Kenningar forseta
44. Kafli: Endurreisn allra hluta: Ráðstöfunin í fyllingu tímanna


44. Kafli

Endurreisn allra hluta: Ráðstöfunin í fyllingu tímanna

„[Þetta] er sannlega ráðstöfunin í fyllingu tímanna, þegar öllu því sem er í Kristi Jesú, verður safnað saman, hvort heldur á himni eða jörðu, og þegar allt verður endurreist.“

Úr lífi Josephs Smith

Spámaðurinn Joseph Smith unni Nauvoo-musterinu og þráði að sjá það fullbyggt. Martha Coray, íbúi í Nauvoo, var viðstödd ræðu þar sem hún sá spámanninn teygja höndina í átt að musterinu og segja myrkri röddu: „Sé það … vilji Guðs að ég fái að sjá þetta musteri fullbyggt, allt frá grunni til efsta steins, mun ég segja: ,Ó, Drottinn, þetta nægir, lát þjón þinn fara í friði.‘ “1

George Q. Cannon, sem síðar varð ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Spámaðurinn Joseph sýndi, fyrir dauða sinn, djúpa þrá eftir að sjá [Nauvoo] musterið fullbyggt, líkt og flestir þeir vita sem uppi voru í kirkjunni á þeim tíma. ,Hraðið verkinu, bræður,‘ var hann vanur að segja, – ,við skulum ljúka við byggingu musterisins. Drottinn hefur undursamlegar gjafir geymdar ykkur, og ég bíð þess í ofvæni að bræðrunum veitist gjafir sínar og þeir taki á móti fyllingu prestdæmisins.‘ Hann hvatti hina heilögu stöðugt áfram, prédikaði fyrir þeim mikilvægi þess að ljúka byggingunni, svo að framkvæma mætti þar inni helgiathafnir lífs og sáluhjálpar í þágu alls fólksins, en einkum í þágu sveita hins heilaga prestdæmis. ,Þá,‘ sagði hann, ,mun ríkið stofnað, og mig skiptir þá engu hvað um mig verður.‘ “2

Áætlunin um Nauvoo-musterið gerði ráð fyrir byggingu sem væri stærri og jafnvel fegurri en Kirtland-musterið. Hið fullbyggða Nauvoo-musteri átti að vera efst í brekku með sýn yfir Mississippi-fljótið og yrði ein stórkostlegasta bygging í Illinoisfylki. Það var byggt úr kalksteinum, sem fengnir voru úr námu nærri Nauvoo og viði sem fleytt var niður ána frá furuviðarskógi í Wisconsin. Fullbúið átti það að vera 38 metra langt, 27 metra breitt og 50 metra hátt, að turnspírutoppi. Ytra yfirborð þess var prýtt margbrotnum ristuðum tunglsteinum, sólsteinum og stjörnusteinum, og sólarljósið skein inn um hina mörgu glugga og lýsti upp innra rýmið.

Joseph Smith lifði það ekki að sjá Nauvoo-musterið fullbúið, en eftir dauða hans hlutu þúsundir heilagra helgiathafnir í musterinu, undir leiðsögn Brighams Young. Eftir að hinir heilögu neyddust til að yfirgefa Nauvoo, var hið fallega musteri þeirra eyðilagt. Það var kveikt í því árið 1848 og árið 1850 eyðilögðust sumir veggir þess í hvirfilbyl, og þeir veggir sem þá stóðu eftir voru svo veikir að þá varð að rífa. Um 150 árum síðar hófst bygging nýs Nauvoo-musteris á upprunalegu lóðinni. Hið endurbyggða musteri var vígt 27. júní 2002, og varð þar með eitt af meira en hundrað musterum um heim allan. Hvert þessara mustera er til tákns um að fylling blessana Guðs fyrir börn hans, lifandi og látin, hefur verið endurreist í þessari síðustu ráðstöfun.

