Kenningar forseta
5. Kafli: Iðrun


5. Kafli

Iðrun

„Við skulum einmitt nú í dag hefja nýtt líf og segja af öllu hjarta að við munum láta af syndum okkar og verða réttlát.“

Úr lífi Josephs Smith

Hinn 14. júní, árið 1828 fór Martin Harris frá Harmony, Pennsylvania og tók með sér fyrstu 116 blaðsíðurnar sem þýddar höfðu verið af gulltöflunum til að sýna þær nokkrum í fjölskyldu sinni í Palmyra, New York. Daginn eftir fæddist fyrsta barn Josephs og Emmu, sonur sem þau nefndu Alvin. Barnið dó samdægurs, heilsu Emmu hrakaði og hún var dauða nær. Móðir spámannsins skráði síðar: „Um tíma virtist Emma við dauðans dyr eftir að barnið hennar lést, og þögnin ein ríkti á heimilinu. Eiginmaður hennar náði vart einnar stundar værum svefni í nærri tvær vikur, vegna óvissunar sem ríkti um tíma um örlög hennar. Að þessum tíma liðnum hafði hann slíkar áhyggjur af handritinu, að hann hafði einsett sér að fara til New York og sinna því verki um leið og eiginkona hans styrktist örlítið, en hún var nú orðin heldur betri.“1

Að beiðni Emmu sjálfrar skildi spámaðurinn hana eftir í umsjá móður hennar í júlí og fór með póstvagni að heimili foreldra sinna í Manchester Township, New York. Hann ferðaðist alls 200 kílómetra í um tvo til þrjá daga. Joseph var afar niðurbrotinn yfir missi síns fyrsta sonar og hafði miklar áhyggjur af eiginkonu sinni og handritinu og neytti hvorki matar, né lagðist til svefns alla ferðina. Samferðamaður hans, sem var eini farþeginn með honum í póstvagninum, veitti athygli hve veikburða hann virtist og krafðist þess að fá að ganga með honum eina 32 kílómetra frá póstvagninum til heimilis Smith-fjölskyldunnar. Móðir Josephs minntist þess að síðustu sex kílómetra göngunnar hafi „ókunni maðurinn orðið að styðja Joseph, því hann hafi verið svo úrvinda og þrotinn að kröftum að hann hefði hreinlega sofnað standandi að öðrum kosti.“2 Spámaðurinn lét senda eftir Martin Harris um leið og hann kom að húsi foreldra sinna.

Martin kom leiður og vansæll að heimili Smith-fjölskyldunnar rétt eftir hádegið. Hann hafði handritið ekki með sér og sagðist ekki vita hvar það væri. Er Joseph heyrði þetta, hrópaði hann upp yfir sig: „Ó, Guð minn góður! Guð minn góður. … Allt er glatað, allt er glatað. Hvað get ég gert? Ég hef syndgað. Það er ég sem ögrað hef Guði og vakið reiði hans er ég bað hann um það sem ég hafði engan rétt á að biðja um. … Hvernig fæ ég staðið frammi fyrir Drottni? Hvaða ávítur á ég ekki skilið að fá frá engli hins æðsta?“

Allan þann dag gekk spámaðurinn fram og aftur á heimili foreldra sinna í mikilli geðshræringu, „grátandi og sorgbitinn.“ Daginn eftir hélt hann af stað til Harmony að nýju og sagði: „Ég tók að auðmýkja mig frammi fyrir Drottni í máttugri bæn … um mögulega miskunn hans og fyrirgefningu fyrir allt það sem ég hafði gert og andstætt var vilja hans.“3

Drottinn ávítaði spámanninn harðlega fyrir að óttast manninn meira en Guð, en veitti honum fullvissu um að hann gæti hlotið fyrirgefningu. Drottinn sagði: „Þú ert Joseph sem varst valinn til að vinna verk Drottins, en vegna lögmálsbrots munt þú falla, sért þú eigi var um þig. En haf hugfast, að Guð er miskunnsamur. Iðrast því þess sem þú hefur gjört og er andstætt fyrirmælum þeim sem ég gaf þér, og enn ert þú útvalinn og kallaður til verksins á ný“ (K&S 3:9–10).

