2010–2019
Fundinn fyrir mátt Mormónsbókar
Aðalráðstefna október 2019


Fundinn fyrir mátt Mormónsbókar

Allir verða að upplifa og finnast af hinum máttuga sannleika í Mormonsbók.

Þegar ég vitja heimila trúskiptinga, spyr ég oft hvernig það vildi til að þeir og fjölskyldur þeirra kynntust kirkjunni og hvernig skírn þeirra hefði borið að. Það skiptir ekki máli hvort viðkomandi sé virkur meðlimur á þeim tíma eða hafi ekki mætt í kirkju í mörg ár. Svarið er alltaf hið sama: Uppljómuð og brosandi hefja þau sögu sína á því hvernig þau fundust. Í raun virðist saga okkar trúarlega viðsnúnings alltaf vera sagan um það hvernig við fundumst.

Jesús Kristur sjálfur er herra hins týnda. Hann lætur sér annt um hið týnda. Það er eflaust þess vegna sem hann kenndi dæmisögurnar þrjár sem finna má í 15. kapítula Lúkasar: Um týnda sauðinn, týndu drökmuna og loks týnda soninn. Öllum er þessum sögum eitt samnefnt: Ástæðan að baki hinum týnda skipti engu. Það skipti jafnvel engu hvort viðkomandi væri meðvitaður um að vera týndur. Þar ríkir þessi himneska gleðitilfinning: „Samgleðjist mér, því að ég hef fundið [þann] sem týndur var1 Á endanum er ekkert týnt hvað hann varðar.2

Leyfið mér að deila með ykkur nokkru meðal þess dýrmætasta sem ég á – sögunni um það hvernig ég fannst sjálfur.

Rétt áður en ég varð 15 ára, bauð frændi minn, Manuel Bustos, mér að verja smá tíma með honum og fjölskyldu hans hér í Bandaríkjunum Þetta yrði tilvalið tækifæri fyrir mig til að læra einhverja ensku. Frændi minn hafði gengið í kirkjuna mörgum árum áður og var fylltur miklum trúboðsanda. Það er eflaust þess vegna sem móðir mín talaði við hann, án þess að láta mig vita, og sagðist samþykkja þetta boð með einu skilyrði: Að hann myndi ekki reyna að sannfæra mig um að ganga í kirkjuna hans. Við værum kaþólsk og hefðum verið svo í marga ættliði og það væri engin ástæða að breyta því. Frændi minn samþykkti það algjörlega og tók loforð sitt svo hátíðlega að hann svaraði ekki svo mikið sem einni spurningu um kirkjuna.

Að sjálfsögðu gátu frændi minn og eiginkona hans, Marjorie, yndisleg kona, ekki komið í veg fyrir að vera þau sjálf.3

Ég fékk herbergi sem í var mikið bókasafn. Ég gat séð að í þessu bókasafni voru um 200 eintök af Mormónsbók á mismunandi tungumálum og af þeim voru 20 á spænsku.

Dag einn, í einskærri forvitni, tók ég mér í hönd eintak af Mormónsbók á spænsku.

Ljósmynd
Mormónsbók á spænsku

Það var eitt af þessum eintökum með himinblárri kápu og mynd af englinum Moróni framan á. Þegar ég opnaði hana var eftirfarandi loforð ritað á fyrstu blaðsíðuna: „Og þegar þér meðtakið þetta, þá hvet ég yður að spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.“

Svo sagði: „Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“4

Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum sem þessi ritningargrein hafði á hug minn og hjarta. Ef ég á að vera alveg heiðarlegur, þá var ég ekki að leita „sannleikans.“ Ég var bara unglingur, sáttur við líf sitt, að njóta þessarar nýju menningar.

Þrátt fyrir það, byrjaði ég að lesa bókina með þetta loforð í huga. Því meira sem ég las, því betur skildi ég, að ef ég vildi virkilega fá eitthvað út úr þessu, yrði ég að byrja að biðjast fyrir. Við vitum öll hvað gerist þegar við ákveðum að lesa ekki bara, heldur líka að biðja varðandi Mormónsbók. Jæja, það er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér. Það var svo sérstakt og einstakt – já, alveg það sama og hefur gerst hjá milljónum annarra í heiminum. Með krafti heilags anda fékk ég að vita að Mormónsbók væri sönn.

Ég fór því næst til frænda míns til að útskýra hvað hefði gerst og að ég væri tilbúinn til að skírast. Frændi minn gat ekki dulið undrun sína. Hann fór í bílinn sinn, ók út á flugvöll og kom aftur með farmiða fyrir mig til heimflugs og miða til móður minnar sem sagði einfaldlega: „Ég átti engan þátt í þessu!“

Á vissan hátt hafði hann rétt fyrir sér. Það var beinlínis fyrir mátt Mormónsbókar sem ég hafði fundist.

Það gætu verið margir sem hafa fundist fyrir tilverknað hina yndislegu trúboða um allan heim, á undursamlegan hátt í hverju tilfelli. Kannski hafa þeir fundist í gegnum vini sem Guð hefur af ásetningi sett á leið þeirra. Það gæti jafnvel verið að einhver af þessari kynslóð hafi fundið þá eða einn af áum þeirra.5 Hver sem ástæðan er, þá verða allir, sem þróast í átt að persónulegri trúarumbreytingu, fyrr eða síðar að upplifa og finnast af sannleika Mormónsbókar. Á sama tíma verða þeir að taka persónulega ákvörðun um að skuldbinda sig Guði af alvöru og halda boðorð hans af kostgæfni.

