Kenningar forseta
25. kafli: Sannleikur úr dæmisögu frelsarans í Matteus 13


25. kafli

Sannleikur úr dæmisögu frelsarans í Matteus 13

„Vagnhjól ríkisins snúast enn, knúin áfram af voldugum armi Jehóva; hver sem mótstaðan er, munu þau halda áfram að snúast, þar til öll orð hans hafa uppfyllst.“

Úr lífi Josephs Smith

Þar sem smíði Kirtland musterisins var nær lokið, hófu Joseph Smith og hinir heilögu að búa sig undir þær miklu blessanir sem þar myndu hlotnast. Fundur var haldinn í skóla öldunganna í nóvember 1835, til að hjálpa bræðrunum að búa sig undir vígslu musterisins. Skóli þessi var stofnaður árið 1834, sem framhald af Skóla spámannanna sem áður var starfræktur.

Meðal þess sem Joseph Smith og hinir bræðurnir lærðu var hebreska, en á því tungumáli var megnið af Gamla testamentinu upprunalega ritað. Dagbók spámannsins yfir þetta tímabil sýnir að hann lærði hebresku næstum dag hvern og þá oft í margar klukkustundir. Dagbókarfærslur hans hafa að geyma setningar líkt og „eyddi deginum í lestur á hebresku“ eða „fór í skólann og las hebresku.“1 Hinn 19. janúar skráði hann: „Eyddi deginum í skólanum. Drottinn blessaði okkur í náminu. Í dag hófum við að lesa Biblíuna á hebresku og lærðum heilmikið. Svo virðist sem Drottinn ljúki upp huga okkar á undursamlegan máta, svo við öðlumst skilning á orði hans á hinni upprunalegu tungu.“2 Mánuði síðar ritaði hann: „Ég fór í skólann og las og þýddi í kennslustund líkt og venjulega. Sál mín gleðst við lestur orðs Drottins á upprunalega málinu.“3

Reynsla spámannsins í Skóla öldunganna er aðeins eitt merki þess hversu mikið hann unni ritningunum. Hann nam ritningarnar af kostgæfni og fann í þeim huggun, þekkingu og innblástur í lífi sínu. Til marks um það var einmitt það vers í Biblíunni sem fékk hann til að leita eftir visku frá Guði, en þannig hlaut hann Fyrstu sýnina, aðeins 14 ára gamall (sjá Jakbr 1:15).

Ritmál og prédikanir spámannsins eru full af tilvitnunum í ritningarnar og útskýringum á þeim, því hann nam ritningarnar svo ítarlega að þær urðu eðlilegur hluti af hugsun hans. Í kennslu sinni vitnaði hann beint í ritningarnar, vísaði óbeint til þeirra eða umorðaði þær, og hann notaði þær sem undirstöðu í prédikunum sínum. Í apríl 1844 sagði hann: „Ég þekki ritningarnar og hef skilning á þeim.“4

Framúrskarandi þekking hans á ritningunum gerði honum kleift að kenna þær og túlka af miklum krafti og skýrleika, og margir þeirra sem á hann hlýddu minntust þess eiginleika. Brigham Young forseti minntist þess að spámanninum tókst að „gera ritningarnar svo skýrar og einfaldar, að allir fengu skilið þær.“5

Wandle Mace sagði: „Ég hef hlýtt á spámanninn Joseph Smith opinberlega og einslega, í sólskini og regni, líkt og margir aðrir hafa gert, er hann kenndi þeim úr ræðustólnum. Og í mínu eigin húsi og í hans húsi hef ég kynnst honum … og veit að enginn maður gæti útskýrt ritningarnar, lokið þeim svo upp á gátt og gert þær svo einfaldar og aðgengilegar að enginn fái misskilið merkingu þeirra, nema hann hafi hlotið fræðslu um þær frá Guði.

