Kenningar forseta
31. kafli: „Guð mun verða með þér alltaf og að eilífu‘: Spámaðurinn í Liberty-fangelsinu


31. kafli

„Guð mun verða með þér alltaf og að eilífu“: Spámaðurinn í Liberty-fangelsinu

„Í hans almáttuga nafni erum við staðráðnir í því að þola mótlætið allt til enda, líkt og góðum hermönnum sæmir. “

Úr lífi Josephs Smith

Hinn 1. desember 1838 voru þeir Joseph Smith, Hyrum bróðir hans, og fleiri bræður, fluttir frá Richmond, Missouri, þar sem þeim hafði verið haldið föngnum í bjálkahúsi, í Liberty-fangelsinu, Missouri. Þar voru þeir í rúma fjóra mánuði og biðu réttarhalda vegna falskrar ákæru sem hlaust af ofsóknum á hendur hinum heilögu í Missouri. Á sama tíma hröktu ofsóknarmenn meðlimi kirkjunnar frá heimilum sínum í Missouri, og olli það þeim gríðarlegum þjáningum. Þrengingar hinna heilögu urðu til þess að spámaðurinn og félagar hans höfðu miklar áhyggjur í sinni löngu fangavist.

Liberty-fangelsið skiptist í herbergi á efri hæð og um tíu fermetra dýflissu á neðri hæð, þar sem fanganir voru hýstir. Spámaðurinn lýsti aðstæðum þeirra: „Við vorum undir ströngu eftirliti dag og nótt, í fangelsi með tvöföldum veggjum og dyrum, sviptir frelsi til að breyta að eigin samvisku. Matur var af skornum skammti, fábreyttur og lélegur. Við nutum ekki þeirra forréttinda að geta eldað ofan í okkur sjálfir og vorum látnir sofa á hálmi á gólfinu án yfirbreiðsla, til að halda á okkur hita. Þegar okkur leyfðist að kveikja eld, var stöðugur reykur fyrir vitum okkar. Dómararnir hafa endrum og eins greint okkur frá því alvarlegir í bragði að þeir viti að við séum saklausir og ættum því að vera frjálsir, en þeir þora ekki að láta okkur njóta laganna, af ótta við múginn.“1

Ekki var nógu hátt til lofts í herberginu til þess að mennirnir gætu staðið uppréttir, og einn fanganna, Alexander McRae, sagði: „[Maturinn var] mjög slæmur og svo ógeðslegur að við höfðum ekki lyst á honum fyrr en við neyddumst til að eta hann sökum hungurs.“2

Mercy Fielding Thompson, meðlimur kirkjunnar, sem heimsótti bræðurna í fangelsið, ritaði síðar: „Ég fæ vart lýst þeirri tilfinningu sem yfir mig kom þegar vörðurinn leiddi okkur inn í fangelsið og lokaði dyrunum á eftir okkur. Við komumst ekki hjá því að finna fyrir skelfingu þegar okkur varð ljóst að við vorum læst inni í þessari dimmu og hroðalegu dýflissu, sem eingöngu var hæf fyrir hina verstu glæpamenn, en þar litum við Joseph, spámanninn – mann sem útvalinn var af Guði til að hafa lykla að ríki hans á jörðu í ráðstöfun fyllingar tímanna, með vald til að binda og til að leysa, líkt og Guð gæfi fyrirmæli um – lokaðan inni í viðbjóðslegu fangelsi, fyrir engar aðrar sakir, eða málstað, en þær að segjast vera innblásinn af Guði, til að stofna kirkju hans meðal manna.“3

