Bækur og lexíur
Kafli 22: Gjafir andans


Kafli 22

Gjafir andans

Ljósmynd
Two elder missionaries in Korea talking to a young man. They are standing on a sidewalk.

Gjafir andans

  • Hvaða andlegar gjafir gefur Drottinn okkur?

Eftir skírnina voru hendur lagðar á höfuð okkar til veitingar á gjöf heilags anda. Ef við reynumst trú getum við notið áhrifa hans að staðaldri. Fyrir áhrif hans getum við öll notið blessana ákveðins andlegs krafts sem nefnist gjafir andans. Þær gjafir eru veittar þeim sem eru trúir Kristi. „Allar þessar gjafir koma frá Guði, börnum Guðs til heilla“ (K&S 46:26).Þær hjálpa okkur að þekkja og kenna sannleika fagnaðarerindisins. Þær munu hjálpa okkur að blessa aðra. Þær munu leiðbeina okkur til baka til himnesks föður okkar. Til að nota gjafir okkar viturlega, þurfum við að vita hverjar þær eru, hvernig við getum þróað þær og hvernig á að þekkja eftirlíkingar Satans af þeim.

Ritningarnar nefna margar gjafir andans. Þessar gjafir hafa verið gefnar þegnum hinnar sönnu kirkju hvenær sem hún hefur verið á jörðu (sjá Mark 16:16–18). Meðal gjafa andans er eftirfarandi:

Gjöfin að tala tungum (K&S 46:24)

Stundum er nauðsynlegt að segja frá fagnaðarerindinu á tungumáli sem er okkur ekki vel kunnugt. Þegar það gerist, getur Drottinn blessað okkur með hæfileika til að tala það tungumál. Margir trúboðar hafa meðtekið gjöfina að tala tungum (sjá myndina í þessum kafla). Öldungur Alonzo A. Hinckley var til dæmis trúboði í Hollandi og hvorki skildi né talaði mikla hollensku þrátt fyrir heitar bænir og nám. Þegar hann kom á heimili sem hann hafði heimsótt áður, opnaði kona fyrir honum og talaði til hans mjög reiðilega á hollensku. Honum til mikillar undrunar skildi hann hvert orð. Hann fann sterka þrá til að bera henni vitnisburð sinn á hollensku. Hann hóf að tala, og orðin voru á mjög skilmerkilegri hollensku. En síðar, þegar hann vildi sýna trúboðsforseta sínum að hann gæti talað hollensku, var sá hæfileiki horfinn honum. Margir trúfastir kirkjuþegnar hafa verið blessaðir með gjöf tungutals (sjá Joseph Fielding Smith, Answers to Gospel Questions, samant. af Joseph Fielding Smith Jr., 5 bindi. [1957–66], 2:32–33).

Gjöf útleggingar tungna (K&S 46:25)

Þessi gjöf er stundum gefin okkur þegar við skiljum ekki tungumál en þurfum að meðtaka mikilvægan boðskap frá Guði. David O. McKay forseti þráði heitt að tala til hinna heilögu á Nýja Sjálandi án túlks. Hann sagði þeim að hann vonaði að Drottinn mundi blessa þá svo að þeir fengju skilið hann. Hann talaði á ensku. Boðskapur hans tók einar 40 mínútur. Þegar hann talaði, gat hann séð á svipbrigðum margra þeirra og tárunum í augum þeirra að þau voru að meðtaka boðskap hans (sjá Answers to Gospel Questions, 2:30–31).

Gjöf til að þýða (K&S 5:4)

Ef við höfum verið kölluð af leiðtogum kirkjunnar til að þýða orð Drottins, getum við meðtekið gjöf til þýðinga umfram okkar náttúrulegu hæfileika. Eins og með allar gjafir, verðum við að lifa réttlátlega, læra mikið og biðja til að meðtaka hana. Þegar við gerum það, lætur Drottinn okkur finna bruna í brjósti okkar varðandi hversu rétt þýðingin er (sjá K&S 9:8–9). Joseph Smith hafði gjöf þýðinga þegar hann þýddi Mormónsbók. Gjöfina fékk hann einungis þegar hann var í samhljóm við andann.

Gjöf vísdóms (K&S 46:17)

Sum höfum við verið blessuð með hæfileikanum til að skilja fólk og reglur fagnaðarerindisins eins og þær eiga við í lífi okkar. Okkur er sagt:

„Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“

En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá Drottni“ (Jakbr 1:5–7).

Drottinn sagði: „Sækist ekki eftir ríkidæmi, heldur eftir visku, og sjá, leyndardómar Guðs munu opnast yður“ (K&S 6:7).

