2010–2019
Máttur til að sigra andstæðinginn
Aðalráðstefna október 2019


Máttur til að sigra andstæðinginn

Hvernig finnum við frið, munum eftir hver við erum og sigrumst á þessum þremur aðferðum andstæðingsins?

Bræður og systur, þakka ykkur fyrir allt sem þið gerið til að verða og hjálpa öðrum að verða sannir lærisveinar Jesú Krists og njóta blessana hins helga musteris. Hafið þakkir fyrir gæsku ykkar. Þið eruð dásamleg; þið eruð yndisleg.

Ég bið þess að við finnum fyrir staðfestandi áhrifum heilags anda, er við skiljum fyllilega að við erum börn Guðs. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ segir: „Allar mannlegar verur – karlar og konur – eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík býr sérhvert þeirra yfir guðlegu eðli og örlögum.“1 Við erum „útvaldir andar, sem geymdir voru til að koma fram í fyllingu tímanna og taka þátt í að leggja grundvöllinn að hinu mikla verki síðari daga.“2 Russell M. Nelson forseti sagði: „Í andaheiminum hlutuð þið kennslu til að búa ykkur undir allt hið mögulega sem þið gætuð upplifað á þessum seinni hluta þessara síðari daga (sjá K&&S 138:56). Sú kennsla á sér rætur í ykkur.“3

Þið eruð kjörnir synir og dætur Guðs. Þið búið yfir mætti til að sigra andstæðinginn. Andstæðingurinn veit þó hver þið eruð. Hann veit af guðlegri arfleifð ykkar og reynir að koma í veg fyrir himneska möguleika ykkar með því að nota:

  • Blekkingu

  • Truflun

  • Vanmáttarkennd

Blekking

Andstæðingurinn reyndi blekkingar á tímum Móse. Drottinn sagði við Móse:

„Og sjá, þú ert sonur minn. …

Og ég ætla þér verk að vinna … og þú ert í líkingu míns eingetna.“4

Stuttu eftir þessa dýrðlegu vitrun reyndi Satan að blekkja Móse. Orðin sem hann notaði eru athyglisverð: „Mannssonur, tigna þú mig.“5 Blekkingin fólst ekki aðeins í boðinu um að tigna Satan, heldur líka í því að hann auðkenndi Móse sem mannsson. Gætið að því að Drottinn hafði rétt áður sagt við Móse að hann væri sonur Guðs, skapaður í líkingu hins eingetna.

Andstæðingurinn reyndi hvað hann gat að blekkja Móse, en Móse stóðst og sagði: „Vík burt frá mér Satan, því að aðeins þann eina Guð vil ég tigna, sem er Guð dýrðarinnar.“6 Móse vissi hver hann var – sonur Guðs.

Orð Drottins til Móse eiga við þig og mig. Við erum sköpuð í mynd Guðs og hann ætlar okkur verk að vinna. Andstæðingurinn reynir að bekkja með því að fá okkur til að gleyma hver við í raun erum. Ef við skiljum ekki hver við erum, mun okkur reynast erfitt að vita hver við getum orðið.

Truflun

Andstæðingurinn reynir líka að draga athygli okkar frá Kristi og sáttmálsvegi hans. Öldungur Ronald A. Rasband sagði eftirfarandi: „Áætlun andstæðingsins er að draga athygli okkar frá andlegum vitnum á sama tíma og þrá Drottins er að upplýsa og fá okkur til starfa í verki hans.“7

Það er margt sem glepur augað á okkar tíma, þar með talið Twitter, Facebook, sýndarveruleika leikir og margt annað. Þessi tækni er undursamleg, en ef við gætum okkar ekki, getur hún komið í veg fyrir að við uppfyllum guðlega möguleika okkar. Ef við notum hana á réttan hátt, getur hún vakið okkur mátt himins og gert okkur kleift að verða vitni að kraftaverkum er við leitumst við að safna saman hinum dreifða Ísrael, beggja vegna hulunnar.

Gætum okkar og verum ekki skeytingalaus í notkun á tækninni.8 Leitið stöðugt leiða með tækninni til að komast nær frelsaranum og auðvelda ykkur að framfylgja verki hans, er þið búið ykkur undir síðari komu hans.

Vanmáttarkennd

Loks, þá þráir andstæðingurinn að við missum kjarkinn og gefumst upp. Við gætum látið hugfallast þegar við berum okkur saman við aðra eða okkur finnst við ekki lifa eins og væntingar standa til, líka eigin væntingar.

Þegar ég hóf doktorsnámið mitt, þá lét ég hugfallast. Einungis fjórir nemendur voru teknir í námið það árið og hinir voru yfirburðarnemendur. Þeir höfðu hærri prófeinkunnir og höfðu meiri starfsreynslu í stjórnunarstöðum og voru fullir sjálfstrausts á eigin hæfileikum. Eftir fyrstu vikuna í náminu, tók að draga úr mér kjark og efinn læddist að, svo ég lét næstum hugfallast.