Spámaðurinn Joseph Smith var kallaður af Guði til að endurreisa þessar stórkostlegu blessanir á jörðu og vera höfuð ráðstöfunarinnar í fyllingu tímanna. Í þjónustutíð spámannsins var allt það endurreist sem nauðsynlegt er til að leggja grunn að mestu ráðstöfun allra tíma. Prestdæmið ásamt nauðsynlegum lyklum þess var endurreist, Mormónsbók var þýdd, kirkjan var stofnuð, og kenningar, helgiathafnir og sáttmálar voru opinberuð, ásamt helgiathöfnum og sáttmálum musterisgjafarinnar og innsiglun hjónabands. Drottinn gerði ljóst, að hann hafði falið Joseph Smith „lykla ríkis [síns] og ráðstöfun fagnaðarerindisins fyrir síðustu tímana, og fyrir fyllingu tímanna, en þá mun [hann] safna öllu saman í eitt, bæði því sem er á himni og á jörðu“ (K&S 27:13).

Kenningar Josephs Smith

Í þessari ráðstöfun hefur allt vald, helgiathafnir og þekking fyrri ráðstafana verið endurreist.

„Það er samkvæmt reglu himins að Guð sendir ætíð nýja ráðstöfun í heiminn þegar menn hafa orðið fráhverfir sannleikanum og glatað prestdæminu.“3

Hinn 6. september 1842 ritaði spámaðurinn Joseph Smith eftirfarandi í bréfi til hinna heilögu, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmálum 128:18: „Nauðsynlegt er, í innleiðingu þessara ráðstafana í fyllingu tímanna, þeirra ráðstafana, sem nú þegar er farið að leiða inn, að heil og algjör og fullkomin eining og samanhlekkjun ráðstafana, lykla, krafts og dýrðar, eigi sér stað og verði opinberuð frá dögum Adams allt til þessa tíma. Og ekki aðeins það, heldur mun það, sem aldrei hefur verið opinberað frá grundvöllun veraldar, en hulið hefur verið hinum vitru og hyggnu, verða opinberað börnum og brjóstmylkingum í þessum ráðstöfunum í fyllingu tímanna.“4

„Sannlega er þetta sá tími sem hinir heilögu síðustu tíma hafa beðið eftir, – sá tími þegar Guð himins hefur hafið að endurreisa þjónum sínum og fólki sínu hina fornu reglu ríkis síns, – sá tími þegar allt vinnur saman að því að ljúka innleiðingu fyllingar fagnaðarerindisins, ráðstöfuninni mestri allra, já, í fyllingu tímanna. Sá tími er Guð hefur tekið að opinbera og koma reglu á það sem verið hefur í kirkju hans, og það sem fornir spámenn og vitrir menn hafa þráð að sjá koma fram, en látist hafa án þess að hafa fengið það litið. Sá tími er hefja skal að opinbera það sem hulið hefur verið frá grundvöllun veraldar, og það sem Jehóva hefur gefið fyrirheit um að muni kunngjört þjónum hans á hans tilsetta tíma, til að búa jörðina undir komu dýrðar hans, já, himneska dýrð, og ríki presta og konunga Guðs og lambsins, um eilífð, á Síonarfjalli.“5

„Ráðstöfunin í fyllingu tímanna mun leiða fram í ljósið það sem verið hefur opinberað í öllum fyrri ráðstöfunum. Einnig fleira sem enn hefur ekki verið opinberað. Hann mun senda Elía spámann, o. s. frv., og endurreisa allt í Kristi.“6

„ ,Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.‘ [Ef 1:9–10.]

Tilgangur hans varðandi afhjúpun síðustu ráðstöfunarinnar er sá, að allt sem tilheyrir þeirri ráðstöfun, skuli leitt fram nákvæmlega í samræmi við fyrri ráðstafanir.

