2010–2019
Vandvirkur eða værukær
Apríl 2019


Vandvirkur eða værukær

Þegar áhrifaöfl heimsins umfaðma sífellt meira hið illa, verðum við að kappkosta af allri kostgæfni að standa staðföst á sáttmálsveginum, sem leiðir okkur örugglega til frelsara okkar.

Ég sá eitt sinn skilti í búðarglugga sem á stóð: „Hamingja, 15 dollarar.“ Ég var svo forvitin að vita hvað mikla hamingju ég gæti keypt fyrir 15 dollara að ég fór inn til að kanna það. Það sem ég fann var hellingur af ódýru glingri og minjagripum – ekki einn hlut sem hugsanlega gæti veitt mér þá hamingju sem skiltið gaf í skyn! Í gegnum árin hefur mér oft verið hugsað til þessa skiltis og hve auðvelt það getur verið að leita hamingjunnar í ódýrum eða tímabundnum hlutum. Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, erum við blessuð með því að vita hvernig og hvar má finna sanna hamingju. Hún finnst í því að lifa vandlega eftir fagnaðarerindinu sem Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur, hefur sett á stofn fyrir okkur og með því að vinna að því að verða líkari honum.

Við eigum góðan vin sem var lestarstjóri. Dag einn, er hann var að stýra lest á sinni venjubundnu leið, tók hann eftir kyrrstæðum bíl á brautarteinunum framundan. Hann gerði sér strax grein fyrir því að bíllinn var fastur og gat ekki keyrt yfir teinana. Hann tók strax í neyðarhemilinn, sem virkjaði bremsurnar á hverjum lestarvagni fyrir sig, sem voru 1.2 kílómetrar að lengd fyrir aftan vélarvagninn og fluttu farm sem var 5.900 tonn. Það var enginn möguleiki á því að lestin gæti stoppað áður en hún lenti á bílnum, sem hún og gerði. Sem betur fer heyrði fólkið í bílnum í viðvörunarflautu lestarinnar og yfirgaf bílinn fyrir áreksturinn. Er lestarstjórinn ræddi við lögregluþjóninn sem rannsakaði málið kom reið kona að þeim. Hún hrópaði að hún hefði séð allt atvikið og væri vitni að því að lestarstjórinn hefði ekki einu sinni reynt að sveigja frá til að lenda ekki á bílnum!

Ef lestarstjórinn hefði getað farið af teinunum og sveigt framhjá til að forða slysinu, hefði hann og öll lestin farið af sporinu og ferð hennar hefði stöðvast skyndilega. Sem betur fer, fyrir hann, þá héldu lestarteinarnir fast í hjól lestarinnar og sáu til þess að lestin hélt áfram í átt að áfangastað sínum þrátt fyrir hindrunina í veginum. Sem betur fer fyrir okkur, erum við einnig á braut, sáttmálsvegi, sem við skuldbundum okkur, þegar við vorum skírð sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðarin daga heilögu. Þó að við kunnum að koma að einstaka hindrunum á ferð okkar, mun þessi vegur fara með okkur í átt að þráðum, eilífum ákvörðunarstað okkar, ef við verðum stöðugt á honum.

Ljósmynd
Sýn Lehís um lífsins tré

Sýnin um lífsins tré sýnir okkur hvernig áhrif kæruleysis getur leitt okkur af sáttmálsveginum. Hafið í huga að járnstöngin og hinn krappi og þröngi vegur, eða sáttmálsvegurinn, liggja beint lífsins tré, þar sem hinir trúföstu geta öðlast allar þær blessanir sem frelsari okkar og friðþæging hans veita okkur. Í sýninni var einnig að sjá fljót sem táknaði sora heimsins. Ritningarnar tala um að þetta fljót hafi „[runnið] meðfram“ veginum, en einungis farið „nálægt“ trénu en ekki því. Heimurinn er fullur af truflunum sem geta jafnvel blekkt hina útvöldu og gert þá kærulausa við að lifa eftir sáttmálum sínum – og þannig leitt þá nærri tréinu en ekki því. Ef við lifum ekki vel og vandlega eftir sáttmálum okkar, getur værukærð valdið því að við förum að endingu inn á forboðnar slóðir eða í félagskap þeirra sem hafa þegar farið inn í hina stóru og rúmmiklu byggingu. Ef við erum ekki vandvirk, gætum við jafnvel drukknað í djúpum hins soruga fljóts.1

Það er hægt að vanda til allra hluta eða gera þá af værukærð, líka það að lifa eftir fagnaðarerindinu. Erum við vandvirk eða værukær, er við íhugum skuldbindingu okkar við frelsarann? Réttlætum við ekki stundum hegðun okkar, vegna okkar jarðneska eðlis og tölum stundum um að breytni okkar sé á gráu svæði, eða blöndum saman því sem er gott og því sem er síður gott? Hvenær sem við segjum „hins vegar,“ „nema“ eða „en,“ þegar við stöndum frammi fyrir því að fylgja leiðsögn spámanna okkar eða lifa vandlega eftir fagnaðarerindinu, erum við í raun að segja: „Þetta á ekki við um mig.“ Við getum réttlætt allt sem við viljum, en staðreyndin er sú, að það er ekki hægt að gera ranga hluti á réttan hátt!

Þema ungdómsins fyrir 2019 er tekið úr Jóhannes 14:15, þar sem Drottinn leiðbeinir: „Ef þér elskið mig, munið þér halda boðorð mín.“ Ef við elskum hann, eins og við segjumst gera, getum við sýnt þá elsku með því að lifa aðeins vandlegar eftir boðorðum hans?