Stundum fyrirvarð ég mig vegna þess að ég hafði numið ritningarnar svo mikið, jafnvel allt frá barnæsku, en ekki skilið hið einfalda fyrr en hann skýrði það. Hann sneri lyklinum og dyr þekkingar lukust upp og afhjúpuðu bæði fornar og nýjar dýrmætar kenningar.“6

Þekking spámannsins á ritningunum er augljós í eftirfarandi bréfi, þar sem hann gaf spámannlega túlkun á dæmisögum frelsarans í Matteus 13. Hann kenndi að þessar dæmisögur greindu frá stofnun kirkjunnar á tíma frelsarans, og dásamlegum vexti og framþróun hennar á síðari dögum.

Kenningar Josephs Smith

Frelsarinn kenndi í dæmisögum svo að þeir sem trúðu kenningum hans gætu öðlast stærra ljós, en þeir sem höfnuðu kenningum hans glötuðu því ljósi sem þeir hefðu hlotið.

„ ,Þá komu lærisveinarnir til … [frelsarans] og spurðu: Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum? [Ég vil taka fram að hugtakið „þeirra“ í þessu samhengi … á við um mannfjöldann] Hann svaraði [lærisveinunum]: Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið [það er að segja hinum trúlausu]. Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.‘ [Matt 13:10–12.]

Af orðum þessum skiljum við, að þeir sem áður höfðu beðið komu Messíasar, samkvæmt vitnisburðum spámannanna, og voru á þeim tíma að leita Messíasar, hafi ekki haft nægilegt ljós sökum eigin vantrúar til að þekkja hann sem frelsara sinn, þótt hann væri hinn sanni Messías. Þeir hljóta því að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum og þekking þeirra jafnvel horfið, eða allt ljós, allur skilningur og öll trú hvað þetta varðar jafnvel verið tekin frá þeim. Þess vegna mun allt ljós tekið frá þeim sem ekki tekur á móti hinu stærra ljósi; og ef ljósið sem í ykkur er verður myrkur, sjá, hve mikið er það myrkur! Frelsarinn sagði: ,Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.‘ [Matt 13:13–14.]

Við höfum nú komist að því að raunveruleg ástæða þess að þeir viðurkenndu ekki Messías, líkt og spámaður þessi [Jesaja] getur um, hafi verið sú að þeir skildu ekki, og er þeir sáu með augum sínum, skynjuðu þeir ekki; ,Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.‘ [Matt 13:15.] En hvað sagði hann við lærisveina sína? ,En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra. Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.‘ [Matt 13:16–17.]

Enn á ný útskýrum við hér – því við komumst að því að hin raunverulega regla sem lærisveinarnir hlutu blessun af, var sú, að þeim var leyft að sjá með augum sínum og heyra með eyrum sínum – svo fordæmingin sem hvíldi á mannfjöldanum, sem meðtók ekki það sem frelsarinn kenndi, var vegna þess að fólkið var hvorki fúst til að sjá með augum sínum, né heyra með eyrum sínum; ekki vegna þess að það átti ekki kost á því, og naut ekki þeirra forréttinda að sjá eða heyra, heldur vegna þess að hjörtu þess voru full af ranglæti og viðurstyggð. Það breytti líkt og feður þess höfðu gert [sjá Post 7:51]. Spámaðurinn sá fyrir að fólkið mundi herða hjörtu sín og sagði það skýrt og skorinort. Og í þessu felst fordæming heimsins. Ljós þetta kom í heiminn og menn kusu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru ill. Frelsarinn kenndi þetta svo skýrlega, að förumaðurinn ætti ekki að misskilja.

