Kenningar forseta
45. Kafli : Tilfinningar Josephs Smith um spámannlegt hlutverk sitt


45. Kafli

Tilfinningar Josephs Smith um spámannlegt hlutverk sitt

„Ég þrái aðeins að gera öllum mönnum gott.“

Úr lífi Josephs Smith

Frá því að spámaðurinn Joseph Smith hóf þjónustu sína var lífi hans oft ógnað. Spámaðurinn vissi, að þótt Drottinn hefði oft sinnis bjargað honum frá óvinum hans, væri hætta á að hann léti lífið þegar hann hefði lokið jarðneskri þjónustu sinni. „Sumir halda að bróðir Joseph geti ekki dáið,“ sagði hann við útför í Nauvoo árið 1842, „en svo er ekki. Satt er að stundum hefur mér verið lofað að ég fái áorkað hinu og þessu, en nú að því loknu hef ég enga tryggingu fyrir lífi mínu. Ég er jafn líklegur til að deyja og hver annar.“1

Spámaðurinn varð vel var við að hann og allir hinir heilögu sem bjuggu í Nauvoo voru í sívaxandi hættu. Þegar Nauvoo tók að stækka, fóru sumir meðal íbúa á svæðinu að óttast vald hinna heilögu í stjórnmálum og fjármálum og múgur tók að áreita þá. Spámaðurinn var einkum í hættu, því stjórnvöld í Missouri gerðu ítrekaðar tilraunir til að handtaka hann, og fráhverfingar úr kirkjunni urðu stöðugt óvinveittari í tilraunum sínum til að tortíma honum. Hinn 6. ágúst 1842 greindi spámaðurinn frá því að sá tími myndi renna upp að meðlimir kirkjunnar yrðu hraktir frá Nauvoo:

„Ég spái því að hinir heilögu haldi áfram að verða fyrir miklum þrengingum og verði hraktir til Klettafjallanna, að margir hverfi frá kirkjunni, sumir láti lífið af hendi ofsóknarmanna okkar eða deyi vegna skjólleysis eða sjúkdóma og aðrir lifi áfram og byggi borgir og sjái hina heilögu verða að öflugu fólki mitt í Klettafjöllunum.“2

Í ræðum og ritum spámannsins á síðustu árum hans gætir ákveðinnar áherslu í orðum. Honum var ljóst að hann ætti ekki langt eftir og því lagði hann kapp á að kenna hinum heilögu það sem Guð hafði opinberað honum og hvatti þá til að búa sig undir að taka á móti sannleikanum. Hann tjáði einnig hina miklu elsku sína til hinna heilögu og sagðist jafnvel fús til að láta lífið fyrir þá: „Ég er fús til að færa þá fórn sem þarf til þess að koma öllu farsælu og góðu til leiðar.3

Undravert er að meðan spámaðurinn þoldi svo miklar ofsóknir og þurfti að takast á við stöðugar kröfur hinnar stækkandi kirkju, hafi hann samt gefið sér tíma til að huga að sérhverjum meðlim kirkjunnar. Margir hinna heilögu minntust þess á síðari árum hve spámaðurinn Joseph sýndi þeim mikla ástúð og ljúfmennsku.

Aroet L. Hale sagði: „spámaðurinn … kom oft út úr Mansion [húsinu] til að fara í boltaleik með okkur drengjunum, en sonur hans Joseph var nærri jafnaldri minn. [spámaðurinn] Joseph fylgdi alltaf reglunum. Hann greip boltann þegar að honum kom, og þar sem hann var afar sterkbyggður maður sló hann boltann svo langt að við vorum vanir að kalla til drengsins sem grípa átti boltann, að hann gæti nú farið í kvöldmat. þá hló spámaðurinn. Joseph var ætíð góðhjartaður og glaðvær.“4

