Ritningar
Kenning og sáttmálar 41


41. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til kirkjunnar í Kirtland, Ohio, 4. febrúar 1831. Þessi opinberun segir spámanninum og öldungum kirkjunnar að biðja til að meðtaka „lögmál“ Guðs (sjá kafla 42). Joseph Smith var nýkominn til Kirtlands frá New York og Leman Copley, meðlimur kirkjunnar frá Thomson Ohio, sem var skammt frá, „óskaði þess að bróðir Joseph og Sidney [Rigdon] …byggju hjá honum og að hann myndi sjá þeim fyrir húsnæði og vistum.“ Eftirfarandi opinberun gerir það ljóst hvar Joseph og Sidney ættu að búa og kallar einnig Edward Partridge sem fyrsta biskup kirkjunnar.

1–3, Öldungarnir munu stjórna kirkjunni með anda opinberunar; 4–6, Sannir lærisveinar munu meðtaka og halda lögmál Drottins; 7–12, Edward Partridge er nefndur sem biskup kirkjunnar.

1 Hlýðið á og heyrið, ó, þér fólk mitt, segir Drottinn og Guð yðar, þér, sem ég hef unun af að blessa með hinni mestu allra blessana, þér, sem hlýðið á mig. Og á yður, sem hlýðið ekki á mig, en segist játast nafni mínu, mun ég leggja hina þyngstu bölvun.

2 Hlýðið á, ó, þér öldungar kirkju minnar, sem ég hef kallað, sjá, ég gef yður boð um að safnast saman og sameinast um orð mitt —

3 Og með trúarbæn yðar skuluð þér taka á móti lögmáli mínu, svo að þér megið vita hvernig stjórna skal kirkju minni og hafa allt í reglu frammi fyrir mér.

4 Og ég mun vera stjórnandi yðar, þegar ég kem, og sjá, ég kem skjótt, og þér skuluð sjá um að lögmál mitt sé haldið.

5 Sá, sem tekur á móti lögmáli mínu og heldur það, hann er lærisveinn minn. En sá, sem segist hafa tekið á móti því og heldur það ekki, sá hinn sami er ekki lærisveinn minn, og honum skal vísað burt frá yður —

6 Því að ekki er rétt, að það, sem tilheyrir börnum ríkisins, sé gefið þeim sem óverðugir eru, eða hundum, eða að perlum sé kastað fyrir svín.

7 Og enn fremur er það rétt að reisa ætti hús fyrir þjón minn Joseph Smith yngri, til að búa í og vinna við þýðingar.

8 Og enn fremur er það rétt, að þjónn minn Sidney Rigdon fái lifað eins og honum þóknast, svo fremi að hann haldi boðorð mín.

9 Og enn fremur hef ég kallað þjón minn Edward Partridge, og ég gef fyrirmæli um, að hann verði tilnefndur með rödd kirkjunnar og vígður biskup hennar, að hann yfirgefi verslun sína og verji öllum tíma sínum í þjónustu kirkjunnar —

10 Og líti eftir öllum hlutum eins og honum verður falið í lögum mínum, þann dag, sem ég veiti þau.

11 Og svo skal vera, vegna þess að hjarta hans er hreint fyrir mér, því að hann líkist Natanael til forna, sem engin svik eru í.

12 Þessi orð eru yður gefin, og þau eru hrein frammi fyrir mér. Gætið þess vegna að því hvernig þér haldið þau. Því að sálir yðar skulu svara fyrir þau á dómsdegi. Já, vissulega. Amen.