Þegar ég kom til baka til Buenos Aires gerði móðir mín sér grein fyrir því að mig langaði virkilega að skírast. Þar sem ég var nokkuð þrjóskur einstaklingur, þá tók hún mig skynsamlega afsíðis, í stað þess að mótmæla mér. Án þess að gera sér grein fyrir því, þá framkvæmdi hún skírnarviðtalið mitt sjálf. Sannarlega held ég að viðtal hennar hafi verið ítarlegra en þau sem trúboðarnir framkvæma. Hún sagði við mig: „Ef þú vilt skírast mun ég styðja þig. Fyrst vil ég spyrja þig nokkurra spurninga og vil að þú hugsir þig vel um og svarir mér heiðarlega. Vilt þú skuldbinda þig til að mæta í kirkju alla sunnudaga?

Ég svaraði henni: „Já, að sjálfsögðu mun ég gera það“

„Gerir þú þér einhverja grein fyrir því hve lengi kirkjan stendur yfir?“

„Já, það geri ég,“ sagði ég.

Hún svaraði: „Jæja, ef þú skírist mun ég sjá til þess að þú mætir.“ Hún spurði mig þá hvort ég væri sannarlega fús til að drekka aldrei áfengi né reykja.

Ég svaraði: „Já, að sjálfsögðu, ég mun einnig hlýða því.“

Hún bætti þá við: „Ef þú skírist mun ég sjá til þess að það standi.“ Hún hélt þannig áfram með næstum hvert boðorð.

Frændi minn hafði hringt í móður mína til að segja henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur, að ég myndi fljótlega jafna mig á þessu. Fjórum árum seinna, þegar ég hlaut köllun mína til að þjóna í Montevideo-trúboðinu í Úrúgvæ, þá hringdi móðir mín í frænda minn til að fá að vita hvenær nákvæmlega ég myndi jafna mig á þessu. Staðreyndin er sú að frá því að ég skírðist hefur móðir mín verið hamingjusamari móðir.

Ég lærði að Mormónsbók væri þýðingarmikill þáttur í ferli trúarumbreytingar, með því að láta sjálfur reyna á loforðið um að „maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar.“ 6

Nefí útskýrði megin tilgang Mormónsbókar á þennan hátt:

„Vér ritum af kappi til að hvetja börn vor og einnig bræður vora til að til að trúa á Krist og sættast við Guð. …

Og vér tölum [því] um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, [og] vér spáum um Krist, … svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“7

Öll Mormónsbók er uppfull af þessum sama helga tilgangi.

Af þessari ástæðu, mun hver lesandi sem skuldbindur sig því að læra hana í anda bænar, ekki einungis læra um Krist heldur mun hann líka læra af Kristi – sérstaklega ef hann tekur ákvörðun um að láta „reyna á kraft Guðs orðs“8 og hafnar þeim ekki of fljótt vegna hleypidóma og vantrúar 9, vegna einhvers sem aðrir hafa sagt um hluti sem þeir hafa aldrei lesið.

Russel M. Nelson forseti sagði: „Þegar ég hugsa um Mormónsbók, hugsa ég um orðið kraftur. Sannleikur Mormónsbókar hefur kraft til að lækna, hugga, endurreisa, hjálpa, styrkja, hughreysta og gleðja sálir okkar.“10

Boð mitt þennan eftirmiðdag, til sérhvers okkar, sama hve lengi við höfum verð meðlimir kirkjunnar, er að leyfa að máttur sannleika Mormónsbókar finni okkur og umlyki okkur aftur, dag fyrir dag er við leitum persónulegrar opinberunar af kostgæfni. Það mun verða svo ef við leyfum það.

Ég ber hátíðlegt vitni um að Mormónsbók felur í sér fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists og að heilagur andi mun ítrekað staðfesta þann sannleika fyrir hverjum þeim sem leitar þekkingar af einlægu hjarta, sál sinni til hjálpræðis.11 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lúkas 15:6; sjá einnig Lúkas 15:9, 32.

  2. Í víðasta skilningi þess þá útskýra ritningarnar spádómana sem tala um samansöfnun hinna týndu ættkvísla Ísraels (sjá Russel M. Nelson, „Samansöfnun trístraðs Ísraels,“ aðalráðstefna, október 2006). Jafnvel þó að þær séu týndar, eru þær ekki týndar honum (sjá 3. Nefí 17:4). Það er einnig áhugavert að skoða að þegar þær finnast gera þær sér ekki grein fyrir því að þær hafi verið týndar, sérstaklega þegar þær hljóta patríarkablessanir sínar.

  3. Öldungur Dieter F. Uchtdor vitnaði í heilagan Fransis af Assisi þegar hann sagði: „Boðið fagnaðarerindið öllum stundum, og, sé það nauðsynlegt, notið orð“ („Beðið átekta á veginum til Damaskus,” aðalráðstefna, apríl 2011; sjá einnig William Fay og Linda Evans Shepherd, Share Jesus without Fear [1999], 22).

  4. Moróní 10:4–5

  5. Trúarsaga áa okkar er einnig okkar eigin saga. Öldungur William R. Walker kenndi: „Það væri dásamlegt ef allir Síðari daga heilagir myndu þekkja trúarsögu áa sinna.“ („Vera sönn í trúnni,“aðalráðstefna, apríl, 2014). Þar af leiðandi höfum við öll, á einn eða allan hátt, verið fundin í gegnum áa okkar, þökk sé himneskum föður, sem þekkir endinn frá upphafinu (sjá Abraham 2:8).

  6. Formáli að Mormónsbók; sjá einnig Alma 31:5.

  7. 2. Nefí 25:23, 26.

  8. Alma 31:5.

  9. Sjá Alma 32:28.

  10. Russell M. Nelson, „Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?aðalráðstefna, október 2017.

  11. Sjá 3. Nefí 5:20.