Eiginkonu hans, Emmu, var aðeins leyft að heimsækja hann þrisvar er hann var í fangelsinu. Einu samskiptin sem þau höfðu fyrir utan það voru í gegnum bréfaskriftir. Hinn 4. apríl 1839 skrifaði spámaðurinn: „Kæra og ástúðlega eiginkona, það er þriðjudagskvöld og ég sit þar sem við getum gægst í gegnum rimlana, rétt í þann mund er sólin gengur til viðar í þessu einmanalega fangelsi, og skrifa þér, til að segja þér frá ástandi mínu. Ég tel nú að ég hafi verið í um fimm mánuði og sex daga undir ströngu eftirliti varða, daga sem nætur, í þessu rimlafangelsi, einmanalegu, dimmu og skítugu. Ég skrifa þetta bréf af tilfinningum sem aðeins Guð einn þekkir. Það er ögrandi pennanum, tungunni eða englunum að reyna að lýsa hugsunum sínum við þessar aðstæður, fyrir þeim sem aldrei hefur reynt það sem við höfum reynt. … Við reiðum okkur einungis á Jehóva um björgun.“4

Spámaðurinn skrifaði einnig til hinna heilögu úr Liberty-fangelsinu og lét í ljós elsku sína til þeirra og trú sína á að Guð mundi ávallt styðja þá sem legðu traust sitt á hann. Megnið af eftirfarandi efni er úr bréfi til meðlima kirkjunnar, dagsett 20. mars 1839, sem geymir leiðsögn spámannsins til hinna heilögu, áköll hans til Guðs og bænheyrslu Guðs. Hluti af þessum opinberunum eru í Kenningu og sáttmálum, köflum 121, 122 og 123.

Kenningar Josephs Smith

Engar þrengingar fá skilið okkur frá elsku Guðs og vináttu hvers annars.

„Ykkar auðmjúki þjónn, Joseph Smith yngri, fangi fyrir sakir Drottins Jesú Krists og hinna heilögu, sem handtekinn hefur verið með valdi skrílræðis og er í haldi, ásamt félögum sínum, ástkærum bræðrum, Caleb Baldwin, Lyman Wight, Hyrum Smith og Alexander McRae, undir stjórn hins hágöfga gjöreyðandi ríkisstjóra, Lilburn W. Boggs, sendir ykkur öllum kveðjur.5 Megi náð Guðs föðurins og Drottins og frelsara okkar Jesú Krists vera með ykkur öllum og dvelja með ykkur að eilífu. Megi þekking margfaldast ykkur sökum miskunnar Guðs. Megi trú og dyggð, þekking og sjálfsögun, þolinmæði, guðrækni og bróðurelska og kærleikur búa í ykkur ríkulega, svo þið hvorki visnið, né verðið ávaxtalausir [sjá 2 Pét 1:5–8].

Þar eð við vitum að flestir ykkar eru vel kunnugir því ranglæti og yfirgangssama óréttlæti og þeirri harðneskju sem við höfum verið beittir, og að við höfum verið handteknir og saklausir ákærðir fyrir margar illar sakir, varpað í rammgert fangelsi, undir strangri gæslu varða, sem sífellt fylgjast með okkur, líkt og djöfullinn gerir, er hann leggur gildrur og freistar fólks Guðs:

Þess vegna, kæru bræður, gerum við af einn meiri þörf og fúsleika tilkall til vináttu ykkar og elsku. Þessum kringumstæðum er ætlað að vekja anda okkar til minningar um heilagleika alls, og við teljum anda ykkar líka, og því megnar ekkert að gera okkur viðskila við kærleika Guðs og vináttu hvers annars [sjá Róm 8:39]; og hvers kyns illska og harðneskja gegn okkur, mun aðeins binda og innsigla hjörtu okkar saman í kærleika.

