Kenningar forseta
1. Kafli: Fyrsta sýnin: Faðirinn og sonurinn birtast Joseph Smith


1. Kafli

Fyrsta sýnin: Faðirinn og sonurinn birtast Joseph Smith

„[Ég sá] tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“

Úr lífi Josephs Smith

Eftir dauða og upprisu Jesú Krists breiddist fráhvarf smám saman út. Postulum frelsarans var hafnað og þeir teknir af lífi, kenningar frelsarans spilltust og prestdæmi Guðs var tekið af jörðinni. Hinn forni spámaður, Amos, hafði sagt fyrir um tímabil fráhvarfs og andlegs myrkurs. „Sjá, þeir dagar munu koma, segir Drottinn Guð, að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins, svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það“(Amos 8:11–12).

Einn þeirra sem leitaðist við að þekkja orð Guðs, sem glatast hafði á jorðinni, var Joseph Smith, ungur piltur frá fámennu héraði í Palmyra, New York, árið 1820. Joseph var sterkur og athafnasamur piltur, bláeygður, brúnhærður og ljós á hörund. Hann var fimmti í röðinni af ellefu börnum þeirra Josephs Smith eldri og Lucy Mack Smith. Hann vann langan vinnudag við að ryðja og yrkja jörðina með föður sínum og eldri bræðrum á fjörutíu hektara skógivöxnu býli fjolskyldunnar. Að sögn móður hans var hann „óvenju rólegt og þægt barn,“1 og „mun meira gefinn fyrir að íhuga og sökkva sér niður í lestur“ en nokkurt systkina hans.2 Hinn ungi Joseph vann til framfærslu fjölskyldu sinnar og átti því aðeins kost á að afla sér nægilegrar grunnmenntunar í lestri, skrift og reikningi.

Á þessum tíma vaknaði gríðarlegur trúaráhugi í vesturhluta New York-fylkis, þar sem Smith-fjölskyldan átti heima. Smith-fjölskyldan sótti samkomur trúarsafnaða eins og annað fólk á svæðinu. Þótt sumir í fjölskyldu Josephs hafi gengið í einn söfnuðinn gerði hann það ekki. Síðar skrifaði hann um þennan tíma:

„Hugur minn hneigðist til alvarlegrar hugleiðingar varðandi mikilvægi velferðar eilífrar sálar minnar, sem að knúði mig til að leita í ritningunum, þar sem mér var kennt að þær geymdu orð Guðs. Þannig tileinkaði ég mér ritningarnar og kynntist náið hinum ýmsum trúarsofnuðum, sem varð til þess að ég undraðist stórlega, því ég uppgotvaði að þeir lifðu ekki samkvæmt þeirri trú sem þeir játuðu og þeirri guðlegu breytni sem hin helga bók geymir. Þetta olli mér djúpri sorg. …

Ég íhugaði margt í hjarta mínu varðandi aðstæður manna – innbyrðis ágreining og deiluefni þeirra, ranglæti og viðurstyggð og myrkrið sem grúfði yfir hugum mannanna. Hugur minn var oft í miklu upppámi, því ég fylltist sektarkennd yfir syndum mínum og komst að því þegar ég kannaði ritningarnar að mannkynið fylgdi ekki Drottni, heldur hafði það horfið frá hinni sönnu og lifandi trú, og að enginn trúarsöfnuður byggði á grunni fagnaðarerindis Jesú Krists eins og það er skráð í Nýja testamentinu, og þannig hryggðist ég yfir eigin syndum og syndum heimsins.“3

Leit hins unga Josephs Smith að sannleikanum leiddi hann í trjálund til að biðja Guð um þá vitneskju sem hann þarfnaðist. Himneskur faðir og Jesús Kristur birtust honum, sem svar við bæn hans, sem var upphafið að endurreisn fagnaðarerindisins á síðari dögum. Sá undursamlegi atburður er skráður af Joseph Smith með fögrum og látlausum orðum.

Kenningar Josephs Smith

Leit Josephs Smith að sannleikanum kennir að ritningarnám og einlæg bæn stuðla að opinberun.

