2010–2019
Boðskapurinn, merkingin og mannfjöldinn
Aðalráðstefna október 2019


Boðskapurinn, merkingin og mannfjöldinn

Megum við, í gegnum stöðuga háreysti og hávaða okkar tíma, keppa að því að hafa Krist að þungamiðju lífs okkar, trúar og þjónustu.

Bræður og systur, þetta er hinn sjö mánaða gamli Sammy Ho Ching, að horfa á aðalráðstefnu í sjónvarpinu á heimili sínu, síðastliðinn apríl.

Ljósmynd
Sammy Ho Ching að horfa á ráðstefnu

Þegar leið að þeirri stund er styðja átti Nelson forseta og aðra aðalvaldhafa, var Sammy uppekinn við að halda báðum höndum um pelann sinn. Hann gerði því það næstbesta.

Ljósmynd
Sammy Ho Ching meðan stuðningurinn fór fram

Sammy gefur hugmyndinni um að styðja með fæti sínum algjörlega nýja merkingu.

Velkomin á þessa síðla árs ráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Sem grunn að umfjöllun um merkingu þessara samkomna tvisvar á ári, þá skírskota ég til þessarar frásagnar í Lúkas í Nýja testamentinu:1

„Svo bar við, er [Jesús] nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.

Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.

… Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.

Þá hrópaði hann: Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!“

Fólkinu brá yfir áræðni mannsins og reyndi að þagga niður í honum, en „hann hrópaði því meir.“ Sökum þrálætis síns var maðurinn færður fyrir Jesú, sem heyrði hið trúarfyllta ákall hans um endurreisn sjónar og læknaði hann.2

Ég verða alltaf hrærður yfir þessari stuttu lifandi frásögn í hvert sinn sem ég les hana. Við fáum skynjað neyð mannsins. Við fáum næstum heyrt hann hrópa eftir athygli frelsarans. Við brosum yfir því að hann lét ekki þagga niður í sér – í raun þeirri staðfestu hans að hækka róminn í stað þess að lækka hann, eins og allir buðu. Þetta er í sjálfu sér ljúf saga af mjög svo staðfastri trú. Eins og á við um allar ritningar, þá finnum við meira eftir því sem við lesum meira.

Hugsun ein sem greip mig nýverið, er sú að maður þessi naut góðs af því að hafa andlega næmt fólk umhverfis sig. Öll merking þessarar sögu ræðst af fáeinum ónafngreindum konum og körlum, er voru spurð af samferðamanni sínum: „Hvað um væri að vera?“ Þeim bar viska til, ef svo mætti segja, að tilgreina Krist sem ástæðu háreystinnar; hann var hin persónugerða merking. Finna má lexíu fyrir okkur öll í þessum samskiptum. Þegar trú og sannfæring eru annars vegar, er gagnlegt að beina fyrirspurn okkar til þeirra sem í raun geta svarað! „Hvort fær blindur leitt blindan?“ spurði Jesús eitt sinn. „[Ef svo], munu [þá] ekki báðir falla í gryfju?“3

Slík leit að trú og sannfæringu er tilgangur okkar á þessum ráðstefnum og með því að taka þátt með okkur í dag, verður ykkur ljóst að þessi leit er víðtæk sameiginleg leit. Horfið umhverfis. Hér á þessu svæði sjáið þið fjölskyldur af öllum stærðum koma úr öllum áttum. Gamlir vinir faðmast fagnandi yfir endurfundum, glæsilegur kór hitar upp og mótmælendur hrópa af stöndum sínum. Trúboðar fyrri tíma leita fyrri félaga og nýlega heimkomnir trúboðar leita algjörlega nýrra félaga (þið vitið hvað ég á við!). Hvað með ljósmyndir? Himinninn hjálpi okkur! Með farsíma í hverri hendi, höfum við breyst frá því að vera „sérhver meðlimur trúboði“ yfir í að vera „sérhver meðlimur ljósmyndari.“ Mitt í allri þessari unaðslegu háreysti, mætti með réttu spyrja: „Hvað þýðir þetta allt saman?“

Líkt og í sögu Nýja testamentisins, munu þeir sem blessaðir eru til að sjá, viðkenna að hvað sem þessi hefðbundna ráðstefna hefur að bjóða, þá hefur það litla sem enga þýðingu, ef Jesús er ekki þungamiðja alls sem í henni er. Svo við fáum skilið hugsjónina sem við sækjumst eftir, lækninguna sem hann lofar, merkinguna sem við einhvern vegin vitum að er hér að finna, þá verðum við að sneiða hjá háreystinni – jafn ánægjuleg og hún er – og beina athygli okkar að honum. Bæn allra ræðumanna, von allra sem syngja, lotning allra gesta – helgast af því að laða að anda hans, hvers kirkja þetta er – hins lifandi Krists, Guðslambsins, Friðarhöfðingjans.

Við þurfum þó ekki að vera í ráðstefnuhöll til að njóta hans. Þegar barn les Mormónsbók í fyrsta skipti og hrífst af hugrekki Abinadís eða hergöngu ungu stíðskappanna 2000, getum við bætt við af varfærni að Jesús sé allsstaðar aðalpersóna og þungamiðja þessarar undursamlegu heimildarsögu, er skín í gegn á næstum hverri síðu og er samtengjandi hlekkur allra annarra trúarhvetjandi sögupersóna í henni.

