Kenningar forseta
47. kafli: „Lof syngið honum‘: Síðari daga spámenn bera vitni um spámanninn Joseph Smith


47. kafli

„Lof syngið honum“: Síðari daga spámenn bera vitni um spámanninn Joseph Smith

„Spámaðurinn Joseph Smith … var [kallaður] af Guði, með rödd sjálfs Guðs, til að hefja ráðstöfun fagnaðarerindisins fyrir heiminn í síðasta sinn.“ (Joseph F. Smith)

Úr lífi Josephs Smith

Eftir dauða spámannsins Josephs Smith og Hyrums, bróður hans, sneru þeir meðlimir Tólfpostulasveitarinnar, sem verið höfðu í trúboðsferð um Bandaríkin, heim á leið til Nauvoo, eins fljótt og auðið var. Hinir Tólf kölluðu hina heilögu til fundar 8. ágúst 1844, þar sem Brigham Young, forseti Tólfpostulasveitarinnar, hélt ræðu. Meðan hann talaði, gerðist nokkuð afar óvænt, sem margir hinna heilögu urðu vitni að. Young forseti tók á einhvern undursamlegan hátt að líkjast og hljóma líkt og Joseph Smith. „Þótt Joseph hefði risið upp frá dauðum og talað að nýju frammi fyrir fólkinu,“ sagði George Q. Cannon, „hefðu áhrifin ekki verið meiri en þau voru þarna á fundinum. Rödd sjálfs Josephs hljómaði, og það var ekki aðeins rödd Josephs sem hljómaði, heldur virtist sem fólkið sæi Joseph standa frammi fyrir því. Við höfðum aldrei áður heyrt af slíkum undursamlegum atburði og átti sér stað þennan dag meðal þessa safnaðar. Drottinn veitti fólki sinu vitnisburð, sem ekki rúmaði efasemdir, um þann mann sem hann hafði valið til að leiða það.“1

Við lok þessa fundar kusu hinir heilögu að hinir Tólf yrðu í forsæti fyrir þeim. Rúmum þremur árum síðar, í desember 1847, var Æðsta forsætisráðið að nýju stofnað, með stuðningi við Brigham Young sem forseta kirkjunnar.

Allt frá tíma Brighams Young hafa allir spámenn, sem verið hafa í forsæti kirkjunnar, vitnað um undravert hlutverk spámannsins Josephs Smith. Joseph Smith var útvalinn á stórþingi himins til að verða hinn mikli spámaður og sjáandi síðari daga. Hlutverk hans var svo mikilvægt að fornir spámenn sögðu fyrir um það, þar á meðal Jósef, spámaður í Gamla testamentinu, sem seldur var til Egyptalands. Jósef frá Egyptalandi var sjálfur sjáandi og hann spáði fyrir um Joseph Smith:

„Drottinn Guð minn mun vekja upp sjáanda, sem verða mun ávöxtum lenda minna útvalinn sjáandi. Og hann mun heitinn eftir mér og föður sínum. Og hann mun verða mér líkur, því að það, sem Drottinn kemur til leiðar með hans hendi, mun með Drottins krafti leiða fólk mitt til sáluhjálpar“ (2 Ne 3:6, 15; sjá einnig 2 Ne 3:6–22).2

Í desember 1834 veitti Joseph Smith eldri spámanninum Joseph blessun og staðfesti að hann væri sjáandinn sem Jósef hefði spáð um til forna: „Ég blessa þig með blessunum forfeðra þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs, og jafnvel blessunum forföður þíns Jósefs, sonar Jakobs. Sjá, hann lítur til niðja sinna á efstu dögum … ; hann leitaði þess af kostgæfni að fá að vita hver sonurinn væri sem leiða ætti fram orð Drottins, sem mundi upplýsa þá og færa í hina sönnu hjörð að nýju, og augu hans litu þig, sonur minn. Hann gladdist í hjarta sínu og varð sáttur í sál sinni, og sagði: … ‚Af sæði mínu, sem dreift verður meðal Þjóðanna, mun útvalinn sjáandi fram koma … , sem í hjarta sínu mun hugleiða mikinn vísdóm, og vitsmunir hans munu umlykja og skilja hið djúpa Guðs, og munur hans mæla fram lögmál og réttvísi.‘ … Þú munt hafa lykla þessarar þjónustu, já, forsætisráðs þessarar kirkju, bæði um tíma og eilífð.“3

Fyrir tilstilli Josephs Smith, hins útvalda sjáanda síðari daga, voru hinar endurleysandi helgiathafnir fagnaðarerindisins opinberaðar, og hin sanna Kirkja Jesú Krists enn á ný stofnuð á jörðu. Vitnisburðir spámanna nú og til forna leggjast á eitt við að lýsa yfir að Joseph Smith hafi verið það verkfæri sem Guð endurreisti fyllingu fagnaðarerindisins með, til blessunar „öllu mannkyni, frá eilífð til eilífðar.“4

Vitnisburðir síðari daga spámanna

Joseph Smith var forvígður til sinnar spámannlegu köllunar.

