Ritningar
Kenning og sáttmálar 36


36. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Edwards Partridge í grennd við Fayette, New York, 9. desember 1830 (sjá formála að kafla 35). Saga Josephs Smith segir, að Edward Partridge „[sé] fyrirmynd í guðrækni og einn af mikilmennum Drottins.“

1–3, Drottinn leggur hendur sínar yfir Edward Partridge með hendi Sidneys Rigdon; 4–8, Hver sá, sem tekur á móti fagnaðarerindinu og prestdæminu, er kallaður til að fara og prédika.

1 Svo segir Drottinn Guð, hinn máttugi Ísraels: Sjá, ég segi þér, þjónn minn Edward, að þú ert blessaður og syndir þínar eru þér fyrirgefnar, og þú ert kallaður til að boða fagnaðarerindi mitt sem með lúðurhljómi —

2 Og ég mun leggja hönd mína yfir þig með hendi þjóns míns Sidneys Rigdon, og þú munt meðtaka anda minn, heilagan anda, sjálfan huggarann, sem mun kenna þér friðsæld ríkisins —

3 Og þetta skalt þú boða hárri röddu og segja: Hósanna, blessað sé nafn hins æðsta Guðs!

4 Og nú gef ég þér þessa köllun og þessi boð varðandi alla menn —

5 Að allir þeir, sem koma fyrir þjóna mína Sidney Rigdon og Joseph Smith yngri og meðtaka þessa köllun og þessi boð, skuli vígðir og sendir út til að prédika hið ævarandi fagnaðarerindi á meðal þjóðanna —

6 Hrópa iðrun og segja: Bjargið yður frá þessari rangsnúnu kynslóð og komið úr eldinum og fyrirlítið sjálf klæðin, sem flekkuð eru af holdinu.

7 Og það boð skal gefa öldungum kirkju minnar, að vígja megi og senda út sérhvern mann, sem vill meðtaka þetta af einlægu hjarta. Já, eins og ég hef talað.

8 Ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Girðið þess vegna lendar yðar og ég mun skyndilega koma til musteris míns. Já, vissulega. Amen.