Til styrktar ungmennum
Uppbygging heimila og vitnisburða
Janúar 2024


Uppbygging heimila og vitnisburða

Byggingafyrirtæki Sarah gekk mjög vel. Hún þurfti hins vegar að taka ákvörðun.

stúlka

Ljósmyndir eftir Christina Smith, nema annað sé tekið fram

Fyrir Nóa var það örk. Benjamín konungur valdi sér turn. Bróðir Jareds ákvað báta. Hvað með Sarah Christensen frá Montana í Bandaríkjunum? Tja, hún ákvað að hún vildi byggja hús.

Hermana Christensen, sem nú þjónar í fastatrúboði í Minneapolis-trúboðinu í Minnesota, varð eitt sinn svolítið pirruð á því að trúboð væri að trufla byggingarmarkmið hennar – og þetta var ekki einu sinni hennar eigið trúboð!

Byrjum nú á byrjuninni.

„Ég hef verið að hjálpa pabba mínum að byggja hluti allt mitt líf,“ segir hún. „Ég vandist rafmagnsverkfærum og smíðavinnu og ég fór bara virkilega að kunna að meta það. Þegar ég svo varð 16 ára ákvað ég að ég vildi stofna mitt eigið byggingafyrirtæki.“

faðir og dóttir vinna við að byggja hús

„Pabbi minn hefur kennt mér að setja hluti saman, allt frá tveimur plönkum upp í heilt hús,“ segir Sarah.

Að byggja upp fyrirtæki

Eitt árið gerði Sarah í fyrsta sinn upp eitt hús yfir sumarið. Hún naut þess svo mikið að hún tók að sér annað endurbótaverkefni árið eftir. Að lokum ákvað hún að takast á við enn stærra verkefni – „sýningarhús“ eða hús sem hún og teymi hennar af undirverktökum myndu byggja frá grunni, vonandi til að selja með hagnaði.

stúlka með sleggju á byggingarsvæði

Niðurrifsdagur! Sarah fer með sleggju í baðherbergið í einu verkefna sinna.

Að stofna fyrirtæki var ekki auðvelt verkefni, sérstaklega vegna þess að Sarah var enn upptekin við menntaskóla og víðavangshlaup.

stúlka hamrar á byggingarsvæði

Sarah stofnaði sitt eigið byggingafyrirtæki þegar hún var 16 ára gömul.

„Ég hef lært svo mikið,“ segir hún. „Ég þurfti að nota ávísanahefti til að borga fólki, sem ég hafði aldrei gert áður. Ég varð að venjast því að tala við ókunnuga sem voru undirverktakar hjá mér. Ég hef líka lært hvernig á að takast á við þá streitu sem fylgir því að reka fyrirtæki, sem var ekki alltaf skemmtilegt. Það eru alltaf þær áhyggjur að þú munir ekki græða nægilega mikla peninga til að koma út á sléttu, jafnvel þegar þú selur hús.“

Aldrei einsömul

En þrátt fyrir þær áhyggjur og þá streitu sem fylgja því að reka fyrirtæki þurfti Sarah aldrei að takast á við stóru draumana sína ein.

„Þetta gekk alltaf upp og ég veit að það er Drottni að þakka,“ segir hún. „Þetta fyrirtæki var ekki mögulegt án hans. Hann hjálpaði mér í gegnum slæmu dagana, erfiðisvinnuna, allt.“

stúlka hjálpar dreng við borun á byggingarsvæði

Hið nána samband sem Sarah á við fjölskyldu sína kemur frá því að vinna saman.

Fjölskylda Sarah studdi hana líka við hvert fótmál – sem leiðir okkur aftur að trúboðinu sem var að trufla áætlanir hennar.

Tyler, eldri bróðir hennar, ráðgerði að hjálpa Sarah að byggja hús þegar hann kæmi heim úr trúboði sínu. Dag einn hringdi hann hins vegar í hana með þau tíðindi að hann hefði verið beðinn um að lengja trúboðsþjónustu sína.

„Ég var honum svo reið,“ viðurkennir hún. „Ég sagði: ‚Tyler, þú getur ekki samþykkt það. Ég er með þetta allt skipulagt.‘ Hann svaraði því: ‚Verk Drottins er mikilvægara en verk þitt.‘ Það sló mig. Ég vissi að hann hafði rétt fyrir sér og að ég yrði að treysta áætlun Guðs.“

fjölskylda

Fjölskylda Sarah bauð bróður hennar, Tyler, velkominn heim eftir að hann hafði framlengt trúboðið sitt.

Ljósmynd birt með leyfi Sarah Christensen

faðir og dóttir á byggingarlóð

Hvort sem Sarah fær hjálp frá pabba sínum eða hjálp frá himneskum föður, þá veit hún að hún er ekki ein.

Hennar eigið trúboð

Fordæmi Tylers hvatti Sarah til að íhuga að þjóna sjálf í trúboði. „Ég gerði mér grein fyrir því hversu mörgum bróðir minn hjálpaði við að koma til Krists og ég sá líka hve mikið hann hafði sjálfur komið til Krists. Mig langaði að eiga svipaða reynslu,“ segir Hermana Christensen. „Ég tók að læra fagnaðarerindið af alvöru og komst að því að því meira sem vitnisburður minn og samband mitt við frelsarann óx, því meira þráði ég að miðla því sem ég átti.“

Sarah ákvað að setja byggingafyrirtæki sitt á bið og þjóna Drottni. Þessi ákvörðun hefur veitt henni kröftuga nýja innsýn.

„Það fyrsta sem mér hefur lærst af trúboði mínu, er að fagnaðarerindið gjörbreytir lífinu,“ segir Hermana Christensen. „Að alast upp í kirkjunni gerði mér erfitt fyrir að skilja hve mikilvægt fagnaðarerindið var í lífi mínu.

Hér í trúboði mínu er ég umkringd fólki sem veit ekkert um himneskan föður og Jesú Krist. Þegar þau uppgötva að þau eru börn Guðs og að hann er með áætlun fyrir þau, breytir það lífi þeirra. Það er frábært að verða vitni að því og vera hluti af því. Ég hafði skilning á því fyrir trúboð mitt, en nú veit ég að fagnaðarerindi Jesú Krists er nauðsynlegt fyrir gleði í þessum heimi og í komandi heimi.“

systurtrúboðar með málningarrúllur

Hermana Christensen (hægri) og félagi hennar Hermana Taylor (vinstri) njóta þess að þjóna hvernig sem þær geta.

Ljósmynd birt með leyfi Sarah Christensen

Trú yfir ótta

Við önnur ungmenni sem eru að hugsa um að þjóna í trúboði segir Hermana Christensen: „Hafið trú og óttist ekki. Trúboð eru ekki auðveld, en þau eru þess virði. Guð mun blessa ykkur á ólýsanlegan hátt þegar þið takið ákvörðun um að verða þjónar hans.“

Þrátt fyrir að hún sakni þess að geta byggt hús á meðan hún þjónar, sér Hermana Christensen ekki eftir vali sínu. „Auðvitað hefði fyrirtæki mitt mögulega getað vaxið á þeim tíma sem ég er í fastatrúboði,“ segir hún. „En ég veit að Drottinn mun blessa þá fórn mína að skilja við það um stund. Fyrirtæki mitt getur beðið, en verk Drottins getur það ekki!“