104. Kafli
Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í eða nálægt Kirtland Ohio, 23. apríl 1834, varðandi Sameinaða fyrirtækið (sjá formála að kafla 78 og 82). Tilefnið var líklega ráðsfundur meðlima Sameinaða fyrirtækisins, þar sem brýnar stundlegar þarfir kirkjunnar voru ræddar. Á fyrri fundi fyrirtækisins þann 10. apríl var ákveðið að leggja samtökin niður. Þessi opinberun veitir þá leiðsögn að þess í stað skyldi fyrirtækið endurskipulagt og eignum þess skipt á milli meðlima fyrirtækisins, og yrði það þeirra ráðsmennska. Í opinberuninni, undir leiðsögn Josephs Smith var nafninu Sameinaða fyrirtækið breytt í Sameiningarreglu.
1–10, Hinir heilögu, sem brjóta gegn sameiningarreglunni, munu fordæmdir; 11–16, Drottinn sér fyrir sínum heilögu á sinn hátt; 17–18, Lögmál fagnaðarerindisins stjórnar umönnun hinna fátæku; 19–46, Ráðsmennska og blessanir ýmissa bræðra tilgreindar; 47–53, Sameiningarreglan í Kirtland og reglan í Síon skulu starfa aðskildar; 54–66, Hin helga fjárhirsla Drottins stofnsett til prentunar á ritningunum; 67–77, Hin almenna fjárhirsla sameiningarreglunnar skal starfa á grundvelli almennrar samþykktar; 78–86, Þeir sem eru í sameiningarreglunni skulu greiða allar skuldir sínar, og Drottinn mun frelsa þá úr fjárhagsfjötrum.
1 Sannlega segi ég yður, vinir mínir, ég gef yður ráð og fyrirmæli varðandi allar eigur þeirrar reglu, sem ég bauð að skipulögð yrði og stofnsett, og vera skyldi sameiningarregla og ævarandi regla kirkju minni til heilla og mönnum til hjálpræðis, þar til ég kem —
2 Með því óhagganlega og óbreytanlega fyrirheiti, að sem þeir, er ég hef boðið, eru trúir, svo skuli þeir hljóta margfaldar blessanir —
3 En sem þeir eru ekki trúir, svo vofir yfir þeim bölvun.
4 En sem sumir þjóna minna hafa ekki haldið boðorðið, heldur rofið sáttmálann með ágirnd og hræsnisfullum orðum, svo hvílir yfir þeim þung og alvarleg bölvun.
5 Því að ég, Drottinn, hef ákvarðað í hjarta mínu, að sem einhver maður, er reglunni tilheyrir, reynist brotlegur, eða með öðrum orðum, rjúfi sáttmálann, sem þér eruð bundin, svo hvílir yfir honum bölvun í lífi hans og hann mun fótumtroðinn af hverjum sem ég vil —
6 Því að ég, Drottinn, læt ekki að mér hæða í þessu —
7 Og allt er þetta svo að hinir saklausu meðal yðar verði ekki dæmdir með hinum ranglátu og hinir seku meðal yðar komist ekki undan, vegna þess að ég, Drottinn, hef heitið yður dýrðarkórónu mér til hægri handar.
8 Sem þér þess vegna reynist brotlegir, svo fáið þér eigi umflúið heilaga reiði mína í lífi yðar.
9 Sem þér eruð útilokaðir vegna afbrota, svo fáið þér eigi umflúið hirtingu Satans fram að degi endurlausnarinnar.
10 Og ég gef yður nú vald einmitt frá þessari stundu, að reynist einhver maður meðal yðar í reglunni brotlegur og iðrist ekki hins illa, þá skuluð þér ofurselja hann hirtingu Satans, og hann mun ekkert vald hafa til að leiða illt yfir yður.
11 Þetta er viska mín. Þess vegna gef ég yður þau fyrirmæli, að þér komið málum yðar í lag og útnefnið hverjum manni sína ráðsmennsku —
12 Svo að sérhver maður gjöri mér grein fyrir þeirri ráðsmennsku, sem honum er útnefnd.
13 Því að æskilegt er, að ég, Drottinn, gjöri sérhvern mann ábyrgan sem ráðsmann þeirra jarðnesku blessana, sem ég hef gjört og fyrirbúið lífverum mínum.
14 Ég, Drottinn, þandi út himnana og skóp jörðina, mitt eigið handaverk. Og allt, sem þar er, er mitt.
