Ritningar
Kenning og sáttmálar 34


34. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Orsons Pratt, í Fayette, New York, 4. nóvember 1830. Bróðir Pratt var þá nítján ára. Hann hafði snúist til trúar og verið skírður, þegar hann fyrst heyrði boðun hins endurreista fagnaðarerindis hjá eldri bróður sínum, Parley P. Pratt, sex vikum fyrr. Þessi opinberun var meðtekin á heimili Peters Whitmer eldri.

1–4, Hinir staðföstu verða synir Guðs með friðþægingunni; 5–9, Boðun fagnaðarerindisins greiðir síðari komunni veginn; 10–12, Spádómur fæst með krafti heilags anda.

1 Sonur minn Orson, hlýð á og heyr og tak eftir hvað ég, Drottinn Guð, mun til þín mæla, já, sjálfur Jesús Kristur, lausnari þinn —

2 Ljós og líf heimsins, ljós sem skín í myrkrinu og myrkrið skynjar það ekki —

3 Sem elskaði svo heiminn, að hann gaf líf sitt, svo að allir þeir, sem trúa myndu, gætu orðið synir Guðs. Þess vegna ert þú sonur minn —

4 Og blessaður ert þú vegna trúar þinnar —

5 Og blessaður ert þú enn frekar vegna þess að ég hef kallað þig til að boða fagnaðarerindi mitt —

6 Til að lyfta upp raust þinni sem með lúðurhljómi, bæði lengi og hátt, og hrópa iðrun yfir spilltri og rangsnúinni kynslóð og greiða Drottni veg fyrir síðari komu hans.

7 Því að sjá, sannlega, sannlega segi ég þér, að stundin nálgast er ég mun koma í skýi, með veldi og mikilli dýrð.

8 Og það verður mikill dagur, er ég kem, því að allar þjóðir skulu skjálfa.

9 En áður en sá mikli dagur rennur upp, mun sólin sortna og tunglið breytast í blóð, stjörnurnar neita að gefa skin sitt og sumar munu falla, og mikil tortíming bíður hinna ranglátu.

10 Lyft þess vegna upp raust þinni og hlíf þér ekki, því að Drottinn Guð hefur talað. Spá þess vegna, og það mun gefast með krafti heilags anda.

11 Og sért þú staðfastur, sjá, þá er ég með þér uns ég kem —

12 Og sannlega, sannlega segi ég þér, ég kem skjótt. Ég er Drottinn þinn og lausnari þinn. Já, vissulega. Amen.