Kenningar forseta
32. Kafli: Svara ofsóknum með trú og hugrekki


32. Kafli

Svara ofsóknum með trú og hugrekki

„Óttist ekki, heldur styrkist í Drottni og í krafti máttar hans.“

Úr lífi Josephs Smith

Veturinn 1838–39 hafði varnarlið Missouri-fylkis fengið þá tilskipun frá fylkisstjóranum að reka hina Síðari daga heilögu burt úr fylkinu, og spámaðurinn Joseph Smith var vistaður í Libertyfangelsinu. Þennan vetur og vorið á eftir máttu margir hinna heilögu líða hræðilegar þjáningar og þúsundir þeirra neyddust til að flýja heimili sín í Missouri. Þeir skildu eigur sínar eftir og hófu 320 kílómetra ferð austur, í átt til vesturhluta Illinois, undir stjórn Brighams Young og fleiri leiðtoga kirkjunnar. Nokkrir hinna heilögu áttu góða vagna og hesta, en margir þeirra sváfu úti án skýlis í rigningu og snjó. Þeir sem ekki áttu skó vöfðu fætur sína í tuskur er þeir gengu á snjónum.

Í febrúar 1839 hjálpaði góður nágranni Emmu Smith henni að koma fjórum börnum hennar og nokkrum eigum í vagn sem fóðraður var með hálmi. Þegar hópurinn kom að ísilögðu Mississippi-fljótinu gekk Emma yfir ísinn með börn sín og bar handrit spámannsins af þýðingu Biblíunnar í tveimur taupokum, sem bundnir voru um mitti hennar undir pilsinu. Hún og margir aðrir bágstaddir heilagir leituðu sér hælis í samfélaginu Quincy, Illinois og þótt létt hefði á þjáningum þeirra, sökum margra góðverka frá samfélaginu, þjáðust þau enn af hungri, kulda og sjúkdómum.

Þótt spámaðurinn Joseph hafi þráð að hjálpa hinum heilögu, gat hann aðeins beðið fyrir þeim og veitt þeim leiðsögn með bréfaskriftum til Brighams Young og annarra bræðra, sem leiðbeindu hinum heilögu í fjarveru hans. Við þessar örvæntingarfullu aðstæður skrifaði hann hvatningar- og friðarorð til meðlima kirkjunnar: „Ástkæru bræður, [vér skulum] með glöðu geði gjöra allt sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs og arm hans opinberast“ (K&S 123:17).

Hinn 6. apríl 1839 voru spámaðurinn og samfangar hans fluttir vegna breytingar á varnarþingi frá Liberty-fangelsinu til Gallatin í Daviess-sýslu, Missouri. Eftir að réttað hafði verið yfir þeim þar, var farið með bræðurna frá Gallatin til Colombia, Bonne-sýslu, Missouri. En um miðjan aprílmánuð, er spámaðurinn og hinir fangarnir voru fluttir frá Colombia, gáfu verðirnir þeim færi á að komast undan. Innan viku höfðu bræðurnir sameinast hinum heilögu í Quincy, Illinois. Öldungur Wilford Woodruff skrifaði í dagbók sína um endurfund hans og spámannsins: ,Við … nutum þeirrar ánægju að nýju að taka í hönd bróður Josephs. … Hann heilsaði okkur af mikilli gleði. Hann hafði rétt áður komist frjáls úr fangelsinu og frá óvinum sínum, og snúið í faðm fjölskyldu sinnar og vina. … Joseph var hreinskilinn og vingjarnlegur eins og alltaf. Systir Emma var svo sannarlega hamingjusöm.“1

Spámaðurinn flutti síðar lofræðu til hinna heilögu, sem ásamt honum voru svo staðfastir í trú sinni við að endurreisa fagnaðarerindi Jesú Krists: „Hinir heilögu hafa breytt lofsamlega í öllu ranglætinu og þjáningunum sem þeir hafa þolað. Þeir hafa sýnt hugrekki við að verja bræður sína gegn reiðum múgnum; þeir hafa verið staðfastir í málstað sannleikans við afar erfiðar og krefjandi aðstæður, sem menn fá vart þolað; þeir hafa elskað hver annan, verið fusir til að veita mér og bræðrum mínum aðstoð, sem vistaðir voru í dýflissu. Þeir hafa fært þá fórn að yfirgefa Missouri og hjálpa fátækum ekkjum og munaðarleysingjum og tryggja þeim húsaskjól á vinveittara landsvæði. Allt verður þetta til þess að þeir vaxa í áliti allra góðra og dyggðugra manna og til að tryggja þeim velþóknun og lof Jehóva og nafn jafn varanlegt og eilífðin.“2

Kenningar Josephs Smith

Óvinur sannleikans fer gegn þjónum Drottins, einkum er þeir komast nær Drottni.