15 Og ætlun mín er að sjá um mína heilögu, því að allt er mín eign.
16 En það verður að gjörast á minn hátt. Og sjá, þannig hef ég, Drottinn, ákvarðað að sjá um mína heilögu, að hinir fátæku verði upp hafnir með því að hinir ríku verði niðurlægðir.
17 Því að jörðin er auðug, af nógu er að taka og meira en það, já, ég gjörði allt til reiðu og hef gefið mannanna börnum sjálfræði.
18 Ef einhver maður tekur því af þeirri gnægð, sem ég hef gjört, og gefur ekki sinn hluta af því til hinna fátæku og þurfandi, í samræmi við lögmál fagnaðarerindis míns, skal hann ásamt hinum ranglátu í kvöl ljúka upp augum sínum í víti.
19 Og sannlega segi ég yður nú varðandi eigur reglunnar:
20 Lát útnefna þjóni mínum Sidney Rigdon ráðsmennsku staðarins, sem hann nú býr á, og lóð sútunarstöðvarinnar, honum til framfærslu, meðan hann starfar í víngarði mínum, já, að mínum vilja, þegar ég býð honum.
21 Og allt skal gjört að ráðum reglunnar og með einróma samþykkt eða rödd reglunnar, sem hefur aðsetur í landi Kirtlands.
22 Og þessa ráðsmennsku og blessun veiti ég þjóni mínum Sidney Rigdon honum til blessunar og niðjum hans eftir hann —
23 Og ég mun margfalda blessanir hans, svo sem hann reynist auðmjúkur fyrir mér.
24 Og enn, lát útnefna þjóni mínum Martin Harris ráðsmennsku landshluta þess, sem þjónn minn John Johnson fékk í skiptum fyrir fyrri arfleifð sína, fyrir hann og niðja hans eftir hann —
25 Og sem hann reynist trúr, svo mun ég margfalda blessanir hans og niðja hans eftir hann.
26 Og lát þjón minn Martin Harris helga fé sitt til boðunar orðs míns, eins og þjónn minn Joseph Smith yngri segir til um.
27 Og enn, lát þjón minn Frederick G. Williams hafa þann stað, sem hann nú býr á.
28 Og þjónn minn Oliver Cowdery hafi landið er liggur að húsinu, sem verða skal prentsmiðjan, sem er lóð númer eitt, og einnig lóðina, sem faðir hans býr á.
29 Og lát þjóna mína Frederick G. Williams og Oliver Cowdery hafa prentsmiðjuna og allt, sem henni tilheyrir.
30 Og þetta skal vera sú ráðsmennska, sem þeim er útnefnd.
31 Og sem þeir reynast trúir, sjá, svo mun ég blessa þá og margfalda blessanir þeirra.
32 Og þetta er upphaf þeirrar ráðsmennsku, sem ég hef útnefnt þeim og niðjum þeirra eftir þá.
33 Og sem þeir reynast trúir, svo mun ég úthella blessunum yfir þá og niðja þeirra eftir þá, já, margföldum blessunum.
34 Og enn, lát þjón minn John Johnson hafa húsið, sem hann býr í og arfleifðina, allt utan þá grund, sem frátekin var og tilheyrir arfleifðinni og ætluð er undir byggingu húsa minna, ásamt þeim lóðum, sem ánafnaðar hafa verið þjóni mínum Oliver Cowdery.
35 Og sem hann reynist trúr, svo mun ég margfalda blessanir hans.
36 Og það er vilji minn, að hann selji þær lóðir, sem ætlaðar eru til uppbyggingar borgar minna heilögu, eftir því sem rödd andans kunngjörir honum og samkvæmt ráði reglunnar og samþykkt reglunnar.
37 Og þetta er upphaf þeirrar ráðsmennsku, sem ég hef útnefnt honum, honum til blessunar og niðjum hans eftir hann.
38 Og sem hann reynist trúr, svo mun ég margfalda margfaldar blessanir hans.
39 Og enn, lát útnefna þjóni mínum Newel K. Whitney húsin og lóðina, sem hann nú býr á, og lóðina og bygginguna, þar sem verslunin er, og einnig lóðina, sem er á horninu sunnan við verslunina, og einnig lóðina, þar sem pottöskuverksmiðjan er staðsett á.
40 Og allt þetta hef ég útnefnt til ráðsmennsku þjóni mínum Newel K. Whitney, honum til blessunar og niðjum hans eftir hann, til heilla fyrir verslun reglu minnar, sem ég hef stofnsett fyrir stiku mína í landi Kirtlands.
