2010–2019
Sáttmálskonur í samfélagi Guðs
Aðalráðstefna október 2019


Sáttmálskonur í samfélagi Guðs

Að verða sáttmálskona í samfélagi Guðs, er hvernig mikilhæfar og góðar dætur Guðs hafa ávallt verið uppalendur og leitt og þjónað.

Ég er þakklátur fyrir þá blessun að fá að tala til ykkar, sáttmálsdætra Guðs. Í kvöld hyggst ég hvetja ykkur til mikillar þjónustu sem þið eruð kallaðar til. Já, allar dætur Guðs sem hlusta á rödd mína hafa hlotið boð frá Drottni Jesú Kristi.

Það boð varð virkt þegar voruð settar í jarðlífið, á stað og tíma er Guð valdi ykkur, sem þekkir ykkur fullkomlega og elskar ykkur sem dætur sínar. Hann þekkti og kenndi ykkur í andaheiminum og staðsetti ykkur þar sem þið áttuð kost á sjaldgæfu tækifæri í sögu heimsins, að vera boðið að fara ofan í skírnarfont. Þar mynduð þið heyra þessi orð mælt af kölluðum þjóni Jesú Krists: „Með umboði frá Jesú Kristi, skíri ég þig í nafni föðurins, og sonarins, og hins heilaga anda. Amen.“1

Þegar þið komuð upp úr vatninu höfðuð þið samþykkt annað boð um þjónustu. Sem ný sáttmálsdóttir Guðs, gerðuð þið loforð og tókuð á móti verkefni í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem þið voruð síðan staðfestar sem meðlimir í. Þið gerðuð sáttmála við Guð um að taka á ykkur nafn Jesú Krists, halda boðorð hans og þjóna honum.

Fyrir hvern sem gerir þessa sáttmála, mun þjónustan sem Drottinn býður honum eða henni að leysa af hendi, fullkomlega sniðin að viðkomandi. Sáttmálsdætur og synir Guðs hafa þó öll eitt mikilvægt og gleðilegt boð. Hún er að þjóna öðrum fyrir hann.

Russell M. Nelson forseti talaði til systra og gerði dásamlega samantekt á þessu boði Drottins um að þið gangið til liðs við hann í verki hans. Nelson forseti lýsti kalli ykkar á þennan hátt: „Drottinn sagði: ,Verk mitt og dýrð mín [er] að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.‘ (HDP Móse 1:39.) Hans trúu lærisveins-dætur geta því sannlega sagt: ,Verk mitt og dýrð mín er að hjálpa ástvinum mínum að ná þessu himneska markmiði.‘

„Að hjálpa annarri manneskju að ná sínum himnesku möguleikum, er hluti af hinu guðlega hlutverki konu. Sem móðir, kennari eða dýrðlegur uppalandi, mótar hún lifandi leir að eigin vonum. Guðlegt hlutverk hennar er að hjálpa öndum til lífs og sálum til upphafningar, í samfélagi Guðs. Þetta er fylling sköpunar hennar. Það er göfgandi, uppbyggjandi og upphefjandi.“2

Þið fáið ekki vitað hvenær eða hversu lengi hið persónulega hlutverk mun helgað ákveðnu þjónustuboði, svo sem að vera móðir, leiðtogi eða þjónustusystir. Af kærleika lætur Drottinn okkur ekki eftir valið á tímasetningu, tímalengd eða verkefnaröð. Þið vitið þó frá ritningum og lifandi spámönnum að sérhver dóttir Guðs mun hljóta öll þessi verkefni, annað hvort í þessu lífi eða því næsta. Öll eru þau til að búa fjölskyldur undir kærleiksríkt eilíft líf – „æðstu gjöf allra gjafa Guðs.“3

Þið væruð vitrar að reyna af öllum mætti að undirbúa ykkur nú með endinn í huga. Það verkefni er gert einfaldara, því öll þessi verkefni krefjast að miklu leyti sama undirbúnings.

Við skulum byrja á því verkefni að vera þjónustusystir. Hvort sem þið hafið það verkefni sem tíu ára dóttir í fjölskyldu, þar sem faðirinn er látinn, eða sem forseti Líknarfélagsins, í borg sem nýlega hefur orðið fyrir eldsvoða, eða eruð á sjúkrahúsi að jafna ykkur eftir aðgerð – þá gefst ykkur tækifæri til að framfylgja því boði Drottins að vera þjónustudóttir hans.

Þetta virðast afar ólík þjónustuverkefni. Samt gera þau öll kröfu um þróun öflugs, kærleiksríks hjarta, óttalausrar trúar á að Drottinn gefi engin fyrirmæli án þess að greiða veg og vekja okkur þrá til þess að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið.4

Þar sem hin tíu ára dóttir er viðbúin, þá vefur hún ekkjuna, móður sína, örmum og biðst fyrir til að vita hvernig hjálpa megi fjölskyldu sinni. Hún heldur því svo áfram.

