Ritningar
Kenning og sáttmálar 70


70. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, 12. nóvember 1831. Saga spámannsins segir að fjórar ráðstefnur hafi verið haldnar frá 1. til og með 12. nóvember. Á þeirri síðustu var rætt um hið mikla vægi opinberananna sem seinna yrðu gefnar út sem Boðorðabókin ogsíðan sem Kenning og sáttmálar. Þessi opinberun var gefin eftir að ráðstefnan samþykkti, að opinberanirnar væru „virði allra auðæfa jarðar fyrir kirkjuna.“Saga Josephs Smith talar um opinberanirnar sem „grundvöll kirkjunnar á þessum síðustu dögum og ávinning fyrir heiminn, sem sýni, að mönnum sé enn á ný treyst fyrir lyklunum að leyndardómum ríkis frelsara okkar.“

1–5, Ráðsmenn útnefndir til að birta opinberanirnar; 6–13, Þeir sem vinna að andlegum málum eru verðir launa sinna; 14–18, Hinir heilögu séu jafnir í stundlegum efnum.

1 Sjá, og hlýðið á, ó, þér íbúar Síonar og allir þér í kirkju minni, sem í fjarlægð eruð og heyrið orð Drottins, sem ég gef þjóni mínum Joseph Smith yngri, og einnig þjóni mínum Martin Harris, og einnig þjóni mínum Oliver Cowdery, og einnig þjóni mínum John Whitmer, og einnig þjóni mínum Sidney Rigdon, og einnig þjóni mínum William W. Phelps, og gefin eru þeim sem boð.

2 Því að ég gef þeim boð. Hlýðið þess vegna á og heyrið, því að svo mælir Drottinn til þeirra —

3 Ég, Drottinn, hef útnefnt þá og vígt þá ráðsmenn yfir opinberunum þeim og boðum, sem ég hef gefið þeim og sem ég mun síðar gefa þeim —

4 Og ég mun krefja þá reikningsskila fyrir þessa ráðsmennsku á degi dómsins.

5 Fyrir því hef ég útnefnt þá, og þetta er starf þeirra í kirkju Guðs, að sjá um þau og það, sem þeim fylgir, já, hagnaðinn af þeim.

6 Þess vegna gef ég þeim boð, að þeir skuli hvorki afhenda kirkjunni þetta né heiminum —

7 Þar eð þeir eigi að síður fá inn meira en fyrir nauðsynjum sínum og þörfum, skal það sett í forðabúr mitt —

8 Og hagnaðurinn skal helgaður íbúum Síonar og niðjum þeirra, svo sem þeir verða erfingjar samkvæmt lögmálum ríkisins.

9 Sjá, þetta er það sem Drottinn krefst af sérhverjum manni í ráðsmannsstarfi hans, já, eins og ég, Drottinn, hef útnefnt eða mun síðar útnefna hverjum manni.

10 Og sjá, enginn er undanskilinn þessu lögmáli, sem tilheyrir kirkju hins lifanda Guðs —

11 Já, hvorki biskup né erindrekinn, sem annast forðabúr Drottins, né sá, sem útnefndur er ráðsmaður stundlegra hluta.

12 Sá, sem tilnefndur er til að annast hið andlega, hann er verður launa sinna, já, eins og þeir, sem tilnefndir eru til ráðsmennsku stundlegra hluta —

13 Já, jafnvel enn ríkulegar, og gnægð þess margfaldast þeim fyrir áhrif andans.

14 Engu að síður skuluð þér vera jafnir í stundlegum efnum, og það án tregðu, ella mun gnægð áhrifa andans haldið eftir.

15 Þessi boð gef ég þjónum mínum þeim til heilla, meðan þeir eru hér, sem vitni um blessanir mínar yfir þeim og sem laun fyrir kostgæfni þeirra og þeim til öryggis —

16 Til fæðu og klæðis, til arfleifðar, til húss og lands, við hvaða aðstæður sem ég, Drottinn, set þá í, og hvert sem ég, Drottinn, mun senda þá.

17 Því að þeir hafa verið trúir í mörgu og hafa gjört vel, svo fremi að þeir hafi ekki syndgað.

18 Sjá, ég, Drottinn, er miskunnsamur og mun blessa þá, og þeir munu ganga inn til gleði þessara hluta. Já, vissulega. Amen.