41 Já, vissulega, þetta er sú ráðsmennska, sem ég hef útnefnt þjóni mínum N. K. Whitney, já, alla verslunina, honum og erindreka hans, og niðjum hans eftir hann.
42 Og sem hann reynist trúr þeim fyrirmælum, sem ég hef gefið honum, svo mun ég margfalda blessanir hans og niðja hans eftir hann, já, með margföldum blessunum.
43 Og enn, lát útnefna þjóni mínum Joseph Smith yngri lóðina, sem ákveðin er undir byggingu húss míns, sem er fjörutíu stangir á lengd og tólf á breidd, og einnig arfleifðina, sem faðir hans býr nú á —
44 Og þetta er upphaf þeirrar ráðsmennsku, sem ég hef útnefnt honum, honum og föður hans til blessunar.
45 Því að sjá, ég hef ætlað föður hans arfleifð, honum til framfærslu. Þess vegna skal hann talinn með húsi þjóns míns Josephs Smith yngri.
46 Og svo mun ég úthella blessunum yfir hús þjóns míns Josephs Smith yngri, sem hann reynist trúr, já, margföldum blessunum.
47 Og nú gef ég yður þau boð varðandi Síon, að þér séuð ekki lengur bundnir bræðrum yðar í Síon sem sameiningarregla nema á þennan hátt:
48 Þegar þér hafið komið málum yðar í lag, skuluð þér kallast Sameiningarregla Síonarstiku, Borg Kirtlands. Og bræður yðar, eftir að þeir hafa komið sínum málum í lag, skulu kallast Sameiningarregla Síonarborgar.
49 Og þeir skulu skipulagðir í eigin nöfnum, og eigin nafni, og reka viðskipti sín í eigin nafni, og eigin nöfnum —
50 Og þér skuluð reka viðskipti yðar í eigin nafni, og eigin nöfnum.
51 Og þetta hef ég boðið að gjört verði, yður til hjálpræðis og einnig þeim til hjálpræðis, vegna þess að þeir hafa verið hraktir burtu, og vegna þess sem koma skal.
52 Sáttmálarnir hafa verið rofnir með broti, ágirnd og hræsnisfullum orðum —
53 Þess vegna eruð þér leystir upp sem sameiningarregla með bræðrum yðar, svo að þér séuð frá þessari stundu aðeins bundnir þeim á þann hátt, sem ég sagði, með láni eins og ráð þessarar reglu er einhuga um og aðstæður yðar leyfa og rödd ráðsins segir til um.
54 Og fyrirmæli gef ég yður enn varðandi ráðsmennsku þá, sem ég hef útnefnt yður.
55 Sjá, allar þessar eignir eru mínar, ella er trú yðar einskisverð, og þér eruð fundnir hræsnarar, og sáttmálarnir, sem þér hafið gjört við mig, eru rofnir —
56 Og séu eignirnar mínar, þá eruð þér ráðsmenn, ella eruð þér engir ráðsmenn.
57 En sannlega segi ég yður, ég hef útnefnt yður sem ráðsmenn húss míns, já, vissulega ráðsmenn.
58 Og í þeim tilgangi hef ég boðið yður að koma á skipulagi, já, jafnvel að prenta orð mín, fyllingu ritninga minna, opinberanirnar, sem ég hef gefið yður og sem ég mun síðar öðru hverju gefa yður —
59 Í þeim tilgangi að byggja upp kirkju mína og ríki á jörðu og búa fólk mitt undir þann tíma, er ég mun dvelja með því, tíma, sem er í nánd.
60 Og þér skuluð gjöra fjárhirslu til reiðu fyrir yður og helga hana nafni mínu.
61 Og þér skuluð tilnefna einn yðar til að sjá um fjárhirsluna, og hann skal vígður þeirri blessun.
62 Og innsigli skal vera á fjárhirslunni og allt, sem heilagt er, skal afhent fjárhirslunni, og enginn yðar á meðal skal kalla það eða nokkurn hluta þess sitt eigið, því að það skal tilheyra yður öllum sem einum.
63 Og ég gef yður það einmitt frá þessari stundu. Og sjáið nú um að þér farið og notið þá ráðsmennsku, sem ég hef útnefnt yður, að undanskildu því, sem heilagt er, í þeim tilgangi að prenta þá helgu hluti, sem ég hef talað um.