Joseph Smith – Saga 1:5, 7–13: „Einhvern tíma á öðru ári eftir flutning okkar til Manchester kviknaði á þeim stað, þar sem við bjuggum, óvenjulegur áhugi á trúmálum. Þessi áhugi átti upptök sín meðal meþódista, en breiddist brátt út til allra trúarsafnaða á þessu svæði. Héraðið virtist raunar allt gagntekið af þessu, og mikill fjöldi gekk í hin ýmsu trúfélög, en af þessu spratt engin smáræðis ókyrrð og sundurlyndi á meðal fólksins, því að sumir hrópuðu ‚sjá hér,‘ en aðrir, ‚sjá þar.‘ Sumir héldu fram trúarkenningum meþódista, aðrir presbytera og enn aðrir baptista. …

Ég var um þetta leyti á fimmtánda ári. Fjölskyldu föður míns var snúið til trúar presbytera, og gengu fjögur þeirra í þá kirkju, þ. e. Lucy móðir mín, bræður mínir Hyrum og Samúel Harrison og Sophronia systir mín.

Á þessum mikla æsingatíma hneigðist hugur minn til alvarlegra hugleiðinga og mikils kvíða, en þótt tilfinningar mínar væru djúpar og oft sárar, hélt ég mér utan við alla þessa flokka, þótt ég sækti samkomur þeirra eins oft og ég fékk við komið. Þegar tímar liðu, varð ég nokkuð hlynntur söfnuði meþódista, og lék mér hugur á að ganga í hann, en glundroði og barátta var svo hörð á meðal hinna ýmsu safnaða, að ógerningur var fyrir jafn ungan mann og mig og jafn ókunnugan mönnum og málefnum að komast að nokkurri öruggri niðurstöðu um það, hverjir hefðu rétt fyrir sér og hverjir rangt.

Hugur minn var oft í miklu uppnámi, hrópin og ókyrrðin voru svo mikil og linnulaus. Presbyterar voru mjög andsnúnir baptistum og meþódistum og beittu af fullum krafti bæði röksemdum og mælsku til að sanna villu þeirra, eða a. m. k. að telja fólki trú um villu þeirra. Á hinn bóginn reyndu baptistar og meþódistar jafn ákaft að sanna sínar kenningar og afsanna kenningar allra annarra.

Ég sagði oft við sjálfan mig í miðri þessari orrahríð orða og deilna: Hvað á ég að gera? Hver af öllum þessum flokkum hefur rétt fyrir sér, eða skjátlast þeim öllum? Hafi einhver þeirra rétt fyrir sér, hver er það þá og hvernig get ég vitað það?

Meðan ég átti í hinu mesta hugarstríði, sem stafaði af baráttu þessara trúfélaga, var ég dag einn að lesa í hinu almenna bréfi Jakobs, þar sem segir í 1. kapítula, 5. versi: Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið.

Engin ritningargrein hefur nokkru sinni knúið á hjarta nokkurs manns af meiri krafti en þessi knúði á mitt í þetta sinn. Hún virtist þrengja sér inn í hjarta mitt og tilfinningar af miklu afli. Ég hugleiddi hana aftur og aftur, því að ég vissi, að ef einhver þarfnaðist visku frá Guði, þá var það ég, því að ég vissi ekki, hvað ég átti að gera, og ef ég öðlaðist ekki meiri visku en ég bjó þá yfir, mundi ég aldrei vita það, því að kennarar hinna ýmsu trúfélaga túlkuðu sömu ritningargreinarnar með svo mismunandi hætti, að þeir gerðu að engu trúna á, að hægt væri að útkljá málið með því að skjóta því til Biblíunnar.

Um síðir komst ég að þeirri niðurstoðu, að ég yrði annaðhvort að reika áfram í myrkri og óvissu eða ella gera eins og Jakob ráðleggur, það er að segja, biðja til Guðs. Um síðir einsetti ég mér að ‚biðja Guð,‘ því að ég leit svo á, að ef hann veitti þeim visku, sem skorti visku, og veitti hana örlátlega og átölulaust, þá væri mér óhætt að freista þess.“4

Joseph Smith var leystur undan krafti óvinar alls réttlætis.