Ég ákvað, að ef ég hyggðist ljúka þessu fjögurra ára námi, ætti ég að lesa alla Mormónsbók á hverri önn. Á hverjum degi þegar ég las varð mér ljós sú staðhæfing frelsarans að heilagur andi myndi kenna mér alla hluti og minna mig á allt.9 Það staðfesti auðkenni mitt sem sonur Guðs, minnti mig á að bera mig ekki saman við aðra og hvatti mig til árangurs í guðlegu hlutverki mínu.10

Kæru vinir mínir, látið engan ræna ykkur hamingjunni. Berið ykkur ekki saman við aðra. Minnist þessara ástúðlegu orða frelsarans: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“11

Hvernig gerum við það? Hvernig finnum við þennan frið, munum eftir hver við erum og sigrumst á þessum þremur aðferðum andstæðingsins?

Í fyrsta lagi skal hafa í huga að æðsta boðorðið er að elska Guð af öllu hjarta, mætti, huga og styrk.12 Allt sem við gerum ætti að einskorðast við elsku okkar til hans og sonar hans. Þegar við þróum elsku til þeirra, verður okkur tamara að elska okkur sjálf og aðra. Við munum taka að þjóna fjölskyldu, vinum og samferðafólki, því við munum sjá þau eins og frelsarinn sér þau – sem syni og dætur Guðs.13

Í öðru lagi þarf að biðja til föðurins í nafni Jesú Krists, dag hvern og alla daga.14 Það er fyrir bæn sem við fáum skynjað elsku Guðs og sýnt elsku okkar til hans. Við tjáum þakklæti okkar með bæn og biðjum um styrk og hugrekki til að gera vilja Guðs og hljóta leiðsögn og handleiðslu í öllu.

Ég hvet ykkur til að „[biðja] til föðurins … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, … að þér megið verða synir [og dætur] Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir.“15

Í þriðja lagi þarf að lesa og læra Mormónsbók dag hvern og alla daga.16 Mormónsbókarnám mitt virðist ganga betur þegar ég les með spurningu í huga. Þegar við lesum með spurningu í huga, getum við hlotið opinberun og vitað að spámaðurinn Joseph Smith mælti sannleika, er hann sagði: „Mormónsbók [er] réttari en allar aðrar bækur á jörðinni … maðurinn [kemst] nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“17 Mormónsbók geymir orð Krists og hjálpar okkur að minnast þess hver við erum.

Í síðasta lagi þarf að meðtaka sakramentið í bænarhug í hverri viku, allar vikur. Það er fyrir sáttmála og helgiathafnir prestdæmisins, þar með talið sakramentið, sem kraftur guðleikans opinberast í lífi okkar.18 Öldungur David A. Bednar kenndi: „Helgiathöfn sakramentisins er heilagt og endurtekið boð um að iðrast einlæglega og til að endurnýjast andlega. Gjörðin að meðtaka sakramentið, ein og sér, fyrirgefur ekki syndir. Ef við hinsvegar undirbúumst samviskusamlega og tökum þátt í þessari helgiathöfn með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, þá lofar Drottinn að við getum ætíð haft anda Drottins með okkur.19

Þegar við meðtökum auðmjúk sakramentið, minnumst við þjáninga Jesú í hinum helga Getsemanegarði og fórnar hans á krossinum. Við færum föðurnum þakkir fyrir að senda sinn eingetna son, frelsara okkar, og sýnum vilja okkar til að halda boðorð hans og hafa hann ávallt í huga.20 Það er andleg fræðsla sem felst í sakramentinu – hún er persónuleg, áhrifamikil og nauðsynleg.

Vinir mínir, ég lofa því, að þegar við leitumst við að elska Guð af öllu hjarta, biðja í nafni Jesú Krists, læra Mormónsbók og meðtaka sakramentið af kostgæfni, mun okkur takast með styrk Drottins að sigrast á blekkingum andstæðingsins, lágmarka truflanir sem koma í veg fyrir guðlega möguleika okkar og draga úr vanmáttarkend, svo við fáum síður fundið elsku okkar himneska föður og sonar hans. Við munum þá skilja til hlítar hver við erum sem synir og dætur Guðs.

Bræður og systur, ég miðla ykkur elsku minni og lýsi yfir vitni mínu um að ég veit að himneskur faðir lifir og að Jesús er Kristur. Ég elska þá. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Guðs á jörðu. Við höfum guðlega tilskipun um að safna saman Ísrael og búa heiminn undir síðari komu Messíasar. Í nafni Jesú Krists, amen.