64 Og arður af hinu heilaga skal geymdur í fjárhirslunni og innsigli skal á því. Og enginn skal nota það né taka það úr fjárhirslunni, né heldur skal innsiglið rofið, sem á það verður sett, nema til komi samþykki reglunnar eða fyrirmæli.
65 Og þannig skuluð þér varðveita arðinn af hinu helga í fjárhirslunni í heilögum tilgangi.
66 Og hún skal nefnast hin helga fjárhirsla Drottins, og innsigli skal á henni haft, svo að hún verði heilög og helguð Drottni.
67 Og enn fremur skal önnur fjárhirsla höfð til reiðu og féhirðir tilnefndur til að gæta hennar og innsigli skal á hana sett —
68 Og allt fé, sem þér takið á móti í ráðsmennsku yðar, vegna endurbóta á eignum þeim sem ég hef útnefnt yður, af húsum, landi eða búpeningi, eða af öllu utan hinna helgu rita, sem ég hef varðveitt fyrir sjálfan mig í heilögum tilgangi, skal sett í fjárhirsluna jafnóðum og þér fáið peninga í hendur, í hundruðum, eða í fimmtíu, eða í tuttugu, eða í tíu eða í fimm.
69 Eða með öðrum orðum, fái einhver yðar fimm dali, skal hann láta það í fjárhirsluna, eða fái hann tíu, eða tuttugu, eða fimmtíu, eða hundrað, skal hann gjöra hið sama —
70 Og enginn yðar á meðal skal segja, að það sé sitt eigið, því að hvorki það né hluti þess mun kallast hans.
71 Og enginn hluti þess skal notaður eða tekinn úr fjárhirslunni, nema til komi rödd eða almenn samþykkt reglunnar.
72 Og þetta skal vera rödd eða almenn samþykkt reglunnar — að sérhver yðar á meðal segi við féhirðinn: Ég þarfnast þess mér til hjálpar í ráðsmennsku minni —
73 Og séu það fimm dalir eða séu það tíu dalir eða tuttugu eða fimmtíu eða hundrað, skal féhirðirinn gefa honum þá upphæð, sem hann krefst, honum til hjálpar við ráðsmennsku hans —
74 Þar til hann reynist brotlegur og það er greinilega staðfest frammi fyrir ráði reglunnar, að hann sé ótrúr og grunnhygginn ráðsmaður.
75 En svo lengi sem hann nýtur fullrar aðildar og er trúr og hygginn ráðsmaður, skal það verða féhirðinum tákn um að synja honum ekki.
76 En verði um brot að ræða, skal féhirðirinn háður ráðinu og rödd reglunnar.
77 Og reynist féhirðirinn ótrúr og grunnhygginn ráðsmaður, skal hann undirgefinn ráðinu og rödd reglunnar, og honum skal vikið úr stöðu sinni og annar tilnefndur í hans stað.
78 Og sannlega segi ég yður enn varðandi skuldir yðar: Sjá, það er vilji minn að þér greiðið allar skuldir yðar.
79 Og það er vilji minn, að þér auðmýkið yður fyrir mér og hljótið þessa blessun með kostgæfni yðar, auðmýkt og trúarbæn.
80 Og sem þér sýnið kostgæfni og auðmýkt og iðkið trúarbæn, sjá, svo mun ég milda hjörtu lánardrottna yðar, þar til ég sendi yður úrræði til bjargar.
81 Skrifið þess vegna í skyndi til New York og skrifið eins og andi minn segir yður, og ég mun milda hjörtu lánardrottna yðar, svo að það hverfi úr huga þeirra að leiða þrengingar yfir yður.
82 Og sem þér eruð auðmjúkir og trúir og ákallið nafn mitt, sjá, svo mun ég veita yður sigur.
83 Ég gef yður fyrirheit, að þér verðið í þetta sinn leystir úr fjötrum yðar.
84 Ef þér hafið möguleika á peningaláni, hundruðum eða þúsundum, já, þar til þér hafið nægilegt til að leysa yður úr fjötrum, þá er það réttur yðar.
85 Og í þetta eina sinn skuluð þér veðsetja eigur þær, sem ég hef falið yður í hendur, með undirskrift yðar eftir almenna samþykkt eða á annan hátt, eins og yður þykir best henta.
86 Ég veiti yður þann rétt í þetta sinn, og sjá. Ef þér gjörið það sem ég hef lagt fyrir yður, samkvæmt boði mínu, er allt þetta mitt og þér eruð ráðsmenn mínir, og húsbóndinn leyfir ekki að hús hans sé leyst upp. Vissulega ekki. Amen.