Margarette McIntire Burgess greindi frá annarri reynslu með spámanninum í Nauvoo: „Eldri bróðir minn og ég vorum á leið í skólann, nálægt byggingu þeirri sem var þekkt sem Rauðsteinaverslun Josephs. Rignt hafði daginn áður og því afar mikil for á jörðu, einkum við þessa götu. Bróðir minn Wallace og ég komumst ekkert áfram í forinni og auðvitað tókum við að orga, eins og börn gera, því við héldum að við yrðum föst þarna. En er ég leit upp sá ég kærleiksríkan vin barnanna, spámanninn Joseph, koma til okkar. Hann kom okkur skjótlega upp á þurrari stað. Síðan beygði hann sig niður og hreinsaði leðjuna af okkar litlu, þunghlöðnu skóm, dró klút úr vasa sínum, og þerraði tárvot andlit okkar. Hann mælti nokkur vinsamleg og glaðleg orð til okkar og sendi okkur glaðbeitt áfram í skólann. Var nokkur furða að ég elskaði þennan undursamlega, góða og göfuga mann Guðs?“5

Kenningar Josephs Smith

Spámenn kenna það sem Guð opinberar þeim; við reynum að skilja og tileinka okkur orð þeirra.

„Ég hef hugleitt það í allan dag, líkt og það væri mér matur og drykkur, hvernig ég get fengið hina heilögu Guðs til að skilja þær mörgu vitranir sem streyma í huga minn. Ó, hve ég hefði mikla ánægju af því að segja ykkur frá því sem þið hafið aldrei áður leitt hugann að! En örbirgð og áhyggjur heimsins standa í vegi fyrir því. …

Hósanna, hósanna, hósanna, sé almáttugum Guði, sem jafnvel nú lýsir oss með ljósi sínu. Mig skortir orð til að tjá mig. Ég er ekki lærður, en tilfinningar mínar eru ekki síðri en allra annarra. Ó, að ég mætti mæla með tungu höfuðengils til að tjá þær einu sinni vinum mínum! En ég tel að það sé mér um megn í þessu lífi.“6

„Afar erfitt hefur reynst að kenna þessari kynslóð nokkuð. Það hefur verið líkt og að kljúfa trékvist með kornbrauði í stað axar eða graskeri í stað sleggju. Jafnvel hinir heilögu er tregir til skilnings.

Í mörg ár hef ég reynt að búa hina heilögu hugarfarslega undir að taka á móti því sem Guðs er, en við sjáum oft suma þeirra, þrátt fyrir allt sem þeir hafa þolað fyrir verk Guðs, brotna líkt og gler um leið og þeim berst eitthvað sem andstætt er hefðum þeirra. Þeir fá engan veginn staðist eldraunina. Hve margir munu hlíta hinu himneska lögmáli, og komast í gegn og hljóta upphafningu, er mér ómögulegt að segja til um, því margir eru kallaðir, en fáir eru útvaldir [sjá K&S 121:40].“7

„Ég er ekki eins og aðrir menn. Ég hugsa stöðugt um málefni dagsins og verð að reiða mig algjörlega á lifandi Guð með allt sem ég segi, líkt og í þessu tilviki [útför]. …

Hefði ég innblástur, opinberun og líkamlegt atgervi til að koma því á framfæri sem sál mín hefur hugleitt á liðnum tímum, færi hver sál í þessum söfnuði heim og lyki þar aftur munni sínum í eilífri þögn um trúmál, þar til hún hefði lært eitthvað.

