2010–2019
Annað æðsta boðorðið
Aðalráðstefna október 2019


Annað æðsta boðorðið

Mesta gleði okkar á rætur í því að liðsinna bræðrum okkar og systrum.

Kæru bræður og systur, þakka ykkur fyrir allt sem þið gerið til hjálpar við að safna saman Ísrael, beggja vegna hulunnar, styrkja fjölskyldu ykkar og blessa hina þurfandi. Þakka ykkur fyrir að vera sannir fylgjendur Jesú Krists.1 Þið þekkið og hafið unun af því að lifa eftir æðstu boðorðum hans tveimur, um að elska Guð og náunga ykkar.2

Á liðnum sex mánuðum höfum ég og systir Nelson hitt þúsundir heilagra á ferð okkar um Mið-, og Suður-Ameríku, til Kyrrahafseyja og hinna ýmsu borga í Bandaríkjunum. Á ferð okkar vonumst við til að efla ykkur trú. Við komum þó alltaf til baka tvíefld af trú þeirra meðlima og vina sem við hittum. Mætti ég miðla ykkur þremur nýlegum innihaldsríkum stundum frá ferðum okkar?

Ljósmynd
Nelson forseti í Nýja Sjálandi
Ljósmynd
Nelson forseti í Nýja Sjálandi

Í maí ferðuðumst ég og systir Nelson með öldungi Gerrit W. Gong og systur Susan Gong til Suður-Kyrrahafseyja. Þegar við vorum í Auckland, Nýja Sjálandi, nutum við þess heiðurs að hitta múslimaklerka frá tveimur moskum í Christchurch á Nýja Sjálandi, þar sem saklausir tilbiðjendur voru skotnir tveimur mánuðum áður í hræðilegu ofbeldisverki.

Við vottuðum þessum bræðrum, annarrar trúar, samúð okkar og staðfestum sameiginlega hollustu okkar við trúfrelsið.

Við buðum líka fram vinnuafl sjálfboðaliða og dálítið fjármagn til að endurbyggja moskurnar. Samskipti okkar við þessa múslímsku leiðtoga voru afar ljúf og bróðurleg.

Ljósmynd
Viðtakendur hjólastóla í Argentínu
Ljósmynd
Viðtakendur hjólastóla í Argentínu

Í ágúst vorum ég og systir Nelson með öldungi Quentin L. og systur Mary Cook í Buenos Aires, Argentínu og ég hitti einstaklinga – sem flestir voru ekki okkar trúar – er höfðu orðið fyrir straumhvörfum í lífinu, vegna hjólastóla sem Hjálparstofnun Síðari daga heilagra hafði gefið þeim. Við vorum snortin þegar þau tjáðu gleði og þakklæti fyrir að geta komist leiðar sínar að nýju.

Þriðja dýrmæta stundin átti sér stað hér í Salt Lake City, fyrir einungis nokkrum vikum. Hún fólst í sérstöku bréfi sem mér barst frá stúlku á afmæli mínu, sem ég kalla Mary – 14 ára.

Mary skrifaði um það sem hún og ég eigum sameiginlegt: „Þú átt tíu börn. Við eigum tíu börn. Þú talar mandarínsku. Sjö barnanna í fjölskyldu minni, og líka ég sjálf, vorum ættleidd frá Kína, svo mandarínska er okkar fyrsta mál. Þú ert hjartaskurðlæknir. Systir mín hefur farið í tvær miklar hjartaaðgerðir. Þú kannt vel við tveggja klukkustunda kirkju. Við kunnum vel við tveggja klukkustunda kirkju. Þú hefur fullkomna tónhæð. Bróðir minn hefur líka fullkomna tónhæð. Hann er blindur eins og ég er.“

Orð Mary snertu mig djúpt og opinberuðu ekki aðeins ríkan anda hennar, heldur líka helgandi áhrif móður hennar og föður.

Síðari daga heilagir og aðrir fylgjendur Jesú Krists, eru alltaf að leita leiða til að aðstoða, uppörva og elska aðra. Þau sem fúslega vilja nefnast fólk Drottins, eru „fús að bera hver annars byrðar, … syrgja með syrgjendum … og hugga þá, sem huggunar þarfnast.“3

Þeir reyna sannlega að lifa eftir tveimur æðstu boðorðunum. Þegar við elskum Guð af öllu okkar hjarta, beinir hann hjarta okkar að velferð annarra á dásamlegan og dyggðugan hátt.

Ómögulegt væri að mæla umfang þeirrar þjónustu sem Síðari daga heilagir inna af hendi um allan heim, dag hvern á hverju ári, en það er mögulegt að mæla góðverk kirkjunnar sem stofnunar, við að blessa karla og konur – stúlkur og drengi – sem hafa þörf fyrir hjálparhönd.

Útrás hjálparstarfs kirkjunnar fór af stað árið 1984. Síðan fastaði kirkjan um heim allan, til að safna fé til að liðsinna þeim sem urðu illa úti í miklum þurrkum í Austur-Afríku. Kirkjumeðlimir gáfu 6.4 milljónir dollara á þessum eina degi föstu.