Drottinn tók Úrím og Túmmím og töflurnar um tíma frá Joseph. En brátt kom að því að hann fékk það aftur í hendur. „Engillinn fagnaði þegar hann fékk mér aftur Úrím og Túmmím,“ minntist spámaðurinn, „og hann sagði Guð vera ánægðan með trúfesti mína og auðmýkt og elska mig fyrir þolinmæði mína og kostgæfni í bænargjörð og að ég hefði sinnt skyldum mínum af slíkri natni að … ég gæti hafið þýðingarstarfið að nýju.“4 Þegar Joseph hélt áfram að starfa að þessu mikilvæga verki sem fyrir honum lá, tvíefldist hann allur yfir hinni ljúfu tilfinningu sem fylgdi fyrirgefningu Drottins og einsetti sér enn frekar að gera vilja hans.

Kenningar Josephs Smith

Þegar við iðrumst synda okkar nálgumst við Guð og líkjumst honum.

Þegar Wilford Woodruff þjónaði í Tólfpostulasveitinni, skráði hann: „Sjáandinn Joseph reis upp í krafti Guðs og ávítaði fólkið fyrir ranglæti þess, í nafni Drottins Guðs. Hann æskti þess að fá að segja nokkur orð sem hæfðu ástandi safnaðarins, og sagði:

‚Ég tala með valdi prestdæmisins, í nafni Drottins Guðs. … Þótt sérhver í þessum söfnuði segist vera heilagur, eru hér mitt á meðal okkar menn af öllum gerðum og stéttum. Ef þið óskið að komast þangað sem Guð er, verðið þið að líkjast Guði, eða lifa eftir þeim reglum sem Guð lifir eftir, því ef við nálgumst ekki Guð að lífsháttum, fjarlægjumst við hann og nálgumst djöfulinn. Já, ég er mitt á meðal alls kyns fólks.

Ígrundið í hjarta ykkar hvort þið líkist Guði. Sjálfur hef ég ígrundað í mínu og fundið mig knúinn til að iðrast synda minna.

þjófar eru meðal okkar, hórkarlar, lygarar og hræsnarar. Ef Guð mælti frá himnum, byði hann ykkur að stela ekki, að drýgja ekki hór, að girnast ekki og að blekkja ekki, heldur að sýna trúfesti yfir litlu. … Er Guð ekki góður? Þá skuluð þið vera góð; sé hann trúfastur, þá skuluð þið vera trúföst. Bætið dyggð við trú ykkar, þekkingu við dyggð ykkar og leitið alls hins góða. Kirkjuna þarf að hreinsa og ég prédika gegn allri misgjörð.‘ “5

„Þið verðið að vera án sektar, því annars fáið þið ekki staðist frammi fyrir Guði: Ef við hyggjumst koma fram fyrir Guð, verðum við að vera hrein, líkt og hann er hreinn. Djöfullinn býr yfir miklum mætti til að blekkja. Hann mun rangsnúa hlutunum svo, að menn gapi yfir þeim sem fara að vilja Guðs. … Misgjörðum þarf að útrýma meðal hinna heilögu; þá mun hulunni svipt frá og blessun himins streyma niður – hún mun streyma líkt og Mississippi-fljótið.“6

„Lát engan kunngjöra eigið réttlæti, því aðrir munu sjá það í honum; en játi hann fremur syndir sínar, því þá mun hann hljóta fyrirgefningu og bera fram betri ávöxt.“7

„Allir þurfa að iðrast og verða hreinir í hjarta, þá mun Guð gefa þeim gaum og blessa meira en hægt er á annan hátt.“8

Það er vilji Guðs að við látum af syndum okkar og öllu illu okkar á meðal.

„Heyr, öll endimörk jarðar – allir þér prestar, allir þér syndugir og allir menn. Iðrist! Iðrist! Hlýðið fagnaðarerindinu. Snúið til Guðs.“9

„Við skulum einmitt í dag hefja nýtt líf og segja af öllu hjarta að við munum láta af syndum okkar og verða réttlát.“10

Hinn heiðni mun grípa hvert strá sér til hjálpar, þar til hann horfist í augu við dauðann, og síðan mun sviksemi hans linna, því veruleiki eilífra heima hvílir á honum af miklum mætti; og þegar allur jarðneskur stuðningur bregst honum, mun hann skynja hinn eilífa sannleika um ódauðleika sálarinnar. Við ættum að taka mark á aðvörunum og bíða ekki fram á dánarbeð með að iðrast. Við sjáum ungbörn hrifin burtu í klóm dauðans og hinir ungu í blóma jafnt og hinir eldri geta einnig verið kallaðir á vit eilífðar. Látum það því verða öllum til þeirrar viðvörunar að slá ekki iðrun á frest eða bíða með það fram að dánarbeði, því vilji Guðs er að allir menn iðrist og þjóni honum við góða heilsu, og af styrk og mætti hugans, til að tryggja sér blessanir hans, en fresti því ekki fram á dánarstund.“11