Hvers vegna eruð þið svo viss um að fá skilið það sem Guðs er, þegar svo margt er ótryggt meðal ykkar sjálfra? Ykkur er frjálst að hljóta alla þá þekkingu og visku sem ég fæ veitt ykkur.“8

„Sumir segja að ég sé fallinn spámaður, því ég flyt ykkur ekki fleiri orð Drottins. Hvers vegna geri ég það ekki? Getið þið tekið á móti þeim? Nei, enginn hér í þessum sal.“9

„Ég mun endrum og eins opinbera ykkur það efni sem heilagur andi hefur opinberað mér. Öll sú lygi sem nú er beitt gegn mér er af djöflinum og áhrifum djöfulsins og þjóna hans verður beitt gegn ríki Guðs. fijónar Guðs kenna aðeins reglur eilífs lífs og af verkunum skuluð þið þekkja þá. Góður maður mun mæla fram helgar reglur og það sem gott er, og illur maður það sem illt er. Ég finn mig knúinn, í nafni Drottins, til að kveða niður allar slíkar illar reglur og ávíta lygara, o. s. frv., og hvet ykkur öll til að huga að hverju þið sækist eftir. Ég hvet ykkur til að tileinka ykkur allar dyggðir og kenningar sem ég hef greint ykkur frá. …

Ég hvet ykkur til að hugleiða – að leggja stund á og auðsýna í trú yðar dyggð, o. s. frv. Ég segi, í nafni Dottins, ef þið hafið allt þetta til að bera, munuð þið ekki verða ávaxtalaus [sjá 2 Pét 1:5–8]. Ég ber vitni um að enginn hefur mátt til að opinbera það nema ég – það sem er á himni, á jörðu og í helju. … Ég fel ykkur öll í hendur Guðs, svo þið megið erfa alla hluti, og megi Guð bæta við blessun sinni.“10

Spámenn eru kallaðir af Guði til að fræða og leiða fólk hans, þótt þeir séu breyskir menn.

Í dagbók spámannsins 6. janúar 1835 er þetta skráð: „Í morgun var ég kynntur fyrir manni að austan. þegar hann heyrði nafn mitt, sagði hann mig aðeins vera mann, og gaf með því til kynna að hann hefði vænst þess að sá maður sem Drottinn teldi hæfan til að opinbera vilja sinn, hlyti að vera eitthvað meira en aðeins maður. Hann virtist hafa gleymt orðum heilags Jakobs, að [Elía] hafi verið maður háður sömu ástríðum og við erum, en samt haft mátt Guðs, eftir bænaákall um að loka gáttum himins, svo ekki gæfi regn í þrjú ár og sex mánuði. Og síðan, eftir annað bænaákall, gaf himinninn regn að nýju og jörðin bar sinn ávöxt [sjá Jakbr 5:17–18]. Já, myrkrið og fáfræðin sem grúfir yfir þessari kynslóð eru slík, að hún telur það lygilegt að maðurinn geti haft einhver [samskipti] við skapara sinn.“11

„Hvenær hef ég kennt eitthvað rangt á þessum palli? Hvenær hefur mér orðið á? Ég hef í hyggju að sigra í Ísrael áður en ég hverf héðan og sjónum manna. Ég hef aldrei sagst vera fullkominn, en enga villu er að finna í opinberununum sem ég hef kennt. Á þá að vísa mér á bug, sem einskis virði?“12

„þótt mér verði á, þá geri ég ekki þau mistök sem ég hef verið sakaður um: Þau mistök sem ég geri reiknast á breyskleika manns, líkt og hjá öðrum mönnum. Enginn maður lifir án þess breyskleika. Teljið þið að jafnvel Jesús, ef hann væri hér, yrði í ykkar augum án breyskleika? Óvinir hans sögðu ýmislegt slæmt um hann – allir leituðu þeir misbresta hjá honum.“13

Í dagbók Josephs Smith, 29. október 1842, er skráð: „Ég … fór í búðina [í Nauvoo, Illinois], en þar var fjöldi bræðra og systra saman kominn, er komið höfðu þá um morguninn frá nágrannafylkinu New York. … Ég sagði þeim að ég væri aðeins maður, og því mættu þau ekki vænta þess að ég væri fullkominn. Ef þau væntu þess að ég væri fullkominn, mundi ég vænta þess sama af þeim, en ef þau sýndu brestum mínum og bræðranna umburðarlyndi, mundi ég sýna brestum þeirra umburðarlyndi.“14

Spámenn vinna það verk sem Guð ætlar þeim, þótt þeir mæti andstöðu.

