: Þeir hafa fylgt mér hvarvetna og skráð vandlega sögu mína, það sem ég hef gert, hvert ég hef farið og hvað ég hef sagt.“2 Skrifarar spámannsins skráðu dagbækur hans í þriðju persónu og í fyrstu persónu, líkt og Joseph Smith væri sjálfur að skrifa.

Minningar annarra. Í þessu riti er vitnað í endurminningar þeirra sem hlýddu á spámanninn tala og skráðu síðar orð hans í eigin dagbækur og önnur rit. Eftir dauða spámannsins hófu kirkjuleiðtogar og sagnfræðingar mikið átak við að viða að sér slíkum ritum til varðveislu og að skrá endurminningar um spámanninn sem ekki voru á prentuðu máli. Slíkar heimildir hafa aðeins verið notaðar þegar viðkomandi einstaklingur heyrði orðin sem skráð voru.

Ritningar. Í þessu riti er vitnað í kenningar og skrif Josephs Smith, er síðar voru samþykkt sem ritning í Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu. Þau skrif geyma fræðslu sem hann veitti um kenningarlegt efni, vitranir sem hann skráði og bréf og önnur skjöl sem hann skrifaði. Í þessu riti er vitnað í þær viðurkenndu kenningar og þau skrif til ítarlegri skýringar á kenningum sem fjallað er um í ritinu.

Saga kirkjunnar

Margar ræður og ritað mál spámannsins Josephs Smith í þessu riti eru tilvitnanir í History of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, sem vísað er í sem History of the Church.3 Fyrstu tvö bindi History of the Church greina frá sögu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, frá stofnun hennar til dauða Josephs Smith. Sú saga segir aðallega frá atburðum og upplifunum sem tengjast lífi og þjónustu Josephs Smith. Hún er ein mikilvægasta heimildin sem geymir sagnfræðilegar upplýsingar um líf og kenningar spámannsins og framvindu kirkjunnar á fyrstu árum hennar.

Joseph Smith hóf að skrá söguna sem síðar, eða 1838, varð History of the Church, til að sporna gegn ósönnum frásögnum sem út komu í fréttablöðum og annars staðar. Það var honum afar mikilvægt að ljúka skráningu þessa sögurits. Árið 1843 sagði hann: „Það eru aðeins fáein mál sem ég hef haft meiri áhyggjur af en ritun sögu minnar, sem hefur verið afar erfitt verkefni.“4

Uppistaðan í History of the Church eru endurminningar spámannsins, dagbækur hans og fleiri persónulegar heimildir. Ritið geymir frásagnir um dagleg verkefni spámannsins og merkilega atburði í sögu kirkjunnar. Það geymir einnig greinargerðir um fyrirlestra spámannsins, afrit af opinberunum sem hann hlaut, greinar úr tímaritum kirkjunnar, minnispunkta frá ráðstefnum og fleiri skjöl.

Joseph Smith var iðinn við að skrá og fara yfir sögu sína fram að dauða sínum. Hann sá þó um að aðrir ynnu mestan hluta verksins undir sinni leiðsögn. Ástæða þess var sú að hann kaus að tala eða lesa fyrir, í stað þess að skrifa það, vegna þess að þjónusta hans var krefjandi. Í sögu spámannsins 5. júlí 1839 er skráð: „Ég las frásögnin fyrir, því sjálfur nota ég sjaldan penna.“5

Fyrir júní 1844 hafði sagan verið skráð til og með 5. ágúst 1838. Nokkru fyrir dauða sinn í Carthage-fangelsinu bauð spámaðurinn öldungi Willard Richards, sem var aðalskrifari hans, að halda áfram að taka saman söguna.6 Öldungur Richards og fleiri menn sem verið höfðu nánir spámanninum, héldu áfram að skrá söguna, líkt og þeim hafði verið boðið, þar til öldungur Richards lést árið 1854. Eftir það var sagan skráð af öldungi George A. Smith, eða undir umsjón hans, en hann var frændi og náinn vinur spámannsins. Hann var vígður postuli árið 1839 og varð söguritari kirkjunnar árið 1854. Margir aðrir sem störfuðu á skrifstofu söguritarans aðstoðuðu einnig við samantekt hennar.

Eitt mikilvægt verkefni þeirra sem tóku saman History of the Church var ritstjórn og undirbúningur upprunalegra gagna undir söguritun. Starf þeirra fólst í því að gera smávægilegar ritstjórnarlegar breytingar á næstum öllum upprunalegum skjölum sem vera áttu í History of the Church. Starfsfólk þetta leiðrétti stafsetningarvillur og samræmdi greinarmerkjasetningu, upphafsstafi og málfræði. Í sumum tilvikum gerði það einnig aðrar leiðréttingar á upprunalegu skjölunum. Þeim breytingum má skipta í þrjá flokka:

  1. Sameina frásagnir. Margar ræður Josephs Smith voru skráðar af fleiri en einum skrifara. Í sumum tilvikum voru tvær eða fleiri frásagnir sameinaðar í eina í History of the Church.

  2. Breyta þriðju persónu í fyrstu persónu. Margar frásagnir um kenningar spámannsins og verk hans voru skráðar í þriðju persónu. Þær frásagnir voru aðallega skrifaðar af skrifurum hans, en sumar þeirra voru teknar úr ritum annarra, sem þekktu spámanninn, og fréttablaðagreinum. Við vinnslu History of the Church var sagan rituð í fyrstu persónu, líkt og spámaðurinn hefði ritað hana. Það krafðist þess að breyta varð sumum frásagnanna úr þriðju persónu yfir í fyrstu persónu.