Brigham Young forseti: „Það var ákvarðað á ráðstefnu eilífðarinnar, löngu áður en grundvöllur jarðar var lagður, að [Joseph Smith], væri maðurinn á síðasta ráðstöfunartíma þessa heims, sem flytja ætti orð Guðs til fólksins, og meðtaka fyllingu lykla og krafts prestdæmis sonar Guðs. Augu Drottins hvíldu á honum, og á föður hans, og á afa hans, og á forfeðrum þeirra allt aftur til Abrahams, og frá Abraham til flóðsins, frá flóðinu til Enoks, og frá Enok til Adams. Hann hafði augastað á þessari ættkvísl og þessu blóði, allt frá uppruna hennar til fæðingar þessa manns. [Joseph Smith] var forvígður í eilífðinni til að vera í forsvari þessarar síðustu ráðstöfunar.“5

Joseph Fielding Smith forseti: „Joseph Smith var útvalinn til að stjórna verki Drottins á efstu dögum, og honum var falið hlutverk sitt fyrir forþekkingu okkar eilífa föður, í eilífðunum áður en hann fæddist. Hann kom í anda Elíasar til að greiða veginn fyrir komu Drottins okkar. Engum spámanni, allt frá dögum Adams, hefur verið fengið undursamlegra hlutverk en honum, nema auðvitað frelsara okkar.“6

Ezra Taft Benson forseti: „Við verðum að skoða jarðneskt hlutverk spámannsins í ljósi eilífðarinnar til að skilja umfang þess. Hann var meðal ‚hinna göfugu og miklu,‘ sem Abraham sagði um:

‚Nú hafði Drottinn sýnt mér, Abraham, þær vitsmunaverur, sem skipulagðar voru áður en heimurinn varð til, og á meðal þeirra allra voru margir hinna göfugu og miklu – Og Guð sá, að þessar sálir voru góðar, og hann stóð mitt á meðal þeirra og sagði: Þessar vil ég gjöra að stjórnendum mínum, því að hann stóð á meðal þeirra, sem voru andar, og hann sá að þeir voru góðir. Og hann sagði við mig: Abraham, þú ert einn þeirra. Þú varst útvalinn áður en þú fæddist.‘ (Abr 3:22–23.)

Þannig var það með Joseph Smith. Hann var þar einnig. Hann var þar meðal hinna göfugu og miklu. Hann skipaði virðingarstöðu og hefur án efa aðstoðað við skipulag og framkvæmd hins mikla verks Drottins, að ‚gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika‘ [HDP Móse 1:39]. Þjónusta hans átti að hafa, og hefur, áhrif á alla þá sem komið höfðu til jarðarinnar; alla sem þá dvöldu á jörðinni og á milljónir enn ófæddra. …

Spámaðurinn Joseph Smith var ekki aðeins einn af ‚hinum göfugu og miklu,‘ því hann heldur áfram að sinna mikilvægum málum hér á jörðinni, jafnvel nú, frá ríkjum upphæða. En í augum Drottins … er um að ræða undursamlega áætlun sem spámaðurinn Joseph gegnir mikilvægu hlutverki í – allt fyrir hið eilífa prestdæmi og vald Guðs.“7

Fyrsta sýn Josephs Smith er meginhluti okkar persónulega vitnisburðar.

Joseph F. Smith forseti: Merkasti atburðurinn sem átt hefur sér stað í heiminum, frá upprisu sonar Guðs úr gröfinni og uppstigningu hans til himna, er koma föðurins og sonarins til piltsins Josephs Smith, í þeim tilgangi að hefja undirbúning og leggja grundvöll að ríki [Guðs] – ekki ríkis manna – sem aldrei mun á grunn ganga eða því hnekkt.

Þar sem ég hef meðtekið þennan sannleika á ég auðvelt með að meðtaka allan annan sannleika sem hann hefur sett fram í þjónustu sinni … í heiminum. Hann kenndi aldrei ranga kenningu. Hann fylgdi aldrei annarri kenningu en þeirri sem honum var boðið að fylgja. Hann boðaði aldrei neina villu. Hann var ekki blekktur. Hann sá, hann heyrði, hann gerði það sem honum var boðið að gera, og þess vegna er Guð ábyrgur fyrir því verki sem Joseph Smith innti af höndum – en ekki Joseph Smith. Drottinn ber ábyrgð á því, en ekki maðurinn.“8