„Ég er glaður og þakklátur fyrir þau forréttindi að vera hér af þessu tilefni. Óvinir okkar hafa lagt mikið á sig til þess að fara með mig til Missouri og eyðileggja líf mitt, en Drottinn hefur varnað þeim þess, og því hefur þeim ekki enn tekist að ná því takmarki. Guð hefur gert mér kleift að sleppa frá þeim. Ég hef barist góðu baráttunni. …

Ég mun sigra óvini mína. Ég hef hafið sigur minn heima fyrir og ég mun gera það utanlands. Allir þeir sem rísa gegn mér munu sannlega finna þunga misgjörða sinna á sínu eigin höfði.“15

„Ég mæli af heinskilni og trúmennsku og með valdsumboði. … Ég veit hvað ég segi, ég skil hlutverk mitt og ætlunarverk. Guð almáttugur er minn skjöldur, og hvað fá menn gjört, ef Guð er vinur minn? Mér verður ekki fórnað fyrr en minn tími rennur upp, en þá verður mér fórnað fúslega. … Ég þakka Guði fyrir að vernda mig gegn óvinum mínum, ég á mér aðeins óvini sakir sannleikans. Ég þrái aðeins að gjöra öllum mönnum gott. Mér finnst ég þurfa að biðja fyrir öllum mönnum.“16

„Ef ég hefði í raun ekki verið kallaður af Guði til þessa verks, mundi ég láta af því. En ég get ekki látið af því. Ég efast ekki um sannleika þess.“17

„Ég er líkur hrjúfum steini. Hljóð hamars og meitils greindist ekki fyrr en Drottinn tók mig sér við hönd. Ég þrái aðeins lærdóm og vísdóm himins.“18

„Ég ber um það vitni þennan morgun, að allur samanlagður máttur jarðar og helju mun ekki vinna, og getur aldrei unnið, sigur á þessum dreng, því ég hef loforð um það frá eilífum Guði. Ég hef syndgað hið ytra, hafi ég syndgað, en vissulega hef ég varðveitt það sem Guðs er.“19

„Þegar menn byggja á annarra manna grunni, er það á þeirra eigin ábyrgð, án valdsumboðs frá Guði. Og þegar flóðið kemur og stormurinn blæs, mun grunnur þeirra byggður á sandi, og allt mun falla og að engu verða.

„Hef ég byggt á grunni einhvers annars manns? Ég hef allan þann sannleika sem hinn kristni heimur hefur átt, og óháðar opinberanir í ofanálag, og Guð mun veita mér sigursæld.“20

Spámenn elska þá sem þeir þjóna og þrá að veita þeim góða handleiðslu, þótt þeir kunni að þurfa að veita átölur.

„Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína [sjá Jóh 15:13]. Ég hef komist að því að hundruð og þúsundir bræðra minna eru fúsar til að leggja líf sitt í sölurnar fyrir mig.

Byrði mín er afar þung að bera. Ofsóknarmenn mínir gefa mér engin grið, og mitt í verkum mínum og önnum er andinn fús en holdið veikt. þótt ég hafi verið kallaður af föður mínum á himnum til að leggja grunn að þessu undursamlega verki og ríki hans í þessari ráðstöfun, og vitna fyrir hinum dreifða Ísrael um opinberaðan vilja hans, er ég háður sömu ástríðum og aðrir menn, líkt og hinir fornu spámenn voru einnig. …

Ég finn ekkert að kirkjunni, lát mig því rísa upp með hinum heilögu, hvort heldur ég fer til himins eða helju, eða einhvers annars staðar. En fari ég til helju, munum við reka djöfla á dyr og gera hana himneska. Þar sem þetta fólk er, þar er gott samfélag.“21