„Ofsóknir hafa öðru hverju skollið á okkur, … líkt og þrumugnýr, sökum trúar okkar.“3

„Trúarreglur okkar eru reiðubúnar til skoðunar frammi fyrir öllum mönnum, þó er okkur kunnugt um að allar ofsóknir á hendur vinum okkar eiga rætur að rekja til óhróðurs [falskra ásakana] og rangtúlkana, án þess að mið sé tekið af sannleika og réttlæti. Við höfum, líkt og önnur samfélög trúaðra sem taka að vaxa, þurft að þola ofsóknir.“4

„Undrist því ekki þótt þið verðið fyrir ofsóknum, minnist heldur orða frelsarans: ,Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður’ [sjá Jóh 15:20]. Ef hinir heilögu þurfa að þola allar þessar þrengingar, er það uppfylling þeirra orða sem spámennirnir hafa talað frá upphafi heimsins.“5

„Þegar ég geri mitt allra besta – þegar ég fæ komið miklu góðu til leiðar, virðist illur orðrómur og allt illt snúast gegn mér. … Óvinir þessa fólks munu aldrei láta af ofsóknum sínum gegn kirkjunni, fyrr en þeir eru yfirbugaðir. Ég reikna með að þeir noti allt það gegn mér sem í þeirra valdi er, og að átök okkar verði löng og hörmuleg. Sá sem hyggst taka þátt í hinni sönnu baráttu kristinna gegn spillingunni á þessum síðustu tímum, mun stöðugt fá rangláta menn og engla djöfulsins, og alla krafta vítis og myrkurs, upp á móti sér. Þegar ranglátir og spilltir menn sýna andstöðu, er það til merkis um að einhver sé að berjast hinni kristilegu baráttu. Sælir eru þér, ef allir menn mæla svikráð gegn yður, o. s. frv. [Sjá Matt 5:11.] Ætti maðurinn að teljast slæmur, ef menn mæla illt gegn honum? Nei, standi maðurinn gegn synd heimsins, má hann vænta þess að allir guðlausir og spilltir andar snúist gegn sér.

En það mun aðeins standa yfir stutta stund, og öllum slíkum þrengingum mun linna, svo framarlega sem við erum trúföst og látum ekki bugast af þessum illu öflum. Þegar við sjáum blessanirnar og gjafirnar koma og ríkið eflast og breiðast út um löndin breið, munum við fagna yfir því að hafa ekki látið bugast af þessum heimskulegu hlutum.“6

„Sumir telja að óvinir okkar láti sér nægja að ég farist; en ég segi ykkur að um leið og þeir hafa úthellt mínu blóði, mun þá þyrsta í blóð sérhvers þess manns sem í hjarta sínu býr að minnsta ljósi fyllingar fagnaðarerindisins. Andstaða þessara manna er knúin áfram af anda óvinar alls réttlætis. Það nægir ekki aðeins að tortíma mér, heldur einnig öllum körlum og konum, sem voga sér að trúa kenningunum sem Guð hefur innblásið mér að kenna þessari kynslóð.“7

„Af reynslu hefur mér lærst að óvinur sannleikans hvorki blundar, né lætur hann af því að reyna að snúa samfélaginu gegn þjónum Drottins, heldur tendrar hann reiði manna gegn öllu mikilvægu og áhugaverðu.“8

Þeir sem elska Guð munu þola ofsóknir af hugrekki og í trú.

„Allir heilagir, njótið góðs af þessum mikilvæga lykli – verið örugg um það í öllum ykkar erfiðleikum, freistingum, hörmungum, fjötrum, fangelsum, sorgum og dauða, að þið bregðist ekki himninum; að þið bregðist ekki Jesú Kristi; að þið bregðist ekki bræðrunum; að þið vanvirðið ekki opinberanir Guðs, hvort heldur í Biblíunni, Mormónsbók eða Kenningu og sáttmálum, eða sem á annan hátt verða gefnar mönnum í þessum heimi eða komandi heimi. Já, gætið þess í öllum ykkar ofsóknum og baráttu að gera það ekki, því þá mun saklaust blóð sjást á klæðum ykkar, og þið munuð fara til heljar.“9

Vorið 1830 sættu hinir heilögu ofsóknum vegna útgáfu Mormónsbókar: „Mormónsbók (stafur Jósefs, sem er í hendi Efraíms,) hafði nú komið út í nokkurn tíma, og líkt og hinir fornu spámenn höfðu sagt fyrir um, þá var hún ,[álitin] sem orð útlendings.‘ [Sjá Hós 8:12.] Það var ekki lítið uppnám sem útgáfa hennar olli. Mikið mótlæti og ofsóknir fylgdu þeim sem trúðu áreiðanleika hennar. Og nú hafði það komið fram, að upp úr jörðu hafði sannleikurinn sprottið, og réttlætið verið sent niður af himni [sjá Sálm 85:12; Mós 7:62]. En við óttuðumst ekki andstæðinginn, því við vissum að bæði sannleikurinn og réttlætið væri okkar megin, og einnig faðirinn og sonurinn, því kenningar Krists voru okkar megin og við lifðum eftir þeim. Og sökum þess héldum við áfram að prédika og veita fræðslu öllum þeim á vildu hlýða.10