Heber J. Grant forseti: „Annað hvort sá Joseph Smith Guð og ræddi við hann, og Guð kynnti Jesú Krist sjálfur fyrir drengnum Joseph Smith, og Jesús Kristur sagði við Joseph Smith að hann yrði verkfæri í höndum Guðs við að endurreisa á jörðu hið sanna fagnaðarerindi Jesú Krists – eða hinn svonefndi mormónismi er hreinn uppspuni. En mormónisminn er ekki uppspuni! Hann er kraftur Guðs til hjálpræðis; hann er kirkja Jesú Krists, stofnuð undir hans leiðsögn, og öll vantrú heimsins megnar ekki að breyta grundvallarstaðreyndum sem tengjast Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“9

Howard W. Hunter forseti: „Ég er þakklátur fyrir aðild mína að kirkjunni og vitnisburður minn um guðleika hennar er háður einfaldri frásögn um dreng sem krýpur undir tré og er vitjað af himneskum verum – ekki einum Guði, heldur tveimur aðskildum verum, föðurnum og syninum, sem enn á ný hafa opinberað eðli Guðdómsins. Trú mín og vitnisburður eru háð þessari einföldu frásögn, og sé hún ekki sönn, fellur mormónisminn. En sé hún sönn – og ég ber vitni um að svo sé – er um að ræða einstæðasta atburð allrar mannkynssögunnar.“10

David O. McKay forseti: „Grundvöllur kirkjunnar er að faðirinn og sonurinn birtust Joseph Smith. Í því liggur leyndardómur styrks hennar og lífsþrótts. Það er satt og ég ber vitni um það. Sú eina opinberun svarar öllum efasemdum vísinda um Guð og eðli hans. Sjáið þið ekki hvað í því felst? Hvað Guð er, því hefur verið svarað. Opinberun hans til barna sinna er greinileg. Áhugi hans á mannkyni kemur skýrt fram í því valdi sem hann hefur falið manninum. Verkið er tryggt um framtíð. Þessi dýrðlegi sannleikur kemur glögglega fram í hinni dýrðlegu Fyrstu sýn.“11

Ezra Taft Benson forseti: „Fyrsta sýn spámannsins Josephs Smith er kjarninn í trúfræði kirkjunnar. Andstæðingnum er það ljóst og því hefur hann reynt að draga úr trúverðugleika frásagnar Josephs Smith allt frá því að hann greindi frá því að faðirinn og sonurinn hefðu vitjað sín. … Þið ættuð ætíð að bera vitni um sannleika Fyrstu sýnarinnar. Joseph Smith sá föðurinn og soninn. Þeir ræddu við hann, líkt og hann sagði að þeir hefðu gert. Það er dýrðlegasti atburðurinn allt frá upprisu Drottins okkar. Sérhver leiðtogi, sem ekki getur hiklaust borið vitni um að Guð og Jesús Kristur hafi birst Joseph Smith, verður aldrei sannur leiðtogi, sannur hirðir. Ef við meðtökum ekki þann sannleika, … ef við höfum ekki tekið á móti vitnisburði um þá undursamlegu opinberun, megnum við ekki að blása trú í brjóst þeirra sem við leiðum.“12

Georg Albert Smith forseti: „Þegar hinn ungi spámaður sá föðurinn og soninn í skógum Palmyra, og honum varð ljóst að þeir voru í raun einstaklingar, að þeir heyrðu mál hans og svöruðu honum, hófst nýtt tímabil í þessum heimi, sem lagði grunn að trú mannanna barna. Þau gátu nú beðið til föður síns á himnum og vitað að hann bænheyrði þau, að sambandi hafði verið komið á milli himins og jarðar.“13

Spámaðurinn Joseph Smith hlaut fræðslu af hendi Guðs og engla.

John Taylor forseti: „Hver var Joseph Smith? Mormónsbók greinir frá því að hann hafi verið niðji Jósefs, sem seldur var til Egyptalandi, og því verið valinn, líkt og Abraham var, til að uppfylla verk á jörðu. Guð valdi þennan unga mann. Hann var fáfróður á mælikvarða heimsins, en ég hef ekki kynnst lærðari og vitrari manni á minni ævi, og þó hef ég ferðast hundruð þúsunda kílómetra, verið í hinum ýmsu meginlöndum og átt samskipti við fólk af öllum stigum og gerðum, en aldrei kynnst jafn vitrænum manni og hann var. Og hvaðan hlaut hann sína vitsmuni? Ekki af bókum, ekki af rökfræði eða vísindum eða heimsspeki okkar tíma, heldur af opinberunum frá Guði, gerðar honum kunnugar fyrir tilstilli hins ævarandi fagnaðarerindis.“14

