Ritningar
Kenning og sáttmálar 59


59. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Síon, Jacksonsýslu, Missouri, 7. ágúst 1831. Fyrir þessa opinberun var landið helgað eins og Drottinn hafði mælt fyrir um og staðurinn undir verðandi musteri var vígður. Á þeim degi, sem þessi opinberun var móttekin, lést Polly Knight, eiginkona Josephs Knight eldri, fyrsti meðlimur kirkjunnar til þess að deyja í Síon. Hinir fyrstu meðlimir sögðu þessa opinberun einkennast af „leiðsögn til hinna heilögu um hvernig þeir ættu að halda hvíldardaginn heilagan og hvernig eigi að fasta og biðja.“

1–4, Hinir heilögu í Síon, sem staðfastir eru, munu blessaðir; 5–8, Þeir skulu elska Drottin og þjóna honum, og halda boðorð hans; 9–19, Með því að halda dag Drottins heilagan, eru hinir heilögu blessaðir stundlega og andlega; 20–24, Hinir réttlátu fá fyrirheit um frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.

1 Sjá, segir Drottinn, blessaðir eru þeir, sem hafa komið til þessa lands með einbeittu augliti á dýrð mína, í samræmi við boð mín.

2 Því að þeir sem lifa munu erfa jörðina, og þeir sem deyja skulu hvílast frá öllu erfiði sínu og verk þeirra munu fylgja þeim. Og þeir munu hljóta kórónu í híbýlum föður míns, sem ég hef fyrirbúið þeim.

3 Já, blessaðir eru þeir, sem fótfestu eiga í landi Síonar og hlýtt hafa fagnaðarerindi mínu, því að þeir skulu hljóta gæði jarðarinnar í laun og í styrk sínum mun hún bera þau fram.

4 Og þeir munu einnig krýndir blessunum að ofan, já, fyrirmælum ófáum, og opinberunum á sínum tíma — þeir, sem eru staðfastir og kostgæfnir frammi fyrir mér.

5 Þess vegna gef ég þeim boðorð, er hljóðar svo: Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum, huga og styrk. Og í nafni Jesú Krists skalt þú þjóna honum.

6 Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Þú skalt ekki stela, ekki drýgja hór, ekki morð fremja, né nokkuð því líkt.

7 Þú skalt færa Drottni Guði þínum þakkir í öllu.

8 Þú skalt færa Drottni Guði þínum fórn í réttlæti, já, sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.

9 Og þú skalt fara í hús bænarinnar, svo að þú getir enn betur haldið þér óflekkuðum frá heiminum, og færa sakramenti þín á helgum degi mínum —

10 Því að sannlega er þessi dagur útnefndur yður til hvíldar frá erfiði yðar og til að votta hinum æðsta hollustu yðar —

11 Engu að síður skulu heit yðar gefin í réttlæti alla daga og allar stundir —

12 En hafið hugfast, að á þessum Drottins degi skuluð þér færa hinum æðsta fórnargjafir yðar og sakramenti og játa syndir yðar fyrir bræðrum yðar og fyrir Drottni.

13 Og þennan dag skuluð þér ekkert annað gjöra. Tilreiðið mat yðar af látleysi hjartans, svo að fasta yðar sé fullkomin, eða með öðrum orðum, svo að gleði yðar verði algjör.

14 Sannlega er þetta fasta og bæn, eða með öðrum orðum, gleði og bæn.

15 Og sem þér gjörið þetta með þakkargjörð, með léttu hjarta og svip, ekki með hlátri miklum, því að það er synd, heldur með glöðu hjarta og léttum svip —

16 Sannlega segi ég, að sem þér gjörið þetta, svo verður fylling jarðarinnar yðar, dýr merkurinnar og fuglar loftsins, og það, sem klifrar í trjánum og gengur á jörðunni —

17 Já, og jurtirnar og gæði jarðarinnar, hvort heldur er til fæðu eða klæðis, til húss eða hlöðu, til aldingarða, matjurtagarða eða víngarða —

18 Já, allt, sem af jörðu kemur, hvert á sínum þroskatíma, er ætlað manninum til heilla og gagns, bæði til að þóknast auganu og gleðja hjartað —

19 Já, til fæðu og klæðis, til bragðs og ilms, til að styrkja líkamann og lífga sálina.

20 Og það er Guði gleðiefni að hafa gefið manninum allt þetta, því að í þeim tilgangi var það gjört, til að notast af forsjá, hvorki í óhófi né með áníðslu.

21 Og í engu misbýður maðurinn Guði, eða gegn engum tendrast heilög reiði hans, nema þeim, sem ekki játa hönd hans í öllu og ekki hlýða boðorðum hans.

22 Sjá, þetta er í samræmi við lögmálið og spámennina, ómakið mig þess vegna ekki framar varðandi þetta mál.

23 En lærið að sá, sem vinnur réttlætisverk, hlýtur sín laun, já, frið í þessum heimi, og eilíft líf í komanda heimi.

24 Ég, Drottinn, hef mælt þetta og andinn ber því vitni. Amen.