Við þurfum ekki að minna ykkur á að við erum hlekkjaðir án sakar, og ekki þurfið þið að minna okkur á að þið eruð hrakin frá heimilum ykkar og lostin án sakar. Það er sameiginlegur skilningur okkar, að ef íbúar Missouri-fylkis hefðu látið hina heilögu í friði og þráð frið jafn innilega og þeir, hefði aðeins sátt og samlyndi ríkt í fylkinu fram til þessa dags. Við hefðum ekki þurft að þola þetta víti, … þar sem við neyðumst til að hlýða aðeins á guðlast, og vera vitni að hvers kyns siðspillingu, ölvun og hræsni. Og grátur og kvein munaðarleysingja og ekkna hefði ekki borist Guði gegn þeim. Og saklaust blóð hefði ekki flekkað jarðveg Missouri. … Þetta er hörmungarsaga, sorgarsaga, já, harmkvælasaga; of mikið að segja frá; of mikið að hugsa um; of mikið fyrir menn að þola. …

[Ofsóknarmenn okkar] breyta þannig gagnvart hinum heilögu, sem ekkert hafa gert á þeirra hlut, eru saklausir og dyggðugir og elska Drottin Guð sinn og eru fúsir til að fórna öllu fyrir Krist. Hörmulegt er að greina frá þessu, en vissulega er það satt. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur [sjá Matt 18:7].“6

Mótlæti mun aðeins vara örskamma stund; ef við stöndumst vel, munum við upphafin í návist Guðs.

„Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt? Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni og hversu lengi mun auga þitt, hið hreina auga þitt, horfa frá hinum eilífu himnum á rangindi þau, sem fólk þitt og þjónar þínir eru beittir, og eyra þitt daufheyrast við ákalli þeirra?

Já, ó Drottinn, hversu lengi skulu þau þola þessi rangindi og þessa óréttmætu áþján, áður en hjarta þitt mildast gagnvart þeim og brjóst þitt hrærist til meðaumkunar með þeim?

Ó, Drottinn Guð almáttugur, skapari himins, jarðar og sjávar og alls þess, sem í þeim er, og sem hefur vald yfir djöflinum og undirokar hann og hin myrku og skuggalegu yfirráð Sheols – rétt þú fram hönd þína, ljúk upp auga þínu, lyft tjaldi þínu frá, hyl ekki lengur skýli þitt, legg við hlustir, lát hjarta þitt mildast og brjóst þitt hrærast til meðaumkunar með oss. Tendra reiði þína gegn óvinum vorum og lát oss með heift hjarta þíns og sverði þínu ná rétti vorum vegna rangindanna. Minnstu þjáninga þinna heilögu, ó, Guð vor, og þjónar þínir munu að eilífu fagna í nafni þínu. …

… Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund – Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum. Þú munt fagna sigri yfir öllum óvinum þínum.“7 [Setningar í þessum hluta finnast einnig í K&S 121:1–8.]

Máttur Guðs er meiri en allt illt og sannleikur fagnaðarerindisins mun að lokum sigra.

„Ég bið ykkur leyfis bræður um að segja ykkur, að ríki fáfræði, hjátrú og þröngsýni þar sem slíkt ætti ekki að ríkja, stendur það oft vexti kirkjunnar fyrir þrifum, líkt og kristaltær vatnsflaumur streymir úr fjöllum og fyllist auri og óhreinindum og mengar allt sem áður var hreint, og verður að einu allsherjarflóði. En tíminn sigrar flóðið, og þótt við öslum í flóðinu um stund, mun næsti flaumur, er tímar líða, ef til vill verða kristaltær og færa okkur hreint vatn uppsprettunnar, tært sem snjór. Og óreiðan, rekaviðurinn og skranið er skilið eftir og hreinsast með tímanum.

Hversu lengi geta straumvötn haldist óhrein? Hvaða vald fær stöðvað himnana? Eins vel gæti maðurinn rétta fram veikan arm sinn til að stöðva markað rennsli Missourifljótsins eða snúa straumi þess í gagnstæða átt, eins og að koma í veg fyrir að almættið úthelli þekkingu frá himni yfir höfuð síðari daga heilagra. [Þessi málsgrein er einnig í K&S 121:33.]