Wilford Woodruff forseti: „Ég hef hvergi lesið, svo ég viti, um álíka kraft sem birst hefur í einhverri ráðstöfun mannanna barna, og þann sem birtist spámanni Guðs við stofnun þessarar kirkju, þegar faðirinn og sonurinn birtust báðir spámanninum Joseph, sem svar við bæn hans, og faðirinn sagði: ‚Þessi er minn elskaði sonur, hlýð þú á hann.‘ Þetta var mikilvæg opinberun, sem aldrei áður hafði borist á sama hátt og þarna á fyrri ráðstöfunartímum heims sem Guð hefur veitt varðandi verk sitt. Spámaður Guðs naut þjónustu engla himins við skipulag þess. Þeir voru kennarar hans og fræðarar, og allt sem hann gerði og framkvæmdi frá upphafi, frá þeim degi fram að píslarvætti sínu, var með opinberun frá Jesú Kristi.“ 15

Lorenzo Snow forseti: „Joseph Smith, sem Guð útvaldi til að hefja verk sitt, var snauður og ómenntaður og tilheyrði engum vinsælum trúarsöfnuði kristinna. Hann var aðeins drengur, heiðvirður og ráðvandur. … Honum fannst, líkt og Móse, hann vera óhæfur til verksins, að koma fram sem umbótamaður trúarbragða og setja sig í afar óvinsæla stöðu, fara gegn skoðunum og trúarjátningum, sem staðið höfðu um aldir og menn höfðu samþykkt; gegn hinum dýpstu guðfræðilegu kenningum. En Guð hafði kallað hann til að leysa hina fátæku og heiðvirðu meðal allra þjóða úr þeirra andlegu og stundlegu ánauð. Og Guð hét honum því, að hver sá er tæki á móti og færi að boðskap hans, og hver sem tæki á móti skírn til fyrirgefningar syndanna, af heiðarleika hjartans, mundi hljóta guðlega staðfestingu, taka á móti heilögum anda, og hinu sama fagnaðarerindi og blessunum sem fyrirheit var gefið um, líkt og hinir fornu postular prédikuðu, og að þessi boðskapur, þetta fyrirheit, yrði að virku afli í hverjum sem á móti tæki og hvar sem öldungarnir, hinir réttmætu þjónar Guðs, færu um. Svo mælti Joseph Smith, hinn ómenntaði, óreyndi, einfaldi og heiðvirði drengur.“16

Harold B. Lee forseti: „Joseph Smith, sem var alls ómenntaður í fræðigreinum hinna háleitu skóla nútímans, … [var] nægilega auðsveipur til að læra hinar guðlegu kenningar og hlýða á hina hljóðu rödd andans. Joseph Smith hefði ekki getað stofnað þessa kirkju af sjálfum sér. Hann hefði ekki getað ýtt verki Drottins úr vör með því að þýða Mormónsbók. Menn geta gert gys að persónu Josephs Smith. Þeir geta dregið í efa aðdragandann að stofnun þessarar kirkju, en hvað sem öllu öðru kann að líða ber þetta stórvirki vitni um sjálft sig – sem er Mormónsbók. Maðurinn Joseph hefði ekki megnað að koma þessu í verk af sjálfum sér, en Joseph gæddur krafti almáttugs Guðs hefði getað það og honum tókst með undursamlegri þjónustu sinni að leiða fram ríkið úr móðu og myrkri og endurreisa fagnaðarerindi Jesú Krists.“17

David O. McKay forseti: „Ég vil við þetta tækifæri ræða um Joseph Smith, ekki aðeins sem mikinn mann, heldur einnig sem innblásinn þjón Drottins. Mikilleiki Josephs Smith tengdist vissulega guðlegum innblæstri. …

‚Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?‘ sögðu Gyðingarnir er þeir undruðust visku Jesú [Jóh 7:15]. Þessa spurningu mætti endurtaka hvað Joseph Smith varðar, er við hugleiðum framúrskarandi afrek hans á hinu stutta skeiði [fjórtán árum] frá stofnun kirkjunnar að píslarvættisdauða hans. Þegar við hugleiðum hið fullkomna samræmi sem gætir á milli hins endurreista fagnaðarerindis og þess sem var í kirkjunni til forna og Jesús og postular hans komu á fót, þegar við sjáum hve hann hafði mikla þekkingu á reglum og kenningum, og þegar við sjáum óviðjafnanlegt skipulag og skilvirkni kirkjunnar, sem stofnuð var með innblæstri frá Kristi, hvers nafn hún ber. Svarið við spurningunni: ‚Hvernig hefur þessi maður orðið lærður?‘ er að finna í þessu áhrifamikla erindi:

„Lof syngið honum sem litið fékk Jahve

leiddur af Jesú hann spámaður er.