„Sökum þess að ég er glaðvær og fjörugur og tek þátt í lífi hinna heilögu, ættu þeir ekki að gera ráð fyrir að ég sé svo fáfróður að mér sé ekki ljóst hvað um er að vera. Ranglæti af einhverjum tagi mun ekki njóta stuðnings kirkjunnar, og verður ekki liðið þar sem ég er, því ég er staðráðinn í því að leiða kirkjuna réttilega, meðan mér er falið það.“22

„Sé ég svo lánsamur að vera maður til að skilja Guð og útskýra reglur hans, og gera þær ljósar í hjarta ykkar, svo að andinn innsigli ykkur þær, veri þá sérhver karl og kona hljóð upp frá því, leggi hönd fyrir munn sér, og hefji aldrei upp raust sína, eða mæli ekkert, gegn manni Guðs eða þjónum Guðs að nýju. … Ef ég hyggst leiða ykkur til þekkingar á honum, ætti öllum ofsóknum að linna. þið munuð þá vita að ég er þjónn hans, að ég mæli eins og sá sem hefur vald til þess. …

“… Ég fæ bragðað á reglum eilífs lífs, og það getið þið einnig gert. þær eru mér gefnar með opinberunum frá Jesú Kristi. Og ég veit að þegar ég veiti ykkur þessi orð eilífs lífs, líkt og þau er mér gefin, og þið bragðið á þeim, munuð þið trúa þeim. þið segið að hunang sé sætt, og það geri ég einnig, og ég get einnig bragðað á anda eilífs lífs. Ég veit að hann er góður, og þegar ég segi ykkur frá því sem mér er gefið fyrir innblástur heilags anda, hljótið þið að taka á móti því sem ljúfu og sætu og gleðjast stöðugt meira. …

Orð mín eru ætluð öllum, bæði smáum og stórum, auðugum og fátækum, frjálsum og ófrjálsum. Ég ber engan kala til nokkurs manns. Ég elska ykkur öll, en ég hef andstyggð á sumu sem þið gerið. Ég er ykkar besti vinur, og bregðist einhverjir er sökin þeirra sjálfra. Ef ég veiti einhverjum átölur, og hann leggur fæð á mig, er hann kjáni, því ég elska alla menn, einkum þessa bræður mína og systur.

“… Þið þekkið mig ekki, þið þekktuð mig aldrei í hjarta. Enginn maður þekkir reynslu mína. Ég get ekki greint frá henni. Ég mun ekki taka það að mér. Ég áfellist engan fyrir að trúa ekki reynslu minni. Ef ég hefði ekki upplifað það sem ég upplifði, hefði ég ekki trúað því sjálfur. Ég hef engan mann skaðað frá því ég kom í þennan heim. Ég hef ætíð boðað frið.

Ég unni mér ekki hvíldar fyrr en allt mitt verk er fullnað. Ég hugsa aldrei neitt illt, eða geri nokkuð til að skaða samferðafólk mitt. Þegar ég verð kallaður með básúnu höfuðengils, og veginn á skálum, munuð þið öll þekkja mig. Ég bæti hér engu við. Guð blessi ykkur öll.“23

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið á síðu 513 um ofsóknirnar sem Joseph Smith stóð frammi fyrir í Nauvoo. Lesið síðan á síðu 515, þar sem sagt er frá leik hans við börnin í Nauvoo. Hvers vegna teljið þið að honum hafi verið unnt að vera ætíð glaðvær og umhyggjusamur? Hugleiðið hvað þið getið gert til að vera glöð og ástúð leg á erfiðum tímum.

  • Lesið þriðju og fjórðu málsgreinarnar á síðu 516, og veitið athygli vonbrigðum spámannsins Josephs yfir að hinir heilögu voru ekki reiðubúnir að taka á móti öllu því sem hann vildi kenna þeim (sjá bls. 516–17). Hvað getur truflað okkur í því að taka á móti auknum sannleika? Hvað getum við gert til að vera „undir [það búin] að taka á móti því sem Guðs er?“

  • Lesið málsgreinina sem hefst neðst á bls. 521 og einnig næstu tvær málsgreinarnar. Hvaða leiðsögn getið þið veitt þeim sem ekki vill fylgja einhverjum leiðtoga kirkjunnar, því hann hefur einhverja bresti? Lesið alla þriðju málsgreinina á síðu 518 og hugleiðið hvernig þessi orð eiga við í öllum okkar samskiptum.