Ljósmynd
Öldungur Ballard í Eþíópíu á þeim tíma

Þá voru öldungur M. Russell Ballard og bróðir Glenn L. Pace sendir til Eþíópíu til að meta hvernig best væri að nota þessa helgu sjóði. Það verkefni reyndist upphaf þess sem síðar yrði þekkt sem Hjálparstofnun Síðari daga heilagra.

Frá þeim tíma, hefur Hjálparstofnun kirkjunnar ánafnað yfir tveimur milljörðum dollara til hjálpar nauðstöddum víða um heim. Þessi aðstoð er veitt burt séð frá kirkjuaðild, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð, kyni eða stjórnmálaskoðunum.

Þetta er ekki allt. Við elskum og lifum eftir hinu ævagamla lögmáli föstu, til að liðsinna þeim meðlimum kirkju Drottins sem eiga í bágindum.4 Við sleppum því að borða, til að hjálpar hinum hungruðu. Einn dag í hverjum mánuði neytum við ekki matar og gefum andvirði hans (og meira) til hjálpar nauðstöddum.

Heimsókn mín til Vestur-Afríku árið 1986 líður mér aldrei úr minni. Mikill fjöldi hinna heilögu komu í samkomuhús okkar. Þótt þeir ættu litlar veraldlegar eigur, voru flestir þeirra klæddir tandurhreinum hvítum fatnaði.

Ég spurði stikuforsetann hvernig hann annaðist meðlimi sem hefðu svo litlu úr að spila. Hann svaraði að biskupar þeirra væru vel kunnugir fólkinu. Ef meðlimir hefðu ráð á tveimur máltíðum á dag, var ekki þörf á neinni aðstoð. Ef þeir hins vegar höfðu einungis ráð á einni máltíð eða minna – jafnvel með aðstoð fjölskyldu sinnar – sáu biskuparnir þeim fyrir matvælum, fjármögnuðum með föstufórnum. Hann bætti síðan við þessari merkilegu staðreynd: Framlag þeirra til föstufórna er yfirleitt meira en sem nemur útgjöldum þeirra. Afgangurinn var síðan sendur til fólks annarsstaðar, sem bjó við meiri neyð. Þessir dyggu afrísku heilagir kenndu mér góða lexíu um áhrifamátt lögmálsins og anda föstu.

Við, sem meðlimir kirkjunnar, finnum skyldleika með þeim sem á einhvern hátt þjást.5 Við erum öll bræður og systur, þar sem við erum synir og dætur Guðs. Við hlítum þessari áminningu Gamla testamentisins: „Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka.“6

Við reynum líka að lifa eftir þeirri kenningu Drottins Jesú Krists sem rituð er í Matteus 25:

„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín. …

… Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“7

Ég ætla einungis að greina frá fáeinum dæmum um hvernig kirkjan fylgir þessum kenningum frelsarans.

Ljósmynd
Forðabúr biskups

Kirkjan starfrækir 124 forðabúr biskups um allan heim, til að draga úr hungri. Frá þeim eru um það bil 400.000 matarpantanir gefnar á hverju ári til einstaklinga í neyð. Á stöðum þar sem ekkert forðabúr er fyrir hendi, greiða biskupar og greinarforsetar með föstufé kirkjunnar, til að sjá nauðstöddum meðlimum fyrir matvælum og vistum.

Hungrið nær þó langt út fyrir mörk kirkjunnar. Það fer vaxandi um allan heim. Nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að fjöldi vannærðra í heiminum er nú yfir 820 milljónir – sem er næstum einn af hverjum níu íbúum jarðarinnar.8

Hve sláandi tölfræði! Hve þakklátir við erum fyrir framlög ykkar. Þökk sé ykkar einlæga örlæti, að milljónir víða um heim fái matvæli, fatnað, bráðabirgða skjól, hjólastóla, lyf, hreint vatn og fleira.

Marga sjúkdóma víða um heim má rekja til mengaðs vatns. Fram að þessu hefur hjálparstarf kirkjunnar stuðlað að því að hreint vatn sé fyrir hendi í hundruða samfélaga í 76 löndum.

Verkefni í Luputa í Austur-Kongó er gott dæmi um þetta. Íbúafjöldi þar var yfir 100.000 og ekkert rennandi vatn var þar í bæ. Bæjarbúar urðu að ganga langar leiðir að brunnum með ómenguðu vatni. Þótt fjallalind hefði fundist í 29 kílómetra fjarlægð, gátu íbúar bæjarins ekki reglubundið nálgast það vatn.