… Þegar sannleikur er leiddur í ljós af þjónum Guðs, eru menn vanir að segja: Allt er leyndardómar; þeir hafa talað í dæmisögum og þar af leiðandi er ekki hægt að skilja þá. Rétt er að þeir hafa augu til að sjá, en sjá ekki, en enginn er eins blindur og sá sem neitar að sjá, en jafnvel þótt frelsarinn hafi sagt þetta við slíka, útskýrði hann þetta greinilega fyrir lærisveinunum sínum. Og við höfum ástæðu til að vera innilega auðmjúk frammi fyrir Guði forfeðra okkar, að hann hefur eftirlátið okkur þetta í heimildum, svo skýrt og skorinort, að þrátt fyrir tilraunir og sameiginleg áhrif presta Baals, hafa þeir engan kraft til að blinda augu okkar og loka skilningi okkar, ef við ljúkum upp augum okkar og lesum í einlægni um stund. “7

Dæmisagan um sáðmanninn sýnir hvers konar áhrif prédikun fagnaðarerindisins hefur; hún sýnir einnig að frelsarinn stofnaði ríki sitt á hádegisbaugi tímans.

„Á þeim tíma mælti frelsarinn þau fallegu orð og dæmisögur sem eru í [Matt 13], þar sem hann sat í bát frammi fyrir mannfjöldanum, sem lagði fast að honum að fá að hlýða á orð hans. Og hann hóf að kenna fólkinu og sagði:

,Sáðmaður gekk út að sá, og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan. Hver sem eyru hefur, hann heyri.‘ [Matt 13:3–9.] …

Hlýðið nú á útskýringar á dæmisögunni um sáðmanninn: ,Þegar einhver heyrir orð ríkisins og skilur það ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans.‘ Takið nú eftir orðunum – því sem sáð var í hjarta hans. ,Það sem sáð var við götuna, merkir þetta.‘ [Matt 13:19.] Menn sem ekki búa yfir reglum réttlætisins, eiga hjörtu full af ranglæti og þrá ekki að lifa eftir reglum réttlætisins, hafa ekki skilning á orði sannleikans þegar á hann er hlýtt. Hinn illi kemur og tekur orð sannleikans burtu úr hjarta þeirra, því þeir þrá ekki réttlætið.

,Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann sem tekur orðinu með fögnuði um leið og hann heyrir það, en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar. Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. En það er sáð var í góða jörð, merkir þann sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.‘ [Matt 13:20–23.]

Frelsarinn útskýrði dæmisöguna sem hann sagði lærisveinum sínum, svo ekkert varð myrkri hulið í hugum þeirra sem staðfastlega trúðu orðum hans.

Við drögum þá ályktun, að ástæða þess að mannfjöldinn, eða heimurinn, hlaut ekki útskýringar frelsarans á dæmisögunni, var vegna vantrúar fólksins. Hann sagði (við lærisveina sína): ,Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.‘ [sjá Matt 13:11]. Og hvers vegna? Það var vegna trúar þeirra og traustsins sem þeir báru til hans. Dæmisagan var sögð til að sýna þau áhrif sem verða er orðið er prédikað. Og við trúum að um sé að ræða beina skírskotun til upphafsins, eða til þess tíma er ríkið var þá stofnað. Við skulum því halda áfram að fara að tilmælum hans varðandi þetta ríki frá þeim tíma, já, allt til loka veraldar.“8

Dæmisagan um hveitið og illgresið kennir að réttlátir og ranglátir munu vaxa saman, þar til hinum réttlátu mun safnað saman við lok veraldar og hinir ranglátu verða brenndir.

„ ,Aðra dæmisögu [sem einnig hafði skírskotun til stofnunar ríkisins á því tímaskeiði heimsins] sagði hann þeim: Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gjört. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu, að vér förum og tínum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.‘ [Matt 13:24–30].

Við lærum ekki aðeins af þessari dæmisögu um stofnun ríkisins á tímum frelsarans, sem táknar góða sæðið er gaf af sér ávöxt, heldur einnig um spillingu kirkjunnar, sem táknar illgresið sem sáð var af óvininum og lærisveinar hans hefðu fuslega reytt, eða hreinsað kirkjuna af, ef frelsarinn hefði aðhyllst þá skoðun þeirra. En hann sem er alvitur bauð þeim að gera það ekki, sem er sama og að segja, skoðun ykkar er ekki rétt, því kirkjan er enn á sínum upphafsárum, og ef þið takið illa grundaða ákvörðun, munuð þið eyða hveitinu, eða kirkjunni, með illgresinu. Þess vegna er betra að leyfa því að vaxa saman fram að uppskerutímanum, eða fram að lokum veraldar, sem merkir tortímingu hinna ranglátu, sem enn hefur ekki verið uppfyllt. …

‘Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum. Hann mælti: Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.‘ [Matt 13:36–38].