Og enn, tilgangur Guðs er að ekki verði eilífðar fylling fyrr en allar ráðstafanir hafa náð fram að ganga og hafa verið sameinaðar í eitt, og að allt annað, hvað sem það kann að verða, sem sameinað verður í eitt í þessum ráðstöfunum, til hinnar sömu fyllingar og eilífrar dýrðar, verður gert í Kristi Jesú. …

… Allar helgiathafnir og skyldur sem ávallt hefur verið krafist í prestdæminu, að leiðsögn og fyrirmælum almættisins, í sérhverri ráðstöfun, mun allt verða í síðustu ráðstöfuninni, því mun allt það sem einhvern tíma hefur verið undir valdi prestdæmisins, á einhverju áður liðnu tímabili, verða á ný og gera að veruleika þá endurreisn sem hinir heilögu spámenn hafa rætt um.“7

Joseph Smith hefur lyklana að ráðstöfuninni í fyllingu tímanna.

„Ég … hef lyklana að síðasta ríkinu, sem er ráðstöfunin að fyllingu alls sem rætt hefur verið um fyrir munn allra spámannanna frá upphafi heimsins, undir innsiglunarvaldi Melkísedeksprestdæmisins.“8

„Sérhver sá maður sem hefur köllun til að þjónusta íbúa jarðarinnar, var vígður einmitt í þeim tilgangi á stórþingi himins, áður en þessi heimur varð til. Ég geri ráð fyrir að ég hafi verið vígður þessu embætti á því stórþingi. Það er sá vitnisburður sem ég óska mér, að ég sé þjónn Guðs, og þessa fólks, hans fólks. Hinir fornu spámenn lýstu því yfir, að á síðustu dögum mundi Guð himins koma á fót ríki sem aldrei yrði eytt eða eftirlátið öðru fólki. …

Ég er eitt þeirra verkfæra sem koma á ríki Daníels á fót að orði Drottins, og ég hyggst leggja grunn sem umbylta mun heiminum.“9

„Ég hef alla áætlunina um ríkið frammi fyrir mér og það hefur enginn annar.“10

Lucy Mack Smith var viðstödd þegar Joseph Smith prédikaði í Kirtland, Ohio, árið 1832. Hún greindi frá þessum orðum spámannsins: „Sjálfur hef ég lyklana að þessari síðustu ráðstöfun, og ég mun ætíð hafa þá um tíma og eilífð. Verið því friðsæl í hjarta, því allt er vel.“11

Þessi síðasta ráðstöfun er svo mikilvæg að hún krefst óeigingjarnrar og algjörrar helgunar hinna heilögu.

Í september 1840 gáfu Joseph Smith og ráðgjafar hans íÆðsta forsætisráðinu eftirfarandi yfirlysingu til meðlima kirkjunnar: „Verk Drottins á þessum síðustu tímum er eitt hið umfangsmesta og næstum ofar skilningi hins dauðlega. Dýrð þess er ólýsanleg og mikilfengleiki þess óviðjafnanlegur. Það er þemað sem lífgað hefur hjörtu spámannanna, og réttlátra manna, allt frá sköpun heimsins, allt frá fyrstu kynslóðum fram til okkar kynslóðar. Og það er sannlega svo, að í ráðstöfuninni í fyllingu tímanna, mun allt það sem er í Kristi Jesú, hvort heldur á himni eða jörðu, verða safnað saman í honum, og allt verður endurreist, líkt og hinir heilögu spámenn hafa rætt um allt frá upphafi heimsins. Því í henni mun hið dýrðlega fyrirheit, sem feður okkar hlutu, uppfyllast og vitranir hins hæsta verða undursamlegar, dýrðlegar og himneskar. …

… Við finnum okkur knúna til að takast á við verkið og sameina krafta okkar við að byggja upp ríkið, og koma prestdæminu á fót í fyllingu og dýrð. Það verk sem vinna verður á þessum síðustu tímum er eitt hið mikilvægasta, og það krefst orku, einbeitingar og hæfileika hinna heilögu, svo það megi fylla alla jörðina þeirri dýrð og hátign sem spámennirnir hafa greint frá [sjá Dan 2:34–35, 44–45]. Og til þess að fá áorkað þessu umfangsmikla og mikilfenglega verki verða hinir heilögu að helga sig því.

