2010–2019
Sáttmálsaðild
Aðalráðstefna október 2019


Sáttmálsaðild

Að heyra Guði til og ganga saman á sáttmálsvegi hans, er að njóta blessunar sáttmálsaðildar.

Kæru bræður og systur, sagan er sögð af Barnafélagsbarni sem er að læra að biðja bæna. „Þakka þér fyrir bókstafinn A, bókstafinn B, … bókstafinn G.“ Bæn barnsins heldur áfram: „Þakka þér fyrir bókstafina X, Y, Z. Kæri himneski faðir, þakka þér fyrir tölustafinn1, tölustafinn 2.“ Barnafélagskennarinn er áhyggjufullur en sýnir biðlund og visku. Barnið segir: „Þakka þér fyrir tölustafinn 5, tölustafinn 6 – og þakka þér fyrir kennarann. Hún er sú eina sem leyfir mér að ljúka bæn minni.“

Himneskur faðir heyrir bænir allra barna. Af óendanlegri elsku, hvetur hann okkur til trúar og sáttmálsaðildar.

Þessi heimur er fullur af hyllingum, blekkingum og slægð. Svo margt virðist tímabundið og yfirborðskennt. Þegar við leggjum til hliðar grímurnar, sýndarmennskuna, allt það sem fólki líkar og mislíkar, þá þráum við meira en aðeins hverfulleika skammvinnra tengsla eða kapphlaup eftir hinu veraldlega. Til allrar hamingju, þá er til úrræði við þessu öllu.

Við erum ekki aðkomumenn eða gestir þegar við höldum æðstu boðorð Guðs um að elska hann og náunga okkar með sáttmála, heldur barn á heimavelli.1 Hin aldagamla þversögn er enn sönn. Þegar við afklæðumst okkar veraldlega eðli með sáttmálsaðild okkar, munum við finna og íklæðast okkar besta eilífa eðli2 – frjáls, lifandi, raunveruleg – og skilgreina okkar mikilvægustu sambönd. Sáttmálsaðild er skuldbinding hátíðlegra loforða við Guð og hvert annað í helgiathöfnum, sem gerir kleift að kraftur guðleikans opinberist í lífi okkar.3 Við getum orðið meira en við erum með því að helga okkur algjörlega sáttmála. Sáttmálsaðild sér okkur fyrir stað, sögu, getu til að verða. Hún vekur trú til lífs og sáluhjálpar.4

Guðlegir sáttmálar eru uppspretta elsku til Guðs og elsku frá Guði og þar af leiðandi elsku til hver annars. Guð, okkar himneski faðir, elskar okkur heitar og þekkir okkur betur en við sjálf fáum gert. Trú á Jesú Krist og persónuleg breyting (iðrun) leiðir til miskunnar, náðar og fyrirgefningar. Það léttir sársaukann, einmanaleikann og óréttlætið sem við upplifum í jarðlífinu. Guð, okkar himneski faðir, vill að við öðlumst æðstu gjöf Guðs – gleði hans, hið eilífa líf hans.5

Guð okkar er Guð sáttmála. Hans eðli er að „[halda] sáttmála og [sýna] miskunn.“6 Sáttmálar hans vara „svo lengi sem tíminn varir, jörðin stendur eða einn maður finnst á jörðunni, sem frelsa má“.7 Okkur er ekki ætlað að reika um í efa og óvissu, heldur gleðjast í kærum sáttmálssamböndum, „sterkari en bönd dauðans.“8

Helgiathafnir og sáttmálar Guðs eru bundin algildum skilyrðum og standa hinum eina til boða. Af réttsýni Guðs, þá getur hver einstaklingur, hvar sem er og á hverri tíð, tekið á móti endurleysandi helgiathöfnum. Sjálfræðið gildir hér – einstaklingar velja hvort þeir taki á móti þeim helgiathöfnum sem í boði eru. Helgiathafnir Guðs eru vegvísar á sáttmálsvegi hans. Við köllum áætlun Guðs um að leiða börn sín heim endurlausnaráætlun, sáluhjálparáætlun, sæluáætlun. Endurlausn, sáluhjálp, himnesk hamingja eru möguleg sökum þess að Jesús Kristur „leiddi til lykta þessa fullkomnu friðþæginu.“9

Að heyra Guði til og ganga saman á sáttmálsvegi hans, er að njóta blessunar sáttmálsaðildar.