  • Joseph Smith greindi frá þeirri trú sinni, að Guð mundi vernda hann og gera honum kleift að ljúka ætlunarverki sínu (bls. 518–19). Hvaða reynslu hafið þið hlotið þar sem Guð hefur hjálpað ykkur að uppfylla ábyrgð ykkar í fjölskyldulífi eða í kirkjuköllun?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 520 og þá fyrstu á bls. 521. Hvenær hafið þið bragðað sætleika sannleikans? Hvernig getum við glaðst yfir orðum spámanns eða annars kirkjuleiðtoga, jafnvel þegar hann ávítar okkur fyrir misgjörðir?

  • Lesið stuttlega yfir kaflann og finnið eina eða tvær fullyrðingar sem eru ykkur einkar gagnlegar. Hvað gagnlegt finnst ykkur í þeim fullyrðingum sem þið völduð? Hvaða áhrif hefur þessi kafli haft á vitnisburð ykkar um spámanninn Joseph Smith?

Ritningargreinar tengdar efninu: Dan 2:44–45; 2 Tím 4:6–8; Jakob 1:17–19; Mósía 2:9–11; Morm 9:31

Heimildir

  1. History of the Church, 4:587; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  2. History of the Church, 5:85; úr “History of the Church” (handrit), bók D-1, bls. 1362, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  3. History of the Church, 5:159; úr bréfi frá Joseph Smith til James Arlington Bennet, 8. sept. 1842, Nauvoo, Illinois; eftirnafn James Bennet er ranglega stafsett „Bennett“ í History of the Church,

  4. Aroet L. Hale, “First Book or Journal of the Life and Travels of Aroet L. Hale,” bls. 23–24; Aroet Lucius Hale, endurminningar, um 1882, Skjalasafn kirkjunnar.

  5. Margarette McIntire Burgess, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 15. jan. 1892, bls. 66–67.

  6. History of the Church, 5:362; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  7. History of the Church, 6:184–85; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 21. jan. 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  8. History of the Church, 5:529–30; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 13. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  9. History of the Church, 4:478; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 19. des. 1841, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  10. History of the Church, 6:366–67; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  11. History of the Church, 2:302; færsla úr dagbók Josephs Smith, 6. nóv. 1835, Kirtland, Ohio.

  12. History of the Church, 6:366; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  13. History of the Church, 5:140; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  14. History of the Church, 5:181; greinaskilum bætt við; færsla úr dagbók Josephs Smith, 29. okt. 1842, Nauvoo, Illinois.

  15. History of the Church, 5:139–40; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Eliza R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  16. History of the Church, 5:257, 259; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 22. jan. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  17. History of the Church, 5:336; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl, 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  18. History of the Church, 5:423; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  19. History of the Church, 5:554; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  20. History of the Church, 6:479; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  21. History of the Church, 5:516–17; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 23. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 1843, atriði 562.

  22. History of the Church, 5:411; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. maí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  23. History of the Church, 6:304–5, 312, 317; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

Ljósmynd
Prophet Joseph with children

Joseph Smith gaf sér tíma til að láta sér annt um hinn eina heilaga. Margarette McIntire Burgess minntist spámannsins, sem hún sagði vera „kærleiksríkan vin barnanna,“ er hann hjálpaði henni og bróður hennar þegar þau sátu föst í forarleðju.

Ljósmynd
Prophet Joseph

„Orð mín eru ætluð öllum, bæði smáum og stórum, auðugum og fátækum, frjálsum og ófrjálsum. … Ég elska alla menn, einkum þessa bræður mína og systur.“