Gjöf þekkingar (K&S 46:18)

Allir sem verða líkir himneskum föður munu að lokum þekkja alla hluti. Þekkingin á Guði og lögmálum hans opinberast með heilögum anda (sjá K&S 121:26). Við getum ekki frelsast ef við þekkjum ekki þau lögmál (sjá K&S 131:6).

Drottinn opinberaði: „Hljóti einhver, fyrir kostgæfni sína og hlýðni, meiri þekkingu og vitsmuni í þessu lífi en annar, mun hann standa sem því nemur betur að vígi í komandi heimi“ (K&S 130:19). Drottinn hefur boðið okkur að læra eins mikið og við getum um verk hans. Hann vill að við lærum um himininn, jörðina, það sem hefur gerst og mun gerast, það sem viðkemur heimalandi okkar og öðrum löndum (sjá K&S 88:78–79). Samt sem áður eru sumir sem reyna að auka þekkingu sína með námi einvörðungu. Þeir biðja ekki um hjálp heilags anda. Það eru þeir sem eru „alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum“ (sjá 2 Tím 3:7). Þegar við meðtökum vitneskju með opinberun heilags anda, talar andi hans til huga okkar og hjarta (sjá K&S 6:15, 22–24; 8:2; 9:7–9).

Sú gjöf að kenna visku og þekkingu (Moró 10:9–10)

Sumu fólki er gefinn sérstakur hæfileiki til að útskýra og vitna um sannleika fagnaðarerindisins. Sú gjöf kemur að notum við að kenna í kennslustundum. Hún getur komið að notum þegar foreldrar kenna börnum sínum. Sú gjöf hjálpar okkur einnig við að leiðbeina öðrum svo að þeir skilji fagnaðarerindið.

Gjöfin að vita að Jesús Kristur er sonur Guðs (K&S 46:13)

Þetta hefur verið gjöf spámanna og postula sem kallaðir hafa verið sem sérstök vitni Jesú Krists. Samt sem áður, er fleirum gefin þessi gjöf. Hver einasti maður getur eignast vitnisburð í gegnum hljóðlát samskipti heilags anda. David O. McKay forseti kenndi: „Sumum er gefið, segir Drottinn í Kenningu og sáttmálum, fyrir heilagan anda að vita að Jesús er sonur Guðs og að hann var krossfestur fyrir syndir heimsins“ [sjá K&S 46:13]. Ég á hér við þá sem standa ákveðnir á bjargi opinberunar í vitnisburði sínum sem þeir bera heiminum“ (Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay [2003], 166).

Gjöfin að trúa vitnisburði annarra (K&S 46:14)

Fyrir kraft heilags anda getum við fengið að vita sannleiksgildi allra hluta. Ef við viljum vita hvort einhver annar segir sannleikann, verðum við að spyrja Guð í trú. Ef það sem við spyrjum um í bæn er sannleikur, mun Drottinn veita okkur hugarró (sjá K&S 6:22–23). Á þann hátt getum við vitað hvort einhver annar, jafnvel spámaðurinn, hefur fengið opinberun. Nefí bað Drottin um að leyfa sér að sjá, finna og vita að draumur föður hans væri sannur (sjá 1 Ne 10:17–19).

Gjöf spádóms (K&S 46:22)

Þeir sem fá sannar opinberanir um fortíð, nútíð eða framtíð hafa spádómsgáfu. Spámenn hafa þá gáfu, en við getum einnig haft hana til leiðsagnar í lífi okkar (sjá 1 Kor 14:39). Við getum fengið opinberanir frá Guði fyrir okkur sjálf og kallanir okkar, en aldrei fyrir kirkjuna í heild eða leiðtoga hennar. Það er andstætt lögmáli himna að einhver fái opinberun fyrir einhvern sem hann eða hún er ekki í forsæti fyrir. Ef við í raun höfum spádómsgáfu, munum við ekki fá neina opinberun, sem ekki er í samræmi við það sem Drottinn hefur sagt í ritningunum.

Gjöf lækninga (K&S 46:19–20)

Sumir hafa trú til að lækna og aðrir trú til að læknast. Öll getum við haft trú til að læknast þegar við erum sjúk (sjá K&S 42:48). Margir sem hafa prestdæmið hafa þá náðargáfu að geta læknað sjúka. Öðrum kann að vera gefin þekking til að lækna sjúkdóma.

Gjöfin að gjöra kraftaverk (K&S 46:21)

Drottinn hefur iðulega blessað fólk sitt á undursamlegan hátt. Þegar landnemarnir í Utah sáðu korni sínu í fyrsta sinn grandaði engisprettufaraldur nærri því uppskerunni. Landnemarnir báðu Drottin heitt um að bjarga henni og hann sendi þeim hvítmáfa til að éta engispretturnar. Þegar við þörfnumst hjálpar og biðjum í trú, mun Drottinn vinna kraftaverk fyrir okkur ef það er okkur til góðs (sjá Matt 17:20; K&S 24:13–14).