Forseti Líknarfélagsins hafði undirbúið þjónustu áður en hinn óvænti eldur kom upp á svæði hennar. Hún hafði kynnst fólkinu og farið að elska það. Trú hennar á Jesú Krist hafði aukist í gegnum árin af bænheyrslu Drottins sér til hjálpar í umfangsminni þjónustu fyrir hann. Vegna hins langa undirbúnings síns, þá var hún viðbúin og fús til að skipuleggja systur sínar til að þjóna fólki og fjölskyldum í neyð.

Systirin sem var að jafna sig á sjúkrahúsi eftir skurðaðgerð, var reiðubúin að þjóna samsjúklingum sínum. Hún hafði alla ævi þjónað Drottni með því að þjóna hverjum ókunnugum eins og hann eða hún væri nágranni og vinur. Þegar hún fann boðið í hjarta sínu um að þjóna á sjúkrahúsinu, þá þjónaði hún öðrum af slíkri hugdirfsku og kærleika að hinir sjúklingarnir tóku að vona að hún næði sér ekki of fljótt.

Á sama hátt og þið búið ykkur undir að þjóna, þá getið þið og verðið að búa ykkur undir boðið um að verða leiðtogi fyrir Drottin þegar að því kemur. Það mun krefjast trúar á Jesú Krist sem á rætur í djúpri elsku ykkar á ritningunum, til að leiða fólk og kenna orð hans óttalaust. Þá verðið þið undir það búnar að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut. Þið munuð óðfúsar segja: „Ég skal,“ þegar ráðgjafi ykkar í forsætisráði Stúlknafélagsins segir full kvíða: „Systir Alvarez er veik í dag. Hver á að kenna í námsbekk hennar?“

Sama undirbúning þarf að mestu þegar Drottinn kallar ykkur í það verkefni að vera móðir. Það mun þó jafnvel krefjast enn kærleiksríkara hjarta en áður var þörf á. Það krefst trúar á Jesú Krist umfram það sem áður hefur verið í hjarta ykkar. Það mun krefjast hæfni til að biðjast fyrir um áhrif, handleiðslu og huggunar heilags anda umfram það sem ykkur hefur fundist vera mögulegt.

Þið gætuð eðlilega spurt hvernig karlmaður, á hvaða aldri sem er, gæti vitað eitthvað um þarfir móður. Það er sanngjörn spurning. Karlmenn geta ekki vitað allt, en við getum lært nokkuð með opinberun frá Guði. Við getum líka lært af því að fylgjast með, þegar við grípum tækifærið til að leita andans, til að skilja það sem við sjáum.

Ég hef fylgst með Kathleen Johnson Eyring í þau 57 ár sem við höfum verið gift. Hún er móðir fjögurra drengja og tveggja stúlkna. Hún hefur, fram til þessa, tekið á móti boðinu um að hafa móðurleg áhrif á hundruð fjölskyldumeðlima og hundruð annarra sem hún hefur fóstrað af móðurhjarta.

Þið munið eftir fullkominni lýsingu Nelsons forseta á guðlegu hlutverki kvenna – þar með talið móðurhlutverki þeirra: „Sem móðir, kennari eða dýrðlegur uppalandi, mótar hún lifandi leir að eigin vonum. Guðlegt hlutverk hennar er að hjálpa öndum til lífs og sálum til upphafningar, í samfélagi Guðs. Þetta er fylling sköpunar hennar.“5

Svo langt sem ég fæ séð, þá hefur eiginkona mín, Kathleen, framfylgt því boði sem dætrum föður okkar er gefið. Mér virðist þetta vera lykilorð þess: „Hún [mótar] lifandi leir að eigin vonum … í samfélagi Guðs.“ Hún þvingaði ekki. Hún mótaði. Hún hafði sniðmát að vonum sínum, sem hún reyndi að móta þá eftir sem hún elskaði og fóstraði. Sniðmát hennar var fagnaðarerindi Jesú Krists – sem ég fékk séð af kostgæfinni athygli i áranna rás.

Að verða sáttmálskona í samfélagi Guðs, er hvernig mikilhæfar og góðar dætur Guðs hafa ávallt verið uppalendur og leitt og þjónað á þann hátt og á þeim stað sem hann hefur ætlað þeim. Ég lofa að þið munið finna gleði í ferðinni til ykkar himnesku heimkynna, er þið snúið til hans sem sáttmálsdætur Guðs.

Ég ber vitni um að Guð faðirinn lifir og hann elskar ykkur. Hann mun svara bænum ykkar. Hans ástkæri sonur leiðir, á allan hátt, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður hans. Joseph Smith sá og talaði við Guð föðurinn og Jesú Krist í trjálundi í Palmyra, New York. Ég veit að það er sannleikur. Ég ber einnig vitni um að Jesús Kristur er frelsari ykkar; hann elskar ykkur. Og með friðþægingu hans getið þið orðið hreinar og hafnar upp í þær háu og heilögu kallanir sem munu berast ykkur. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.