„Sakramentið var þjónustað og veitt kirkjunni [hinn 1. mars árið 1835]. Áður en það var þjónustað ræddi ég um hvernig rétt væri að standa að þessari helgiathöfn í kirkjunni og lagði áherslu á mikilvægi þess frammi fyrir Drottni og spurði: Hve lengi teljið þið að menn geti meðtekið þessa helgiathöfn óverðugir, án þess að Drottinn dragi anda sinn í hlé frá þeim? Hve lengi geta þeir farið léttilega með það sem heilagt er án þess að Drottinn ofurselji þá hirtingu Satans fram að degi endurlausnar! … Þess vegna verðum við að vera auðmjúk í hjarta og iðrast synda okkar og útrýma hinu illa meðal okkar.“12

„Iðrun er nokkuð sem ekki má taka léttilega dag hvern. Daglegt lögmálsbrot og dagleg iðrun er ekki þóknanlegt í augum Guðs.“13

Spámaðurinn Joseph Smith skrifaði eftirfarandi til bróður sinns Williams Smith eftir að William varð honum reiður og sýndi honum lítilsvirðingu: „[Ég hef talað til þín] í þeim gagngera tilgangi að reyna af öllum mætti að aðvara, hvetja, áminna og bjarga þér frá því að kalla yfir þig erfiðleika og sorg, sem ég sá fyrir að þú værir á leið með að gera, með því að gefa þig að hinum illa anda, er þú nefnir ástríðu þína, sem þú ættir að halda í skefjum, beisla og vinna bug á, því ef þú gerir það ekki, munt þú, frá mínum bæjardyrum séð, aldrei geta frelsast í ríki Guðs. Guð krefst af öllum mönnum að þeir lúti vilja hans í einu og öllu.“14

Himneskur faðir fyrirgefur fúslega þeim sem iðrast og snúa til hans af öllu hjarta.

Árið 1835 barst Joseph Smith bréf frá Harvey Whitlock, sem yfirgefið hafði kirkjuna en óskaði eftir að snúa aftur til fullrar þátttöku. Spámaðurinn svaraði honum: „Ég fékk bréf þitt hinn 28. september árið 1835. Ég hef lesið það tvisvar og það vakti mér slíkar tilfinningar að ég fæ vart með orðum lýst. Ég læt nægja að segja að flóðgáttir hjarta míns lukust upp – og ég megnaði ekki að halda aftur af tárunum. Ég þakka Guði fyrir að í hjarta þínu hyggst þú snúa að nýju til Drottins og fólks hans og megi hann sýna þér miskunn, sé það ásetningur þinn. Ég hef leitað til Drottins með mál þitt og þessi orð bárust mér:

Opinberun til Harveys Whitlock.

‚Sannlega eru þetta orð Drottins til þín. – Lát Harvey, sem var þjónn minn, snúa að nýju til mín og kirkju minnar og láta af öllum þeim syndum sem hann hefur drýgt gegn mér og iðka héðan í frá dyggðugt og heiðarlegt líferni og lúta stjórn þeirra sem ég hef tilnefnt sem máttarstólpa og höfuð kirkju minnar. Og sjá, sagði Drottinn Guð þinn, syndir hans skulu afmáðar undir himninum og gleymdar meðal manna og skulu hvorki berast til eyrna minna, né verða skráðar til minnis gegn honum, heldur mun ég lyfta honum upp, líkt og úr djúpum forarpytti, og hann skal upphafinn til æðri staða og teljast verðugur þess að vera meðal höfðingja, og enn skal hann verða sem fáguð ör í örvamæli mínum til að binda enda á höfuðvígi ranglætis meðal þeirra sem upphefja sjálfa sig og bera ráð sín gegn mér og gegn mínum smurðu á síðustu dögum. Lát hann því tilreiða sig í snatri og koma til þín, já, til Kirtland. Og þar sem hann mun upp frá þessu hlíta allri þinni leiðsögn, skal hann endurreistur til fyrri stöðu og varðveittur allt til enda, já, svo sem Drottinn Guð lifir. Amen.‘

Þannig getur þú séð, kæri bróðir, að himneskur faðir fyrirgefur fúslega syndir og endurreisir til náðar alla þá sem fúsir eru til að auðmýkja sig frammi fyrir honum, játa syndir sínar og láta af þeim og snúa sér til hans af einlægum ásetningi hjartans, án nokkurrar hræsni, og þjóna honum allt til enda [sjá 2 Ne 31:13].