Látum nú lesendur auðkennna setninguna – ,akurinn er heimurinn‘ … illgresið er börn hins illa, óvinurinn sem sáði því er djöfullinn, uppskeran er lok heimsins, [látum lesendur einkum auðkenna orðin – lok heimsins,] og kornskurðarmennirnir eru englarnir.‘ [Matt 13:38–39.]

Menn geta nú ekki haft nein hugsanleg rök fyrir því að þetta sé aðeins táknrænt, eða þá að segja að þetta merki ekki það sem sagt hefur verið, því hér úskýrir hann það sem sagt er í dæmisögunni, og samkvæmt því eru lok heimsins tortíming hinna ranglátu. Uppskeran og lok heimsins eru skírskotanir til mannkynsins á hinum síðari dögum, en ekki til jarðarinnar, líkt og margir hafa talið, og einnig þess sem gerast mun við komu mannssonarins, og endurreisn allra hluta, sem hinir heilögu spámenn hafa sagt fyrir um frá upphafi heims. Og englarnir munu einhverju hlutverki gegna í þessu undursamlega verki, því þeir eru kornskurðarmennirnir.

,Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar‘ [Matt 13:40]. Það verður þegar þjónar Guðs ganga fram til að aðvara þjóðirnar, bæði almenning og presta, og ef fólkið herðir hjörtu sín og hafnar ljósi sannleikans, verður það ofurselt hirtingu Satans, og lögmálið verður bundið og vitnisburðurinn innsiglaður, … og það verður eftir skilið í myrkrinu og bíður dags brennunnar. Því það er fjötrað böndum trúarjátninga sinna, sem prestar þess hafa gert sterk, og bíður þess að þessi orð frelsarans uppfyllist á því: ,Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.‘ [Matt 13:41–42.]

Við skiljum það svo að samansöfnun hveitisins í hlöðuna muni eiga sér stað þegar illgresið verður reytt og það búið undir dag brennunnar, og að eftir dag brennunnar, ,munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri‘ [Matt 13:43].“9

Dæmisagan um mustarðskornið kennir að kirkjan og ríki Guðs, sem stofnuð verða á þessum síðustu dögum, muni breiðast út um jörðina.

„Og hann sagði þeim aðra dæmisögu, með skírskotun til ríkisins, sem stofnað yrði rétt fyrir uppskerutímann eða samhliða honum, en þar segir: ,Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn. Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.‘ [Matt 13:31–32.] Við sjáum greinilega að þessi dæmisaga er gefin til tákns um það hvernig framrás kirkjunnar verður á síðustu dögum. Sjá, líkt er um það og himnaríki. En, hvað má líkja því við?

Líkjum Mormónsbók við mustarðskorn, sem maður nokkur gróðursetti á akri sínum og varðveitti í trú, að það mætti spretta upp á síðustu dögum, eða á tilsettum tíma. Gerum ráð fyrir að mustarðskornið, sem vissulega er minnst allra sáðkorna, taki að vaxa upp úr jörðinni, og fari að spíra og mynda greinar, já, og verða að stóru, gróskumiklu og tignarlegu tréi, sem stærst er allra jurta. Og þannig hefur það verið, að hún hefur sprottið upp úr jörðu, og réttlæti mun líta niður af himni [sjá Sálm 85:11; HDP Móse 7:62], og Guð er þegar að senda niður kraft sinn, gjafir og engla, er hreiðra um sig í greinum þess.