Í júlí 1839 skráði Wilford Woodruff: „Joseph ávarpaði okkur með fáeinum orðum og sagði: ,Minnist þess bræður, að ef þið eruð í varðhaldi, þá hefur bróðir Joseph verið í varðhaldi á undan ykkur. Séuð þið vistaðir þar sem þið fáið aðeins litið bræður ykkar í gegnum járnbenta glugga, sökum fagnaðarerindis Jesú Krists, minnist þess þá, að bróðir ykkar Joseph hefur einnig verið þar.‘ “11

Árið 1841 rituðu Joseph Smith forseti og ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu: „Sannleikurinn hefur staðið allt af sér, líkt og harðgerð eik, og stendur óskertur, þrátt fyrir hin gríðarmiklu átök náttúruaflanna. Flóðið hefur á honum skollið, alda eftir öldu, viðstöðulaust, en ekki fengið honum grandað. ,Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar. Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins‘ [sjá Sálm 93:3–4]. Hvorki hafa eldtungur ofsókna, né allur áhrifamáttur múgsins náð að granda honum, heldur stendur hann óskertur eftir, líkt og þyrnirunni Móse, og nú á þessari stundu blasir mikilvæg sýn, bæði við mönnum og englum.

Hvar getum við fundið fólk sem slíkt þolir fyrir sannleikann? Við hugsum um þá sem aðhyllst hafa illa séð trúarbrögð, og þolað hafa stöðugar ofsóknir sökum hollustu sinnar. Um þá sem hafa þolað hungur, klæðleysi, örðugar tíðir og hvers kyns skort, sakir elsku til Guðs og stuðnings við málstað hans. Um þá sem séð hafa á eftir foreldrum, eiginmönnum, eiginkonum og börnum í dauðann, sakir trúarbragða sinna. Um þá sem kosið hafa dauðann fremur en þrældóm og hræsni, og vandlega hafa varðveitt siðferðisþrek sitt og verið staðfastir og óhagganlegir á þeim tímum þegar reynt er á mannssálina.“12

Hinn mikli kraftur Guðs mun varðveita þá sem þola ofsóknir sakir réttlætisins.

Joesph Smith skrifaði til hinna heilögu, er hann var í varðhaldi í Liberty-fangelsinu: „Teljið ekki að hjarta ykkar muni örmagnast, líkt og eitthvað kynlegt hafi hent okkur [1. Pét 4:12], því við höfðum séð og verið fullvissuð um allt þetta fyrirfram og hlotið loforð um meiri von en ofsóknarmenn okkar. Guð hefur því gert bak okkar jafn breitt byrðinni. Við fögnum í raunum okkar, því við vitum að Guð er með okkur, að hann er vinur okkar og mun frelsa sál okkar. Okkur er sama um þá sem líkamann deyða, þeir fá ekki sært sál okkar [Matt 10:28]. Við biðjum hvorki um hylli múgsins, né heimsins, né djöfulsins eða útsendara hans, andófsmannanna, eða þeirra sem elska ósannindi og vinna falska eiða til að taka líf okkar. Við höfum aldrei gefist upp, og munum ekki gera það sakir lífs okkar. … Við vitum að við höfum leitast við að gera vilja Guðs, af öllum huga okkar, mætti og styrk, og hvaðeina sem hann hefur boðið okkur að gera. …

…Frelsarinn sagði: ,Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.‘ [Sjá Matt 18:7.] Og á ný: ,Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.‘ [Matt 5:11–12.]

Kæru bræður, ef einhverjir menn hafa ástæðu til að gera kröfu til þessa fyrirheits, þá höfum við það, því við vitum að heimurinn hatar okkur ekki einungis, heldur ljúga menn upp á okkur öllu illu, af engri annarri ástæðu en þeirri að við leitumst eftir því að kenna fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists. …

Og nú, ástkæru bræður – og þegar við segjum ástkæru bræður, meinum við þá sem haldið hafa áfram trúfastir í Kristi, karla, konur og börn – okkur er blásið í brjóst að hvetja ykkur, í nafni Drottins Jesú Krists, til að vera sterk í trúnni, í hinum nýja og ævarandi sáttmála, og að óttast ekki óvini ykkar. … Standið stöðugir allt til enda. Jesús sagði: ,Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því‘ [sjá Mark 8:35].“13

