Bækur og lexíur
Kafli 31: Heiðarleiki


Kafli 31

Heiðarleiki

Ljósmynd
Two men shaking hands

Heiðarleiki er regla sáluhjálpar

  • Hvernig yrði það þjóðfélag þar sem allir væru fullkomlega heiðarlegir?

Þrettánda trúaratriðið segir: „Vér trúum, að vér eigum að vera heiðvirð.“ Mormónsbók segir okkur frá hópi manna. Þeir „einkenndust af guðrækni sinni og ræktarsemi við menn, því að þeir voru fullkomlega heiðarlegir í öllu, og þeir voru staðfastir í trú sinni á Krist, allt til enda“ (Al 27:27). Meðbræður þeirra og Guð sjálfur tóku eftir þeim vegna heiðarleika þeirra. Mikilvægt er að vita hvað heiðarleiki er, hvernig okkur er freistað til óráðvendni og hvernig við getum staðist þær freistingar.

Fullkominn heiðarleiki er nauðsynlegur fyrir sáluhjálp okkar. Brigham Young forseti sagði: „Og er við tökum við sáluhjálp með þeim skilmálum sem hún býðst okkur, verðum við að vera heiðarleg í hverri hugsun, í viðbrögðum okkar, í hugleiðingum okkar, í einkalífi okkar, viðskiptum okkar, yfirlýsingum okkar og í hverri framkvæmd lífs okkar“ (Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 293).

Guð er heiðarlegur og réttvís í öllu (sjá Al 7:20). Við verðum einnig að vera heiðarleg í öllu til að verða lík honum. Bróðir Jareds vitnaði: „Já, Drottinn, ég veit að þú … ert Guð sannleikans og getur ekki logið“ (Eter 3:12). Djöfullinn er hins vegar lygari. Hann er í raun faðir lyganna (sjá 2 Ne 9:9). „Þeir sem kjósa að svíkja, ljúga, blekkja og rangfæra verða þrælar hans“ (Mark E. Petersen, í Conference Report, okt. 1971, 65; eða Ensign, des. 1971, 73).

Heiðarlegt fólk elskar sannleika og réttlæti. Það er heiðarlegt í orðum og verkum. Það lýgur ekki, stelur ekki eða svíkur.

Að ljúga er óheiðarlegt

Lygi er að blekkja aðra af ásettu ráði. Að bera ljúgvitni er ein tegund lygi. Drottinn gaf börnum Ísraels þetta boðorð: „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum“ (2 Mós 20:16). Jesús kenndi þetta einnig þegar hann var á jörðu (sjá Matt 19:18). Hægt er að ljúga á marga aðra vegu. Þegar við segjum ósatt gerum við okkur sek um lygi. Við getum einnig vísvitandi blekkt aðra með látbragði, augnatilliti, þögn eða hálfsannleika. Alltaf þegar við komum fólki á einhvern hátt til að trúa einhverju sem ekki er sannleikur erum við óheiðarleg.

Slíkt er Drottni ekki þóknanlegt og við verðum að svara fyrir lygar okkar. Satan vill telja okkur trú um að í lagi sé að ljúga. Hann segir: „Já, ljúgið örlítið … það kemur ekki að nokkurri sök“ (2 Ne 28:8). Satan fær okkur til að réttlæta lygar okkar fyrir okkur sjálfum. Heiðarlegt fólk þekkir freistingar Satans og segir allan sannleikann, jafnvel þótt það hafi af því óþægindi.

Að stela er óheiðarlegt

Jesús kenndi: „Þú skalt ekki stela“ (Matt 19:18). Að stela er að taka eitthvað sem ekki tilheyrir okkur. Þegar við tökum í leyfisleysi það sem tilheyrir öðrum erum við að stela. Að taka vörur eða birgðir frá atvinnuveitanda er þjófnaður. Að taka afrit af tónlist, kvikmyndum, myndum eða rituðum texta án leyfis höfundarréttarhafa er óheiðarlegt og ákveðið form þjófnaðar. Að taka við of miklu til baka eða of miklu af vörum en okkur ber er óheiðarlegt. Að taka meira en okkur ber er stuldur.

Að svíkja er óheiðarlegt

Við svíkjum aðra þegar við gefum minna en okkur ber eða þegar við tökum við einhverju sem við eigum ekki skilið. Sumir svíkja vinnuveitendur sína með því að vinna ekki fullan vinnutíma, en taka samt á móti fullum launum. Sumir vinnuveitendur eru ekki sanngjarnir við starfsfólk sitt, þeir borga þeim minna en þeim ber. Satan segir: „Færið yður í nyt orð annarra og grafið náunga yðar gröf“ (2 Ne 28:8). Ósanngjarn hagnaður er eitt form óheiðarleika. Að veita laka þjónustu eða vörur eru svik.

Við megum ekki afsaka óheiðarleika okkar

  • Hvað gerist með okkur andlega þegar við afsökum óheiðarleika okkar?

Fólk afsakar óheiðarleika sinn á margvíslegan hátt. Fólk lýgur til að vernda sjálft sig og láta aðra fá gott álit á sér. Sumir afsaka stuld sinn með því að þeir hafi átt það inni sem þeir tóku, ætli að skila því eða hafi meiri þörf fyrir það en eigandinn. Sumir svindla til að ná betri árangri í námi eða vegna þess að „allir hinir gera það“ eða til að ná sér niðri á einhverju eða einhverjum.

Þessar afsakanir og margar aðrar eru gefnar sem ástæður fyrir óheiðarleika. Í augum Drottins er engin ástæða gild. Þegar við afsökum okkur svíkjum við okkur sjálf og andi Guðs hættir að takast á við okkur. Við verðum sífellt ranglátari.

Við getum verið fullkomlega heiðarleg

  • Hvað felst í því að vera fullkomlega heiðarleg?

Til þess að verða fullkomlega heiðarleg, verðum við að skoða líf okkar vandlega. Ef við erum á einhvern hátt óheiðarleg, jafnvel þótt í smáu sé, eigum við að iðrast þess strax.

Þegar við erum fullkomlega heiðarleg, er ekki hægt að spilla okkur. Við reynumst trú sérhverju trausti, skyldu, samningi eða sáttmála, jafnvel þótt það kosti okkur fé, vini eða lífið. Þá getum við blygðunarlaust horfst í augu við Drottin, okkur sjálf og aðra. Joseph F. Smith forseti ráðlagði: „Líf hvers og eins skal vera slíkt, að það þoli nákvæmustu skoðun og megi verða sem opin bók, þar sem ekkert þarf að draga undan eða blygðast sín fyrir“ (Gospel Doctrine, 5. útg. [1939], 252).

  • Með hvaða hætti hefur heiðarleiki okkar eða óheiðarleiki áhrif á hvað okkur finnst um okkur sjálf.

Viðbótarritningargreinar