Leiðina opnaði, þá sem vér þráðum,

Þjóðanna konunga lof honum ber.“18

Howard W. Hunter forseti: „Við lofum [Joseph Smith] fyrir hæfni hans til að eiga ekki aðeins samskipti við Jehóva, heldur einnig aðrar verur himins. Þessi ‚útvaldi sjáandi,‘ sem reistur var upp á síðari dögum, hlaut margar vitjanir þar sem honum veittist kennsla og lyklar. … Við lofum Joseph Smith einnig fyrir kostgæfni hans og hæfni til að þýða og taka á móti hundruð blaðsíðna af opinberuðum ritningum. Hann var rás opinberunar. Áætlað er að með honum hafi komið fleiri undursamlegar ritningarsíður en með nokkrum öðrum í sögu mannkyns.“19

Spámaðurinn Joseph Smith var kallaður af Guði til að ýta úr vör síðustu ráðstöfuninni og endurreisa fyllingu fagnaðarerindisins.

Spencer W. Kimball forseti: „Ég ber heiminum nú vitni um að fyrir rúmlega einni og hálfri öld hafi járnþakið verið burtu numið, himnunum var enn á ný upp lokið, og frá þeirri stundu hefur ekkert lát verið á opinberunum.

Sá dagur rann upp þegar sál ein baðst fyrir af djúpri þrá eftir að hljóta guðlega leiðsögn. Hún fann sér leyndan stað til einveru, kraup niður, auðmjúk í hjarta og tók að ákalla, og ljós bjartara en hádegissól lýsti upp heiminn – og fortjaldið yrði aldrei dregið fyrir aftur.

Hinn ungi drengur … , Joseph Smith, sem hafði óviðjafnanlega trú, rauf álögin og ‚tætti sundur járnhimininn yfir [okkur]‘ og kom á samskiptum að nýju. Himinninn snart jörðina, ljósið eyddi myrkrinu, og Guð talar að nýju til mannsins og opinberar „þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.‘ (Amos 3:7.) Nýr spámaður var í landinu og með honum kom Guð upp ríki sínu, sem aldrei yrði eytt eða látið öðrum eftir – ríki sem alla tíð skyldi standa.

Varanleiki þessa ríkis og opinberanirnar sem gerðu það að veruleika eru lifandi raunveruleiki. Sólin mun aldrei aftur til viðar hníga, aldrei aftur munu allir menn reynast algjörlega óverðugir samskipta við skapara sinn. Aldrei aftur mun Guð hulinn börnum sínum á jörðu. Opinberun er hér til að vera.“20

Gordon B. Hinckley forseti: „Saga Josephs Smith er saga kraftaverka. Hann fæddist í fátækt, ólst upp við andstreymi, hraktist stað úr stað, var ranglega ákærður, ólöglega hnepptur í fangelsi og myrtur 38 ára gamall. Á aðeins 20 árum fyrir dauða sinn afrekaði hann þó meira en nokkur annar hefur gert á langri ævi. Hann þýddi og birti Mormónsbók, rit sem síðan hefur verið þýtt á fjölmörg tungumál og er viðurkennt af milljónum manna um allan heim sem orð Guðs. Opinberanirnar sem hann hlaut og önnur rit hans eru þessum milljónum einnig sem ritning. Síðufjöldi þeirra rita nær næstum tvöföldum síðufjölda Nýja testamentisins í Biblíunni og þau rit komu öll frá einum manni á nokkrum árum. Samtímis því kom hann á fót stofnun, sem … hefur staðist allt andstreymi og allan vanda og er jafn skilvirk nú við stjórnun heimssafnaðar … og hún var þegar söfnuðurinn var 300 manns árið 1830. Til eru efasemdarmenn sem keppast við að útskýra þetta og segja að það sé vegna þeirra tíma sem við lifum á. Þessi stofnun var jafn einstök og undursamleg þá og hún er nú. Hún er ekki afrakstur breyttra tíma, hún kom sem opinberun frá Guði. …

Á þessu tuttugu ára tímabili fyrir dauða sinn hóf Joseph Smith það starf að flytja fagnaðarerindið til allra þjóða jarðar. Ég undrast áræðni hans. Jafnvel á bernskudögum kirkjunnar, á tímum mikils andstreymis, voru menn kallaðir frá heimilum sínum og fjölskyldum og sendir yfir hafið til þess að boða hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Sýn spámannsins náði til alls heimsins.

