2010–2019
Eftir trúarprófraun okkar
Aðalráðstefna október 2019


Eftir trúarprófraun okkar

Þegar við fylgjum rödd Guðs og sáttmálsvegi hans, mun hann styrkja okkur í þrengingum okkar.

Þegar ég var barn bauðst meðlimur kirkjunnar, Frank Talley, til að fljúga með fjölskyldu mína frá Puerto Rico til Salt Lake City, svo að við gætum innsiglast í musterinu, en brátt tóku hindranir að gera vart við sig. Ein systra minna, Marivid, veiktist. Foreldrar mínir voru óráðnir og báðust fyrir um hvað gera skyldi og fannst þau hvött til að leggja á sig ferðina. Þau treystu því, að ef þau fylgdu dyggilega eftir innblæstri Drottins, yrði vakað yfir fjölskyldu okkar og hún blessuð – og sú varð raunin.

Við getum ætíð treyst á að Jesús Kristur fyrirbúi okkur leið er við sækjum fram í trú, sama hvaða hindranir verða á vegi okkar. Guð hefur lofað, að allir sem lifa eftir sáttmálunum sem þeir hafa gert við hann, muni hljóta allar fyrirheitnar blessanir hans á hans eigin tíma. Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Sumar blessanir koma fljótt, aðrar seint og enn aðrar koma ekki fyrr en á himnum; en hvað varðar þá sem taka á móti fagnaðarerindi Jesú Krists, þá munu þær koma.“1

Moróní kenndi: „Trú er von um það, sem ekki er unnt að sjá. Deilið því ekki, sakir þess að þér sjáið ekki, því að þér fáið engan vitnisburð fyrr en eftir að reynt hefur á trú yðar.“2

Spurningin er: „Hvað gerum við til að takast sem best á við þrengingar lífs okkar?“

Í fyrsta opinbera ávarpi sínu sem forseti kirkjunnar, sagði Russell M. Nelson forseti: „Við, sem nýtt forsætisráð, viljum byrja með endinn í huga. Af þeirri ástæðu, þá tölum við til ykkar í dag frá musteri. Endapunktur þess erfiðis sem hvert okkar stefnir að er að hljóta kraft í húsi Drottins, innsiglast sem fjölskyldur, að vera trúföst sáttmálunum sem við gerðum í musterinu, sem gera okkur hæf fyrir æðstu gjöf Guðs – sem er hið eilífa líf. Helgiathafnir musterisins og sáttmálarnir sem þið gerið þar, eru lykilinn að því að styrkja eigið líf, hjónaband ykkar og fjölskyldu og gera ykkur hæf til að standast árásir óvinarins. Tilbeiðsla ykkar í musterinu og þjónustan þar í þágu áa ykkar, mun blessa ykkur með fleiri persónulegum opinberunum og auknum friði og veita ykkur styrk til að halda ykkur á sáttmálsveginum.“3

Þegar við fylgjum rödd Guðs og sáttmálsvegi hans, mun hann styrkja okkur í þrengingum okkar.

Fjölskylduferð mín til musterisins, fyrir mörgum árum, var erfið, en þegar við nálguðumst Salt Lake musterið í Utah, sagði móðir mín fyllt trú: „Það verður allt í lagi með okkur; Drottinn mun vernda okkur.“ Við vorum innsigluð sem fjölskylda og systir mín komst aftur til heilsu. Það gerðist þó ekki fyrr en eftir þá trúarprófraun foreldar minna að fylgja Drottni.

Fordæmi foreldra minna hefur enn áhrif á líf okkar. Fordæmi þeirra kenndi okkur ástæðurnar að baki kenningar fagnaðarerindisins og hjálpuðu okkur að skilja merkinguna og tilganginn og blessanirnar sem það færir. Að skilja tilgang fagnaðarerindis Jesú Krists getur einnig auðveldað okkur að takast á við trúarprófraun okkar.

Allt sem Guð býður okkur að gera, er tjáning á kærleika hans til okkar og þrá til að veita okkur þær blessanir sem geymdar eru hinum trúföstu. Við getum ekki vænst þess að börnum okkar muni lærast að elska fagnaðarerindið ein og óstudd; ábyrgðin er okkar að kenna þeim. Þegar við hjálpum börnum okkar að læra hvernig beri að nota sjálfræðið réttilega, getur fordæmi okkar hvatt þau til að einsetja sér að velja réttlátlega. Trúarstaðfesta þeirra mun svo líka hjálpa börnum þeirra að þekkja sannleika fagnaðarerindisins af eigin raun.

Piltar og stúlkur, hlýðið á spámann tala til ykkar í dag. Leitist við að læra guðlegan sannleika og reynið að skiljið fagnaðarerindið af eigin raun. Nelson forseti sagði nýlega: „Hvaða visku skortir ykkur? … Fylgið fordæmi spámannsins Josephs. Finnið hljóðan stað. … Auðmýkið ykkur fyrir Guði. Úthellið hjarta ykkar frammi fyrir himneskum föður. Leitið til hans eftir svörum.“4 Þegar þið leitið leiðsagnar hjá ykkar kærleiksríka himneska föður, hlustið á handleiðslu lifandi spámanns og fylgið fordæmi réttlátra foreldra, getið þið líka orðið sterkur trúarhlekkur fjölskyldu ykkar.

Þið foreldrar, sem eiga börn sem hafa farið út af sáttmálsveginum, hjálpið þeim varfærnislega til baka. Hjálpið þeim að skilja sannleika fagnaðarerindisins. Gerið það núna; það er aldrei of seint.