Hvað er [Lilburn W. Boggs ríkisstjóri], eða manndrápsflokkur hans, annað en pílviður á ströndinni, er fangar rekaviðinn er fram hjá fer? Við getum rétt eins sagt vatn ekki vera vatn, því flaumurinn niður fjallið tekur með sér aur og gruggar kristaltært vatnið, þótt það hreinsist smám saman að nýju; eða að eldur sé ekki eldur, því hann sé hægt að slökkva með því að hella á hann vatni; eins og að segja að málstaður okkar sé allur vegna þess að svikarar, lygarar, prestar, þjófar og morðingjar, sem allir eru jafn staðfastir í slægð sinni og játningum, hafa í sínu andlega ranglæti, frá háum stöðum, og höfuðvígi djöfulsins, komið af stað flóði aurs og óreiðu … yfir höfuð okkar.

Nei! Guð forði því. Víti kann að úthella bræði sinni, líkt og brennandi hraun eldfjallanna Vesúvíusar eða Etnu, eða einhverra hinna hræðilegustu eldfjalla, en samt mun ,mormónisminn‘ ekki falla. Vatnið, eldurinn og Guð, allt er það raunveruleiki. ,Mormónisminn‘ er sannleikur, Guð er höfundur hans. Hann er skjöldur okkar. Af honum erum við fæddir. Við vorum kallaðir með hans raust, til ráðstöfunar fagnaðarerindis hans í upphafi fyllingar tímanna. Við hlutum Mormónsbók fyrir hans tilstilli, og við erum á lífi nú fyrir hans tilstilli, og við munum sigra fyrir hans tilstilli, verði það honum til dýrðar. Og í hans almáttuga nafni erum við staðráðnir í því að þola mótlætið allt til enda, líkt og góðum hermönnum sæmir.

… Ykkur mun hafa lærst þegar þið lesið þetta, og hafi ykkur ekki lærst það, getið þið lært það, að járnveggjum, marrandi dyrahjörum og dauðskelkuðum fangavörðum … er í raun ætlað að styrkja og efla sál hins heiðvirða manns og gera hana öflugri en máttaröfl vítis. …

… Við erum bræður ykkar og þjáningabræður, og bandingjar Jesú Krists, sökum fagnaðarerindisins, og vonarinnar um dýrð sem í okkur býr.“8

Frelsarinn skilur allar okkar þjáningar og mun vera með okkur alltaf og að eilífu.

Drottinn huggaði spámannin með eftirfarandi orðum: „Endimörk jarðar munu spyrjast fyrir um nafn þitt, heimskingjar munu hæða þig og hel fara hamförum gegn þér – En hinir hjartahreinu og hyggnu, göfugu og dyggðugu munu stöðugt leita ráða, valds og blessana af hendi þér. Og fólk þitt mun aldrei snúast gegn þér fyrir vitnisburð svikara. Og þó að þú lendir í erfiðleikum og undir lás og slá vegna áhrifa þeirra, skalt þú í heiðri hafður. Og vegna réttlætis þíns mun raust þín innan skamms verða ógurlegri meðal óvina þinna en öskur hins óða ljóns. Og Guð þinn mun standa með þér alltaf og að eilífu.

Verðir þú kallaður til að þola andstreymi, verðir þú í hættu meðal falskra bræðra, verðir þú í hættu meðal ræningja, verðir þú í hættu á láði eða legi – Verðir þú ákærður með alls kyns fölskum ásökunum, ráðist óvinir þínir á þig, rífi þeir þig frá samfélagi föður þíns og móður, bræðra þinna og systra, og slíti óvinir þínir þig úr faðmi eiginkonu þinnar og barna með brugðnu sverði, og eldri sonur þinn, aðeins sex ára gamall, ríghaldi í þig og hrópi: Faðir minn, faðir minn, hvers vegna getur þú ekki verið hjá okkur? Ó, faðir minn, hvað ætla mennirnir að gera þér? Og verði honum þá með sverði ýtt burt frá þér og þú dreginn í fangelsi og óvinir þínir setjist að þér líkt og blóðþyrstir úlfar að lambi – Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?