Að lifa vandlega eftir fagnaðarerindinu, þýðir ekki endilega að vera formfastur eða merkilegur með sig. Merking þess er að hugsa og hegða okkur á viðeigandi hátt sem lærisveinar Jesú Krists. Hér eru nokkur atriði sem huga mætti að, er við ígrundum það sem skilur á milli vandvirkni og værukærðar við að lifa eftir fagnaðarerindinu:

Erum við kostgæfin í hvíldardagstilbeiðslu okkar og búum við okkur undir að meðtaka sakramentið vikulega?

Gætum við vandað betur til bæna okkar og ritningalesturs eða tekið virkari þátt í Kom, fylg mér – fyrir einstaklinga og fjölskyldur?

Vöndum við til musteristilbeiðslu okkar og erum vandvirk og meðvituð við að lifa eftir þeim sáttmálum sem við gerðum bæði við skírn okkar og í musterinu? Vöndum við til útlits okkar og sýnum hógværð í klæðaburði, sérstaklega á helgum stöðum og við helgar aðstæður? Vöndum við til þess hvernig við klæðumst hinum helgu musterisklæðum? Eða ná tískubylgjur heimsins að stjórna kæruleysislegu viðhorfi okkar?

Vöndum við til hirðisþjónustu okkar við aðra og hvernig við sinnum kirkjuköllunum okkar eða erum við áhugalaus og værukær í köllun okkar til að þjóna?

Erum við vandvirk eða værukær við hvað við lesum eða horfum á í sjónvarpi og í snjalltækjum okkar? Vöndum við málfar okkar? Tökum við kannski grófu og óhefluðu máli opnum örmum?

Bæklingurinn Til styrktar æskunni inniheldur staðla sem munu færa ríkulegar blessanir og hjálpa okkur að halda okkur á sáttmálsveginum, ef við fylgjum honum vandlega. Þótt hann hafi verið skrifaður fyrir æskuna, þá ógildast ekki staðlarnir þegar við yfirgefum Piltafélagið eða Stúlknafélagið. Þeir eiga við okkur öll, alltaf. Endurskoðun á þessum stöðlum getur hvatt til frekari leiða til að vanda okkur við að lifa eftir fagnaðarerindinu.

Við lækkum ekki eigin staðla til að falla í hópinn eða láta öðrum líða betur. Við erum lærisveinar Jesú Krists og sem slíkir vinnum við að því að lyfta öðrum á hærra, helgara plan, þar sem þeir geta líka uppskorið meiri blessanir.

Ég býð hverju okkar að leita leiðsagnar heilags anda til að vita hverju við þurfum að breyta í eigin lífi, til að vera samstilltari sáttmálum okkar. Ég hvet ykkur til að vera ekki gagnrýnin á aðra sem ferðast eftir sama vegi. „Mitt er að dæma, segir Drottinn.“2 Við erum öll í ferli vaxtar og breytinga.

Mér finnst sagan í Mormónsbók um fráhvarfsmenn Amlikíta áhugaverð. Þeir settu áberandi rauðan blett á enni sitt, svo aðrir gætu séð að þeir væru ekki lengur tengdir Jesú Kristi og kirkju hans.3 Hvernig merkjum við okkur sem lærisveina Jesú Krists, andstætt þessu? Geta aðrir sé ímynd hans í ásjónu okkar og vitað hvern við stöndum fyrir, eftir því hvernig við högum lífi okkar?

Við sem sáttmálsfólk, eigum ekki að samblandast öðrum í heiminum. Við höfum verið kölluð „útvalin þjóð4 – hvílíkt hrós! Þegar áhrifaöfl heimsins umfaðma sífellt meira hið illa, verðum við að kappkosta af allri kostgæfni að standa staðföst á sáttmálsveginum, sem leiðir okkur örugglega til frelsara okkar og víkkar bilið á milli sáttmálslífs okkar og hinna veraldlegu áhrifa.

Er ég íhuga varanlega hamingju og hvernig við öðlumst hana, er mér ljóst að stundum lendum við á gráu svæði. Myrk þoka er óhjákvæmileg er við ferðumst eftir sáttmálsveginum. Freistingar og værukærð geta sveigt okkur örlítið af leið, af sáttmálsveginum og inn í myrkur heimsins. Á þeim stundum sem það gæti gerst, hefur ástkær spámaður okkar, Russel M. Nelson, forseti, hvatt okkur til að fara aftur inn á sáttmálsveginn og að gera það tafarlaust. Ég er svo þakklát fyrir gjöf iðrunar og fyrir kraft friðþægingar frelsarans.

Það er ómögulegt að lifa fullkomnu lífi. Það var einungis einn maður sem gat lifað fullkomnu lífi, er hann dvaldi á þessari jarðnesku plánetu. Það var Jesús Kristur. Þó að við kunnum að vera ófullkomin, kæru systkin, þá getum við verið verðug, verðug þess að meðtaka sakramentið, verðug musterisblessanna og verðug persónulegra opinberana.

Benjamín konungur bar vitni um þær blessanir og þá hamingju sem þeir öðlast sem vandlega fylgja frelsaranum: „Og enn fremur langar mig til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu. Og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni, og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“5

Er hægt að kaupa hamingju á 15 dollara? Nei, það er ekki hægt. Djúp og varanleg hamingja kemur frá því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists vandlega og af ásetningi. Í nafni Jesú Krists, amen.