Bækur og lexíur
Kafli 1: Himneskur faðir okkar


Kafli 1

Himneskur faðir okkar

Ljósmynd
Hubble image of the galaxy

Guð er til

  • Nefnið eitthvað af því sem ykkur finnst vitna um að Guð sé til.

Alma, spámaður í Mormónsbók, ritaði: „Allir hlutir sýna fram á, að Guð er til. Já, jafnvel jörðin og allt, sem á henni er, já, og snúningur hennar, já, og öll himintunglin, sem snúast á sinn reglubundna hátt, bera því vitni, að til er æðri skapari“ (Al 30:44). Við getum litið upp í himininn að kvöldlagi til að fá hugmynd um hvað Alma átti við. Þar eru milljónir stjarna og pláneta, allt í fullkominni reglu. Þær komust ekki þangað af tilviljun. Við getum séð verk Guðs á himnum og á jörðu. Hinar mörgu fögru plöntur, hinn mikli fjöldi dýrategunda, fjöllin, fljótin, skýin sem færa okkur regn og snjó – allt vitnar þetta fyrir okkur að til sé Guð.

Spámennirnir hafa kennt okkur að Guð sé hinn almáttugi stjórnandi alheimsins. Guð dvelur á himnum (sjá K&S 20:17). Með syni sínum, Jesú Kristi, skapaði hann himnana og jörðina og allt sem í þeim er (sjá 3 Ne 9:15; HDP Móse 2:1). Hann gjörði mánann, stjörnurnar og sólina. Hann skipulagði þennan heim og gaf honum form, hreyfingu og líf. Hann fyllti loftið og vatnið af lifandi verum. Hann þakti hæðir og sléttur með alls kyns dýralífi. Hann gaf okkur dag og nótt, sumar og vetur, tíma sáningar og uppskeru. Hann gjörði manninn í sinni eigin mynd til að ríkja yfir annarri sköpun sinni (sjá 1 Mós 1:26–27).

Guð er hin æðsta og algjöra vera sem við trúum á og sem við tilbiðjum. Hann er „hið mikla foreldri alheimsins,“ og hann „lítur á mannkynið í heild með föðurlegri umhyggju og ættföðurlegri virðingu“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 39).

Eðli Guðs

  • Hverjir eru sumir eiginleika Guðs?

Vegna þess að við erum sköpuð eftir hans mynd (sjá HDP Móse 2:26; 6:9), vitum við að líkami okkar er líkur líkama hans. Eilífur andi hans dvelur í áþreifanlegum líkama af holdi og beinum (sjá K&S 130:22). Hins vegar er líkami Guðs fullkomnaður og dýrðlegur, með óumræðilegri dýrð.

Guð er fullkominn. Hann er Guð réttlætis, með eiginleika eins og ást, miskunn, kærleika, sannleik, kraft, trú, þekkingu og dómgreind. Hann hefur allan mátt. Hann þekkir alla hluti. Hann er fullur góðvildar.

Allir góðir hlutir koma frá Guði. Allt sem hann gerir miðar að því að hjálpa börnum hans að líkjast honum. Hann hefur sagt: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

  • Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að skilja eðli Guðs?

Öðlast þekkingu á Guði

  • Hvernig getum við öðlast þekkingu á Guði?

Að þekkja Guð er svo mikilvægt að frelsarinn sagði: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist“ (Jóh 17:3).

Æðsta og fremsta boðorðið er: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu“ (Matt 22:37).

Því betur sem við þekkjum Guð, því meira elskum við hann og höldum boðorð hans (sjá 1 Jóh 2:3–5). Með því að halda boðorð hans getum við orðið líkari honum.

Við getum þekkt Guð ef við:

  1. Trúum að hann sé til og að hann elski okkur (sjá Mósía 4:9).

  2. Nemum ritningarnar (sjá 2 Tím 3:14–17).

  3. Biðjum til hans (sjá Jakbr 1:5).

  4. Höldum öll boðorð hans eftir bestu getu (sjá Jóh 14:21–23).

Þegar við gerum þessa hluti, tökum við að þekkja Guð og að lokum eignast eilíft líf.

  • Ígrundið hvað þið getið gert til að komast nær Guði.

Viðbótarritningargreinar