Til styrktar ungmennum
Að átta sig á frásögnum Josephs Smith af Fyrstu sýninni
Janúar 2024


Kom, fylg mér

Joseph Smith – Saga 1:1–20

Að átta sig á frásögnum Josephs Smith af Fyrstu sýninni

Hvað er ólíkt með frásögnunum fjórum um Fyrstu sýn Josephs Smith? Af hverju eru þær ólíkar? Og hvað geta þær kennt okkur?

Joseph Smith

Hafið þið einhvern tíma reynt að segja einhverjum frá andlegri reynslu? Hvaða atriði höfðuð þið með í frásögninni? Hvaða atriðum slepptuð þið? Haldið þið að þið mynduð segja söguna öðruvísi, ef þið væruð að segja vini hana, á sakramentissamkomu eða einhverjum sem er ekki meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu?

Þessar spurningar eru mikilvægar þegar hugað er að því hvernig Joseph Smith útskýrði sýnina um himneskan föður og Jesú Krist sem hann hlaut í New York árið 1820. Joseph miðlaði þessari reynslu nokkrum sinnum. Í dag höfum fjórar frásagnir frá fyrstu hendi Josephs:

  1. Persónuleg frásögn sem Joseph skrifaði í kringum sumarið 1832. Joseph útskýrði að hann hefði farið út í skóg til að biðjast fyrir, því hann væri ráðvilltur varðandi andlega hluti. Hann vildi líka fá fyrirgefningu synda sinna.

    ungur Joseph Smith
  2. Dagbók Josephs frá 1835. Prédikari að nafni Robert Matthews kom til Kirtland, Ohio. Hann vildi ræða við Joseph um trúarleg málefni, svo Joseph sagði honum frá sýn sinni. Warren Parrish, sem hélt dagbók Josephs, skráði það sem Joseph sagði.

    Joseph Smith heldur á ritningum
  3. Opinber kirkjusaga sem Joseph hóf árið 1838. Hann talaði um Fyrstu sýnina sem hluta af því hvernig kirkjan var endurreist. Þessi frásögn er birt í Hinni dýrmætu perlu.

    Joseph Smith skrifandi
  4. Bréf sem Joseph skrifaði árið 1842. Blaðamaður að nafni John Wentworth bað Joseph að útskýra tilurð Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Joseph svaraði með bréfi og lét fylgja með upplýsingar um Fyrstu sýnina.

    hendur skrifa

Hver frásögn var sett fram á mismunandi tíma fyrir mismunandi markhóp. Joseph hafði mismunandi markmið í huga fyrir hvern þeirra. Þegar við lesum þær saman, hljótum við auðugri og skýrari mynd af reynslu Josephs í Lundinum helga.

Hver er mismunurinn?

Í þessum frásögnum má finna einhverjar mismunandi upplýsingar. Í frásögninni frá 1832 leggur Joseph áherslu á þrá sína til að hljóta fyrirgefningu synda sinna. Hann nefnir ekki sérstaklega að hann vilji vita hvaða kirkja er sönn. Hann ræðir um það hvernig „Drottinn“ birtist honum – hann auðkennir himneskan föður og Jesú Krist ekki í sitt hvoru lagi.

Frásagnirnar frá 1835 og 1838 greina frá illu afli sem reyndi að koma í veg fyrir að Joseph bæðist fyrir. Frásögn Josephs frá 1835 segir að tvær verur, auk engla, hafi vitjað hans. Í frásögnunum frá 1838 og 1842 eru tvær verur nefndar og önnur er sérstaklega auðkennd sem Jesús Kristur. Þessar tvær frásagnir leggja áherslu á leit Josephs að hinni sönnu kirkju.

Af hverju eru þær svona ólíkar?

Það eru nokkrar ástæður fyrir mismuninum í þessum frásögnum.

Eðli minnis

Stundum höldum við að minningar okkar séu alltaf þær sömu. Þannig virkar minnið þó ekki. Við munum hlutina öðruvísi þegar við verðum eldri. Eitthvað sem gerðist áður gæti fengið aðra merkingu vegna aukinnar lífsreynslu. Kjarnaminningin er óbreytt, en einhver smáatriði gætu breyst. Það þýðir ekki að minni okkar sé ekki rétt eða nákvæmt, bara að hlutar þess standi meira út á mismunandi tímum.

Mismunandi tilgangur

Joseph hafði mismunandi ástæður fyrir því að segja sögu sína. Árið 1832 var hann að skrá persónulega frásögn, svo hann einbeitti sér meira að því sem Fyrsta sýnin þýddi fyrir hann persónulega. Árin 1838 og 1842 ræddi hann um Fyrstu sýnina sem hluta af tilurð kirkjunnar. Hann lagði því áherslu á þrá sína til að vita hvaða kirkja væri sönn.

Mismunandi markhópar

Robert Matthews og John Wentworth voru ekki meðlimir kirkjunnar. Joseph þurfti að lýsa hlutunum öðruvísi fyrir þeim. Hann beindi frásögninni frá 1838 meira að meðlimum kirkjunnar. Hann gæti hafa talið að einungis nánir vinir og fjölskyldumeðlimir myndu lesa frásögnina frá 1832.

Hvað er eins?

Í öllum fjórum frásögnunum eru aðalatriðin þau sömu. Joseph var ráðvilltur varðandi eigin sáluhjálp og sáluhjálp heimsins. Hann las í Jakobsbréfinu 1:5–6 að hann gæti hlotið svör við bænum sínum. Hann fór inn í skóginn að biðjast fyrir. Himneskar verur birtust honum. Þeir ávörpuðu hann með nafni. Þeir sögðu að söfnuðirnir á þeim tíma væru ekki að kenna réttar kenningar.

Fyrsta sýnin

Það sem frásagnirnar kenna mér

Ég nýt þess að lesa hinar ýmsu frásagnir, því þær hjálpa mér að skilja Fyrstu sýnina betur. Ég get betur séð hvers vegna Joseph var ráðvilltur og vildi biðja. Ég get skynjað andann betur þegar ég les um merkingu Fyrstu sýnarinnar fyrir Joseph á hinum ýmsu tímum í lífi hans. Saman hjálpa frásagnirnar mér að vita að Joseph var að segja satt. Hann sá Guð föðurinn og Jesú Krist í Lundinum helga. Þetta eykur von mína um að ég geti líka fengið svör við bænum.

Frásögn

Hvers vegna Joseph sagðist hafa beðist fyrir

Hverjir Joseph sagði að hefðu birst

1832

Til að hljóta fyrirgefningu synda sinna

Drottinn

1835

Til að komast að því hver hefði rétt fyrir sér og hver rangt í trúmálum

Tvær verur – fyrst ein, síðan önnur – og englar

1838

Til að vita hvaða kirkja væri hin sanna kirkja Krists

Faðirinn og sonur hans Jesús Kristur

1842

Til að vita hvaða kirkja væri hin sanna kirkja Krists

„Tvær dýrðlegar verur“