Ef þið komið á Musteristorgið á meðan aðalráðstefna kirkjunnar er haldin, munuð þið sjá fólk frá Norður-, Mið- og Suður-Ameríku, Bretlandseyjum og Afríku, Evrópu, Kyrrahafseyjum og hinum fornu löndum Asíu. Það kemur hvaðanæva að. Það fylgir sýn Josephs Smith, spámanns Guðs. Hann sá okkar tíma og enn lengra, sá verk Drottins breiðast yfir jörðina.“21

Joseph F. Smith forseti: „Hvað sem spámaðurinn Joseph Smith kann að hafa gert eða verið, megum við ekki gleyma þeirri staðreynd að hann var sá maður, af þeim milljónum manna sem þá fylltu jörðina – sá eini sem kallaður var af Guði, með rödd sjálfs Guðs, til að ljúka upp ráðstöfun fagnaðarerindisins fyrir heiminn í síðasta sinn. Það er það mikilvæga sem hafa ber í huga, að hann var kallaður af Guði til að kynna heiminum fagnaðarerindið, að endurreisa mannanna börnum hið heilaga prestdæmi, að skipuleggja Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu út um heim, og endurreisa allar helgiathafnir fagnaðarerindisins, ekki aðeins til hjálpræðis hinum lifandi, heldur einnig hinum látnu, og hann var kallaður til þess verks af sjálfum Guði. …

… Margir aðrir spámenn hafa verið uppi, og þeir voru einnig miklir spámenn, sem nutu þjónustu engla, og þeir sem sáu fingur Guðs, og að meira eða minna leyti hafa notið velþóknunar hans. En hver er sá maður og hvenær hefur það gerst að faðirinn og frelsarinn hafa birst saman í eigin persónu, og kynnt sig fyrir honum? Hvar er sá maður? Hvergi, að því er sagan segir, nema spámaðurinn Joseph Smith, og þá var hann aðeins unglingur. Hann var í raun enn ungur að árum þegar hann var myrtur, aðeins 38 ára gamall.

… Spámaðurinn Joseph Smith … ræddi við föðurinn og soninn og við engla, og þeir vitjuðu hans og veittu honum blessanir og gjafir og lyklavöld, sem aldrei áður höfðu verið veitt nokkrum manni, nema syni Guðs einum. Enginn maður sem áður hefur lifað á jörðinni hefur hlotið alla lykla fagnaðarerindisins og ráðstafananna, líkt og veittir voru spámanninum Joseph Smith í Kirtland-musterinu, þegar sonur Guðs, Móse, Elías og Elía vitjuð u hans þar, og honum voru fengnir lyklar krafts og valds, til að leggja grunn að verki Guðs, vítt og breitt, til að þekja jörðina með þekkingu á Guði, mætti hans og dýrð.“22

Verk Josephs Smith blessar þá sem lifað hafa á jörðinni, þá sem nú lifa á henni og þá sem enn eiga eftir að fæðast.

Joseph F. Smith forseti: „Verk Josephs Smith spönnuðu ekki aðeins þetta líf, heldur einnig og ekki síður framhaldslífið og fortilveruna. Þau tengjast með öðrum orðum þeim sem þegar hafa lifað á jörðu, þeim sem nú lifa á jörðu og þeim sem eiga eftir að lifa á jörðu. Þau tengjast ekki aðeins mönnum meðan þeir búa í holdinu, heldur öllu mannkyni frá eilífð til eilífðar. Joseph Smith ber því, líkt og ég hef sagt, virðing og vegsemd, nafn hans er heiðrað. Tugir þúsunda þakka Guði í hjarta og af dýpt sálar sinnar fyrir þekkinguna sem Drottinn hefur endurreist á jörðinni fyrir hans tilstilli, og því talar það vel um hann og ber vitni um verðugleika hans. Og það er ekki bundið við þorp, ríki eða þjóð, þar sem fagnaðarerindið hefur verið prédikað fram til þessa, heldur tengist það öllum þjóðum, kynslóðum, tungum og lýðum.“23

Joseph Fielding Smith forseti: „Á sama hátt og ég veit að Jesús er Kristur – og það er með opinberun frá heilögum anda – veit ég að Joseph Smith var og er spámaður Guðs og mun ævinlega verða það.

Ég lofa og heiðra hans heilaga nafn. Hann, ásamt bróður sínum, afa mínum, patríarkanum Hyrum Smith, innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu í Carthage-fangelsinu. Og ég, að minnsta kosti, vil vera verkfæri í höndum Drottins við að kunngjöra heimshorna á milli að sáluhjálp er enn að nýju fyrir hendi, því Drottinn reisti upp máttugan sjáanda á þessum tíma til að stofna ríki sitt á jörðu að nýju.

Ég lýk í anda vitnisburðar og þakklætis með þessum orðum í Kenningu og sáttmálum: ‚Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, hefur, að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum.‘ (K&S 135:3.)“24

Gordon B. Hinckley forseti talaði í Carthage, Illinois, 26. júní 1994, í minningu þess að 150 ár voru liðin frá píslarvættisdauða spámannsins Josephs Smith: „Hið dýrðlega verk sem hófst með honum, er deyddur var í Carthage, hefur vaxið undursamlega að umfangi. … Þetta undursamlega verk, sem sprottið er af spámannlegri köllun drengs í Palmyra, hefur ‚[komið] út úr eyðimörk myrkursins,‘ og ljómar ‚[bjart] sem máninn og [heiðríkt] sem sólin og [er] ógnvekjandi sem her undir merkjum,‘ í samræmi við bæn spámannsins (K&S 109:73). …

Við stöldrum við af lotningu. Við hugsum um hið undursamlega líf [Josephs] sem hófst í grænum hlíðum Vermont og lauk hér í Carthage-fangelsinu. Ævi hans reyndist ekki löng. En ávöxtur lífs hans hefur næstum verið ofvaxinn skilningi manna.