Hald þess vegna stefnu þinni, og prestdæmið mun vera með þér, því að takmörk þeirra eru sett, þeir komast ei lengra. Dagar þínir eru ákveðnir og ár þín skulu ekki verða færri. Óttast þess vegna ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.”9 [Þessar málsgreinar eru einnig í K&S 122:1–9.]

Hin lága og hljóðláta rödd hvíslar hughreystingu að sál okkar í djúpri sorg og þjáningu.

Nokkru eftir að spámanninum var gert kleift að komast undan þeim sem héldu honum föngnum í Missouri, rifjaði hann upp hvernig honum leið í fangavist sinni þar: „Meðan ég var í höndum óvina minna, og þrátt fyrir að ég hafði miklar áhyggjur af fjölskyldu mínni og vinum, sem líða þurftu svo ómannúðlega meðferð og svívirðu, verð ég að segja … að eftir minni bestu vitund var ég fullkomlega rólegur og undirgefinn vilja míns himneska föður. Ég vissi að ég var saklaus, svo og hinir heilögu, og að við hefðum ekkert gert til að verðskulda slíka meðferð af höndum kúgara okkar. Ég gat því reitt mig á þann Guð, sem hefur líf allra manna í höndum sér, og iðulega hafði bjargað mér frá dyrum dauðans. Og þótt öll sund virtust lokuð, og dauðinn blasti við mér, og tortímingin biði mín, í augum manna, var ég samt viss um að mér yrði bjargað, ásamt bræðrum mínum og fjölskyldum okkar, um leið og ég steig fæti inn í búðirnar.

Já, hin lága og hljóðláta rödd, sem svo oft hefur hvíslað huggunarorðum að sál minni, í sorg minni og neyð, bauð mér að vera vonglaður og hét mér björgun. Þótt ofsi geysi og fólk hyggi að fánýtum hlutum, var Drottinn hersveitanna, Guð Jakobs, samt athvarf mitt; og þegar ég ákallaði hann á degi neyðarinnar bjargaði hann mér [sjá Sálm 46:7; 50:15]. Og af sál minni, og því sem innra með mér býr, vegsama ég hans heilaga nafn. Þótt ég væri aðþrengdur á allar hliðar, [var] ég þó ekki ofþrengdur, efablandinn, en örvænti þó ekki, ofsóttur, en þó ekki yfirgefinn, felldur til jarðar, en [tortímdist] þó ekki. [Sjá 2 Kor 4:8–9.]“10

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið lýsinguna á fangelsinu í Liberty, Missouri (bls. 357–59). Hugleiðið aðstæður spámannsins, er hann ritaði þau orð sem skráð eru í kaflanum. Lesið aðra málsgreinina á bls. 362. Á hvaða hátt er frásögn spámannsins í Liberty-fangelsinu dæmi um þennan sannleik?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 359. Hvernig geta erfiðar kringumstæður stundum „[vakið] anda okkar til minningar um heilagleika“? Á hvaða hátt geta raunir og ofsóknir „[bundið] … hjörtu okkar“ við fjölskyldu og vini? Hvaða reynslu hafið þið orðið fyrir sem tengist þessum sannleika?

  • Joseph Smith sagði að ekkert gæti aðskilið hann og bræður hans frá kærleika Guðs (bls. 359). Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar þegar þið íhugið þessa yfirlýsingu? Á hvaða hátt getum við orðið viðskila við kærleika Guðs? Hvað verðum við að gera til að geta notið kærleika Guðs?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 361. Hvað getum við gert til að hljóta þann frið sem Drottinn býður okkur? Hvað finnst ykkur um þau orð Drottins, að mótlæti og þrengingar Josephs Smith muni „aðeins vara örskamma stund“?