Joseph Smith – Saga 1:14–16: „Í samræmi við ákvörðun mína að biðja Guð fór ég út í skóg til að gera tilraun. Þetta var að morgunlagi, fagran og heiðskíran dag, snemma vors árið átján hundruð og tuttugu. Þetta var í fyrsta sinn á ævi minni, sem ég hafði gert slíka tilraun, því að þrátt fyrir allan kvíða minn hafði ég enn ekki gert tilraun til að biðjast fyrir upphátt.

Þegar ég var kominn á þann stað, sem ég hafði áður ákveðið að fara, hafði litast þar um og séð, að ég var einn míns liðs, kraup ég á kné og tók að skýra Guði frá óskum hjarta míns. Ég hafði varla gert þetta, þegar einhver kraftur gagntók mig og bugaði gersamlega og hafði þau furðulegu áhrif á mig að lama tungu mína, svo að ég mátti ekki mæla. Niðamyrkur umlukti mig, og mér virtist svo um tíma, að ég væri dæmdur til skjótrar tortímingar.

En ég beitti öllu afli mínu til að ákalla Guð og biðja hann að bjarga mér undan valdi þessa óvinar, sem hafði náð tökum á mér, og rétt á sama andartaki og ég var að því kominn að láta bugast af örvilnan og gefa mig tortímingunni á vald - ekki ímyndaðri eyðileggingu, heldur á vald einhverrar raunverulegrar veru frá ósýnilegum heimi, sem hafði svo furðulegt vald, að ég hafði aldrei orðið slíks var hjá neinum - einmitt á því andartaki mikillar skelfingar, sá ég ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig.“5

Himneskur faðir og Jesús Kristur birtust Joseph Smith sem svar við auðmjúkri bæn hans.

Joseph Smith—Saga 1:17–20: „Hann hafði ekki fyrr birst en ég fann mig lausan undan óvininum, sem hélt mér föngnum. Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!

Tilgangur minn með því að spyrja Drottin var að fá vitneskju um, hvert allra trúfélaganna hefði rétt fyrir sér, svo að ég vissi, í hvert ég ætti að ganga. Ég hafði því ekki fyrr öðlast vald á sjálfum mér á ný, svo að ég mætti mæla, en ég spurði verur þær, sem stóðu fyrir ofan mig í ljósinu, hvert allra þessara trúfélaga hefði á réttu að standa - og í hvert þeirra ég ætti að ganga.

Mér var svarað, að ég mætti ekki í neitt þeirra ganga, því að þeim skjátlaðist öllum, og veran, sem ávarpaði mig, sagði, að allar játningar þeirra væru viðurstyggð í hennar augum og kennimenn þessir væru allir spilltir: ,Þeir nálgast mig með vörunum, en eru fjarri mér í hjarta sínu. Þeir kenna boðorð manna, sem eru guðleg að formi til, en þeir afneita krafti þeirra.‘

Aftur bannaði hún mér að ganga í nokkurt þeirra, og margt fleira sagði hún við mig, sem ég get ekki skráð á þessari stundu. Þegar ég kom til sjálfs mín á ný, varð ég þess áskynja, að ég lá á bakinu og horfði upp í himininn. Þegar ljósið hvarf, var ég gjörsamlega máttvana, en náði mér fljótt að nokkru marki og fór heim. Þegar ég hallaði mér að arninum, spurði móðir mín mig, hvað væri að. Ég svaraði: ,Það er allt í lagi - mér líður vel.‘ Ég sagði síðan móður minni, að ég hefði komist að því sjálfur, að presbyterar hefðu á röngu að standa. Svo virðist sem andstæðingnum hafi orðið ljóst mjög snemma í lífi mínu, að mér væri ætlað að verða til ófriðar og skapraunar í ríki hans, eða hvers vegna sameinuðust myrkravöldin annars gegn mér? Hvers vegna varð slík andstaða og ofsóknir gegn mér, strax á unga aldri?“6

Þegar við eigum sterkan vitnisburð, geta ofsóknir ekki fengið okkur til að afneita því sem við vitum að er satt.