Þessi undursamlegi málstaður Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur verið dýrmætari en sjálft lífið í augum þúsunda á þúsundir ofan, sem látið hafa lífið í þjónustu við hann. Vitni hafa farið um heiminn, hundruð þúsunda, og borið vitni um köllun Josephs Smith sem spámanns Guðs. Hið heilaga prestdæmi, sem endurreist er með honum, hefur fallið sem möttull á óteljandi fjölda ráðvandra og dyggðugra manna, sem íklæðst hafa þessum guðlega krafti. Mormónsbók fer heimshorna á milli sem annað vitni um Drottin Jesú Krist.

Ég vitna í alkunn viskuorð sem látin voru falla fyrir löngu við aðrar aðstæður; ‚Blóð píslarvottanna hefur orðið að sáðkorni kirkjunnar.‘ Vitnisburðirnir sem innsiglaðir voru, hér í þessu umhverfi, á þessu svæði þar sem við erum samankomin í kvöld, fyrir 150 árum, endurnæra nú trú fólks um heim allan.“25

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið reynslufrásögnina á bls. 537. Hugleiðið hvernig fólkinu gæti hafa liðið þegar það hlaut vitnisburðinn um að Brigham Young skyldi verða eftirmaður Josephs Smith sem forystumaður kirkjunnar. Hvernig getum við hlotið vitnisburð um að Drottinn hafi kallað núverandi forseta kirkjunnar?

  • Jósef frá Egyptalandi og fleiri fornir spámenn spáðu um Joseph Smith og hlutverk hans (bls. 539). Síðari daga spámenn hafa, líkt og fram kemur í þessum kafla, haldið áfram að leggja áherslu á mikilvægi Josephs Smith. Hvers vegna teljið þið að Joseph Smith hafi hlotið slíka athygli, bæði fyrir og eftir jarðneska þjónustu sína?

  • Lesið vitnisburðina á bls. 540–41 um forvígslu Josephs Smith. Á hvaða hátt verður skilningur okkar annar á jarð-nesku hlutverki Josephs Smith þegar við skoðum það „í ljósi eilífðarinnar“?

  • Lesið vitnisburðina á bls. 541–43 um Fyrstu sýnina. Hvað gerir þennan atburð að þeim „[merkasta] sem átt hefur sér stað í heiminum, frá upprisu sonar Guðs“? Á hvaða hátt er Fyrsta sýnin „grundvöllur kirkjunnar“ og „leyndardómur styrks hennar og lífsþrótts“? Hvað hefur hjálpað ykkur að öðlast vitnisburð um Fyrstu sýnina?

  • Joseph F. Smith forseti sagði: „Guð [er] ábyrgur fyrir því verki sem Joseph Smith innti af höndum – en ekki Joseph Smith“ (bls. 541). Hvers vegna teljið þið mikilvægt að bent sé á þetta varðandi þjónustu Josephs Smith?

  • John Taylor forseti sagði um Joseph Smith: „Ég hef … aldrei kynnst jafn vitrænum manni og hann var“ (bls. 543). Taylor forseti og fleiri forsetar kirkjunnar hafa þó bent á að Joseph Smith hafi ekki átt mikinn kost á skólanámi. Hvers vegna tókst spámanninum Joseph að vaxa svo að vitsmunum? (Sjá dæmi á bls. 543–46.) Hvernig getum við fylgt fordæmi Josephs Smith við leit að andlegri þekkingu?

  • Lesið bls. 546–55, og þá einkum þann sannleika og helgiathafnir sem Drottinn endurreisti með spámanninum Joseph Smith. Hugleiðið á hvað hátt líf ykkar væri öðruvísi, ef þið þekktuð ekki hið endurreista fagnaðarerindi. Hvers vegna eruð þið þakklát fyrir Joseph Smith og þjónustu hans?

Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Ne 3:6–19; 27:6–26; 3 Ne 21:9–11; K&S 1:17; 5:9–10; 21:1–6

Heimildir

  1. George Q. Cannon, “Joseph Smith, the Prophet,” Juvenile Instructor, 29. okt. 1870, bls. 174–75.

  2. Aðra frásögn um spádóma Jósefs til forna er að finna í þýðingu Josephs Smith á Biblíunni, 1 Mós 50:24–36.

  3. Joseph Smith eldri, blessun veitt Joseph Smith 9. des. 1834, í Kirtland, Ohio; í Patríarkablessanir 1833–2005, Skjalasafn kirkjunnar; Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  4. Joseph F. Smith, Deseret News, 7. mars 1883, bls. 98; stafsetning færð í nútímahorf.