Gjöf trúar (Moró 10:11)

Bróðir Jareds átti sterka trú. Vegna trúar sinnar hlaut hann aðrar gjafir. Trú hans var svo sterk að frelsarinn birtist honum (sjá Eter 3:9–15). Án trúar verður engin önnur gjöf gefin. Moróní lofaði: „Hver sá, sem trúir á Krists og efast ekki, honum mun veitast allt það, sem hann biður föðurinn um í nafni Krists“ (Morm 9:21). Við ættum að leitast við að styrkja trú okkar, finna gjafir okkar og nota þær.

Suma skortir trú og þeir neita því að þessar gjafir andans séu í raun til. Moróní segir við þá:

„Og enn fremur tala ég til yðar, sem afneitið opinberunum Guðs, og segið að þær séu ekki lengur til, hvorki opinberanir, spádómar, gjafir, lækning, tungutal né túlkun tungumála –

Sjá. Ég segi yður, að sá, sem afneitar þessu, þekkir ekki fagnaðarerindi Krists. Já, hann hefur ekki lesið ritningarnar, en hafi hann gjört það, hefur hann ekki skilið þær“ (Morm 9:7–8).

  • Hvers vegna gefur Drottinn okkur andlegar gjafir?

Við getum þróað gjafir okkar.

  • Hvernig getum við „[leitað] í einlægni hinna bestu gjafa?“ (K&S 46:8).

Drottinn hefur sagt: „Því að allir hljóta ekki sérhverja gjöf, því að gjafirnar eru margar og andi Guðs gefur hverjum manni gjöf. Sumum er gefin ein og öðrum er gefin önnur, svo að allir hljóti góðs af því“ (K&S 46:11–12).

Til að þróa gjafir okkar, verðum við að finna út hvaða gjafir við höfum. Það gerum við með því að biðja og fasta. Við ættum að leita hinna bestu gjafa (sjá K&S 46:8). Stundum munu patríarkablessanir hjálpa okkur að vita hvaða gjafir hafa verið okkur gefnar.

Við verðum að vera hlýðin og trúföst svo að við hljótum gjafir okkar. Síðan ættum við að nota þær gjafir til að vinna verk Drottins. Þær eru ekki gefnar til að seðja forvitni okkar eða sanna eitt eða annað fyrir okkur af því að okkur skortir trú. Um andlegar gjafir sagði Drottinn: „Þær eru gefnar þeim til heilla, sem elska mig og halda öll boðorð mín, og þeim, sem leitast við að gjöra svo“ (K&S 46:9).

  • Hugsið um einhverjar andlegar gjafir sem mundu styrkja ykkur persónulega eða hjálpa ykkur að þjóna Drottni og öðrum. Hvað munuð þið gera til að sækjast eftir þeim gjöfum?

Satan líkir eftir gjöfum andans

  • Hvernig getum við greint á milli hinna sönnu gjafa andans og eftirlíkinga Satans?

Satan getur líkt eftir tungutali, spádómum, sýnum, lækningum og öðrum kraftaverkum. Móse mátti keppa við eftirlíkingar Satans frammi fyrir Faraó (sjá 2 Mós 7:8–22). Satan vill að við trúum á falsspámenn hans, falska lækningamenn og falska kraftaverkamenn. Þeir geta virst svo sannir, að eina leiðin er að biðja Guð um dómgreindargáfu. Djöfullinn sjálfur getur birst sem engill ljóssins (sjá 2 Ne 9:9).

Satan vill blinda okkur gagnvart sannleikanum og koma í veg fyrir að við leitum hinna sönnu gjafa andans. Miðlar, stjörnuspámenn, spákonur og galdramenn eru innblásin af Satan, jafnvel þótt þau haldi því fram að þau fylgi Guði. Verk þeirra eru Drottni viðurstyggð (sjá Jes 47:12–14; 5 Mós 18:9–10). Við ættum að forðast allt samband við kraft Satans.

Við verðum að fara varlega með okkar gjafir andans

  • Hvernig getum við varðveitt helgi andlegra gjafa?

Drottinn sagði: „Boð gef ég þeim, að þeir skulu hvorki hreykja sér af þessu né segja það heiminum, því að þetta er yður gefið til gagns og til sáluhjálpar“ (K&S 84:73). Við verðum að muna að andlegar gjafir eru heilagar (sjá K&S 6:10).

Í staðinn fyrir þessar gjafir biður Drottinn aðeins um að við „[veitum] Guði þakkir í andanum fyrir hverja þá blessun, sem [við hljótum]“ (K&S 46:32).

Viðbótarritningargreinar