Joseph Smith—Saga 1:21–26: „Nokkrum dögum eftir að ég sá þessa sýn, var ég staddur hjá einum þeirra meþódistapresta, sem átti drjúgan þátt í fyrrgreindri trúaræsingu, og þar sem ég var að ræða trúmál við hann, notaði ég tækifærið til að lýsa sýn þeirri, sem ég hafði séð. Viðbrogð hans komu mér mjög á óvart, því að hann taldi frásögn mína ekki aðeins léttvæga, heldur auðsýndi hann henni fullkomna fyrirlitningu, kvað hana alla frá djöflinum komna, því að á okkar dögum gerðist ekkert, sem gæti talist sýnir eða opinberanir, öllu slíku hefði lokið með postulunum, og slíkt kæmi aldrei aftur.

Ég komst þó brátt að raun um, að saga mín hafði komið af stað miklum hleypidómum í minn garð meðal kennimanna, og varð hún orsök mikilla ofsókna, sem fóru jafnt og þétt í voxt. Og þótt ég væri aðeins óþekktur unglingur, milli fjórtán og fimmtán ára að aldri, og aðstæður mínar í lífinu vart slíkar, að unglingur gæti skipt nokkru í heiminum, veittu háttsettir menn mér samt svo mikla athygli, að þeir æstu almenningsálitið gegn mér og hvöttu til grimmilegra ofsókna. Þetta var raunar sammerkt öllum trúfélögunum - þau tóku öll höndum saman um að ofsækja mig.

Eins og svo oft síðar vakti þetta mig til alvarlegra hugleiðinga þá, um hve einkennilegt það væri, að ókunnur drengur, aðeins rúmra fjórtán ára og að auki nauðbeygður til að afla sér fábreyttasta lífsviðurværis með daglegu striti, skyldi teljast nógu mikilvægur til að vekja athygli stórmenna hinna fjölmennustu trúfélaga samtíðarinnar, og það með þeim hætti, að það æsti þá til grimmilegustu ofsókna og lastmæla. En þannig var þetta, þótt einkennilegt megi virðast, og það olli mér oft sárum harmi.

Engu að síður var það staðreynd, að ég hafði séð sýn. Mér hefur komið í hug síðar, að mér hafi verið líkt innanbrjósts og Páli, þegar hann varði mál sitt fyrir Agrippa konungi og sagði frá sýn þeirri, sem fyrir hann hafði borið, þegar hann sá ljós og heyrði rödd, en samt lögðu aðeins fáir trúnað á orð hans. Sumir kváðu hann óheiðarlegan, en aðrir sögðu hann vitskertan, og hann var bæði hæddur og lastaður. En ekkert af þessu gat þó gert að engu raunveruleika sýnar hans. Hann hafði séð sýn, hann vissi að svo var, og hversu miklum ofsóknum sem hann yrði að sæta, fengi því ekkert breytt, og þótt ofsóknirnar yrðu honum að bana, þá vissi hann samt, og mundi vita, meðan hann drægi lífsanda, að hann hefði bæði séð ljós og heyrt rodd ávarpa sig, og allur heimurinn gæti ekki fengið hann til að hugsa annað eða trúa öðru.

Þannig var þessu farið með mig. Ég hafði raunverulega séð ljós og í ljósinu miðju hafði ég séð tvær verur, og þær höfðu raunverulega ávarpað mig. Og þótt ég væri hataður og ofsóttur fyrir að segja, að ég hefði séð sýn, þá var það samt satt. Og meðan þeir ofsóttu mig og lastmæltu mér og töluðu illa um mig að ástæðulausu fyrir að segja frá þessu, spurði ég sjálfan mig í hjarta mínu: Hví er ég ofsóttur fyrir að segja sannleikann? Ég hef raunverulega séð sýn, og hvernig ætti ég að geta staðið gegn Guði, og af hverju hyggst heimurinn fá mig til að neita því, sem ég hef raunverulega séð? Því að ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég hvorki gat neitað því né þorði að gera það. Ég vissi að minnsta kosti, að með því mundi ég misbjóða Guði og eiga yfir mér fordæmingu.

