Bækur og lexíur
Kafli 44: Síðari koma Jesú Krists


Kafli 44

Síðari koma Jesú Krists

Ljósmynd
The resurrected Jesus Christ (wearing white robes with a magenta sash) standing above a large gathering of clouds. Christ has His arms partially extended. The wounds in the hands of Christ are visible.

Horfa fram til síðari komu frelsarans

Fjörutíu dögum eftir upprisu Jesú voru hann og postular hans samankomnir á Olíufjallinu. Komin var sú stund að Jesús yfirgæfi þessa jörð. Hann hafði fullnað allt það verk sem honum var ætlað þar og þá. Hann átti að snúa aftur til himnesks föður fram að síðari komu sinni.

Eftir að Jesús hafði leiðbeint postulum sínum, sté hann upp til himna. Meðan postularnir horfðu upp til himins á eftir honum stóðu tveir englar við hlið þeirra og sögðu: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem var upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins“ (Post 1:11).

Allt frá þeirri stundu og fram á þennan dag hafa fylgjendur Jesú Krists horft fram til síðari komunnar.

Hvað mun Jesús gera þegar hann kemur aftur?

Þegar Jesús Kristur kemur aftur til jarðar mun hann gera það sem hér segir:

  1. Hann mun hreinsa jörðina. Þegar Jesús kemur aftur, mun hann koma í valdi og mikilli dýrð. Á þeim tíma verður hinum ranglátu tortímt. Allt sem spillt er mun brennt og jörðin verður hreinsuð með eldi (sjá K&S 101:24–25).

  2. Hann mun dæma fólk sitt. Þegar Jesús kemur aftur mun hann dæma þjóðirnar og greina hina réttlátu frá hinum ranglátu (sjá Matt 25:31–46; sjá einnig kafla 46 í þessari bók). Opinberarinn Jóhannes skrifaði um þann dóm: „Ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs … Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi í þúsund ár.“ Þeir ranglátu sem hann sá, „lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin“ (Op 20:4–5; sjá einnig K&S 88:95–98).

  3. Hann mun innleiða Þúsundáraríkið. Þúsundáraríkið eru þau þúsund ár sem Jesús mun ríkja á jörðu. Hinir réttlátu munu hrifnir upp til móts við Jesú þegar hann kemur (sjá K&S 88:96). Koma hans markar upphaf Þúsundáraríkisins (sjá kafla 45 í þessari bók).

    Brigham Young forseti sagði:

    „Í Þúsundáraríkinu, þegar ríki Guðs hefur verið stofnsett á jörðu, með krafti, dýrð og fullkomnun, og yfirráðum ranglætis, sem varað hafa svo lengi, er lokið, munu hinir heilögu Guðs njóta þeirra forréttinda að byggja musteri, fara í þau og verða, ef svo má segja, stólpar í musteri Guðs [sjá Op 3:12], og þeir munu vinna fyrir hina dánu. Þá munum við sjá vini okkar koma fram og ef til vill einhverja sem við höfum kynnst hér. … Og við munum fá opinberanir sem gera okkur mögulegt að þekkja áa okkar allt aftur til föður Adams og móður Evu, og við munum fara inn í musterin og starfa fyrir þau. Þá munu [börn] verða innsigluð [foreldrum] þar til keðjan er fullkomnuð aftur til Adams, svo að fullkomin keðja prestdæmisins muni ná frá Adam og fram til lokasenunnar“ (Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 333–34).

  4. Hann mun fullkomna fyrstu upprisuna. Þeir sem öðlast hafa rétt til að koma fram í upprisu hinna réttlátu munu rísa úr gröfum sínum. Þeir verða hrifnir upp til móts við frelsarann þegar hann kemur niður af himni (sjá K&S 88:97–98).