Í fyrsta lagi, er Jesús Kristur þungamiðja sáttmálsaðildar, sem „[meðalgangari] nýs sáttmála.“10 Allt getur samverkað til góðs þegar við erum „helguð í Kristi … í sáttmála föðurins.“11 Allar góðar og fyrirheitnar blessanir hljótast þeim sem verða trúfastir til enda. „[Hamingja] þeirra, sem halda boðorð Guðs“ er að „njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu“ og „[dvelja] með Guði í óendanlegri sælu.“12

Þegar við heiðrum sáttmála okkar, getur okkur stundum fundist við eiga samfélag við engla. Við munum njóta þess – samfélags þeirra sem við elskum og blessa okkur hérna megin hulunnar og þeirra sem elska og blessa okkur hinumegin hulunnar.

Ég og systir Gong urðum vitni að ljúfri sáttmálsaðild í sjúkraherbergi. Ungur faðir þurfti nauðsynlega á nýrnaígræðslu að halda. Fjölskylda hans hafði grátið, fastað og beðið þess að hann hlyti nýra. Þegar þau tíðindi bárust að lífgefandi nýra hefði borist, sagði eiginkona hans: „Ég vona að hin fjölskyldan sé í lagi.“ Að eiga sáttmálsaðild er, með orðum Páls postula, að „uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.“13

Á lífsins vegi getum við misst trú á Guð, en hann missir aldrei trú á okkur. Vegljósið hans lýsir stöðugt. Hann býður okkur að koma eða koma aftur að sáttmálunum sem marka veginn hans. Hann bíður viðbúinn þess að faðma okkur, jafnvel þótt við séum „enn langt í burtu.“14 Þegar við sjáum eigið lífsmynstur með auga trúar, fáum við séð hans ljúfu miskunn og hvatningu, einkum í raunum okkar, sorgum og áskorunum, en líka í gleði okkar. Hann mun hjálpa okkur, skref fyrir skref, hversu oft sem við hrösum eða föllum, ef við leitum hans stöðugt.

Í öðru lagi, er Mormónsbók sönnun í hendi um sáttmálsaðild. Mormónsbók er hið fyrirsagða, fyrirheitna verkfæri til samansöfnunar barna Guðs, sem nýs sáttmála.15 Þegar við lesum Mormónsbók, sjálf og með öðrum, hvort heldur í hljóði eða upphátt, getum við spurt Guð „í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist“ og hlotið fullvissu fyrir kraft heilags anda um að Mormónsbók sé sönn.16 Í því felst fullvissa um að Jesús Kristur sé frelsari okkar, Joseph Smith sé spámaður endurreisnarinnar og að kirkja Drottins sé nefnd hans nafni – Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.17

Mormónsbók talar til ykkar, sem eruð börn Lehís, „börn spámannanna,“ með sáttmálum fortíðar og nútíðar. 18 Forfeður ykkar hlutu sáttmálsfyrirheit um að þið, niðjar þeirra, mynduð bera kennsl á rödd Mormónsbókar sem bærist hún úr duftinu.19 Þá rödd, sem vitnar um að þið séuð „börn sáttmálans“ 20 og að Jesús sé ykkar góði hirðir, munið þið skynja við lesturinn.

Mormónsbók býður okkur öllum, með orðum Alma, að gera „sáttmála við [Drottin] um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir [okkur].“21 Þegar við viljum breytast til hins betra – líkt og einn orðaði það, „að láta af vansæld okkar og verða hamingjusöm“ – getum við orðið næmari fyrir leiðsögn, liðsinni og styrk. Fyrir sáttmálsaðild getum við tilheyrt Guði og samfélagi trúaðra og hlotið fyrirheitnar blessanir kenningar Krists22 – nú þegar.

Hið endurreista prestdæmisvald og krafturinn til að blessa öll börn hans, er þriðja vídd sáttmálsaðildar. Á þessari ráðstöfun hafa Jóhannes skírari og postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes komið sem dýrðlegir sendiboðar frá Guði til að endurreisa prestdæmisvaldið.23 Prestdæmi Guðs og helgiathafnir hans gera sambönd á jörðu ljúfari og geta innsiglað sáttmálssambönd á himnum.24

Prestdæmið getur í raun blessað frá vöggu til grafar – frá nafngjöf og blessun barns til helgunar grafar. Prestdæmisblessanir græða, hugga og leiðbeina. Faðir var syni sínum reiður, þar til kærleikur og fyrirgefning bárust er hann veitti syni sínum ljúfa prestdæmisblessun. Kær ung kona, sem var eini meðlimurinn í fjölskyldu sinni, efaðist um elsku Guðs til sín, þar til hún hlaut innblásna prestdæmisblessun. Víða um heim búa göfugir patríarkar sig andlega undir að veita patríarkablessanir. Þegar patríarki setur hendur á höfuð ykkar, skynjar hann og tjáir elsku Guðs til ykkar. Hann tilgreinir ættkvísl ykkar í húsi Ísraels. Hann tilgreinir blessanir frá Drottni. Hugulsöm eiginkona patríarka sagði mér hvernig hún og börn hennar laða andann að á þeim dögum er faðir þeirra veitir patríarkablessanir.