Spámaðurinn, og ráðgjafar hans í Æðsta forsoetisráðinu skrifuðu einnig frá Liberty-fangelsinu til leiðtoga kirkjunnar: „Bræður, óttist ekki, heldur styrkist í Drottni og í krafti máttar hans. Hvað er maðurinn, að þjónn Guðs þurfi að óttast hann, eða sonur mannsins, að hann þurfi að skjálfa frammi fyrir honum? Undrist eigi eldraunina, sem yfir okkur er komin okkur til reynslu, eins og eitthvað kynlegt hafi hent okkur. Minnist þess að sérhver á hlutdeild í slíkri þrengingu. [Sjá 1 Pét 4:12–13.] Gleðjist í þrengingum ykkar, sem fullkomna ykkur, og sem leiðtogi hjálpræðis okkar hlaut einnig fullkomnun fyrir. [Sjá Hebr 2:10.] Hjörtu ykkar og allra hinna heilögu veri hughraust og fagnið ákaflega, því að laun yðar eru mikil á himnum, þannig ofsóttu hinir ranglátu spámennina [sjá Matt 5:11–12].“14

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina á bls. 369–70. Hvað vekur aðdáun ykkar á því hvernig Joseph Smith og fylgjendur hans tókust á við ofsóknir? Hvers vegna teljið þið þau hafa verið fús til að þola ofsóknir?

  • Lesið bls. 371–72, þar sem spámaðurinn Joseph kennir að réttlátt fólk muni oft á tíðum standa frammi fyrir ofsóknum. Hvers vegna teljið þið að svo sé? Hvernig eru ofsóknir nú líkar þeim sem voru á tímum Josephs Smith? Að hvaða leyti eru þær öðruvísi nú?

  • Á síðu 372 greinir Joseph Smith frá lykli til hjálpar hinum heilögu. Hvaða reynsla hefur sýnt ykkur fram á gildi þessa mikilvæga lykils? Hvaða aðra leiðsögn getið þið veitt þeim sem stendur frammi fyrir ofsóknum sakir trúar sinnar? (Sjá dæmi á bls. 372–73.)

  • Lesið yfir bls. 374–75, þar sem Joseph Smith fullvissar okkur um að Drottinn muni sjá fyrir þeim sem bregðast við ofsóknum af hugrekki og í trú. Hvað teljið þið felast í því að Guð hafi „gert bök okkar jafn breið byrðinni“? Hvernig getum við „fagnað í raunum okkar“ og „glaðst í þrengingum okkar“? Á hvaða hátt teljið þið að þrengingar ykkar geti hjálpað ykkur að fullkomnast?

Ritningargreinar tengdar efninu: Matt 5:43–44; Róm 8:35–39; 2 Ne 26:8; Mósía 24:8–16; 3 Ne 6:13

Heimildir

  1. Wilford Woodruff, dagbækur, 1833–98, dagbókarfærsla 3. maí 1839, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 3:330–30; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith Jr.,“ Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 8.

  3. History of the Church, 6:210; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. febr. 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  4. History of the Church, 2:460; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Johns Thornton og fleiri, 25. júlí 1836, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, ágúst 1836, bls. 358.

  5. History of the Church, 3:331; stafsetning færð í nútímahorf; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith Jr.,“ Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 8–9.

  6. History of the Church, 5:554–55; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  7. History of the Church, 6:498; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 18. júní 1844, í Nauvoo, Illinois. Sagnaritarar History of the Church tóku saman nokkrar frásagnir sjónarvotta og settu í eina frásögn.

  8. History of the Church, 2:437; úr bréfi frá Joseph Smith til Oliver Cowdery, apríl 1836, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, apríl 1836, bls. 289.

  9. History of the Church, 3:385; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júlí 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  10. History of the Church, 1:84; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 41, Skjalasafn kirkjunnar.

  11. Wilford Woodruff, skráði yfirlýsingu Josephs Smith 7. júlí 1839, í Commerce Illinois; Wilford Woodruff, dagbækur, 1833–98, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. History of the Church, 4:337; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu, 7. apríl 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1841, bls. 384.

  13. History of the Church, 3:227–29, 232–33; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til meðlima kirkjunnar í Caldwell-sýslu, Missouri, 16. des. 1838, Liberty-fanglesið, Liberty, Missouri.

  14. Bréf frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til Hebers C. Kimball og Brighams Young, 16. jan. 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri, Skjalasafn kirkjunnar.

Ljósmynd
Emma fleeing Missouri

Í febrúar 1839, meðan Joseph Smith var vistaður í Liberty-fangelsinu, gengu Emma Smith og börn hennar yfir ísilagt Mississippi-fljótið, er þau flúðu undan ofsækjendum sínum í Missouri.

Ljósmynd
Saints fleeing Missouri

Veturinn 1838–39 neyddustþúsundir Síðari daga heilagra til að flýja frá heimilum sínum í Missouri og ferðast 320 kílómetra til Illinois.