Bækur og lexíur
Aðfaraorð


Aðfaraorð

Námsleiðbeiningar og handbók kennara

Reglur fagnaðarerindisins var rituð bæði sem persónuleg námsbók og handbók fyrir kennara. Þegar þið nemið hana, leitandi eftir anda Drottins, getur skilningur ykkar vaxið og vitnisburður um Guð föðurinn, Jesú Krist og friðþægingu hans, og endurreisn fagnaðarerindisins. Þið getið fundið svör við spurningum lífsins, öðlast fullvissu um tilgang ykkar og verðmæti ykkar sjálfra, og mætt eigin áskorunum og fjölskyldunnar með trú.

Leiðbeiningar varðandi kennslu í kirkjunni og á heimilinu

Að vera kennari er mikil ábyrgð, en því fylgja mörg tækifæri til að styrkja aðra og sjá til þess að þeir séu „nærðir hinu góða orði Guðs“ (Moró 6:4). Þið munuð kenna með árangri þegar þið fylgið þessum reglum:

  • Elskið þá sem þið kennið.

  • Kennið með andanum.

  • Kennið kenningarnar.

  • Stuðlið að kostgæfni í námi.

Elskið þá sem þið kennið

Þegar þið sýnið þeim kærleik sem þið kennið, verða þau móttækilegri fyrir anda Drottins. Þau verða áhugasamari um námið og opnari fyrir ykkur og öðrum. Kappkostið að kynnast þeim sem þið kennið og látið þau finna að ykkur er raunverulega annt um þau. Verið næm fyrir áskorunum þeirra sem hafa sérþarfir. Skapið þægilegt umhverfi í bekk ykkar svo að þátttakendur eigi gott með að leita hjálpar ykkar með hvaða spurningar sem þeir hafa varðandi reglur fagnaðarerindisins og hvernig á að tileinka sér þær.

Andi Drottins mun verða nærstaddur þegar ást og eining ríkja. Drottinn sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan“ (Jóh 13:34).

Fyrir meira um þetta málefni, sjá Teaching, No Greater Call, bls. 31–39.

Kenna með andanum

Það mikilvægasta sem þið munuð nokkru sinni kenna eru kenningar Krists eins og þær eru opinberaðar í ritningunum og með nútíma spámönnum og eins og þær eru staðfestar af heilögum anda. Til þess að gera þetta með árangri, verðið þið að hafa anda Drottins. „Andinn skal veitast yður með trúarbæn,“ sagði Drottinn, „og ef þér meðtakið ekki andann, munuð þér ekki kenna“ (K&S 42:14; sjá ennig K&S 50:13–22). Heilagur andi er hinn raunverulegi kennari, og því er mikilvægt að skapa umhverfi þar sem andi Drottins getur dvalist.

Fyrir meira um þetta málefni, sjá Teaching, No Greater Call, bls. 41–48.

Kennið kenninguna

Nemið kaflann rækilega áður en þið kennið hann, til þess að vera viss um að þið skiljið kenninguna. Nemið einnig viðbótar ritningargreinarnar sem skráðar eru við lok kaflans. Þið munuð kenna af meiri einlægni og krafti þegar kenningarnar í kaflanum hafa haft áhrif á ykkur persónulega. Verið aldrei með vangaveltur um kirkjukenningar. Kennið einungis það sem er stutt af ritningunum, af orðum síðari daga spámanna og postula, og heilögum anda (sjá K&S 42:12–14; 52:9).

Ef þið hafið verið kölluð til að kenna sveit eða bekk og notið þessa bók, skiptið henni þá ekki út fyrir annað efni, hversu áhugavert sem það kann að vera. Haldið ykkur við ritningarnar og orð þessarar bókar. Notið persónulega reynslu, eftir því sem við á, og greinar úr tímaritum kirkjunnar, til stuðnings við kennsluna.

Fyrir meira um þetta málefni, sjá Teaching, No Greater Call, bls. 50–59.

Stuðlið að kostgæfni í námi

Þegar þið kennið, hjálpið þá öðrum að sjá hvernig reglur fagnaðarerindisins eiga við í daglegu lífi. Örvið umræður um hvernig þessar reglur geta haft áhrif á tilfinningar okkar varðandi Guð, okkur sjálf, fjölskyldu okkar og nágranna okkar. Hvetjið þátttakendur til að lifa í samræmi við reglurnar.

Reynið að fá eins margt fólk og mögulegt er til þátttöku í lexíunum. Þið getið gert þetta með því að bjóða þeim að lesa upphátt, svara spurningum, eða deila reynslu sinni, en gerið það þó því aðeins að þið séuð viss um að það komi þeim ekki úr jafnvægi. Þið getið deilt út sérstökum verkefnum til þátttakenda við undirbúning kennslunnar. Verið næm fyrir þörfum og tilfinningum annarra. Þið kunnið að þurfa að tala einslega við einhverja fyrir kennslu og spyrja hvað þeim finnist um að taka þátt.

Fyrir meira um þetta málefni, sjá Teaching, No Greater Call, bls. 61–74.

Viðbótar hjálp fyrir kennara

Hver kafli í þessari bók geymir eina eða tvær ábendingar fyrir kennara. Þær ábendingar fela í sér hugmyndir sem geta hjálpað ykkur í viðleitni ykkar við að elska þá sem þið kennið, kenna með andanum, kenna kenninguna og stuðla að kostgæfni í námi meðal þeirra sem þið kennið.