Fordæmi okkar um réttlátt líferni getur gert gæfumuninn. Nelson forseti sagði: „Við, sem Síðari daga heilög, erum orðin vön þeim hugsanagangi að ,kirkja‘ sé eitthvað sem gerist í samkomuhúsum okkar, með stuðningi þess sem á sér stað á heimilinu. Við þurfum að breyta þessum hugsanagangi. Það er kominn tími á heimilismiðaða kirkju, með stuðningi þess sem á sér stað í greinar-, deildar- og stikubygginum okkar.“5

Ritningarnar kenna: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“6

Þær segja líka: „Og þar eð boðun orðsins hafði mikla tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt – já, það hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið – þá áleit Alma ráðlegast að þér létu reyna á kraft Guðs orðs.“7

Saga er sögð af konu, sem var örg yfir því að sonur hennar borðað of mikið sælgæti. Hann hélt áfram að seðja sykurþörf sína, sama hversu oft hún bað hann að láta af því. Afar vonsvikin ákvað hún að fara með son sinn til mikilsvirts manns sem hann dáði.

Hún kom að máli við hann og sagði: „Herra, sonur minn borðar of mikið sælgæti. Gætir þú nokkuð beðið hann að láta af því?“

Hann hlustaði af athygli á konuna og sagði síðan við son hennar: „Farðu heim og komdu aftur að tveimur vikum liðnum.“

Hún tók son sinn, fór ráðvillt heim yfir því að hann hefði ekki beðið drenginn að láta af hinu mikla sælgætisáti.

Tveimur vikum síðar komu þau aftur. Hinn virti maður leit beint á drenginn og sagði: „Drengur, þú ættir að láta af því að borða svo mikið sælgæti. Það er ekki gott fyrir heilsu þína.“

Drengurinn kinkaði kolli og lofaði að gera það.

Móðir drengsins spurði: „Afhverju sagðir þú honum ekki þetta fyrir tveimur vikum?“

Vitri maðurinn brosti. „Fyrir tveimur vikum borðaði ég sjálfur of mikið sælgæti.“

Þessi maður var svo ráðvandur að honum var ljóst að leiðsögn hans yrði einungis nægilega áhrifarík, ef hann færi eftir henni sjálfur.

Áhrifin sem við höfum á börn okkar eru sterkari þegar þau sjá okkur ganga sáttmálsveginn af trúarlegri staðfestu. Jakob, spámaður í Mormónsbók, er dæmi um slíkt réttlæti. Sonur hans, Enos, ritaði um áhrif kennslu föður síns:

„Ég, Enos, sem vissi, að faðir minn var réttvís maður, því að hann kenndi mér á tungu sinni og fræddi mig einnig um umhyggju og áminningar Drottins – og blessað sé nafn Guðs míns fyrir það. …

Og orð föður míns um eilíft líf og gleði heilagra, sem ég hafði oft heyrt, smugu djúpt inn í hjarta mér.“8

Mæður ungu stríðsmannanna lifðu eftir fagnaðarerindinu og börn þeirra voru full sannfæringar. Leiðtogi þeirra sagði:

„Já, mæður þeirra höfðu kennt þeim, að ef þeir efuðust ekki, mundi Guð varðveita þá.

Og þeir endurtóku fyrir mér orð mæðra sinna og sögðu: Við efum ekki, að mæður okkar vissu það.“9

Enos og ungu stríðsmennirnir efldust af trú foreldra sinna, sem gerði þeim kleift að takast á við trúarprófraunir sínar.

Við, á okkar tíma, erum blessuð með hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, sem vekur okkur von þegar við erum þjáð og þjökuð. Við erum fullvissuð um að verk okkar munu bera ávöxt á eigin tíma Drottins, ef við sækjum fram í trúarprófraunum okkar.

Ég og eiginkona mín fórum nýlega með öldungi David A. Bednar á vígsluathöfn Port-au-Prince musterisins á Haítí. Sonur okkar, Jorge sagði um þessa upplifun sína: „Ótrúlegt, pabbi! Um leið og öldungur Bednar hóf vígslubænina, fann ég salinn fyllast kærleika og ljósi. Bænin jók til muna skilning minn á tilgangi musteris. Það er vissulega hús Drottins.

Í Mormónsbók kennir Nefí að Guð mun styrkja okkur að svo miklu leyti sem við þráum að þekkja vilja hans. Hann ritaði: „Ég, Nefí, sem var mjög ungur að árum, … og fullur af þrá eftir að kynnast leyndardómum Guðs, ákallaði Drottin. Og sjá. Hann vitjaði mín og mildaði hjarta mitt svo, að ég lagði trúnað á öll orð föður míns. Þess vegna reis ég ekki gegn honum eins og bræður mínir.“10

Bræður og systur, hjálpum börnum okkar og öllum umhverfis að fylgja sáttmálsvegi Guðs, svo að andinn fái kennt þeim, mildað hjörtu þeirra og vakið þeim þrá til að fylgja honum alla ævi.

Þegar ég ígrunda fordæmi foreldra minna, verður mér ljóst að trú okkar á Drottin Jesú Krist mun sýna okkur veginn aftur til okkar himnesku heimkynna. Ég veit að kraftaverk koma á eftir trúarprófraun okkar.

Ég ber vtini um Jesú Krist og friðþægingarfórn hans. Ég veit að hann er frelsari okkar og lausnari. Hann og himneskur faðir okkar vitjuðu hins unga Joseph Smith, spámanns endurreisnarinnar, að morgni dags, vorið 1820. Russell M. Nelson forseti er spámaður okkar tíma. Í nafni Jesú Krists, amen.