Undrast ekki að Drottinn skuli láta svo lítið að mæla frá himni og veita þér leiðsögn og fræðslu um skyldu þína. Hann hefur heyrt bænir þínar og séð auðmýkt þína og af föðurlegri umhyggju rétt þér hönd til að taka á móti þér að nýju. Englar himins fagna yfir þér og hinir heilögu taka fúslega við þér að nýju í samfélag sitt.“15

„það er aldrei of seint fyrir anda okkar að koma til Guðs. Allir eru innan seilingar hinnar náðarsamlegu miskunnar, hafi þeir ekki drýgt hina ófyrirgefanlegu synd.“16

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Hvaða skilning hlutuð þið á Joseph Smith er þið lásuð frásögnina um viðbrögð hans er blaðsíðurnar 116 glötuðust (bls. 69–71)? Hvað lærið þið um iðrun af fordæmi hans?

  • Lesið undirkaflann sem hefst á bls. 72. Þegar þið íhugið kenningarnar í þessum kafla, gefið ykkur þá tíma til að ígrunda í hjarta ykkar, líkt og spámaðurinn ráðlagði. Íhugið það sem þið þurfið að gera – og það sem þið þurfið að láta af – til að líkjast meira Guði.

  • Íhugið viðvörun Josephs Smith um að fresta ekki iðrun okkar (bls. 73–74). Hverjar eru hugsanlegar afleiðingar þess að fresta þess að iðrast?

  • Nemið heilræði Josephs um að snúa okkur til Guðs og auð- mýkja okkur frammi fyrir honum (bls. 73–76). Hvers vegna er iðrun ekki fullnægjandi án auðmýktar? Hvað felst í því að „snúa sér til [Guðs] af einlægum ásetningi hjartan“? (bls. 76).

  • Lesið opinberun Josephs Smith sem hann hlaut fyrir hönd Harvey Whitlock og veitið athygli loforðum Drottins til bróður Whitlock, ef hann iðraðist af einlægni (bls. 75). Hverjar eru hugsanir ykkar eða tilfinningar er þið íhugið „hve himneskur faðir er fús til að fyrirgefa syndir og endurreisa [okkur] til náðar“?

Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Kor 7:9–10; Mósía 4:10–12; Al 34:31–38; K&S 1:31–33; 58:42–43

Heimildir

  1. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” 1844–45 handrit, bók 7, bls. 1–2, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” 1844–45 handrit, bók 7, bls. 5, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” 1844–45 handrit, bók 7, bls. 6–9, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” 1844–45 handrit, bók 7, bls. 11, Skjalasafn kirkjunnar.

  5. History of the Church, 4:588; texti í sviga upprunalegur; stafsetning færð í nútímahorf; skiptingu málsgreinar breytt; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  6. History of the Church, 4:605; Skiptingu málsgreina breytt; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elisu R. Snow.

  7. History of the Church, 4:479; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. desember 1841, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  8. Úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elisu R. Snow í fundagerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, bls 34, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. History of the Church, 6:317; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  10. History of the Church, 6:363; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  11. History of the Church, 4:553–54; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  12. History of the Church, 2:204; úr fundagerðabók kirkjuráðs 1. mars 1835, í Kirtland, Ohio.

  13. History of the Church, 3:379; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1838, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  14. History of the Church, 2:342; úr bréfi frá Joseph Smith til Williams Smith, 18. desember 1835, Kirtland, Ohio.

  15. History of the Church, 2:314; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til Harvey Whitock, 16. nóvember 1835, Kirtland, Ohio.

  16. History of the Church, 4:425; úr fundagerðabók kirkjuráðs 3. október 1841, í Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. okt. 1841, bls. 577.

Ljósmynd
Christ in Gethsemane

Iðrun er gerð möguleg með friðþægingu frelsarans Jesú Krists. „Ígrundið í hjarta ykkar hvort þið líkist Guði,“ sagði spámaðurinn Joseph Smith. „Sjálfur hef ég ígrundað í mínu og fundið mig knúinn til að iðrast synda minna.“

Ljósmynd
prodigal son returning

„Himneskur faðir fyrirgefur fúslega syndir og endurreisir til náðar alla þá sem fúsir eru til að auðmýkja sig frammi fyrir honum, líkt og með glataða soninn sem boðinn var velkominn á heimili föður síns.“