Loks hljótum við blessanir sáttmálsaðildar þegar við fylgjum spámanni Drottins og gleðjumst í musteris-sáttmálslífi, þar með talið í hjónabandi. Sáttmálshjónaband verður guðlegt og eilíft þegar við, dag hvern, setjum hamingju maka okkar og barna framar okkar eigin. Þegar „ég“ verður „við,“ þá vöxum við saman. Við verðum gömul saman, við verðum ung saman. Þegar við blessum hvort annað yfir lífsspönn og gleymum okkur sjálfum, munum við sjá von og gleði okkar helgast um tíma og eilífð.

Þegar aðstæður breytast og við gerum allt sem við getum, okkar allra besta, og biðjum einlæglega og leitum alltaf liðsinnis hans, þá mun Drottinn leiða okkur, á hans tíma og á hans hátt, með heilögum anda.25 Hjónabandssáttmálar verða bindandi af sameiginlegri ákvörðun þeirra sem gera þá – til áminningar um að Guð og við sjálf virðum sjálfræðið og blessunarríka hjálp hans, er við leitum hennar sameinuð.

Ávextir sáttmálsaðildar eru áþreifanlegir á heimilum okkar og í hjörtum okkar hvarvetna meðal fjölskyldna og kynslóða. Ég ætla að útskýra með dæmum úr eigin lífi.

Þegar ég og systir Gong urðum ástfangin og hugðumst gifta okkur, lærði ég um sjálfræði og ákvarðanatökur. Um tíma vorum við í skóla hvort í sínu landi og sinni heimsálfu. Ég get því sagt með sanni að ég hafi áunnið mér doktorsgráðu í alþjóðasamskiptum.

Þegar ég spurði: „Himneskur faðir, á ég að giftast Susan?“ þá fann ég frið. Þegar mér hins vegar lærðist að biðja af einlægum ásetningi: „Himneskur faðir, ég elska Susan og vil gjarnan giftast henni. Ég lofa að verða henni eins góður eiginmaður og faðir og mér er framast unnt,“ – þá hlaut ég sterkustu staðfestinguna, því ég tók mína bestu ákvörðun og fylgdi henni eftir.

FamilySearch ættartré og ljósmyndir Gong og Lindsay fjölskyldnanna hjálpa okkur að kynnast og tengjast í gegnum upplifanir sáttmálsaðildar kynslóða.26 Okkar mætu áar eru til að mynda:

Ljósmynd
Alice Blauer Bangerter

Alice Blauer Bangerter langamma, sem fékk þrjú bónorð á einum degi, bað eiginmann sinn síðar að setja fótstig á smjörstrokkinn sinn, svo að hún gæti strokkað smjör og prjónað samtímis.

Ljósmynd
Loy Kuei Char

Loy Kuei Char langafi bar börn sín á baki sér, með fábrotnar eigur á asna, er þau fóru yfir hraunbreiður á eyjunni Big Island á Havaí. Trúrækni og fórnir kynslóða Char-fjölskyldunnar er fjölskyldu okkar nú til blessunar.

Ljósmynd
Mary Alice Powell Lindsay

Gram Mary Alice Powell Lindsay var eftirskilin með fimm ung börn þegar eiginmaður hennar og elsti sonur dóu báðir skyndilega með nokkurra daga millibili. Amma, sem var ekkja í 47 ár, ól fjölskyldu sína upp með stuðningi staðarleiðtoga og meðlima. Á þessum mörgu árum lofaði amma Drottni, að ef hann liðsinnti henni, skildi hún aldrei mögla. Drottinn liðsinnti henni. Hún möglaði aldrei.

Kæru bræður og systur, eins og heilagur andi vitnar um, þá er þungamiðja alls hins góða og eilífa lifandi raunveruleiki Guðs, okkar eilífa föður og sonar hans Jesú Krist og friðþægingarfórnar hans. Drottinn okkar, Jesús Kristur, er meðalgöngumaður hins nýja sáttmála. Sáttmálstilgangur Mormónsbókar er að vitna um Jesú Krist.27 Hinu endurreista prestdæmisvaldi Guðs er, með eiði og sáttmála, ætlað að blessa öll börn Guðs, með hjónabandssáttmála, kynslóðafjölskyldu og persónulegum blessunum.

Frelsari okkar lýsir yfir: „Ég er Alfa og Ómega, Kristur Drottinn. Já, ég er einmitt hann, upphafið og endirinn, lausnari heimsins.“28

Hann var með okkur í upphafi og verður með okkur allt til enda í sáttmálsaðild okkar. Um það vitna ég, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.