Samansöfnunin sem um er rætt í ritningunum er nauðsynleg til þess að dýrð síðustu ráðstöfunarinnar geti orðið að veruleika. …

Kæru bræður, þar sem við þráum að vinna að tilgangi Guðs, hvers verks við höfum verið kallaðir til, og erum samverkamenn hans í þessari síðustu ráðstöfun, þurfum við nauðsynlega á samvinnu hinna heilögu að halda um allt land, og á eyjum úthafsins. Hinum heilögu er nauðsynlegt að hljóta leiðsögn og beina kröftum sínum að kirkjunni, stofnun ríkisins, og láta af allri eigingirni, öllu lítilsigldu og lágkúrulegu, og styðja djarfir málstað sannleikans, og af öllum mætti sínum aðstoða þá sem fengið hafa fyrirmyndina og skipulagið. …

Kæru bræður, hér er því verk að vinna, sem verðugt er höfuðenglum – verk sem verður til að varpa skugga á það sem hingað til hefur verið unnið, verk sem konungar og spámenn og réttlátir menn á fyrri öldum hafa vænst og einlæglega þráð að sjá augum, en látist hafa án þess líta það augum. Og vel mun þeim farnast sem leggja til krafta sína við að framfylgja hinni miklu aðgerðaráætlun Jehóva.“12

„Fólk Guðs hefur á öllum öldum haft áhuga á að byggja upp Síon, á því hafa spámenn, prestar og konungar haft sérstakt dálæti. Þeir hafa horft fram til okkar tíma, og af himneskum eldmóði, tilhlökkun og fögnuði hafa þeir sungið, ritað og spáð um okkar tíma, en þeir létust án þess að fá hann litið. Við erum það fólk sem Guð hefur dálæti á og hefur útvalið til að leiða fram dýrð síðari daga. Okkur er ætlað að líta augum og njóta dýrðar síðari daga og leggja fram krafta okkar við það ,sem [Guð] hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi. Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, [í] eitt höfuð‘ [sjá Ef 1:10], er hinum heilögu Guðs verður safnað saman í eitt frá öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum; er Gyðingum mun safnað saman í eitt, og hinum ranglátu verður einnig safnað saman til tortímingar, líkt og spámennirnir hafa um rætt. Og andi Guðs mun þá einnig dvelja með fólki hans og hverfa frá öðrum þjóðum, og allt, hvort heldur á himni eða jörðu, verður eitt, já, í Kristi.

Hið himneska prestdæmi verður þá sameinað hinu jarðneska, til að gera þennan mikla tilgang að veruleika. Og er við erum þannig sameinuð í einum málstað, við að leiða fram ríki Guðs, verður hið himneska prestdæmi ekki iðjulaust, heldur mun anda Guðs úthellt að ofan, til að dvelja með okkur. Blessanir hins hæsta munu á okkur hvíla, og nöfn okkar munu í minnum höfð á komandi tímum. Börn okkar munu rísa upp og segja okkur blessuð, og ókomnar kynslóðir munu hafa sérstakt dálæti á því sem við höfum megnað að áorka, skortinum sem við höfum þurft að líða, linnulausri baráttunni sem við höfum háð, gríðarlegum erfiðleikunum sem við höfum sigrast á við að leggja grunninn að verkinu, og gera að veruleika þá dýrð og blessun sem þeim mun ljós; grunninn að því verki sem Guð og englar hafa af dálæti áformað fyrir horfnar kynslóðir; sem fyllti sálir hinna fornu patríarka og spámanna eldmóði; að því verki sem ætlað er að leiða til lykta tortímingu myrkravaldsins, endurnýja jörðina, koma dýrð Guðs til leiðar, og hjálpræði mannkyns.“13

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 503–05. Hvers vegna eru musteri svo mikilvæg til að ljúka verki Drottins?

