Gleðitíðindi fyrir ykkur og heiminn
Þið getið meðtekið gleðitíðindi um elsku og gleði, því Jesús Kristur hefur endurreist kirkju sína öllum börnum Guðs til blessunar.
Lundurinn helgi, eftir Al Rounds
Boðskapur okkar um von og frið til allra er sá að Jesús Kristur lifir og hefur endurreist fagnaðarerindi sitt og kirkju á þessum síðari dögum. „Hve ósegjanlega dýrðlegt það er fyrir mannkynið!“ sagði spámaðurinn Joseph Smith. Þau eru „mikil fagnaðartíðindi meðal allra manna, …sem ættu að fylla jörðina og kæta hjörtu allra er það hljómar í eyrum þeirra“.
Þessi gleðitíðindi eru djúpstæð birtingarmynd á takmarkalausri elsku föður okkar á himnum og frelsara okkar. Þau munu blessa alla menn og búa heiminn undir dag endurkomu Jesú Krists. Ég fagna því að geta varið lífi mínu í að boða öllum heiminum þennan sannleika.
Að morgni upprisunnar, eftir Sarah Hatch
Hið ólíklega og hið markverða
Í trjálundi birtust Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, og töluðu til Josephs Smith sem svar við bæn Josephs varðandi hvaða kirkju hann ætti að ganga í (sjá Joseph Smith–Saga 1:16–20). Jesús sagði Joseph að ganga ekki í neina kirkju. Hann hét því að fylling fagnaðarerindis hans yrði opinberuð Joseph í framtíðinni.
Mörgum fannst Joseph sá ólíklegasti til að vera kallaður til svo mikilvægs verks. Í þeirra augum var hann aðeins ómenntaður drengur frá litlu býli. Himneskur faðir og Jesús Kristur áttu þó eftir að gera hið sannarlega undraverða í gegnum Joseph. Joseph átti eftir að fá boðorð, dýrmætar opinberanir og nauðsynlegar kenningar um kærleiksáætlun himnesks föður og endurleysandi elsku og friðþægingu Jesú Krists, til að blessa okkur og hjálpa okkur að vita hvernig við getum snúið aftur heim.
Áhrifamikið vitni um elsku Guðs
Engillinn Moróní birtist Joseph Smith og sagði honum frá heimild, ritaðri á gulltöflur, grafinni í nágrenninu (sjá Joseph Smith—Saga 1:33–34). Að endingu þýddi Joseph þá heimild yfir í það sem síðar varð Mormónsbók, sem stendur við hlið Biblíunnar sem annað vitni um Jesú Krist.
Út í gegnum Mormónsbók vissi fólk og spáði um Krist, hundruðum ára fyrir komu hans, og þráði hana. Við lesum líka um það hvernig frelsarinn birtist og þjónaði Nefítunum. Hann bauð öllum að koma til sín. Hann læknaði sjúka, lamaða, blinda og alla sem hrjáðir voru. Hann blessaði því næst litlu börnin og bað fyrir þeim (sjá 3. Nefí 11:14–15; 3. Nefí 17:7–9; 3. Nefí 17:21).
Mormónsbók kennir okkur svo margt um elsku og samúð frelsarans. Hún vitnar sannlega um að „Jesús er Kristur“. Hún geymir fegurð hins ævarandi fagnaðarerindis hans. Mormónsbók veitir skýra mynd af því hvernig himneskur faðir og frelsari okkar elska okkur meira en við fáum ímyndað okkur.
Gulltöflur, eftir Robert Theodore Barrett
Blessanir prestdæmisins og kirkjan
Aðrir himneskir sendiboðar komu til Josephs Smith. Jóhannes skírari kom til að endurreisa valdið til að skíra. Pétur, Jakob og Jóhannes endurreistu postuladóminn og lykla prestdæmisvalds. „Aðrir komu líka, þar á meðal Elía, sem endurreisti valdið til ævarandi sameiningar fjölskyldna í eilíf sambönd, sem ná út fyrir dauða.“
Jesús Kristur stofnaði síðan kirkju fyrir milligöngu spámannsins Josephs, að fyrirmynd þeirrar sem hann stofnaði á tímum Nýja testamentisins (sjá Trúaratriðin 1:6). Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu gerir blessanir hins endurreista prestdæmiskrafts tiltækar öllum börnum Guðs í gegnum Jesú Krist, postula hans og spámenn.
Ég myndi segja að ef ykkur líður illa og finnst sem þið standist ekki kröfur eða að þið tilheyrið ekki, verið þá mildari við ykkur sjálf og gerið ykkur grein fyrir því hversu mikið himneskur faðir og sonur hans, frelsari okkar, elskar ykkur, meira en þið fáið nokkru sinni ímyndað ykkur. Öllum er boðið að koma til Krists og kirkju hans. Kirkjan er ekki fyrir hina fullkomnu. Hún er eins og sjúkrahús þar sem við finnum lækningu. Í kirkju snúum við okkur út á við, þjónum öðrum af kærleika og miðlum fagnaðarerindinu. Eftir okkur gæti verið „munað og [við nærð] hinu góða orði Guðs“ (Moróní 6:4). Við getum fundið frið og lækningu. Hvílík blessun!
Ástæða mikillar gleði
Himneskur faðir og ástkær sonur hans, Jesús Kristur, elska ykkur og þrá – mest af öllu – að leiða ykkur heim og að við öðlumst að eilífu sams konar líf og þeir lifa. Endurreisnin sýnir að þeir hafi gert allt til að gera þetta að dýrðlegum möguleika fyrir ykkur. Stundum gætuð þið upplifað þrautir og erfiðleika, en þið eruð „svo að [þið megið] gleði njóta“ (2. Nefí 2:25) í þessu lífi og því næsta. Spámaðurinn Joseph vissi þetta betur en flestir. Þið munið uppgötva að þið getið upplifað gleði þegar þið iðrist stöðugt og snúið ykkur til föður ykkar á himnum og frelsara ykkar.
Joseph tókst á við ítrekað mótlæti og ofsóknir, en hélt þó „glaðlyndi“ sínu (Joseph Smith—Saga 1:28). Hann var áfram glaður, sterkur og óbugandi og hann lauk því verki sem honum hafði verið falið að vinna. Það sama á við um alla sem á eftir honum hafa komið.
Það var erfitt á upphafstímum kirkjunnar og getur verið erfitt í dag, en endurreisnin hélt áfram þá – og er enn yfirstandandi í dag. Jesús Kristur leiðir kirkju sína. Lifandi spámenn halda áfram að leiða okkur. Hús Drottins verða áfram byggð. Elska Guðs og Jesú Krists mun ná til alls heimsins þegar við fylgjum boði frelsarans um að gæta sauða hans og miðla fagnaðarerindi hans. Sannleikur endurreisnarinnar mun berast á ýmsa vegu og til staða sem varla hefði verið hægt að ímynda sér á tíma Josephs. Við munum reyna að gera heiminn örlítið vinsamlegri og minna sundrandi.
Þegar þið nemið fagnaðarerindið reglulega, biðjist fyrir oft og þjónið öðrum, mun boðskapur endurreisnarinnar snerta hjörtu ykkar og breyta lífi ykkar. Ekki er víst að það gerist samstundis, en það mun vekja ykkur gleði – eins og hjá spámanninum Joseph.
Megi gleðitíðindi kærleika og gleði sem endurreisnin færir blessa og leiða ykkur – nú og ætíð.