Líkt er himnaríki mustarðskorni. Sjá, er þetta þá ekki himnaríki, sem upp er að rísa á síðustu dögum í hátign Guðs, jafnvel kirkja hinna Síðari daga heilögu, líkt og óbifanlegur og fastur klettur í hinu djúpa hafi, berskjaldaður fyrir stormum og ofviðrum Satans. Klettur, sem fram að þessu hefur staðið af sér alla raun og býður enn fjallháum öldum mótlætis birginn, er láta stjórnast af hinum ofsafengnu illviðrisstormum, og skella af ógnarafli hins löðrandi brims á óhagganlegu berginu; knúnar áfram af miklum ótta óvinar alls réttlætis? …

Ský myrkurs hafa löngum, líkt og fjallháar öldur, hellt sér yfir hinn óhagganlega klett kirkju hinna Síðari daga heilögu. En engu að síður teygir mustarðskornið himinháar greinar hærra og hærra og verður stærra og stærra. Og vagnhjól ríkisins snúast enn, knúin áfram af voldugum armi Jehóva, og þrátt fyrir alla mótstöðu munu þau halda áfram að snúast, þar til öll orð hans hafa uppfyllst.“10

Vitnisburðir vitnanna þriggja og síðari daga ritninga, er líkt og súrdeigið sem falið var í mjölinu og táknar himnaríki; dæmisagan um netið skírskotar til heimssamansöfnunar

„ ,Aðra dæmisögu sagði hann þeim: Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.‘ [Matt 13:33.] Skilja má það sem svo að kirkja Síðari daga heilagra hafi orðið til af litlu súrdeigi sem falið var í þremur vitnum. Sjá, hve það á við um dæmisöguna! Áhrif súrdeigsins tók brátt að gæta og loks sýrðist allt. …

,Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.‘ [Matt 13:47–48.] Sjá sæði Jósefs, samkvæmt merkingu þessarar dæmisögu, sem breiðir út net fagnaðarerindisins um yfirborð jarðarinnar, og safnar öllum saman, svo að hinir góðu megi safnast í skipsför sem reiðubúin eru í þeim tilgangi, og englarnir munu huga að þeim vondu. ,Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þér skilið allt þetta? Já, svöruðu þeir.‘ [Matt 13:49–51.] Og við segjum, já, Drottinn; og vel geta þeir sagt, já, Drottinn, því þetta er svo einfalt og dýrðlegt, að sérhver heilagur á síðustu dögum verður að samþykkja það með hjartnæmu, amen.

‚Hann sagði við þá: Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.‘ [Matt 13:52.]

Sjá Mormónsbók, samkvæmt merkingu þessarar dæmisögu, sem fram er borin úr fjársjóði hjartans. Sjá einnig sáttmálana sem Síðari daga heilögum eru gefnir [Kenning og sáttmálar], einnig þýðingu Biblíunnar – og þannig er fram borið úr fylgsnum hjartans bæði nýtt og gamalt, sem svarar til þriggja mæla mjöls er sætir hreinsandi snertingu opinberana Jesú Krists og þjónustu engla, sem þegar hafa hafið verk þetta á síðustu dögum, sem svarar til súrdeigsins er sýrir allt deigið. Amen.“11

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 291–93. Hvað getum við lært af fordæmi Josephs Smith okkur til hjálpar í eigin ritningarnámi?

  • Lesið skýringu Josephs Smith á því hvers vegna frelsarinn kenndi í dæmisögum (bls. 294–95). Hvað teljið þið að felist í því að sjá með augum okkar og heyra með eyrum okkar, þegar við lærum sannleika fagnaðarerindisins? Hvers vegna teljið þið að ljós verði tekið frá okkur, ef við erum ekki fús til að taka á móti stærra ljósi? Hugleiðið hvað þið þurfið að gera til að taka á móti stærra ljósi fagnaðarerindisins.