  5. Brigham Young, Deseret News, 26. okt. 1859, bls. 266.

  6. Joseph Fielding Smith, “The Historical Background of the Prophet Joseph Smith,” Improvement Era, des. 1941, bls. 717.

  7. Ezra Taft Benson, “Joseph Smith–Man of Destiny,” ræða haldin 3. des. 1967, í Logan, Utah, bls. 3–4; í Annual Joseph Smith Memorial Sermons (ekki dagsett); stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  8. Joseph F. Smith, Deseret Evening News, 14. júlí 1917, bls. 9; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  9. Heber J. Grant, “Some Things We Must Believe,” Improvement Era, sept. 1938, bls. 519.

  10. Howard W. Hunter, “Joseph—The Seer,” ræða haldin 15. des. 1960, í Logan, Utah; í Annual Joseph Smith Memorial Sermons (1966), 2:197–98; stafsetning færð í nútímahorf.

  11. David O. McKay, “Joseph Smith – Prophet, Seer, and Revelator,” Improvement Era, jan. 1942, bls. 54.

  12. Ezra Taft Benson, ræða haldin 20. maí 1984 í Salt Lake City, Utah, bls. 2; Ezra Taft Benson, ræður 1943–89, Skjalasafn kirkjunnar.

  13. George Albert Smith, í Conference Report, apríl 1917, bls. 37.

  14. John Taylor, Deseret News, 2. júní 1880, bls. 275.

  15. Wilford Woodruff, Millennial Star, 28. apríl 1890, bls. 258; stafsetning færð í nútímahorf.

  16. Lorenzo Snow, Deseret News, 13. apríl 1870, bls. 115–16.

  17. Harold B. Lee, Teachings of Harold B. Lee, ritst. af clyde J. Williams (1996), bls. 372.

  18. David O. McKay, “The Prophet Joseph Smith–On Doctrine and Organization,“ address given on Dec. 10, 1944, í Logan, Utah; í Annual Joseph Smith Memorial Sermons (1966), 1:9, 14; stafsetning færð í nútímahorf.

  19. Howard W. Hunter, “The Temple of Nauvoo,” Ensign, sept. 1994, bls. 63; greinaskilum bætt við.

  20. Spencer W. Kimball, í Conference Report, apr. 1977, bls. 114–15; eða Ensign, maí 1977, bls. 77.

  21. Gordon B. Hinckley, “Joseph Smith Jr. – Prophet of God, Mighty Servant,” Ensign, des. 2005, bls. 4–6.

  22. Joseph F. Smith, í “Joseph, the Prophet,“ Salt Lake Herald Church and Farm Supplement, 12. jan. 1895, bls. 210–11; stafsetning færð í nútímahorf.

  23. Joseph F. Smith, Deseret News, 7. mars 1883, bls. 98; stafsetning færð í nútímahorf.

  24. Joseph Fielding Smith, “The First Prophet of the Last Dispensation,“ Ensign, ágúst 1971, bls. 7.

  25. Gordon B. Hinckley, “Joseph, the Seer,” Ensign, sept. 1994, bls. 71; greinaskilum bætt við.

Ljósmynd
Joseph preaching

„Það var ákvarðað á ráðstefnu eilífðarinnar,“ sagði Brigham Young, „löngu áður en grundvöllur jarðar var lagður, að [Joseph Smith], væri maðurinn á síðasta ráðstöfunartíma þessa heims, sem flytja ætti orð Guðs til fólksins.“

Ljósmynd
President Brigham Young

Brigham Young forseti

Ljósmynd
President Ezra Taft Benson

Ezra Taft Benson forseti

Ljósmynd
President Heber J. Grant

Heber J. Grant forseti

Ljósmynd
President Howard W. Hunter

Howard W. Hunter forseti

Ljósmynd
President George Albert Smith

Georg Albert Smith forseti

Ljósmynd
President John Taylor

John Taylor forseti

Ljósmynd
President Wilford Woodruff

Wilford Woodruff forseti

Ljósmynd
President Lorenzo Snow

Lorenzo Snow forseti

Ljósmynd
President Harold B. Lee

Harold B. Lee forseti

Ljósmynd
President David O. McKay

David O. McKay forseti

Ljósmynd
President Spencer W. Kimball

Spencer W. Kimball forseti

Ljósmynd
President Gordon B. Hinckley

Gordon B. Hinckley forseti

Ljósmynd
President Joseph F. Smith

Joseph F. Smith forseti

Ljósmynd
President Joseph Fielding Smith

Joseph Fielding Smith forseti