Til styrktar ungmennum
Spámaðurinn og frelsari hans
Janúar 2024


Spámaðurinn og frelsari hans

Á vissan hátt er saga endurreisnarinnar sagan af því þegar Joseph Smith nálgaðist Jesú Krist.

Jesús Kristur

Sérhvert hné mun beygja sig, eftir Dan Wilson

Sagan af lífi Josephs Smith er meira en bara sagan af lífi Josephs Smith.

Þegar við segjum söguna um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists, byrjum við oft á því að segja sögu Josephs Smith. Það er líka rökrétt. Hann sagði sjálfur frá æsku sinni nokkrum sinnum, til að hjálpa fólki að skilja hvernig endurreisnin hófst. En á vissan hátt er sagan um líf Josephs Smith sagan af því þegar hann nálgaðist Jesú Krist.

Sýn fyrirgefningar

Hinn ungi Joseph Smith var ráðvilltur varðandi trúmál. Það var líka önnur tilfinning sem knúði hann til að biðja í trjálundinum þar sem hann sá Fyrstu sýnina: „Ég hryggðist af eigin syndum.“

Þegar frelsarinn talaði til Josephs sagði hann: „Joseph, sonur minn, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“

Joseph lærði af eigin raun að Jesús Kristur lifir. Hann lærði einnig að Jesús Kristur er miskunnsamur og fyrirgefur syndir. Þessi persónulega vitneskja var Joseph mikilvæg. „Hjálpræði sálar minnar er mér mikilvægast [því] ég þekki eilífðina með vissu,“ sagði hann eitt sinn.

Þessi vitneskja um Jesú Krist var einnig mikilvæg í því verki sem Joseph var kallaður til að vinna sem spámaður. Hann bar máttugan vitnisburð um náð og miskunn Jesú Krists alla sína ævi. Hann kenndi t.d. eitt sinn: „Allir þurfa að iðrast og verða hreinir í hjarta, þá mun Guð gefa þeim gaum og blessa meira en hægt er á annan hátt.“

Mistök og miskunn

Verkið sem Joseph Smith var kallaður til að vinna var gríðarlega mikilvægt. Joseph lærði því að taka boðorðum og ráðleggingum Drottins alvarlega, að hluta vegna mistaka sem hann gerði.

Þegar til að mynda handritssíður Mormónsbókar glötuðust, þá tók Drottinn þýðingargjöfina frá Joseph og sagði síðar við hann: „Hve oft þú hefur brotið boðorð og lögmál Guðs. … Þú áttir ekki að óttast manninn meira en Guð“ (Kenning og sáttmálar 3:6–7).

Drottinn átti þó líka þennan boðskap fyrir Joseph: „Haf hugfast, að Guð er miskunnsamur. Iðrast því“ (Kenning og sáttmálar 3:10).

Joseph iðraðist og var aftur gefin gjöf þýðingar. Öll þessi reynsla kann að hafa verið honum sársaukafull, en hann lærði mikilvægar lexíur – þar á meðal að við getum iðrast og verið blessuð af því að Drottinn er miskunnsamur.

Frelsari og vinur

Joseph Smith upplifði fjölda sýna, vitjana og opinberana, þar sem hann sá eða heyrði í Drottni Jesú Kristi eða lærði um eðli hans, eðlisfar og hlutverk (sjá, t.d. Kenning og sáttmálar 19; 76; 93; 110).

Einn sannleikur sem hann lærði er að endurlausnarverk frelsarans er fyrir alla menn sem nokkru sinni hafa lifað í þessum heimi – og alla heima þar sem synir og dætur Guðs dvelja (sjá Kenning og sáttmálar 76:24).

Á sama tíma og hann lærði hversu umfangsmikið verk frelsarans væri, lærði Joseph einnig að himneskur faðir og Jesús Kristur þekkja og elska sérhvert okkar persónulega. Þeir vilja nánara samband við hvert okkar. Þeir vilja að við gerum sáttmála, höldum þá og stöndumst trúfastlega allt til enda. Þetta nána samband mun færa okkur gleði og sjálfstraust.

Samband Josephs sjálfs við himneskan föður og Jesú Krist varð svo náið að hann gat sagt, á einum lægsta punkti lífs síns, meðan hann var lokaður inni í Liberty-fangelsinu:

„Ég mun reyna að sætta mig við hlutskipti mitt, vitandi það að Guð er vinur minn. Í honum mun ég huggun hljóta. Ég hef falið honum líf mitt. Ég er reiðubúinn að fara héðan við kall hans. Ég þrái að vera með Kristi.“

Þegar þið lærið um líf og kenningar Josephs Smith, getið þið fylgt fordæmi hans. Iðrist, gerið og haldið sáttmála og haldið áfram trúföst. Þá getið þið einnig vitað að frelsarinn er vinur ykkar.