  • Lærið dæmisöguna um sáðmanninn (bls. 295–97). Í þessari dæmisögu sýnir frelsarinn að sami boðskapur fagnaðarerindisins hefur ólík áhrif á fólk, eftir því hvernig það tekur á móti honum. Hvers vegna getur orð Guðs ekki fest rætur í þeim sem „eiga hjörtu full af ranglæti“? Hvers vegna leggja sumir orð Guðs til hliðar í erfiðleikum og ofsóknum? Á hvaða hátt geta „áhyggjur heimsins“ og „tál auðæfanna“ kæft orðið innra með okkur?

  • Hvernig getum við tryggt að okkar „jörð“ sé góð þegar orðið er sáð í okkur? Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að búa sig undir að meðtaka orðið?

  • Í dæmisögunni um hveitið og illgresið (bls. 297–299) táknar hveitið hina réttlátu eða „börn ríkisins.“ Illgresið táknar „börn hins vonda.“ Hvernig getum við verið trúföst, jafnvel þótt „hveitinu“ sé leyft að vaxa með „illgresinu“? Hvernig getur Kenning og sáttmálar 86:1–7 hjálpað ykkur að skilja dæmisöguna?

  • Hvernig er kirkjan nú lík vaxandi tré í dæmisögunni um mustarðskornið? (Sjá dæmi á bls. 299–301.)

  • Lesið bls. 301. Athugið að súrdeig er efni sem fær brauðdeig til að lyfta sér. Á hvaða hátt eru síðari daga ritningar líkar súrdeigi fyrir kirkjuna? Á hvaða hátt eru þær líkar súrdeigi fyrir ykkur persónulega? Hvernig eru síðari daga ritningar líkar fjársjóði sem er „nýr og gamall“?

  • Hvers vegna teljið þið merkilegt að netið safni fiskum af hvers kyns tagi í dæmisögunni um net fagnaðarerindisins (bls. 301)? Á hvaða hátt er dæmisagan að uppfyllast nú?

Ritningargreinar tengdar efninu: Lúk 8:4–18; Al 12:9–11; K&S 86:1–11; 101:63–68

Heimildir

  1. History of the Church, 2:326; færsla úr dagbókJosephs Smith, 7. des. 1835, og 29. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  2. History of the Church, 2:376; færsla úr dagbók Josephs Smith, 19. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  3. History of the Church, 2:396; færsla úr dagbók Josephs Smith, 17. febr. 1836, Kirtland, Ohio.

  4. History of the Church, 6:314; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  5. Brigham Young, Deseret News, 30. des. 1857, bls. 340; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. Wandle Mace, Autobiography, ca. 1890, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  7. History of the Church, 2:265–66; annar, þriðji og fjórði svigi í fyrstu málsgrein upprunalegir; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 225–26.

  8. History of the Church, 2:264–67; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 225–26.

  9. History of the Church, 2:267–271; fyrsti svigi í fyrstu málsgrein upprunalegur; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 226–29.

  10. History of the Church, 2:268, 270; orð í sviga í þriðju málsgrein upprunaleg; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 227–28. Sjá bls. xvi til frekari upplýsingar um breytingar á opinberu nafni kirkjunnar.

  11. History of the Church, 2:270, 272; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, des. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, des. 1835, bls. 228–29.

Ljósmynd
Joseph teaching

Spámaðurinn Joseph Smith kennir hópi bræðra, þar á meðal Brigham Young (vinstri). Brigham Young forseti minntist þess að spámanninum tókst að „gera ritningarnar svo skyrar og einfaldar, að allir fengu skilið þær. “

Ljósmynd
man sowing seeds

„Sáðmaður gekk út að sá, ogþá er hann sáði, féll sumt hjá götunni. … En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt.“

Ljósmynd
waves

Kirkjan er „líkt og óbifanlegur og fastur klettur í hinu djúpa hafi, berskjaldaður fyrir stormum og ofviðrum Satans. Klettur, sem fram að þessu hefur staðið af sér alla raun.“