Ljósmynd
Skurðir grafnir í leit að vatni

Þegar trúboðar hjálparstarfs okkar fréttu af þessari áskorun, fengu þeir leiðtoga Luputa til liðs við sig og urðu sér úti um efni og þjálfun til að leiða vatnið í leiðslum til bæjarins. Íbúar Luputa vörðu þremur árum við að grafa eins metra djúpan skurð í gegnum grjót og frumskóg. Sameiginlegt átak varð til þess að hinn gleðilegi dagur rann loks upp, að ferskt, hreint vatn stóð öllum til boða í bænum.

Ljósmynd
Vatnsburður

Kirkjan hjálpar einnig flóttafólki, hvort heldur vegna borgaralegra átaka, náttúruhamfara eða trúarofsókna. Yfir 70 milljónir manna eru nú á flótta frá heimilum sínum.9

Ljósmynd
Þjónusta fyrir flóttamenn

Á árinu 2018 einu saman sá kirkjan flóttafólki í 56 löndum fyrir neyðarbirgðum. Auk þess bjóða margir kirkjumeðlimir sig fram við að hjálpa flóttafólki að aðlagast nýjum samfélögum. Við þökkum öllum þeim ykkar, sem liðsinna þeim sem reyna að koma sér upp nýjum heimilum.

Ljósmynd
Fataúthlutun

Örlát framlög til sölustaða Deseret Industries í Bandaríkjunum gera söfnun og flokkun hundruð tonna af fatnaði mögulega á hverju ári. Þótt biskupar staða noti þessar miklu birgðir til að hjálpa nauðstöddum meðlimum, þá er megnið af þeim gefnar öðrum hjálparstofnunum, til dreifingar um allan heim.

Einungis á síðasta ári, veitti kirkjan meira en 300.000 manns í 35 löndum augnlæknisþjónustu, þúsundum mæðra í 39 löndum nýburaumönnun og gaf yfir 50.000 manns í tugum landa hjólastóla.

Kirkjan er kunn fyrir að vera meðal þeirra fyrstu sem bregðast við þegar hörmungar skella yfir. Leiðtogar kirkjunnar og starfsfólk á viðkomandi stöðum gera áætlanir, jafnvel áður en fellibylur skellur á, um hvernig standa skuli að afhendingu hjálpargagna og sjálfboðastarfi í þágu þeirra sem hafa orðið illa úti.

Ljósmynd
Þjónusta Hjálparhanda

Einungis á síðasta ári vann kirkjan að yfir 100 hjálparstarfs-verkefnum víða um heim og liðsinnti fórnarlömbum fellibylja, eldsvoða, flóða, jarðskjálfta og annarra hörmunga. Alltaf þegar mögulegt er, fara kirkjumeðlimir í gulum vestum Hjálparhanda í miklum fjölda til hjálpar þeim sem hafa orðið illa úti í hamförum. Slík þjónusta, sem svo mörg ykkar inna af hendi, er kjarni hirðisþjónustu.

Kæru bræður og systur, verkefnin sem ég hef sagt frá eru aðeins lítill hluti vaxandi velferðar- og mannúðarstarfs Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.10 Þið eruð þau sem gerið þetta allt mögulegt. Vegna fyrirmyndar ykkar, örlætis hjarta ykkar og fúsra hjálparhanda, er engin furða að mörg samfélög og leiðtogar ríkisstjórna vegsami verk ykkar.11

Frá því að ég varð forseti kirkjunnar, hef ég furðað mig á því hversu margir forsetar, forsætisráðherrar og sendiherrar hafa innilega þakkað mér fyrir hjálparstarf okkar í þágu þjóðar þeirra. Þeir hafa líka lýst þakklæti fyrir þann styrk sem okkar trúföstu meðlimir hafa verið landi sínu sem dyggir borgarar.

Ég hef einnig furðað mig á því þegar heimsleiðtogar heimsækja Æðsta forsætisráðið og hafa látið þær vonir í ljós að kirkjan verði starfsrækt í landi þeirra. Afhverju? Vegna þess að þeir vita að Síðari daga heilagir munu gera sitt til að stuðla að sterkum fjölskyldum og samfélögum, hvar sem þeir búa.

Burt séð frá því hvar við eigum heima, þá er föðurhlutverk Guðs og bræðralag manna meðlimum kirkjunnar afar kært. Mesta gleði okkar á því rætur í því að liðsinna bræðrum okkar og systrum, hvar sem við búum í þessari dásamlegu veröld.

Að liðsinna öðrum – að láta okkur meðvitað annt um aðra, jafn mikið eða meira en okkur sjálf – er gleði okkar. Ég vil einnig bæta því við, einkum þegar það er ekki hentugt og er utan þægindaramma okkar.. Að lifa eftir þessu næstæðsta boðorði, er lykill að því að verða sannur lærisveinn Jesú Krists.

Kæru bræður og systur, þið eruð lifandi fyrirmyndir þess ávaxtar sem verður til við að fylgja kenningum Jesú Krists. Ég þakka ykkur! Ég elska ykkur!

Ég veit að Guð lifir. Jesús er Kristur. Kirkjan hans hefur verið endurreist á þessum síðari dögum, til að uppfylla sinn guðlega tilgang. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.