    Þegar Jesús Kristur hafði risið upp frá dauðum risu einnig upp aðrir réttlátir, sem dáið höfðu. Þeir birtust í Jerúsalem og einnig í Ameríku (sjá Matt 27:52–53; 3 Ne 23:9–10). Þetta var upphaf fyrstu upprisunnar. Sumir hafa risið upp síðan þá. Þeir sem þegar hafa risið upp, og þeir sem rísa munu upp við komu hans, erfa dýrð hins himneska ríkis (sjá K&S 76:50–70).

    Eftir upprisu þeirra sem munu erfa himneska dýrð, mun annar hópur verða reistur upp: þeir sem hljóta munu yfirjarðneska dýrð. Þegar allt þetta fólk hefur verið reist upp, er fyrstu upprisunni lokið.

    Hinum ranglátu, sem lifa við síðari komu Drottins, mun tortímt í holdinu. Þeir, ásamt hinum ranglátu sem þegar voru dánir, verða að bíða fram að síðustu upprisunni. Allir aðrir sem dáið hafa rísa upp til að mæta Guði. Þeir munu annaðhvort erfa jarðneska ríkið eða þeim verður varpað út í ystu myrkur hjá Satan (sjá K&S 76:32–33, 81–112).

  5. Hann mun skipa sinn réttmæta sess sem konungur himins og jarðar. Þegar Jesús kemur stofnar hann ríki sitt á jörðu. Kirkjan verður hluti þess ríkis. Hann mun ríkja í friði yfir öllum íbúum jarðar í þúsund ár.

    Þegar Jesús kom fyrst til jarðar kom hann ekki í dýrð. Hann fæddist í lágreistu fjárhúsi og var lagður í jötu. Hann kom ekki með stóra herskara með sér, eins og Gyðingar höfðu ætlað frelsara sínum að gera. Þess í stað kom hann og sagði: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður“ (Matt 5:44). Honum var hafnað og hann krossfestur. En honum verður ekki hafnað við síðari komu sína, „því að hvert eyra skal heyra það og hvert kné beygja sig og hver tunga viðurkenna“ að Jesús sé Kristur (K&S 88:104). Honum verður fagnað sem „Drottni drottna og konungi konunga“ (Op 17:14). Hann mun nefndur „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“ (Jes 9:6).

  • Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar er þið hugleiðið atburði síðari komunnar?

Hvernig munum við vita hvenær síðari koma frelsarans er nærri?

Þegar Jesús fæddist vissu mjög fáir að frelsari heimsins var kominn. Þegar hann kemur aftur mun enginn vafi leika á því hver hann er. Enginn veit nákvæman tíma síðari komu frelsarans. „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn“ (Matt 24:36; sjá einnig K&S 49:7).

Drottinn notaði dæmisögu til þess að gefa okkur hugmynd um hvenær síðari koman verður:

„Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumarið er í nánd.

Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum“ (Mark 13:28–29).

Drottinn hefur líka gefið okkur nokkur tákn til þess að láta okkur vita að koma hans sé í nánd. Eftir að hafa opinberað táknin, varaði hann við:

„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. …

… Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi“ (Matt 24:42, 44).

Til frekari upplýsinga um hvernig við getum vitað hvenær síðari koma Jesú er nærri, sjá kafla 43 í þessari bók.

Hvernig getum við verið reiðubúin þegar frelsarinn kemur?

Besta leiðin til að vera viðbúin komu frelsarans er að taka á móti kenningum fagnaðarerindisins og gera þær að hluta lífs okkar. Við ættum að lifa hvern dag sem best við getum, rétt eins og Jesús kenndi þegar hann var á jörðu. Við getum horft til spámannsins eftir leiðsögn og fylgt ráðum hans. Við getum lifað verðug leiðsagnar heilags anda. Þá munum við horfa fram til komu frelsarans með gleði en ekki ótta. Drottinn sagði: „Óttast ei, litla hjörð, ríkið er yðar þar til ég kem. Sjá, ég kem skjótt. Já, vissulega. Amen“ (K&S 35:27).

  • Hvers vegna ættum við fremur að hafa áhyggjur af undirbúningi okkar en nákvæmri tímasetningu síðari komunnar?

Viðbótarritningargreinar