  • Lesið þar sem Joseph Smith fullvissaði hina heilögu um að óvinir kirkjunnar gætu ekkert gert til að hindra kraft Guðs (bls. 361–63). Hvers vegna eigum við það til að gleyma þessum sannleika? Hvað getum við gert til að muna eftir honum?

  • Lærið orð Drottins til spámannsins á bls. 363–65. Hvernig getur líf okkar breyst, ef við höfum í huga að mótlæti okkar getur veitt okkur reynslu og orðið okkur til góðs? Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að vita að frelsarinn hefur beygt sig undir allt? Hvað teljið þið að orðin „hald þess vegna stefnu þinni“ merki?

  • Lesið síðustu málsgreinina í kaflanum (bls 364–65). Hugleiðið þær stundir er heilagur andi hefur huggað ykkur í erfiðleikum. Hafið þið upplifað slíkt sem hægt væri að miðla öðrum?

Ritningargreinar tengdar efninu: Fil 3:8–9; Mósía 23:21–24; Al 7:11; 36:3

Heimildir

  1. Bréf frá Joseph Smith til Isaac Galland, 22. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri, gefið út í Times and Seasons, febr. 1840, bls. 52; stafsetning færð í nútímahorf.

  2. Alexander McRae, vitnaði í History of the Church, 3:257; úr bréfi frá Alexander McRae til útgefanda Deseret News, 9. okt. 1854, Salt Lake City, Utah, gefið út í Deseret News, 2. nóv. 1854, bls. 1.

  3. Mercy Fielding Thompson, “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 1. mars 1892, bls. 398; stafsetning færð í nútímahorf.

  4. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith 4. apríl 1839, Liberty-fangelsið, Missouri; Beinecke bókasafn, Yaleháskóli, New Haven, Connecticut; afrit í Skjalasafni kirkjunnar. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah. Í þessu bréfi segir spámaðurinn frá því þegar hann var í fangelsi í rúma fimm mánuði. Hann taldi dagana er hann var í fangelsi í Independence og Richmond, Missouri og einnig í Liberty.

  5. Sidney Rigdon var vistaður í Liberty-fangelsinu ásamt fleiri bræðrum hinn 1. desember 1838. Tveimur mánuðum áður en spámaðurinn skrifaði þetta bréf, hinn 25. janúar 1839, var Sidney gefið leyfi til að yfirgefa fangelsið gegn borgun, vegna alvarlegra veikinda. Vegna stöðugra hótana óttaðist hann að yfirgefa fangelsið og kaus að vera þar áfram til 5. febrúar.

  6. History of the Church, 3:295–96; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úrbréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar 20. mars 1839, Liberty-fangelsið, Missouri; hluti þessa bréfs var settur í Kenningu og sáttmála 121, 122 og 123.

  7. History of the Church, 3:291, 293; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við. Fjöldi smærri breytinga var gerður á stafsetningu, til að búa hluta bréfs spámannsins til útgáfu í Kenningu og sáttmálum. Af þeirri ástæðu er fjöldi smærri atriða sem ekki eru eins í Kenningu og sáttmálum 121, 122 og 123 og efninu sem kynnt er í þessum kafla.

  8. History of the Church, 3:296–98; stafsetning færð í nútímahorf.

  9. History of the Church, 3:300–301; greinaskilum bætt við.

  10. History of the Church, 3:330–31; greinaskilum breytt; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith yngri,“ Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 7–8.

Ljósmynd
Joseph in Liberty Jail

Meðan spámaðurinn var vistaður í Liberty-fangelsinu skrifaði hann fjölda bréfa til fjölskyldu sinnar og hinna heilögu, þar sem hann vitnaði um mátt Guðs til að sigra hið illa og standa við bakið á sínum heilögu „alltaf og að eilífu.“

Ljósmynd
Savior before Pilate

Frelsarinn frammi fyrir Pílatusi. „Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“