  • Hvers vegna teljið þið að fornir spámenn og virtir menn hafi horft fram til okkar tíma? (Sjá dæmi á bls. 506–07.) Hugleiðið þau forréttindi að eiga aðild að Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í ráðstöfuninni í fyllingu tímanna.

  • Lesið næst síðustu málsgreinina á bls. 507. Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar, er þið hugleiðið þessi orð, varðandi kallanir ykkar til þjónustu í kirkjunni?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 507 og fyrstu tvær málsgreinarnar á bls. 508. Hvernig efla þessi orð vitnisburð ykkar um hlutverk spámannsins Josephs Smith?

  • Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Verk Drottins á þessum síðustu tímum er eitt hið umfangsmesta“ (bls. 508). Lesið síður 508–10 og hugleiðið hver ábyrgð ykkar er við að koma verki Drottins til leiðar í þessari síðustu ráðstöfun. Hvers vegna verðum við að „sameina krafta okkar,“ ef okkur á að takast að vinna þetta verk? Hvers vegna verðum við að „láta af allri eigingirni“? Hugleiðið hvernig þið getið nýtt „orku, [einbeitingu] og hæfileika“ ykkar til að leggja verki Drottins lið.

Ritningargreinar tengdar efninu: K&S 27:12–13; 90:2–3; 112:30–32; 124:40–41

Heimildir

  1. Tilvitnun í Martha Jane Knowlton Coray, skráðan fyrirlestur sem Joseph Smith hélt í Nauvoo, Illinois; Martha Jane Knowlton Coray, minnisbók, Skjalasafn kirkjunnar; Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, fyrirlesturinn er dagsettur 19. júlí 1840, í minnisbók systur Corays, en fyrirlesturinn var líklega haldinn síðar.

  2. George A. Smith, Deseret News: Semi-Weekly, 14. des. 1869, bls. 2.

  3. History of the Church, 6:478–79; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  4. Kenning og sáttmálar 128:18; bréf frá Joseph Smith til hinna heilögu, 6. sept. 1842, Nauvoo, Illinois.

  5. History of the Church, 4:492–93; dagbókarfærsla Josephs Smith, 6. jan. 1842, Nauvoo, Illinois.

  6. History of the Church, 4:426; úr fundagerðarbók ráðstefnu kirkjunnar, haldin 3. okt. 1841, í Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. okt. 1841, bls. 578.

  7. History of the Church, 4:208, 210–11; úr fyrirlestri sem Joseph Smith tók saman og las á kirkjuráðstefnu 5. okt. 1840, í Nauvoo, Illinois.

  8. History of the Church, 6:78; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til James Arlington Bennet, 13. nóv. 1843, Nauvoo, Illinois; eftirnafn James Bennet er ranglega stafsett „Bennett“ í History of the Church.

  9. History of the Church, 6:364–65; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  10. History of the Church, 5:139; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 29. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af William Clayton.

  11. Tilvitnun Lucy Mack Smith, skráning fyrirlesturs sem Joseph Smith hélt snemma árið 1832, í Kirtland, Ohio; Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 13, bls. 5, Skjalasafn Kirkjunnar.

  12. History of the Church, 4:185–87; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 178–79.

  13. History of the Church, 4:609–10; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “The Temple, “ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 2. maí 1842; bls. 776; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

Ljósmynd
Nauvoo Temple construction

Spámaðurinn Joseph Smith þráði að sjá Nauvoo-musterið fullbyggt. „ ,Hraðið verkinu, bræður, ‘ var hann vanur að segja, – ,við skulum ljúka við byggingu musterisins; Drottinn hefur undursamlegar gjafir geymdar ykkur. ‘ “

Ljósmynd
missionaries at MTC

Fastatrúboðar í trúboðsskólanum í Provo, Utah. Joseph Smith sagði að í síðustu ráðstöfuninni væri: „hinum heilögu nauðsynlegt að hljóta leiðsögn … og styðja djarfir málstað sannleikans.“