  3. Bæta við eða breyta orðum og orðasamböndum. Margir hinna upprunalegu minnispunkta sem tengdust ræðum spámannsins voru stuttir og samhengislausir. Í sumum þeirra tilvika endurgerðu söguritarar ræður spámannsins, með hliðsjón af tiltækum gögnum, minningum sínum og reynslu tengdum spámanninum. Það fólst oft í því að bæta þurfti við eða breyta orðum eða orðasamböndum til að fylla í skörð og skýra mál.

Allt er varðaði samantekt og ritmál í History of the Church var borið undir postulana til leiðsagnr og endurskoðunar. Sagan var lesin upp fyrir meðlimi Æðsta forsætisráðsins, þar á meðal Brigham Young forseta, og þá sem skipuðu Tólfpostulasveitina, en sumir þeirra höfðu þekkt spámanninn náið og hlýtt á ræður hans. Þessir leiðtogar samþykktu handritið til útgáfu, sem sögu þess tímaskeiðs kirkjunnar sem hún náði yfir.

Í ágúst 1856 var söguritun fram að dauða Josephs Smith lokið. Sagan var birt í raðgreinum í tímaritum kirkjunnar á nítjándu öldinni, undir heitinu „History of Joseph Smith.“7 Síðar ritstýrði öldungur B. H. Roberts, meðlimur í forsætisráði hinna Sjötíu, útgáfu hennar á árunum 1902 til 1912 í sex bindum. Hún bar heitið History of The Church of Jesus Christ of Latterday Saints.

Þeir sem tóku saman söguna staðfestu nákvæmni verksins. Öldungur George A. Smith sagði: „Þess var vandlega gætt að hugmyndir spámannsins væru settar fram í hans stíl, eins og unnt var, og í engum tilvikum hefur afstöðu hans verið breytt, svo ég viti til, en ég hlýddi á flestar ræður hans sjálfur, var stöðugt með honum og flestar endurminningarnar um kenningar hans eru mér ljóslifandi, og fyrirætlanir hans og reglur voru mér vel kunnar.“8

Öldungur George A. Smith og öldungur Wilford Woodruff sögðu: „Saga Josephs Smith er nú aðgengileg heiminum og við fögnum því að slík nákvæm saga hafi verið gefin út. Sagnfræðingar og söguritarar hafa lagt sig alla fram, til að sagan yrði rétt og nákvæm. Þeir voru sjónarvottar að nærri öllum atburðum sem skráðir eru í þessari sögu, sem flestir voru skráðir um leið og þeir gerðust, og hafi þeir ekki sjálfir verið viðstaddir, hafa þeir haft aðgang að þeim sem þar voru. Auk þess hefur sagan verið vandlega yfirfarin frá dauða spámannsins Josephs, undir vökulu auga Brighams Youngs forseta og verið samþykkt af honum.

Við berum því hér með heiminum öllum vitni, eða þeim sem lesa þessi orð, að saga Josephs Smith er sönn, og ein sú áreiðanlegasta sem rituð hefur verið.“9

Í þessu riti er vitnað í ræður og rit spámannsins í History of the Church, nema því aðeins að upprunalegar ræður eða rit séu þar ekki fyrir hendi. Þegar vitnað er í History of the Church í þessu riti, er þess getið í heimildum aftast í hverjum kafla hver ræðan eða hvert ritefnið er, ásamt nöfnum þeirra sem skráðu ræður spámannsins. Þar er einnig greint frá því þegar söguritarar History of the Church sögðu frá upplifunum sínum og minningum um Joseph Smith, til þess að breyta eða bæta orðum eða setningum við upprunalegu greinargerðina. Aðeins er getið um slíkar breytingar eða viðauka, ef merking tilvitnunar breytist. Ekki er getið um minniháttar breytingar.

Bókin Joseph Smith - Saga, eins og hún er skráð í Hinni dýrmætu perlu, er útdráttur úr fyrstu fimm köflum fyrsta bindis History of the Church.

Heimildir

  1. Evening and Morning Star var gefið út í Independence, Missouri, frá 1832 til 1833, og í Kirtland, Ohio, frá 1833 til 1834. Latter Day Saints’ Messenger and Advocate var gefið út í Kirtland frá 1834 til 1837. Elders’ Journal var gefið út í Kirtland 1837 og í Far West, Missouri, 1838. Times and Seasons var gefið út í Nauvoo, Illinois, frá 1839 til 1846.

  2. History of the Church, 6:409; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  3. Vísað hefur verið til History of the Church sem söguheimildar kirkjunnar.

  4. History of the Church, 6:66; úr “History of the Church” (handrit), bók E-1, bls. 1768, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  5. History of the Church, 4:1; úr “History of the Church” (handrit), bók C-1, bls. 963, Skjalasafn kirkjunnar.

  6. Sjá bréf frá George A. Smith til Wilfords Woodruff, 21. apríl 1856, Salt Lake City, Utah; í Historical Record Book, 1843 - 74, bls. 219, Skjalasafn kirkjunnar.

  7. “History of Joseph Smith” var gefin út í Times and Seasons frá 15. mars 1842 til 15. febr. 1846. Henni var áfram haldið í Deseret News frá 15. nóv. 1851 til 20. jan. 1858. Hún var endurprentuð í Millennial Star frá júní 1842 til maí 1845 og frá 15. apríl 1852 til 2. maí 1863.

  8. Sjá bréf frá George A. Smith til Wilfords Woodruff, 21. apríl 1856, Salt Lake City, Utah; í Historical Record Book, 1843- 74, bls. 218, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. George A. Smith og Wilford Woodruff, Deseret News, 20. jan. 1858, bls. 363; greinaskilum bætt við.