Ritningar
Kenning og sáttmálar 100


100. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith og Sidney Rigdon í Perrysburg, New York, 12. október 1833. Bræðurnir tveir höfðu undanfarið verið lengi fjarvistum frá fjölskyldum sínum og höfðu áhyggjur af þeim.

1–4, Joseph og Sidney prédiki fagnaðarerindið til hjálpræðis sálum; 5–8, Þeim mun gefið einmitt á réttri stundu hvað segja skal; 9–12, Sidney skal vera talsmaður og Joseph skal vera opinberari og gefa máttugan vitnisburð; 13–17, Drottinn mun vekja upp hreint fólk og hinir hlýðnu munu frelsaðir verða.

1 Sannlega, svo segi ég, Drottinn, við yður vini mína Sidney og Joseph: Fjölskyldum yðar líður vel. Þær eru í mínum höndum og ég mun fara með þær eins og ég tel best, því að allt vald er mér gefið.

2 Fylgið mér þess vegna og hlustið á þau ráð, sem ég gef yður.

3 Sjá og tak eftir, ég á marga á þessum slóðum, í nærliggjandi héruðum, og áhrifamiklar dyr munu opnast á nálægum svæðum hér í austurhluta landsins.

4 Þess vegna hef ég, Drottinn, látið yður koma til þessa staðar, því að það var mér æskilegt til hjálpræðis sálunum.

5 Sannlega segi ég yður þess vegna: Hefjið upp raust yðar til þessa fólks. Mælið fram það sem ég blæs yður í brjóst, og þér þurfið ekki að blygðast yðar fyrir mönnum —

6 Því að yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal.

7 En boð gef ég yður, að þér skuluð boða allt, sem þér boðið í mínu nafni, með hjartans hátíðleik og andans hógværð í öllu.

8 Og ég gef yður það fyrirheit, að sem þér gjörið þetta, svo mun heilögum anda úthellt til að bera vitni um allt það, er þér mælið.

9 Og mér þykir æskilegt, að þú, þjónn minn Sidney, sért talsmaður fyrir þetta fólk. Já, sannlega, ég mun vígja þig til þeirrar köllunar, já, til að vera talsmaður þjóns míns Josephs.

10 Og ég mun gefa honum kraft til að gefa máttugan vitnisburð.

11 Og ég mun gefa þér kraft til að vera máttugur í útskýringum þínum á öllum ritningum, svo að þú getir verið talsmaður hans, og hann skal vera þér opinberari, svo að þú vitir með vissu allt er tilheyrir ríki mínu á jörðu.

12 Hald þess vegna áfram ferð yðar og gleðjist í hjarta, því að sjá og tak eftir, ég er með yður allt til enda.

13 Og nú tala ég til yðar orð varðandi Síon. Síon skal endurleyst, þó að hún sé öguð skamma stund.

14 Bræður yðar, þjónar mínir Orson Hyde og John Gould, eru í mínum höndum, og svo fremi þeir haldi boðorð mín munu þeir hólpnir.

15 Lát því huggast, því að allt mun samverka þeim til góðs, sem ganga grandvarir, og kirkjunni til helgunar.

16 Því að ég mun upp vekja mér til handa hreinan lýð, sem mun þjóna mér í réttlæti —

17 Og allir, sem ákalla nafn Drottins og halda boðorð hans, munu hólpnir verða. Já, vissulega. Amen.