Hvað trúfélogin varðaði, var ég nú orðinn sannfærður um, að mér bæri ekki að ganga í neitt þeirra, heldur halda uppteknum hætti, uns ég fengi önnur fyrirmæli. Ég hafði komist að raun um, að sá vitnisburður Jakobs væri sannur - að maður, sem skorti visku, gæti beðið Guð ásjár, og hún gæti hlotnast honum átölulaust.“7

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 27–30. Íhugið hvernig Joseph Smith verður okkur til eftirbreytni er við leitum svara við spurningum okkar. Hvað lærið þið um íhugun, bæn og lestur ritninganna þegar þið nemið frásögn hans um Fyrstu sýnina?

  • Lesið bls 31. 31. Íhugið þann sannleika sem Joseph Smith lærði um Guð föðurinn og Jesú Krist þegar hann hlaut Fyrstu sýnina. Hvers vegna verður sérhvert okkar að eiga vitnisburð um Fyrstu sýnina?

  • Þegar Joseph Smith sagði frá Fyrstu sýninni, varð fólkið mjög fordómafullt í hans garð og ofsótti hann (bls.32). Hvers vegna haldið þið að fólkið hafi brugðist við á þennan hátt? Íhugið viðbrögð Josephs við ofsóknunum (bls. 32–34). Hvernig getum við fylgt fordæmi hans er við stöndum andspænis ofsóknum eða öðru mótlæti?

  • Hvaða áhrif hafði frásögnin af Fyrstu sýninni á ykkur er þið hlutuð vitneskju um hana í fyrsta sinn? Hvaða áhrif hefur hún haft á ykkur síðan þá? Á hvern hátt hefur það styrkt ykkur að læra þessa frásogn í kaflanum að nýju?

Ritningargreinar tengdar efninu: Jes 29:13–14; Jóel 3:1–2; Amos 3:7; Morm 9:7–9

Heimildir

  1. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1845, bls. 72, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah. Móðir spámannsins, Lucy Mack Smith, skrifaði sögu sína, sem geymir margt um líf spámannsins, fyrir Matha Jane Knowlton Coray í upphafi árs 1844 og fram að 1845. Martha Coray vísaði til flessa handrits sem „History rough manuscript.“ Síðar á árinu 1845 endurskoðuðu Lucy Mack Smith, Martha Coray og eiginmaður Mörthu, Howard Coray, handritið og bættu við það. Handritið 1845 var nefnt „The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet.“ Í þessari bók er vitnað í handritið frá 1844–45, að frátöldum nokkrum tilvikum þar sem í handritinu 1845 var efni sem ekki finnst í handritinu 1844–45.

  2. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1844–45, bók 4, bls. 1, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Joseph Smith, Saga 1832, bls. 1–2; Letter Book 1829–35, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Joseph Smith—Saga 1:5, 7–13. Í nokkrum tilvikum skrifaði spámaðurinn Joseph Smith nákvæmar frásagnir af Fyrstu sýninni. Tilvitnanir í þessum kafla eru úr frásogn um Fyrstu sýnina, sem var fyrst gefin út 1842 í “History of Joseph Smith,” Times and Seasons, 15. mars 1842, bls. 726–28; 1. apríl, 1842, bls. 748–49, en síðar varð hún hluti af Hinni dýrmætu perlu og gefin út í History of the Church, bindi 1, bls. 1–8. það er hin opinbera ritningarlega frásogn. Spámaðurinn Joseph Smith skrifaði þessa frásögn árið 1838 og 1839 með aðstoð skrifara síns.

  5. Joseph Smith—Saga 1:14–16.

  6. Joseph Smith—Saga 1:17–20.

  7. Joseph Smith—SagaS 1:21–26.

Ljósmynd
Joseph in Sacred Grove

„[Ég] sá ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig.“

Ljósmynd
Joseph reading

„Engin ritningargrein hefur nokkru sinni knúið á hjarta nokkurs manns af meiri krafti en þessi knúði á mitt í þetta sinn.“