Svo og þegar einhver vinur lærir um trú okkar, geta einstakir þættir og ókunnug orð trúariðkunar okkar orðið svolítið yfirþyrmandi fyrir hann eða hana – hamlað mataræði, vistir til sjálfsbjargar, ferðir brautryðjenda og stafræn ættartré, ásamt óteljandi fjölda stikumiðstöðva, þar sem sumir hafa eflaust átt von á fá eldaða góða millisteikta sirloinsteik (skýring þýðanda: Stika er stake á ensku sem borið er fram steik). Þegar því okkar nýju vinir sjá og heyra ótal margt nýtt, verðum við að sneiða hjá ysnum og þysnum og beina þeim að merkingu alls þessa, að kjarna hins eilífa fagnaðarerindis – elsku himneskra foreldra, friðþægingargjafar guðlegs sonar, hughreystandi handleiðslu heilags anda, síðari daga endurreisn alls sannleika og miklu fleiru.

Þegar maður fer í hið helga musteri í fyrsta skipti, gæti sú upplifun að nokkru verið yfirþyrmandi fyrir hann eða hana. Okkar hlutverk er að tryggja að hin helgu tákn og opinberuðu helgisiðir, helgiathafnaklæði og sjónræna kynning, verði aldrei truflandi, heldur vísi fremur til frelsarans, sem við erum þar til að tilbiðja. Musterið er hús hans og hann ætti að vera efstur í huga okkar og hjörtum – fyllt hinni tignarlegu kenningu Krists, eins og helgiathafnir musterisins eru fylltar henni – allt frá því er við lesum áletrunina yfir aðaldyrunum, til hinnar síðustu stundar sem við verjum í byggingunni. Af öllum þeim undrum sem við verðum vitni að, þá ber okkur framar öllu að sjá merkingu Jesú í musterinu.

Hugleiðið hinar mörgu nýju og djörfu tilkynningar í kirkjunni einungis á síðustu fáu mánuðum. Þegar við þjónum hvert öðru, eða bætum hvíldardagsupplifun okkar, eða tileinkum okkur nýja áætlun fyrir börn og unglinga, munu raunverulegar ástæður þessara opinberuðu breytinga fara fram hjá okkur, ef við sjáum þetta sem ólíka eða óskylda þætti, fremur en samtengda viðleitni til að hjálpa okkur að byggja örugglega á bjargi hjálpræðis okkar.4 Vissulega er það ástæðan að baki þess að Russell M. Nelson forseti ætlar okkur að nota hið opinberaða nafn kirkjunnar.5 Ef Jesús – nafn hans, kenning hans, fordæmi hans, guðleiki hans – getur verið þungamiðja tilbeiðslu okkar, munum við efla sannleika þess sem Alma eitt sinn kenndi: „Margt er í vændum. [En] sjá, eitt er öllu mikilvægara …, lausnarinn [sem lifir og kemur] meðal fólks síns.“6

Ein hugsun að lokum: Hin 19. aldar dreifbýlisbyggð Josephs Smith var yfirfull af samkeppni kristinna vitna.7 Í miklum æsingi sem þessir róstusömu trúarvakningarmenn sköpuðu, var kaldhæðinislegt að þeir vörpuðu skugga á sjálfan frelsarann, sem hinn ungi Joseph leitaði af slíkri einlægni. Hann reikaði í „myrkri og óvissu,“8 sem hann kallaði, og hörfaði út í einveru trjálundar, þar sem hann sá og heyrði og hlaut dýrðlegri vitnisburð um frelsarann og þungamiðju hans í fagnaðarerindinu, en nokkuð sem hér hefur komið fram á þessum morgni. Með gjöf ólýsanlegrar og fyrirvaralausrar sýnar, sá Joseph himneskan föður, hinn mikla Guð alheimsins, og Jesú Krists, hinn fullkomna og eingetna son hans. Faðirinn setti síðan fordæmið, sem við höfum vegsamað í morgun: Hann benti á Jesú og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“9 Engin önnur tjáning um hið guðlega auðkenni Jesú, yfirburðastöðu hans í sáluhjálparáætluninni og stöðu hans í augum Guðs, gæti verið mikilvægari þessari stuttu níu orða yfirlýsingu.

Háreysti og uppnám? Mannfjöldi og ágreiningur? Nóg er af slíku í veröld okkar. Vissulega eiga efasemdarmenn og trúaðir enn í deilum yfir þessari hugsjón og nánast öllu öðru sem ég hef rætt um í dag. Ef þið reynið að sjá skýrar og finna merkingu mitt í hinum fjölmörgu skoðunum, þá vísa ég ykkur á þennan sama Jesú og ber postullegt vitni um upplifun Josephs Smith, sem gefin var um 1.800 árum eftir að hinn blindi félagi okkar fékk sjónina á hinum forna Jeríkóvegi. Ég ber vitni með þessum tveimur og fjölda annarra í rás tímans, um að allra dásamlegast er ekki einungis að sjá og heyra Jesú eiga leið hjá,10 heldur að finna hann koma til okkar, staldra við hjá okkur og gera sér bústað hjá okkur.11

Systur og bræður, megum við, í stöðugri háreysti og hávaða okkar tíma, keppa að því að hafa Krist að þungamiðju lífs okkar, trúar okkar og þjónustu. Í því felst hin sanna merking. Ef einhvern daginn dregur úr sýn okkar eða sjálfstrausti eða reynt verður á trú okkar og hún fáguð – eins og vissulega mun verða – megum við þá hrópa hærra: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“12 Af postullegum eldmóð og spámannlegri sannfæringu, lofa ég að hann mun heyra í ykkur og fyrr eða síðar segja: „Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér.“13 Velkomin á aðalráðstefnu. Í nafni Jesú Krists, amen.